1685 - Snubbóttar kappræður

x19Gamla myndin.
Við Reykjavíkurtjörn. Þarna gengur heilmikið á.

Þessar svokölluðu kappræður forsetaefnanna hjá Stöð 2 voru einn samfelldur vitleysisgangur. Ekki var nóg með að helmingur þátttakendanna hætti áður en þær hófust heldur var í miðju kafi tekið til við að trufla dagskrána.

Þetta var auglýst sem kappræður og kappræður voru það. Keppendur kepptust við að ljúga sem allra mest og stóðu sig vel í því. Mest laug forsetinn sjálfur. Með hliðsjón af þættinum ætti að leggja þetta fjárans embætti niður. Hallast að því að það sé rétt sem segir í Parkinsons lögmálinu að því lítilsverðara sem umræðuefnið sé því sterkari og útbreiddari séu skoðanir fólks á því.

Enginn fær mig til að trúa því að þetta embætti sé mikilvægt þó menn hafi auðvitað gaman af að kjósa. Að mörgu leyti er líka auðveldara að kjósa í svona einfaldri og áhrifalausri fegurðarsamkeppni en þingkosningum, þar sem varla er hægt að komast hjá því að vega og meta hlutina.

Auðvitað vita allir sem vilja vita að ÓRG var og er útrásardólgur Íslands númer eitt. Númer tvö og þrjú voru náttúrlega Geir og Ingibjörg. Nú er hann búinn að snúa við blaðinu frá því sem var fyrst eftir hrun. Þá kannaðist hann jafnvel við að hann hefði kannski farið offari í lofsöng sínum um útrásina. Nú er aftur á móti á honum að heyra að hann sé mesti bjargvættur Íslands fyrr og síðar. Ja, svei.

Annars var það greinilega Herdís Þorgeirsdóttir sem komst skást frá þessum kappræðum. Þóra var mjög hikandi og hrædd. Gætti þess vel að styggja ekki hugsanlega kjósendur og Ólafur var eins og stjórnmálamenn eru vanir að vera. Óstöðvandi kranastraumur með meiningarlausu blaðri.

Eitt má Ólafur þó eiga. Hann hefur breytt eðli forsetaembættisins og núorðið efast enginn um að vald forsetans til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu getur skipt máli við vissar aðstæður. Oftast nær er þetta samt rútínuvinna og óþarfi að vera að stofna sérstakt embætti utan um það sem vel er hægt að sinna með öðru.

IMG 8318Götótt laufblað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ég réði á stöð 2.. þá myndi ég reka nokkra aðila.. þessi þáttagerð var til skammar frá a-ö; Þetta kemst á topp 3 yfir verstu dagskrárgerð allra tíma

Já Herdís var skárst

DoctorE 4.6.2012 kl. 09:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Algjörlega sammála þér DoctorE.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2012 kl. 09:45

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mér finnst það alger rökleysa að segja að forsetinn hafi verið klappstýra útrásarinnar númer eitt, hvað þá þetta dónalega orð sem þú notar, Sæmundur og er ekki hafandi eftir. Ég er ekki vanur munnsöfnuði frá þér, yfirleitt ertu málefnalegur.

Ég held að flestir hljóti að geta verið sammála um að forsetinn er sá sem hefur allra minnsta möguleikann að setja ólar um hálsinn á stjórnlausum fégráðugum kaupsýslumönnum. Þá möguleika höfðu hinsvegar Alþingi og ríkisstjórn í töluverðum mæli.

Hinsvegar ber forsetanum að greiða götu frumkvöðla og athafnamanna á erlendri grund. Sama hvaða skíthælar eiga í hlut, meðan þeir hafa ekki hlotið dóm þannig að þeir eru útilokaðir frá viðskiptalífinu.

Vitanlega má deila á Ólaf fyrir að elt gullkálfana of mikið, en það sama má segja um eflaust 70-80% þjóðarinnar og enn frekar á það við einstaka þingmenn og ráðherra, sem beinlínis sniðu löggjöfina þannig að þessir menn gátu ryksugað upp verðmætin í landinu og skuldsett margar kynslóðir.

