1378 - Bloggarar

reykirGamla myndin.
Enn ein sólbaðsmyndin. Veit ekki hverjir þetta eru.

Eitt er það sem bloggið hefur fram yfir fésbókina. Mér dettur stundum í hug að leita í gömlum bloggum og geri það jafnvel. (Aðallega mínum eigin samt.) Aldrei hef ég heyrt um neinn sem lætur sér detta í hug að leita í gömlum fésbókarinnleggjum. En þó ég sé duglegur að finna að ýmsu á fésbókinni get ég samt ekki án hennar verið. Hún er m.a. ansi góð til að benda á ýmislegt. En ég get ekki að því gert að mér finnst hún ofnotuð af mörgum.

Eiginlega er mest gaman að blogga um aðra bloggara. Eins og t.d. um hann Gísla Ásgeirsson og kaldhæðnina, kattasönginn og yrkingarnar hjá honum. Jens Guð er líka skemmtilegur. Bloggið hennar Hörpu Hreins les ég næstum alltaf og er yfirleitt mjög sammála henni og hef eflaust lært heilmikið af henni líka. Ómar Ragnarsson er sömuleiðis einn af mínum uppáhaldsbloggurum.

Gallinn við að skrifa of mikið um aðra bloggara er auðvitað að þeir gætu fundið uppá því að skrifa um mig í staðinn og ekki er víst að það yrði mjög fallegt. Svo er líka alltaf sú hætta fyrir hendi að maður gleymi einhverjum sem hefði verið ástæða til að minnast á. Í svipinn man ég t.d. eftir Sigurði Þór Guðjónssyni og reyndar mörgum fleiri. Svosem Svani Gísla Þorkelssyni, Sigurði Hreiðar og Gunnari Th.

Jú og auðvitað má ekki gleyma Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni. Hann er uppáhaldsóvinur minn í bloggheimum og ég les bloggið hans alltof sjaldan. Hann er duglegur við að safna myndum og birta þær. Breytir þeim stundum svolítið eða kannski gera aðrir það. Það er heldur ekki alltaf alveg að marka það sem hann skrifar. Þeir sem lesa hann eiga auðvitað alltaf að gera ráð fyrir að ekki sé allt sannleikanum samkvæmt sem hann segir. Gallinn er bara sá að ekki hugsa allir nógu líkt og hann. Skilja jafnvel ekki hvenær hann er að gera að gamni sínu og hvenær ekki. Upphaflega sinnaðist okkur svolítið útaf Bobby Fischer ef ég man rétt.

Of sterkar pólitískar skoðanir og að geta ekki bloggað um neitt annað en Hrunið og slíkt líkar mér illa. Fyrir mér er bloggið nánast bókmenntagrein. Kannski er ástæðan fyrir þvi hve óvinsælt það er orðið að margir nenna ekki að vanda sig neitt og mega auðvitað ekki vera að því heldur.

Hjá mér er bloggið eins konar samansafn af kommentum. Það er í of mikið lagt að gera hvert og eitt efni að sjálfstæðu bloggi. Stundum hætti ég líka við að hafa það í blogginu sem ég upphaflega ætlaði mér. Lagfæri og breyti líka stundum því sem ég hef áður skrifað. Mér finnst ágætt að hafa umhugsunartíma. Ég hugsa líka orðið svo hægt að bloggið batnar áreiðanlega við þetta.

Auðvitað gæti ég líka haft blogggreinarnar mínar fyrir komment einhversstaðar. En það finnst mér vera sóun. Ef maður er seinn fyrir með greinina (athugasemdina) hefur maður enga hugmynd um hve margir lesa hana fyrir utan bloggeigandann. Ég gef mér að hann lesi oftast athugasemdir. Nei, best er að blogga sjálfur því þá er maður engum háður. Mér finnst ég allavega ekki vera háður Davíð Moggaritstjóra.

IMG 5560Farið í burtu!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Stórskemmtilegar þessar gömlu myndir Sæmundur.

hilmar jónsson, 1.6.2011 kl. 00:49

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hilmar. Mér finnst gömlu myndirnar flestar ekki nógu góðar en kannski fara þær batnandi.

Sæmundur Bjarnason, 1.6.2011 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband