Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.9.2007 | 22:26
115. blogg
Ég er ekki vanur að tjá mig hér á blogginu um fréttir líðandi stundar, en er að hugsa um að gera undantekningu núna.
Ég horfði rétt áðan á viðureign þeirra Roberts Marshall og Bjarna Harðarsonar í Kastljósi og ætla að lýsa því í nokkrum orðum hvernig hún kom mér fyrir sjónir.
Það er háttur sjónvarpsins að etja saman ólíkum sjónarmiðum og vona að út úr því komi skemmtun fyrir árhorfendur. Við því er lítið að segja.
Mér fannst Bjarni frændi minn gera mistök með því að mæta í þáttinn í þessari lopapeysu. Klæðnaður skiptir máli í sjónvarpi.
Bjarni lét Marshallinn þar að auki æsa sig upp. Slíkt er afleitt. Robert hélt kúlinu að mestu, en Bjarni var sýnilega reiður.
Efnislega fannst mér Bjarni hafa miklu meira til síns máls. Mér fannst inntak þess sem Robert Marshall hafði um Grímseyjarferjumálið að segja vera það að ráðherrar væru svo merkilegir menn að ekki mætti gagnrýna þá harkalega. Mér finnst ráðherrar ekki vera hundaskít merkilegri en annað fólk.
Þessi þáttur bætti engu við það sem áður var fram komið um Grímseyjarferjumálið. Annað sem þeir kumpánar ræddu um í þættinum vakti enga athygli mína, enda voru þeir báðir greinilega dasaðir eftir átökin í upphafi.
Annars held ég að þessi þáttur hafi enginn tímamótaþáttur verið. Hann situr þó eflaust dálítið í þátttakendunum og þeir læra sína lexíu áreiðanlega af honum.
Já, og Bjarni S er byrjaður að blogga hér á Moggablogginu (lampshadow.blog.is). Á morgun (laugardag) ræðst það hvort hann kemst á Meistaramót Bahamas í skák sem haldið verður í nóvember næstkomandi.
Ráðlegg þeim ættingjum og öðrum sem hugsanlega eru orðnir leiðir á að lesa rausið í mér, en vilja gjarnan fylgjast Bjarna, að fara bara beint á lampshadow.blog.is.
13.9.2007 | 04:03
114. blogg
Lengstum hefur mér fundist þessi fræðigrein lítt merkileg og satt að segja hundleiðinleg, en það álit er að breytast. Nú orðið finnst mér mest varið í að lesa um eitthvað gamalt.Oft finn ég einhverjar tengingar við hluti sem ég kannast við og þær geta oft verið skemmtilegar og merkilegar.
Það er áberandi hvað ég hef orðið miklu meiri áhuga á bókum sem fjalla um löngu liðna atburði en áður var. Einu sinni dæmdi ég bækur talsvert eftir því hve langt var síðan þær voru gefnar út og hvort þær fjölluðu um nýlega atburði. Þá þótti mér bækur yfirleitt því merkilegri sem nýlegri svipur var á þeim. Nú hefur þetta eiginlega snúist við. Ég er að mestu hættur að lesa svokallaðar fagurbókmenntir. Ævisögur og allskyns þjóðlegur fróðleikur og frásagnir ásamt vísinda- og fræðiritum heilla mig miklu fremur.
Að undanförnu hef ég verið að lesa bók sem gefin var út árið 1982. Hún heitir "Sögur úr byggðum Suðurlands" og er eftir Jón R. Hjálmarsson. Hún er byggð upp af samtölum við gamalt fólk. Réttara væri að segja; ... samtölum við fólk sem orðið var gamalt þegar bókin var gefin út.
Í samtali við Daníel Guðmundsson bónda og oddvita í Efra-Seli í Hrunamannahreppi segist honum svo frá: Konráð, bróðir minn, hafði þá um skeið verið bóndi hér í Efra-Seli í Hrunamannahreppi. Átti hann þessa jörð ásamt Hallgrími, bróður okkar, sem þá var togaraskipstjóri, en síðar framkvæmdastjóri við togaraafreiðsluna í Reykjavík....
Þarna er örugglega komin tenging við Gunnar Hallgrímsson bekkjarbróður minn og herbergisfélaga frá Bifröst. Hallgrímur þessi var eflaust pabbi hans og það skýrir líka af hverju Gunnar er nú fluttur að Flúðum.
Þessi bók er fengin að láni á öðru hvoru bókasafninu sem ég skipti við og þaðan er líka bók sem ég er að byrja á núna. Hún heitir: "Og náttúran hrópar og kallar."
Þessi bók sem er eftir Óskar Guðmundsson er ævisaga Gulla í Karnabæ sýnist mér. Bókin fjallar í byrjun a.m.k. einkum um uppvöxt Guðlaugs á Selfossi á heimsstyrjaldarárunum síðari. Ég þekkti Guðlaug aldrei neitt, en bróður hans Grétar kannaðist ég aftur á móti svolítið við. Margt er eflaust áhugavert í þessari bók og þar býst ég við að sagt sé frá mörgu sem ég kannast eitthvað við.
Bjarni Ármannsson, sem nauðsynlegt þótti að láta hætta sem framkvæmdastjóra Glitnis, hefur nú loksins fundið sér aðra vinnu.
Glitnir sem áður hét Íslandsbanki var myndaður úr því bankakraðaki sem eitt sinn var hér á landi. Verslunarbanka Íslands - sem nánast fór á hausinn við að dæla hér um bil ótakmörkuðu fé í Stöð 2 á sínum tíma, Iðnaðarbanka Íslands, Alþýðubanka Íslands og Útvegsbanka Íslands - sem Hafskip setti á hausinn (eða var það öfugt?)
Eitthvað held ég líka að Framkvæmdabanki Íslands komi þarna við sögu. Þann banka keyptu Jón Ásgeir Jóhannesson, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og fleiri og fengu í kaupbæti óvild og jafnvel hatur Davíðs Oddssonar og afla innan Sjálfgræðisflokksins sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Samvinnubankinn lenti hins vegar í einni skúffu í Landsbankanum og Búnaðarbankinn breyttist í Kaupthing banka.
Bjarni Ármannsson ætlar nú í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og kannski einhverja fleiri, að stofna fyrirtæki sem hann mun veita forstöðu og sem ætlar að hasla sér völl á sviði orkurannsókna. Bjarni segist bara hafa lagt í þetta litlar og skitnar 500 milljónir króna, sem er náttúrlega bara eins og hver annar skítur á priki og engan getur munað um að snara út. Þessum smáaurum önglaði Bjarni saman í sínu fyrra starfi hjá Glitni. Einhver sagði reyndar að framlag Bjarna væri um 800 milljónir, en þar munar nú svo litlu að enginn nennir að velta því fyrir sér.
12.9.2007 | 03:09
113. blogg
Það er að vonum. Ekki skildi ég eftir mig djúp spor í Borgarnesi sem verslunarstjóri og þaðan af síður fyrir annað sem ég gerði þar.
Vissulega var þetta sérkennilegt félag og skemmtilegur tími. ÚSVB vakti athygli langt útfyrir Borgarnes. Þó var þar allt af miklum vanefnum gert og í sumum tilfellum hefði ekkert orðið úr hugmyndum sem fram komu ef ég (ásamt ýmsum fleirum) hefði ekki tekið að mér að sjá um framkvæmd þeirra, án þess að fá nokkuð fyrir.
Ég minnist þess að við vorum með allskyns þáttagerð. Spurningaþætti gerðum við og sömuleiðis áramótaþætti. Kvikmynduðum einnig allskyns hátíðahöld, vorum með beinar útsendingar frá bingói sem við skipulögðum að öllu leyti sjálfir, tókum upp íþróttakappleiki og margt fleira. Ég geri ráð fyrir að upptökur af ýmsu sem þarna fór fram séu til, því allar urðu þær eftir hjá þeim sem tóku við félaginu þegar ég flutti burt árið 1986.
Einhvern tíma um þetta leyti fór ég á ráðstefnu sem haldin var í Ölfusborgum. Líklega stóð Alþýðubandalagið fyrir þessari ráðstefnu. Ég átti að segja frá vídeókerfinu í Borgarnesi og svara fyrirspurnum um það. Björgvin Óskar Bjarnason fór með mér í þessa för. Minnisstætt er mér frá þessari ráðstefnu að Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðingur flutti þar erindi og kallaði mig og aðra vídeókerfastjórnendur misgerðamenn ríkisútvarpsins. Þetta að vera misgerðamaður er kannski einhver flottasti titilll sem ég hef fengið.
Á þessari ráðstefnu man ég einna best eftir ráðherrunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Svavari Gestsyni. Vilborg Harðardóttir rithöfundur var þarna einnig og ég man að hún sýndi erindi mínu mikinn áhuga og spurði margs.
Merkilegt er hve mikið er bullað á þessu Moggabloggi. Kannski er þetta ekkert skárra á öðrum bloggveitum, hvað veit ég. Langflestir virðast einkum blogga til þess að ná upp einhverjum vinsældum. Auðvitað er það skiljanlegt. Líklega langar flesta að fá viðurkenningu annarra og auðvitað er það viðurkenning að fara á blogg annars manns hvort sem maður les það eða ekki.
Bloggefni mitt er einkum minningar frá ýmsum tímum. Dagsdaglega gerist ekki svo mikið í mínu lífi að það taki því að segja frá því nákvæmlega. Sumir stunda það þó að segja sem nákvæmast frá því sem gerst hefur næstliðinn dag. Auðvitað getur verið gaman að lesa það hjá þeim sem lenda í mörgu og kunna vel að segja frá, en hálf þreytandi er það nú samt oft.
Ég veð talsvert mikið úr einu í annað á blogginu mínu bæði í sambandi við minningar og annað sem ég segi frá. Inn á milli koma svo frásagnir í fremur stuttu máli um það sem á daga mína og minnar fjölskyldu drífur.
Þeir sem einkum stunda það að lesa bloggið mitt til að fylgjast með því sem gerist í minni fjölskyldu, verða að taka því að ýmislegt annað flýtur með. Bæði eru það hugleiðingar um allan þremilinn og endurminningar sem kannski einkennast öðru fremur af karlagrobbi og eru þar að auki frá ýmsum tímum og eflaust misáhugaverðar að dómi þeirra sem þær lesa. Sjálfum finnst mér þær þó að sjálfsögðu allar mjög áhugaverðar, annars væri ég ekki að þessu.
Stundum blogga ég af miklum móð dag eftir dag en stundum koma hlé á milli. Þá nenni ég varla að fara á Netið, en er bara að ýmsu öðru dútli. Tapa þá gjarnan fjölda bréfskáka á tíma, auk þess sem bloggin vanrækjast. Venjulega áset ég mér þegar ég byrja að blogga að ég skuli ekki skrifa meira en svona eina eða tvær blaðsíður í Word með fonti 14. Oftast stenst það.
11.9.2007 | 01:28
112. blogg
Líklega hefur þetta verið í kringum 1980, jafnvel einmitt það ár. Ég hafði verið í heila viku á verslunarstjóranámskeiði á Bifröst þar sem þeir Þórir Þorgeirs og Þórir Páll stjórnuðu málum. Þegar ég kom heim frétti ég að Brynjar Ragnarsson sonur Ragnars húsvarðar í skólanum hefði keypt fyrir hönd húsfélagsins að Hrafnakletti 6 (en þar bjó ég á efstu hæðinni í 4 herbergja íbúð) vídeótæki eitt af Akai gerð sem ætlað væri til þess að senda út kvikmyndir í allar íbúðirnar í stigaganginum samtímis.
Vídeótæki voru sárasjaldgæf þegar þetta var. Mér er nær að halda að þetta tæki sem Brynjar keypti hafi verið það fyrsta sem kom til Borgarness. Ekki man ég hvernig það bar til nákvæmlega en af einhverjum ástæðum þróuðust mál þannig að ég tók við þessum rekstri. Kannski var það bara frekjan í mér sem hélt aftur af öllum hinum. Sjálfur taldi ég mér auðvitað trú um að enginn á staðnum væri betur til þess fallinn en ég að sjá um þetta.
Við tókum svo á leigu kvikmyndir og byrjuðum að sýna þær í tækinu. Ég man eftir að hafa skrifað og hengt upp í anddyrinu dagskrá vikunnar og að ein fyrsta kvikmyndin sem þarna var sýnd var kvikmyndin Poseidon-slysið. Hún var nú reyndar sýnd nokkuð oft ef ég man rétt.
Þetta framtak vakti talsverða athygli í Borgarnesi og fyrr en varði vildu svo til allir íbúar í Sandvíkinni og Höfðaholtinu vera með. Ein ástæðan var sú að alla tíð hafði sjónvarpsmerkið frá ríkisapparatinu náðst illa í Sandvíkinni.
Örlygur Jónatansson hjá Heimilistækjum var fagmaður á þessu sviði og teiknaði fyrir okkur ódýrt kerfi fyrir allt svæðið. Ég man svosem ekki hversu ódýrt þetta var, en það var alls ekki mjög há upphæð þegar búið var að deila henni niður á öll heimili á svæðinu. Í undirbúningnum bættust síðan göturnar Þórðargata, Dílahæð og Kveldúlfsgata við.
Við stofnuðum félag um þessa framkvæmd. Líklega var það að minni tillögu að félagið var nefnt Útvarps- Sjónvarps- og Videófélag Borgarness. Ömurlegt nafn en ég man að skammstöfunin á því minnti mikið á UMSB og sennilega hefur það verið hugsunin hjá mér. Ég held að ég hafi verið kosinn formaður þessa félags (líklega hefur enginn viljað styggja mig). Ég man eftir þeim Bjarna Jarls, Tedda löggu og Stefáni Haraldssyni með mér í stjórn.
Fjórar rásir voru í kerfinu. Vídeóið var á einni, RUV á annari, dagskrá ÚSVB var send út á einni og FM á einni. Til að geta sent út dagskrána þurfti ég að fá tölvu. Hún fékkst í Heimilistækjum. Mér er minnisstætt að hún kostaði tólf hundruð og eitthvað krónur og var af gerðinni Sinclair ZX 81. Breyta þurfti tölvunni til að hún hentaði til þessara nota. Seinna fengum við svo Sinclair Spectrum tölvu sem var mun betri.
Á þessum tíma var Vidoson sem svo var nefnt að hasla sér völl í Reykjavík. Þar voru blokkarkerfi tengd saman og útsendingar á kvikmyndum og fleiru hafnar. Mér er minnisstætt að í Videoson kerfinu sá ég fyrst kvikmyndina Animal House og þótti hún merkileg.
Videókerfi voru einnig í Ólafsvík, Ólafsfirði og víðar. Ég man að við stofnuðum það sem við kölluðum Landssamband kapalkerfa eða eitthvað þessháttar og Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV var formaður þess, en þá hafði DV eða útgáfufélag þess keypt Videoson.
Fór um helgina að Drumboddsstöðum. Jói var með bæði húsin frá Byko á leigu fyrir 40 ára afmælið sitt. Hafði það á leigu allt frá fimmtudagskvöldi og þangað fórum við Áslaug þá. Á föstudaginn eftir hádegið komu Ingibjörg og Hörður ásamt Sigrúnu í heimsókn þangað. Pabbi og mamma bjuggu á Drumboddsstöðum í ein þrjú ár og þar er Ingibjörg fædd.
Afmælisveislan sjálf var svo á laugardaginn og við fórum náttúrlega þangað. Veislan tókst bara vel að öllu leyti, maturinn frábær og nóg af öllu. Ingimundur bróðir Jóa var grillmeistari en að öðru leyti var veislan undirbúin af Jóa og Hafdísi.
Bjarni er að mér skilst að undirbúa endurtekningu á giftingarveislunni og að þessu sinni á Bahamas. Það er allt gott af honum að frétta þó ekki sé hann búinn að fá vinnu ennþá. En dvalarleyfi er hann búinn að fá til 2012.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2007 | 13:34
111. blogg
Já, já. Ég hef heyrt brandarann um 111 meðferð á skepnum. Mér fannst hann fyndinn fyrst þegar ég heyrði hann.
Ef brandarinn er skrifaður fer það dálítið eftir þeim fonti sem notaður er hversu auðvelt er að skilja hann. En svo þessu sé troðið ofan í fólk með teskeið þá er stundum lítinn mun að sjá á orðinu "ill" og tölunni 111. Þar um hafa verið samdir margir brandarar. Eflaust skilja flestir orðið fontur því algengast er líklega núorðið að fólk skrifi allt sem það þarf að skrifa með tölvu og venjuleg snarhönd er hugsanlega kölluð læknaskrift núna.
Þetta minnir mig á þegar Brynjar á Helgafelli sem var hjá mér um tíma í búðinni á Vegamótum sat lengi yfir ávísun sem hann hafði tekið og óttaðist að kynni að vera fölsuð. Á henni stóð "Sparisjóðurinn Dundið" eins og Brynjar las skrautskriftina sem notuð var í nafn Sparisjóðsins. Þarna stóð auðvitað "Sparisjóðurinn Pundið" sem starfaði hér í Reykjavík í eina tíð og allir hljóta að muna eftir.
En það er þetta með fyrirsagnirnar og mig. Mér leiðast fyrirsagnir. Með þeim er leitast við að gefa einhverja hugmynd um hvað það fjalli um sem á eftir fer. Mín blogg fjalla yfirleitt um allan fjárann og í einu bloggi getur hæglega verið tæpt á mörgum hlutum. Sumir leysa þennan vanda með því að blogga hvað eftir annað sama daginn. Eitt blogg og ein fyrirsögn fyrir hverja málsgrein. Það er ekki minn stíll og sérviska mín býður mér að nota áframhaldandi raðtölur til að merkja bloggin mín með ásamt þvi að blogga í mesta lagi einu sinni á dag. Fáir aðrir virðast gera þetta og það gerir þetta enn flottara í mínum augum. Hver veit nema ég sæki um einkaleyfi á þessari frumlegu hugsun.
Annars minnir mig að Páll Ásgeir Ásgeirsson (malbein.net/pallasgeir/) hafi einhvern tíma notað svipaða aðferð við að merkja sín blogg. Hann er bróðir Gísla Ásgeirssonar (malbein.net) og vel þekktur sem bloggari en bloggar bara stundum og skrifar bækur og prílar uppá fjöll þess á milli.
Fyrsta bókasafnið sem ég komst í kynni við var Bókasafnið í Hveragerði. Það varí einu litlu herbergi í nýja barnaskólanum (sem er nú víst ekkert sérstaklega nýr núna) og þetta herbergi var bókstaflega fullt af bókum. Ég minnist þess sérstaklega að ég hafði þá aldrei séð jafnmikið af bókum saman komið á einum stað. Þarna réði ríkjum Þórður á Grund sá merki og fróði maður. Þórður kenndi líka við skólann og bjó á Grund ásamt Þjóðbjörgu móður Jóhanns Ragnarssonar bekkjarbróður míns og vinar.
Mér er minnisstætt að mamma og að ég held amma einnig sögðu oft við okkur krakkana að við ættum ekki að vera að kvelja eldinn hann gæti hefnt sín síðar. Þetta var einkum sagt við okkur ef við vorum að leika okkur að því að slökkva næstum því á kertum o.þ.h. Ekki man ég hvort meira var um þessar viðvaranir eftir að Bláfell brann eða fyrir.
Það var Hörður Haraldsson kennari á Bifröst, spretthlaupari og listamaður, sem kenndi mér afbökun á málshætti sem hljóðar svona í afbökuninni: Frestaðu því aldrei til morguns, sem þú getur alveg eins gert hinn daginn."
Hörður teiknaði líka myndirnar í Ecce Homo og var margt til lista lagt. Meðal annars var hann afburða teiknari.
4.9.2007 | 02:17
110. blogg
Um daginn kom gestur inn á bloggið mitt, kallaði sig nöldrara og kommentaði þar með tilvísum í Ecce Homo, en það var nokkurs konar árbók sem gefin var út á Bifröst á sínum tíma. Kannski hefur þetta verið Þórir E. Gunnarsson.
Við vorum bekkjarbræður og fljótlega eftir að við útskrifuðumst fórum við að skrifast á og létum ekki nægja neitt minna en ljóðabréf. Einnig tefldum við bréfskák samhliða. Ég man að svo langt gekk þetta að jafnvel dagsetningarnar, hvað þá leikirnir í skákinni, voru í bundnu máli. Ekki var þetta merkilegur skáldskapur að ég held og bréfaskiptin stóðu heldur ekki lengi.
Ég man þó eftir einni ágætri dagsetningarvísu sem Þórir setti saman. Einhvern tíma minntist ég á þessa vísu við Þóri og hann taldi lítinn sóma að henni. Væri ekki annað en bernskubrek. En svona er hún:
Í þjóðar vorrar þörfu krík,
þar sem heitir Reykjavík.
Sent er þetta sjötta mars.
Saltkjötið er betra en fars.
Hugsanlegt er að Þórir geti bannað mér að birta þessa vísu. En það er nú eiginlega orðið of seint. Höfundarrétturinn er samt tvímælalaust hans. Mér finnst þetta með saltkjötið og farsið vera skemmtilega út úr kú.
Í einu af fyrstu bréfunum sem okkur fóru á milli var meðal annars þessi vísa eftir mig:
Ofsalegt æfingaleysi
er mér til tafar um stund.
Á Pegasus þegar ég þeysi
á Þóris hins spaka fund.
Þó ég segi sjálfur frá þá er þetta sennilega ekkert afspyrnuslök vísa. Svo hafði ég líka verið að dunda við að setja saman sléttubandavísur og setti eina slíka í bréf til Þóris. Hún var nú svo ómerkileg og léleg að ég man hana ekki lengur og vil ekki muna. Aftur á móti man ég að mér þótti vissara að láta Þóri vita að þarna væri að finna sléttubandavísu og þá varð þessi til:
Sléttubandavísa var
valin hér í bréfið.
Gettu hvaða vísu var
vígorð þetta gefið?
Nú voru góð ráð dýr, því þetta er hvorki meira né minna en sléttubandavísa líka. Nú varð ég að bæta einni vísu við um þetta:
Óviljandi eru þær
orðnar fleiri en segi.
Því ég núna tel að tvær
töfra þessa eigi.
Annars hafa margir sagt að ekkert sé merkilegt við sléttubandavísur þó sumir haldi að það sé einhver dýrasti háttur sem um getur. Færa má rök fyrir því að ekki sé ýkja erfitt að gera slíkar vísur.
Einn hátt þekki ég sem er miklu dýrari (og erfiðari), en sléttubandaháttur, það er afhendingarháttur. Hann er þannig að seinni tvær hendingarnar myndast við það að taka fyrsta stafinn af hverju orði í fyrstu tveimur ljóðlínunum. Sem dæmi um þennan hátt er oft nefnd þessi vísa eftir Svein frá Elívogum:
Sléttum hróður teflum taflið,
teygjum þráðinn snúna.
Mér finnst þó vísan sem gjarnan er kölluð drósir ganga og er eftir Jóhannes úr Kötlum jafnvel vera betra dæmi um vel heppnaðan afhendingarhátt. Sú vísa er einhvern vegin svona:
Drósir ganga, dreyrinn niðar.
Drjúpa skúrir.
3.9.2007 | 03:14
109. blogg
Með ólæknandi krabbamein bloggar hún eins og ekkert sé dag eftir dag. Ræðir um sjúkdóm sinn eins og um skáldsögupersónu sé að ræða. Hvernig hægt er að vera jákvæður og uppbyggjandi í svona stöðu er langt fyrir ofan minn skilning.
Ég les bloggið hennar reglulega. Hún er einn af þeim bloggurum sem ég vil síst missa af. Blogg hennar nálgast ég yfirleitt af bloggi Önnu Einarsdóttur í Holti sem er bloggvinur minn. Hún og Gíslína eru frænkur. Feður þeirra voru bræður og báðir frá Dal í Miklaholstshreppi. Ég kynntist þeim þegar ég var á Vegamótum. Anna er með sérstakan link á blogg Gíslínu, sem hefur stundum bloggað líka hér á Moggablogginu.
Hér er smákafli úr nýjasta bloggi Gíslínu:
= = = = = = = =
Hugmyndin er þessi. Á þriðjudaginn fyrir hádegi milli 10 og 12 sendi allir öryrkjar, aldraðir og aðrir þeir sem vilja taka þátt tölvupóst á netföng heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins með meðfylgjandi texta: ....Ég skora hér með á íslensk stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör öryrkja og aldraðra til samræmis við íslenskan veruleika.... (hugmynd að texta).....undirskrifað af viðkomandi með kennitölu.
Þið sem lesið þetta setjið þetta á bloggsíðurnar ykkar og biðjið jafnframt aðra um að gera slíkt hið sama. Með einhverju svona átaki væri möguleiki að koma skilaboðum til stjórnvalda í verki og láta í ljós óánægju með ástandið. Í stað þess að mæta niður á Austurvöll og mótmæla eins og í gamla daga (sem engin nennir lengur að gera), sletta skyri og láta öllum illum látum, þá notum við nútímatækni til að mynda öflugan þrýsting og höfum fjölmiðla með í för.
Hvernig líst ykkur á þessa hugmynd?
= = = = = = = = = = =
Mér líst ágætlega á þessa hugmynd, en bæti því klassíska við: Hvað munar um mig?
Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný.
Ég er svo undarlega innréttaður að ég dáist að svona mönnum. Þegar útilokað er að menn taki rökum, er vel hægt að skilja að lítið annað sé eftir en sýna meiri þrjósku og einsýni en flestir aðrir.
Árið 1961 var haldið uppá 175 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Ég man vel eftir hátíðahöldunum af því tilefni. Fjölmenni var mikið og sýningar út um allt. Sjálfur man ég eftir að hafa farið á sýningu í Melaskóla þar sem sýnd var nýjasta tækni þess tíma. Það sem þar var sýnt þætti ekki merkilegt í dag. Mig minnir að hægt hafi verið að fá mismunandi fyrirlestra í mismunandi heyrnartæki allt eftir því á hvaða hnapp var ýtt. Stórkostlegt.
Já og Snorri vann Hannes. Flott hjá honum. Það er alltaf gaman að lesa það sem Snorri Bergz skrifar þó stundum finnist manni vera óþarfa væll í honum. (hvala.blog.is) Svo fréttabloggar hann stundum helst til mikið fyrir minn smekk.
1.9.2007 | 01:35
108. blogg
Í kvöld lenti ég fyrir aftan kennslubifreið þegar ég var á leiðinni í vinnuna. Sá sem var að læra var áreiðanlega dálítið stressaður því ekki var nóg með að hann keyrði löturhægt heldur drapst hvað eftir annað á bílnum hjá honum á ljósum þegar hann reyndi að fara aftur af stað. Svo óheppilega vildi til að þessi bíll var á nákvæmlega sömu leið og ég og nánast útilokað að komast fram úr.
Fyrst var ég svolítið pirraður og var að hugsa um að reyna að komast framhjá bílnum þegar þrjár eða fjórar tilraunir til að komast af stað á grænu ljósi höfðu mistekist. Sem betur fer gat ég stillt mig og látið eins og ekkert væri. Allar götur frá Nýbýlavegi og uppá Bæjarháls var ég næsti bíll á eftir þessari kennslubifreið. Það verð ég að segja þeim til hróss sem var að læra á bílinn að undir lokin var hann farinn að taka af stað án þess að drepa á honum.
Horfði í gær á myndina"The great global warming swindle" á Netinu. Þetta er nokkuð athyglisverð mynd og ég held að hún hafi verið sýnd í Ríkissjónvarpinu ekki alls fyrir löngu. Ég horfði ekki á hana þá en mundi eftir nafninu þegar ég rakst á hana á Netinu. Þarna er því haldið fram að alls ekki sé víst að gróðuhúsaáhrifin svokölluðu séu af manna völdum. Það sé ekki einu sinni víst að koltvísýringurinn sé það sem úrslitum ráði um hlýnum jarðar. Annars er ég ákaflega beggja blands um þessi blessuðu gróðurhúsaáhrif. Að sumu leyti minnir þetta mig á fuglaflensuáráttuna í fjölmiðlum um árið. Það er eins og fréttamönnum finnist að það þurfi helst að vera ein frétt um mengun eða eitthvað þess háttar á hverjum degi. Heimsendaspár hafa alltaf heillað fólk.
Eitt sinn var það á Vegamótum um vetur eftir að ég fékk mér Saabinn að hann neitaði að fara í gang. Þegar ég ræddi málið við Einar í Holti kom okkur saman um að langlíklegast væri að vatn hefði frosið einhvers staðar í bensínleiðslum. Einar ráðlagði mér að fá mér bara bensín í lítinn brúsa, setja hann ofan á vélina, leiða úr honum mjóa slöngu ofan í blöndunginn og láta bensín leka þar niður og sjá hvort bíllinn færi ekki í gang við það svo ég gæti keyrt hann niðureftir til sín og hann mundi taka hann inn á verkstæðið.
Allt gekk þetta eftir og hófust nú athuganir á bílnum. Einar athugaði eitthvað undir húddinu og bað mig að prófa að starta bílnum. Ég var svo utan við mig að ég startaði honum í gír og hann hentist dálítið áfram og felldi eitthvað en olli þó ekki miklum skaða. Síðan startaði ég honum aftur og í þetta sinn án þess að hafa hann í gír. Bíllinn rauk í gang en ég drap strax á honum aftur og við Einar vorum að ræða um hve vel þetta hefði gengið og við verið heppnir þegar við tökum allt í einu eftir því að mikill eldur logar ofan á vél bílsins. Húddlokið var uppi en segja má að vélarhúsið hafi verið alelda. Okkur brá náttúrlega heil ósköp og Einar sótti duftslökkvitæki með miklu írafári og sprautaði á eldinn og tókst að slökkva hann á stuttum tíma.
Þegar við vorum búnir að jafna okkur á þessum eldsvoða og blása mesta duftinu í burtu ákvað ég að prófa að setja bílinn í gang þó ég hefði ekki mikla trú á að það tækist. En hann fór strax í gang og ekki var að sjá að svo mikið sem ein einansta snúra hefði skaðast í eldinum.
Sigurður Þór Guðjónsson (nimbus.blog.is) hefur kippt mér útaf bloggvinalista sínum. Kannski finnst honum bloggið mitt bara svona leiðinlegt. Hvað get ég svosem sagt við því. Hann er rithöfundur, spekingur og hugsuður, en ekki ég. Ef til vill taka lesendur mínir ekki einu sinni eftir því að bloggvinalistinn hefur styst. Nú sé ég að það getur verið kostur að hafa langan bloggvinalista og sennilega er réttast að vinda bráðan bug að því að lengja hann svolítið.
31.8.2007 | 00:55
107. blogg
Árið 1970 gaus í Heklu.
Reyndar var gosið ekki í toppi Heklu eins og venjulegast er í gosum þar, heldur var þetta í hlíðum Heklu, svokölluðum Skjólkvíum.
Ég man ekki hve lengi gosið stóð en við Áslaug og strákarnir vorum í heimsókn hjá Ingu og Herði meðan á gosinu stóð. Ákveðið var að fara að gosinu og skoða herlegheitin.
Hörður átti Landrover jeppa þegar þetta var og á honum var farið. Ég geri fastlega ráð fyrir að krakkarnir þeirra hafi líka verið með í för.
Þetta varð talsvert söguleg ferð. Ekki var lögreglan eða neinir aðrir að flækjast fyrir okkur. Allir sem áhuga höfðu á gátu farið að gosinu og eins nálægt því og þeir vildu. Þetta notfærðum við okkur út í æsar og fórum miklu nær gosinu en líkur eru á að okkur hefði annars verið leyft.
Þegar við komum þarna að var hraunrennslið búið að hálffylla lítið dalverpi. Bíllinn komst nokkuð auðveldlega að því svæði þar sem hraunið hafði runnið inn í dalverpið og virku gígarnir sem þá voru tveir voru varla meira en í svona eitt til tvöhundruð metra fjarlægð frá staðnum þar sem við vorum.
Þegar komið var að hraunjaðrinum skammt frá gígunum voru allir drifnir út úr bílnum. Ekki er nokkur vegur að lýsa því með orðum hvernig var að koma svona nálægt raunverulegu eldgosi. Örugglega er ekki hægt að lýsa því með myndum heldur. Öll skilningarvitin voru undirlögð. Hljóðin voru t.d. engu lík og jörðin titraði undir fótum okkar. Lyktin lá yfir öllu og sjónin var óviðjafnanleg.
Gígarnir vöktu að vonum mestu athyglina. Úr þeim slettist bráðið hraun hátt í loft upp og greinilega bættist sífellt við hraunið. Samt var allt með friði og spekt þarna og ekki mikill æsingur í fólki. Nokkrir tugir manna höfðu safnast saman til að horfa á þetta sjónarspil. Krakkarnir sem voru með okkur í bílnum voru dauðhrædd við allan djöfulganginn (undirganginn, lyktina og hljóðið) og á myndum má sjá að þau eru hálfgrátandi eftir að hafa verið rifin út úr bílnum.
Ég man eftir að hafa gengið spölkorn út á hraunið þarna við lítinn fögnuð sumra í hópnum, enda var það ekki skynsamlegt. Hraunið var kannski ekki mjög heitt efst, en ef litið var niður mátti hvarvetna sjá glitta í bráðinn hraunmassa.
Þarna á brúninni var talsverður hópur bíla af ýmsum gerðum. Nokkrir ákváðu að fara niður í dalverpið og þeirra á meðal Hörður. Dalbotninn var sléttur og harður og þar mátti keyra þónokkur hundruð metra meðfram hraunjaðrinum.
Síðan ókum við svotil alveg að hrauninu þar sem það vall fram seigfljótandi að neðanverðu en svart og gráleitt og að verulegu leyti storkið að ofan. Eftir því sem neðri hluti hraunjaðarins vall fram hrundi efri hluti hans ofan á og kom jafnan svolítið á eftir.
Við ákváðum nú að fara alveg að hraunjaðrinum með skóflu sem var í bílnum og ná okkur í smábita af glóandi hrauni. Líklega var það ég sem var ákafastur í þessu. Ég man vel eftir því að hitinn frá hrauninu var svo mikill að mig logsveið í andlitið. Til þess að komast nægilega vel að hrauninu með skófluna fékk ég lánaða húfu hjá Ingibjörgu og skýldi með henni þeim hluta höfuðsins sem að hrauninu sneri. Með þessu móti tókst mér að ná smáslettu af bráðnu hrauni á skófluna en það breyttist fljótlega í heldur ljótan hraunmola sem ég held að samt hafi verið settur inn í bíl.
Á einum stað í dalverpinu var svolítið drullusvað og ég man að við töluðum um að ekki væri skemmtilegt að festa sig þarna. Þegar við komum til baka var jeppi einn samt einmitt búinn að festa sig þarna. Verið var að reyna að ná bílnum upp og greinilega nokkur æsingur í fólki, því þeir sem fóru út að ýta fengu gjarnan drullubað mikið því bílstjórninn gaf hraustlega í.
Hörður var með kaðal í Landróvernum og bauðst til að draga bílinn upp. Því var vel tekið og gekk það vel. Þegar þetta var vorum við á heimleið en stoppuðum samt uppi á brúninni á dalverpinu og biðum þess að hraunið færi yfir staðinn þar sem bíllinn sat fastur. Það gerðist 20 mínútum eftir að við drógum hann upp.
30.8.2007 | 02:57
106. blogg
Ég sé að margir bloggarar skrifa gjarnan mun styttra mál en ég og eru alls ekki jafnfastir í fortíðinni.
Málæði mitt er reyndar með ólíkindum og getur varla haldist til eilífðarnóns. Einhvern tíma tekur þetta enda. En er á meðan er. Meðan ég hef gaman af að skrifa held ég því eflaust áfram.
Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að stefna á að myndskreyta bloggið mitt. Einu sinni þóttist ég vera ágætur myndasmiður. Mér finnst bara að myndskreyting sé dálítið mikið vesen. Ég mundi ekki nenna að vera alltaf með myndir. Sumir stunda það greinilega að safna saman furðulegum myndum af netinu og setja þær á bloggið sitt. Ég býst frekar við því að ég mundi einskorða mig við eigin myndir.
Í gær rakst ég á áhugavert og skemmtilegt blogg á Moggablogginu. Það er eftir Gest Gunnarsson. Ég man vel eftir Gesti síðan ég vann á Stöð 2. Þá var hann að mig minnir mest við gerð sviðsmynda og ýmiss konar aðstoð við þáttagerð.
Hann kallar sjálfan sig í blogginu forstjóra Ritverkamiðstöðvarinnar þá sjaldan hann víkur frá því að skrifa endurminningar sínar. Sumt af þessu held ég að hann hafi verið búinn að skrifa áður, en búti það svo niður og setji í smáskömmtum á bloggið.
Ég hef ekki hugmynd um hvað eða hvar þessi Ritverkamiðstöð er og Gúgli virðist ekki kannast við hana. Kannski er hún bara hugarfóstur Gests.
Hann er lærður pípulagningamaður en hefur lagt gjörva hönd á margt annað um dagana og er sagt frá sumu af því á blogginu.
Meðal annars er þetta af blogginu hans:
=====================
Á morgnana mættum við í olíustöð Olíufélagsins sem var úti á flugvelli og fengum lista yfir biluð kynditæki sem við svo gerðum við. Mikið tengdist þetta frostinu því að í olíunni var vax sem storknaði í frosti og þá drapst á fýringunni.
Ef einhver truflun varð á eldinum sló öryggi út og þurfti maður oft ekki að gera annað en setja það inn aftur. Allur þessi búnaður var svo fullkominn að lítill möguleiki var á að kviknað gæti í þess vegna og hefi ég aldrei getað skilið hvernig olíukynditæki gat kveikt í sumarbústað forsætisráðherrans á Þingvöllum.
========================
Þetta er allt gott og blessað. En mér finnst þetta síðasta ekki passa alveg. Ég veit að vísu ekki neitt um brunann á Þingvöllum, en man mjög vel eftir honum. Ég veit samt af eigin reynslu að olíukynditæki geta kveikt í. Þar sem eldur er þar getur kviknað í hvort sem öryggisbúnaður er mikill eða lítill. Þessu kynntist ég vel á Vegamótum. Þegar ég kom þangað fyrst var brennari í búðinni og veitingahúsinu en sjálfrennandi olía í íbúðarhúsinu.
Í íbúðarhúsinu rann olían bara inn í ketilinn í gegnum skammtara sem stjórnaði því hvort mikil eða lítil og olía rann inn í ketilinn og þarmeð hve mikill eldurinn var eftir að kveikt hafði verið í olíunni. Þessi aðferð er á margan hátt varasöm og gæti ég sagt margar sögur frá þeim málum og geri kannski seinna.
Brennararnir eru mun betri en þeim fylgir sá ókostur að ef rafmagnið fer þá fer hitinn líka. Á þessum árum (uppúr 1970) var rafmagnsleysi nokkuð algengt a.m.k. á þessum slóðum.
Ég gæti vel trúað að einn af leyndardómum þess að vera vinsæll á blogginu sé að blogga reglulega. Líklega er það þess vegna sem ég hef bloggað svona mikið að undanförnu. Nei annars, mér er víst alveg sama hvort margir eða fáir lesa þetta.
Einhver var að bollaleggja um það um daginn að vinsældir bloggs mætti betur marka af fjölda athugasemda en fjölda heimsókna. Þessu er ég alls ekki sammála og satt að segja vorkenni ég þeim (ef þeir eru einhverjir) sem fá fleiri athugasemdir en heimsóknir.
Áhugavert innlegg frá Salvöru Gissurardóttur sá ég alveg nýlega þar sem hún ræðir um það hvernig Morgunblaðið stjórnar umræðunni á Moggablogginu. Ráðlegg þessum örfáu lesendum mínum að fylgjast með skrifum Salvarar, hún veit svo sannarlega sínu viti.