Theódór Norðkvist, 4.6.2012 kl. 23:05

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Theódór, þú getur verið ósammála mér um orðalag, en ég fer ekki ofan af því að Ólafur Ragnar (eins og fleiri stjórnmálamenn) hagræðir sannleikanum eftir því sem kemur honum best. Hann hefur áður viðurkennt að hafa gengið of langt í mærð sinni um útrásarvíkinga en nú dregur hann það allt til baka og þykist vera bjargvættur hinn mesti. Ef ÓRG sigrar í komandi kosningum munu stuðningsmenn hans næstum áreiðanlega sjá mikið eftir þeim stuðningi því líklegt er að hann snúist einu sinni enn ef það kemur honum betur. Annars munu komandi kosningar einkum snúast um þingræði eða forsetaræði en lýðræðið er búið að gefa upp á bátinn.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2012 kl. 23:19

5 identicon

Forsetinn rak stanslausan áróður fyrir útrásarvíkinga út um allan heim, svo eftir var tekið, og gekk augljóslega allt of langt í því. Aldrei virtist hann efast um starfsemi þeirra þótt hann hefði margvíslegar ástæður til þess. Skyldu einhverjir þeirra hafa átt hönk upp í bakið á honum? Ég veit ekkert um það en menn muna kannski að stofnað var til verulegra skulda vegna framboðs Ólafs 1996 sem illa og seint gekk að gera upp. Ég sakna þess að heyra forsetann spurðan að því hverjir greiddu þær á endanum. Er það óeðlileg spurning?

 

Sæmundur neitar að trúa því að embættið sé mikilvægt. Ég tel að það hafi ekki verið það lengst af en mér sýnist það vera að breytast. Ólafur hefur virkjað þessa margumtöluðu 26. grein og nú ætlar hann greinilega að fara að gera embættið virkt í umræðu um mikilvæg mál eins og aðild að ESB. Það getur haft veruleg áhrif og myndi þýða umtalsverða breytingu í pólitíkinni og þjóðlífinu. Mér sýnist augljóst að hann vinni kosningarnar og því er ekki laust við að maður hálfkvíði framhaldinu.

Jón H. Brynjólfsson 4.6.2012 kl. 23:31

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sæmundur, þú svaraðir ekkert röksemdum mínum. Ég var að benda á að forsetinn hefði ekki tök á að taka fram fyrir hendurnar á umsvifamiklum aðilum í viðskiptalífinu, en það hafa stjórnmálamenn.

Ég er enginn málsvari Ólafs, en ég kannast ekki við að hann hafi tekið afsökunarbeiðni sína vegna stuðnings við útrásarvíkingana til baka. Þvert á móti endurtók hann hana á Iðnó-fundinum, fyrir aðeins viku síðan. Ef þú fullyrðir hið gagnstæða, hlýturðu að geta komið með dæmi um það.

Theódór Norðkvist, 5.6.2012 kl. 13:40

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hlustaði á kappræðurnar á Stöð 2 alveg þangað til þær voru ruglaðar. Ég heyrði ekki betur en hann þverneitaði þar að hafa gengið of langt í stuðningi sínum við útrásarvíkingana. Ef þú skynjaðir það sem hann sagði þar sem afsökunarbeiðni þá get ég auðvitað ekkert gert við því. Ég skynjaði það samt ekki þannig.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2012 kl. 16:13

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það sem ég tók eftir og hef sagt áður, er að Ólafur hefur sagt að honum hafi ekki annað verið fært en að veita þessum mönnum stuðning vegna þess að það væri hluti af forsetaembættinu. Sagði síðan að hann hefði mátt hlusta betur á gagnrýnisraddir um feysknar stoðir gróðærisins - alveg eins og aðrir.

Auðvitað má deila um hvort hann hafi seilst of langt - en það sem mér finnst algjör brandari. Það er þegar forkólfar og stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru að kalla forsetann útrásarmellu eða eitthvað slíkt. Ég er ekki að segja að þú sért Samfylkingarmaður, en þú ert að apa upp orðfærði þeirra.

Þetta er sama fólkið og kaus lið eins og Björgvin G. Sigurðsson, Jóhönnu Sigurðardóttur, Árna Pál og Steinunni Valdísdóttur. Það liggja a.m.k. gögn því til sönnunar að þessar manneskjur þáði milljónir í styrki frá útrásarvíkingum og voru fremst í flokki við að ráðast á þá sem dirfðust að gagnrýna auðjöfrana.

Það er hræsni dauðans þegar það lið sem kaus þetta fólk skuli kasta steinum úr glerhúsi sínu í forsetann. Þegar það liggur ekkert fyrir um að hann hafi þegið fjárfúlgur frá útrásarglæponum, eins og þessir fyrrnefndu þingmenn.

Theódór Norðkvist, 5.6.2012 kl. 18:03

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er enginn sem þvingar ÓRG til að gera nokkurn skapaðan hlut. Það er hann sjálfur sem ræður því. Ég kaus ekki Samfylkinguna í síðustu kosningum en hún er ekki verst af fjórflokknum. Þó forsetinn hafi kannski ekki þegið peninga frá "útrásarglæponunum" sem þú kallar svo þáði hann ýmislegt af þeim sem meta má til peninga s.s. ferðalög og hefur ekki hætt því enn. Forsetaembættið er óþarft og ómerkilegt og ÓRG einnig.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2012 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband