1176 - Að linka á bloggin sín

Þeir sem jafnan hafa allt á hornum sér eru búnir að finna ástæðu til að vera á móti stjórnlagaþinginu. Kosningin til þess er ómöguleg af því að það eru alltof margir í framboði!! Þetta er nú heldur léleg ástæða. Væri betra að þeir hefðu verið svona rúmlega 30? Það hefði orðið hálfleiðinlegt fyrir þá sem ekki hefðu komist á þingið ef mjög fáir hefðu gefið kost á sér. Auðvitað verða það einkum þekktir aðilar sem komast á þetta þing. Hefði það orðið eitthvað öðruvísi ef frambjóðendur hefðu verið t.d. 250 eða 300? Ég held ekki. Nei, þetta er bara þessi vanalegi Íslendingasöngur. Mestu skiptir að þeir sem kosnir verða séu starfi sínu vaxnir.

Það er svo margt af minningatagi sem ég hef minnst á í þessum daglegu bloggum mínum að það hefur oft hvarflað að mér að ég gæti svosem alveg notað það sem einhvers konar grunn að æfisögu. Einhverntíma þegar ég hugaði að þessu tók ég mig til og safnaði saman minningabrotum sem ég fann í gömlum bloggum. Var að ég held búinn að fara yfir 50 fyrstu bloggin.

Er ekki frá því að bækur Finnboga Hermannssonar, sem ég hef báðar lesið, hafi kveikt svolítið í mér að þessu leyti. Það hefur verið um svipað leyti eða litlu fyrr sem ég var að alast upp . Ótrúlega margt kannast ég við úr bókum hans en mundi sennilega segja öðru vísi frá.

Nú safna ég fésbókarvinum eins og enginn sé morgundagurinn. Var kominn með 115 síðast þegar ég vissi. Hef líka fundið uppá því að linka þar á bloggin mín. Kannski er það bara ágætishugmynd. Hugsanlega fara þau þá víðar og fleiri kynnu að lesa þau. Er maður ekki alltaf að sækjast eftir að sem flestir lesi það sem maður skrifar? Það geri ég að minnsta kosti. Bráðum verður allt yfirfljótandi af hugsjónagreinum eftir væntanlega stjórnlagaþingmenn. Þeir eru nefnilega svo margir. Sumir þeirra eru líka bloggarar og ekki víst að hægt verði að fá neinn frið fyrir þeim. 

Þetta með að fávitaháttur fyrnist á tveimur árum róar mig mjög. Nú get ég haldið árfram að láta eins og fífl. Þeir eru samt til sem taka mig alvarlega. Sá þetta með fávitaháttinn hjá Baggalúti og trúi því eins og nýju neti. Það er fávitaháttur.

Svo er til önnur tegund af fávitahætti og hann kom nýlega fram hjá þingkonu framsóknarflokksins og um hann var fjallað í fjölmiðlum í dag. Auk hans hefur hún afar brenglaða mynd af því hvað hugtakið skammtímaminni þýðir.

„Egill hjólar í Hannes af fádæma hörku" segir í fyrirsögn í DV. Það verður gaman að fylgjast með þeirri deilu sem af þessu gæti sprottið. Hannes tekur þessu varla þegjandi.

Öfgahægrihirðin hefur líka alltaf verið að smánarta í Egil greyið. Það er eðlilegt að hann reyni að bíta frá sér. Gallinn er helst sá að ég er að mestu hættur að lesa AMX þó þar séu víst saman komnir afar beittir pennar. Geri ráð fyrir að Skafti þessi Harðarson sem nefndur er til sögunnar skrifi einkum í það frábæra blað sem var orðið best á landinu nokkru áður en það kom fyrst út. Hef samt aldrei lesið neitt eftir Skapta þennan svo ég muni.

IMG 3492Sært tré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grefill

Hvurs vegna birtir þú svona skelfilegar myndir á blogginu þínu? Hefur þetta tré ekki fengið að líða nóg? Er grimmd mannsskepnunnar engin takmörk sett?

Grefill, 21.10.2010 kl. 21:18

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Víst er búið að fara illa með það en ég gæti trúað að það næði sér. Tré þola ótrúlega mikið.

Sæmundur Bjarnason, 21.10.2010 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband