Færsluflokkur: Bloggar

3139 - Kosningar

Um síðustu helgi voru víst sveitarstjórnarkosningar. Ég og við hjónin neyttum ekki atkvæðisréttar okkar og er slíkt nýlunda mikil. Ég held svei mér þá að ég hafi hingað til alltaf kosið, bæði í sveitarstjórnar og alþingiskosningumm, þegar ég hef haft tækifæri til. Og það hefur satt að segja verið talsvert oft. Einu sinni held ég að við hjónin höfum kosið utan kjörstaðar. Sú kosning fór á þeim tíma fram í Laugardalshöll. Að þessu sinni vorum við að vísu fjarverandi á kosningadag, en fannst ekki taka því að kjósa með utankjörfundarhætti. Auðvitað hefðum við getað komist að því hvar slík kosning fór fram hér á Akranesi, þó því væri (kannski viljandi) ekki haldið að fólki. En við gerðum það samt ekki.

Ukrainustríðið heldur áfram. Sennilega mætti halda því fram að þetta væri einskonar proxy-stríð, því óneitanlega styðja NATO-þjóðirnar Ukrainu með ýmsum hætti, en láta þarlenda um að berjast og bera alla eyðileggingu og mannfall. Rússar með Pútín í fararbroddi eru í þann veginn að fara illa útúr þessu öllusaman og fáir Evrópubúar munu gráta það. Satt að segja er það furðulegt hve fordæmingin á Rússum er sterk og útbreidd, miðað við önnur stríð.

Alveg er ég hissa á (hvítu móður-málinu) Að taka listaverk annars manns ófrjálsri hendi og gera að sínu eigin álít ég, að geti aldrei talist annað en þjófnaður. Álit dagsins á því hvað sé  rasismi skiptir engu máli. Víðast hvar þar sem styttufellingar hafa tíðkast, held ég að það hafi gerst á vegum löglegra yfirvalda og á svæðum sem þau telja sig ráða yfir.

IMG 3841Einhver mynd.


3138 - Zelensky

3138 – Zelensky

Ekki tókst mér að gera síðasta blogg mitt að maí-bloggi, en það munaði ekki miklu. Þetta þýðir að ég verð víst að gera betur. Eitthvað tekst mér væntanlega að finna til að skrifa um. Annars er ég orðinn mun ónýtari við bloggstandið uppá síðkastið. Kannski veðrið hafi þar einhver áhrif.

Það er langt komið með að skipta öllu út á baðherberginu hérna. Það er að verða búið að flísaleggja og svo kemur hitt á eftir. Svolítil rigning i dag en annars ágætis veður, verður víst enn betra á morgun

Á mánudagskvöldið var húsfélagsfundur og gekk ágætlega. Stjórnin endurkjörin og húsfélagsgjaldið hækkað. Allt eftir bókinni er það ekki?

Aðalfréttin í sjónvarpinu þá eða um það leyti var um ástandið í Bandaríkjunum. Allt að fara til fjandans þar eins og venjulega. Enginn virðist hafa áhuga á hvaða áhrif þetta hefur á kosningarnar þar í haust. Líka vantaði að vita hvenær Hæstiréttur þar ákveður sig og tilkynnir niðurstöðuna.

Styttist líka í Sveitarstjórnarkosningar hér. Kovítið kannske búið. Fuglaflensa í staðinn. Fer ekki í fólk er sagt. Svo eru hrosshausar á útsölu. Mikið að gerast. Sumarið snemma á ferðinni eða hefur Páskahretinu kannski seinkað?

Enn er verið að atast í Bjarna Ben. Engin líkindi eru þó til þess að ríkisstjórnin falli. Kannski var það Zelenski sjálfur sem bjargaði þeim. Líka er ekki lengur hægt að segja að þau geri ekkert. Undirrita viljayfirlýsingar á hverjum degi. Gæti samt trúað að Lilja Alfreðs leggi Sigurð Inga næst þegar tækifæri gefst.

IMG 3793Einhver mynd.


3137 - 120

Til stendur að heimurinn verði kolefnishlutlaus (tískuorð) árið 2050. Það hefur mér a.m.k. skilist. Öll stórveldin (5 eða 10 að tölu) munu fresta öllum aðgerðum í þá átt til 2049 og finna til þess ótal ástæður. Flestar verða þær afar skynsamlegar.

Hvað eiga smáríki eins og t.d. Ísland að gera í millitíðinni? Þessi spádómur er e.t.v. óhóflega svartsýnn, en enhvern vegin á þennan veg má alveg búast við að fari varðandi hnatthlýnunina.

Mannkyninu fjölgar verulega á þessu tímabili. Hjá því verður alls ekki komist. Áður en langt um líður mun væntanleg hnatthlýnun verða mjög stórt stjórnmálalegt vandamál í flestum ríkjum heims.

Kannski er svarið fyrir okkur Íslendinga að moka ofan í nógu mikið af skurðum. Skilst að ágóðinn af því hafi verið ofmetinn á svona norðlægum slóðum.

Svo getum við alltaf selt kuldann. Hann verður verðmætur að lokum. Síbería gæti orðið ríkasta og fjölmennasta ríki veraldar. Er Pútín kannski að bíða eftir því?

Þetta gæti sem best orðið maí-innleggið mitt. Um að gera að blogga öðru hvoru. Geta sagt að bloggið manns sé með þeim elstu á Moggablogginu. Kannski ég fari að auka bloggstarfsemina. Þetta hef ég tilkynnt svo lengi að allir (hundrað eða svo) hljóta að vera hættir að taka mark á því. Þetta með hundraðið minnir mig á vísuna þekktu, sem er svona:

4 8 5 og 7
14 12 og 9
11 13 eitt og tvö
18 6 og 10.

Fyrir langalöngu var talað um stórt hundrað, en ekki lengur.

IMG 3783Einhver mynd.


3136 - Súpu býður sitt á hvað

Á föstudaginn langa síðastliðinn fór ég í súpu til Bjössa og hitti þar systkini mín að undanteknum Björgvini að sjálfsögðu. Heim kominn gerði ég þessa vísu:

Súpu býður sitt á hvað
í svörtum pottagrélum.
Sigurbjörn í synda stað
safnar myndavélum.

Annars er ég að verða fráhverfur því að vera sífellt að slá um mig með misheppnuðum vísnaræflum eins og ég er að mestu hættur að taka myndir. Hvað gerir þú þá? Það er von að spurt sé. Ætli ég rembist ekki við að lifa sem lengst eins og margir fleiri. Finnst ég vera orðinn áttræður þó ég verði það ekki fyrr en í haust samkvæmt kirkjubókum.

Barnið spurði: Amma, hvað er menning?

Amma: Gullið mitt, það er bara svona rímorð. Rímar við þrenningu og er notað þannig.

Annars man ég eftir því að einn snúnasti kaflinn í dönskubókinni sem við lærðum í að Bifröst forðum daga hét og heitir væntanlega enn: Begribet kultur. Og ekki orð um það meir.

IMG 3781Einhver mynd.


3135 - Ívar Hlújárn

Það er nú svoleiðis með mig. Held að sumir lesi bloggið mitt stundum, en sennilega fáir alltaf. Samt ætla ég að halda áfram. Þó ég noti fingrasetninguna sem ég lærði hjá henni Hildigunni að Bifröst fyrir margt löngu, já skömmu eftir miðja síðstu öld, þá horfi ég núorðið jafnan á stafina jafnóðum og þeir birtast á síðunni. Það gerði ég ekki forðum daga. Þá var ég líka yngri og hraustari. Man að ég svaraði auglýsingu, sennilega í Mogganum, þarsem boðin voru skipti á kvikmyndatökivél og ritvél. Þar lét ég Hrafn Gunnlaugsson fá Erica-ritvélina mína og fékk í staðinn kvikmyndatökuvél sem hann hafði fengið að gjöf. Þetta var nú bara smá namedropping hjá mér þó mér leiðist slíkt hjá öðrum. Svona er ég nú inbilskur og sjálfhverfur.

Þó ég hafi eitt sinn haft furðumikinn áhuga á myndatökum allskonar missti ég þann áhuga og fékk í staðinn bókaáhuga mikinn og las næstum yfir mig eins og sagt er. Enn þann dag í dag á ég fyrstu bókina sem ég las á ensku. Sem krakki las ég náttúrulega bara íslensku og þar var sagan af Ívari Hlújárn eftir Walter Scott í miklu uppáhaldí hjá mér. Las hana oft og lærði næstum því. Enn standa riddararnir Breki og Brjánn mér lifandi fyrir hugskotsjónum, að ógleymdum Ríkharði ljónshjarta.Tölum ekki um Sjóðrík og Rebekku hina fögru.

Man ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um að þessu sinni og læt þetta því nægja.

IMG 3706Einhver mynd.


3134 - Margir Þorsteinar

Kannski ég sé að detta í það að blogga mun oftar en að undanförnu. Ef mér verður það á að skrifa um Ukrainu er einn Þorsteinninn ennþá óðar mættur. Þar á ég að sjálfsögðu við Þorstein Sch. Ég les ekki einu sinni langlokur hans. Briemarinn má eiga hann. Sch. er greinlega mikill stuðningsmaður Pútíns hins rússneska. Kannski Briemarinn, ég og fleiri séum undir áhrifum frá Soros og Gates. Mér bara dettur þetta svona í hug. Trumparar held ég að við séum ekki. Steini vann einu sinni á Morgunblaðinu hefur mér skilist. Ég vann lengi á Stöð 2 og fleira get ég kannski talið upp ef ég verð manaður til þess.

Ég er búinn að blogga mikið og lengi. Hef einhverntíma að ég held kallað Jón Val Jensson öfgahægrisinna en er að öðru leyti spar á stóryrðin. Sé ekki eftir því. Er á móti öllum öfgum.

Um að gera að hafa bloggin stutt. Þá eru þau frekar lesin. Kannski væri Twitter hentugur fyrir mig. Nenni samt ekki að skipta. Hef talsverðan ýmigust á Facebook en auglýsi samt bloggið mitt þar.

IMG 3667Einhver mynd.


3133 - Mannkynssaga

Þegar maðurinn komst að því að hann gat ráðið við eða forðast öll dýr merkurinnar, gerði hann sér grein fyrir því, að hann var orðinn herra jarðarinnar og nýtti sér það út í ystu æsar.

Þau tímamót í sögu heimsins gerðust að sjálfsögðu í fyrndinni og eftir það er saga mannsins í vissum skilningi saga þróunar lífsins, sem vissulega hefur nokkrum sinnum verið ógnað og þá helst af síendurteknum heimsstyrjöldum og tortímingarþrá mannsins sjálfs.

Þegar maðurinn hefur sigrast að þeirri þrá sinni að drepa sem flesta menn aðra en sjálfan sig er von til þess að mannkynið þróist áfram.

Þeirri þróun eru engin takmörk sett önnur en þau að maðurinn þrói smátt og smátt vélar sem taki völdin af honum. Takist að koma í veg fyrir það er ekkert sem kemur í veg fyrir að mannkynið leggi geiminn allan undir sig.

Það er þá helst að eitthvað annað „mannkyn“ eða lífsform sé í rauninni komið lengra á þróunarbrautinni og útrými mannkyninu. Sú hætta er vissulega fyrir hendi, því við vitum ekki neitt um það hvort líf á öðrum hnöttum er fjandsamlegt eða vinsamlegt. Höfum samt leyfi til að vona hið síðarnefnda.

Þetta blogg er svosem alveg orðið nógu langt og ekki er hægt að segja að það fjalli um einskisverða hluti.

IMG 3970Einhver mynd.


3132 - Rússarnir koma

3132 – Rússarnir koma

Nú er komið talsvert fram í Apríl og ég er að mestu leyti kominn í þann farveg að ég skrifa (blogga) mánaðarlega til þess að geta bent á að ég hafi bloggað í hverjum mánuði alveg hreint óralengi. Hægt er að ganga úr skugga um slíkt útvortis á blogginu mínu. Svolítið vanda ég mig þegar ég skrifa hér og og breyti litlu sem engu eftirá. Þegar ég skrifa í hina dagbókina, sem ég geri svona öðru hvoru, læt ég mun meira vaða á súðum. Þau skrif má e.t.v. nota seinna meir til að staðsetja á tímalínu ýmsa fjölskylduatburði. Myndirnar sem ég hef tekið er líka hægt að nota til þess. (Ath. Þetta var skrifað í síðustu viku)

Á mánudaginn kemur eða þriðjudaginn er væntanlegur maður til að laga og breyta ýmsu á baðherberginu. Svo held ég að Benni og Co. fari til Tenerife fljótlega.

Af hverju í ósköpunum er ég að þessu bloggi? Sennilega er það merkilegasta varðandi mig hvað ég er í rauninni hrikalega venjulegur. Stundum finnst mér samt að ég sé afskaplega merkilegur. Líki mér jafnvel í huganum við meistara Þórberg. Hann ræktaði þó sína sérvisku og steinhætti að vinna venjulega launavinnu á unga aldri. Auk þess sem hann var greinilega langt á undan sinni samtíð í flestu eða öllu. Kannski var hann í rauninni ákaflega venjulegur að öðru leyti. Hvað veit ég?

Síðast þegar ég bloggaði fjasaði ég eihvað um Ukrainu-stríðið og þóttist voða gáfaður eins og venjulega. Kannski ég haldi því áfram. Ekki nenni ég að skrifa um kynþáttafordóma eða bankahneyksli einsog mest er í tísku þessa dagana. Sú mikla samúð sem Ukrinubúar fá um þessar mundir er ekki öruggt að þeir fái endalaust. Því miður. Ekki er líklegt að Pútín og hyski hans hætti öllum stríðsrekstri bara sísvona. Þó gæti verið að þeir sæju fljótlega hve tilgangslaust þetta er. Allir virðast vera á móti Rússum.

Einhver mynd.IMG 3971


3131 - Facebook og Ukraina

Auðvitað veit ég ekki, frekar en aðrir, hvað Pútín og þeir sem styðja hann sem ákafast, hugsa. En ég held að hann geri sér alveg grein fyrir því að hernaður hans í Ukrainu er ákaflega óvinsæll um heim allan. Rússland er annars flokks stórveldi sem nú er í fjörbrotunum. Það er einkum þessvegna sem Pútín og Rússland eru hættuleg. Þau stórveldi sem munu bítast af sem mestum krafti í því kalda stríði sem nú er að hefjast eru að sjálfsögðu Bandaríkin og Kína.

Kína stendur Bandaríkjunum að líkindum svolítið að baki hernaðarlega ennþá. En það mun ekki standa lengi. Kína mun líklega halda fremur með Rússum en Ukrainumönnum í yfirstandandi stríði og tengjast Rússum í vaxandi mæli viðskiptalega og ef ESB (sem á margan hátt er einnig annars flokks stórveldi) mun halla sér að USA, eins og flest bendir til, eru komin tvö super-stórveldi sem munu kljást á mörgum sviðum í því kalda stríði sem væntanlegt er.

Það eru þá helst Japan og Suður-Kórea, ásamt Taiwan og Austurlöndum nær, sem einkum má gera ráð fyrir að bitist verði um á síðari hluta þessarar aldar. Það er að segja ef mannkynið verður ekki búið að tortíma sjálfu sér í heildsölu áður.

Undanfarið hef ég gagnrýnt fésbókina mjög og farið að langmestu leyti í frí frá henni. Þetta hef ég gert þó ég geri mér fulla grein fyrir vinsældum hennar og að margir af notendum hennar geri sér alveg grein fyrir áróðri hennar og takmörkunum. Þó Moggabloggið og Morgunblaðið sé mjög langt frá því að vera gallalaust og að Páll Vilhjálmsson sé eins og hann er (ég fékk mjög margar heimsóknir þegar ég skrifaði um hann um daginn) dettur mér ekki í hug að gerast áskrifandi að blaðinu sjálfu. Læt mér mbl.is nægja, en viðurkenni samt með sjálfum mér að Morgunblaðið er langbesta fréttablaðið á landinu. Vísir og DV eru einfaldlega ekki marktæk og Fréttablaðið er ósköp takmarkað þrátt fyrir að það sé ókeypis.

Internetið í heild er svipuðu marki brennt og fésbókin. Það þarf stórlega að vara sig á því og unglingum getur það beinlínis verið hættulegt. Stríðið um sálir mannanna fer einkum fram á Netinu.

Ég nenni bókstaflega ekki að blogga daglega og er alveg sama (að mestu leyti) þó fáir lesi þetta blogg. Þó er það frekar lesið ef það er stutt.

IMG 3983Einhver mynd.


3130 - Páll Vilhjálmsson

Það ánægjulegasta við stríðið í Úkrainu (ef hægt er að tala um ánægju í því sambandi) er hve mikil samstaða er um fordæmingu á því. Augljóst er líka að fyrri stjórnmálaværingar eru lagðar til hliðar í bili af flestun a.m.k., þegar minnst er á þessi mál. Þó er um einstaka hjáróma raddir að ræða.

Af því að ég hef hingað til hneigst til gagnrýni á Facebook (sem ég kalla næstum alltaf fésbók) og haldið áfram að blogga á Moggablogginu þó það sé undarlega samsett, og hafi einu sinni verið afar vinsælt ætla ég að halda mig þar.

Mér finnst það blasa við að langvinsælasti bloggarinn þar, sem eins og flestir vita heitir Páll Vilhjálmsson, sé sannur öfgahægrimaður. Hann skrifar einkum um pólitík. Ekki veit ég hvort þeir sem lesa hans innlegg séu yfirleitt sammála honum. Svo kann þó að vera. Hann hefur að undanförnu aðallega beitt sér gegn þeim sem skrifað hafa og flutt fréttir um Samherja á Akureyri. Þar hefur hann hvað eftir annað látið í veðri vaka að hann viti miklu meira um það mál alltsaman en nokkur lögreglumaður eða fréttamaður. Helst er að sjá að hann hafi mikla trú á hverskonar samsæriskenningum. Þegar hann hefur getað litið uppúr skrifum sínum um fyrrnefnt útgerðarfyrirtæki hefur hann skrifað um Úkrainumálið á heldur ókræsilegan hátt.

Eiginlega er það að æra óstöðugan að tilfæra hér einhver séstök ummæli sem hann hefur sett á bloggið sitt um Úkrainu og Rússland ásamt undarlegum skrifum um NATO og ESB. Hentugast er bara að fara þangað og fá beint í æð helstu samsæriskenningarnar sem haldið er fram um þessar mundir.  

Auðvitað hefði ég getað sett þetta sem athugasemd á bloggið hans, því þrátt fyrir allt virðist hann ekki gera eins og sumir af svipuðu sauðahúsi gera oft, en það er að eyða óvinsamlegum athugasemdum. Það hefði kannski komið fyrir fleiri augu þar. Þetta er full-langt sem athugasemd, þó það sé ekki langt sem blogg.

IMG 3984Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband