2764 - President non grata

President non grata. Donald Trump er góðri leið með að verða það sem kalla mætti „president non grata“. Hann er eiginlega óvelkominn allsstaðar þar sem flestir vilja vera. Hvort sem um er að ræða jarðarfarir, brúðkaup, veislur eða þessháttar. Það sem flestum öðrum þykir fínt er reynt að komast hjá því að bjóða honum í. Ekki er hægt að kalla þetta einelti þó einhverjum kynni að finnast það. Hann er endalaust fréttaefni hjá flestum fjölmiðlum heimsins og sennilega vill hann einmitt hafa það þannig. Ég segi bara og hef sagt það áður: Fjölmiðlarnir sköpuðu þetta skrímsli og það er ekki hægt að vorkenna þeim þó það komi í bakið á þeim núna. Læt ég þarmeð lokið súrleika mínum í garð Tromparans í þessu bloggi.

Geta herðatré verið úr einhverju öðru en tré? Eru það þá ekki herða- eitthvað annað? Þetta finnst mér vera úr svolítið annarri átt en venjulegur útúrsnúningur. Orð geta að sjálfsögðu þýtt fleira en eitt án þess að það valdi nokkrum vandræðum. Einnig má oft raða samsettum orðum öðruvísi en vaninn er og fá þannig óvelkomna merkingu. Mér finnst samt eins og herðatré sé komið úr einhverri annarri skúffu.

Tvennt er það hér í heimi sem mér er umfram annað uppsigað við. Það eru símar (já, allir símar) og fésbókin. Ef maður væri með öllu laus við þessi tvö fyrirbrigði væri mun betra að lifa. Fésbókin er að verða svo alltumlykjandi að til mikilla vandræða horfir. Sennilega er þess ekki langt að bíða að sett verð lög sem skylda alla til að eiga svo og svo margar síður, veggi og allan andskotann á fésbók. Ekki er lengur unnt að komast framhjá Netinu, en það er ekki eins frekt á tíma fólks og þar að auki talsvert fjölbreyttara. Mér skilst að það sé talin fullnægjandi sönnun um allan fjandann ef manni hefur verið sent tölvubréf. A.m.k. ef maður getur ekki sannað að maður hafi ekki opnað það.

Var að enda við að lesa blogg eitt eftir einhvern Magnús Sigurðsson, að mig minnir og fjallaði það allt saman um orðið Tussa. Þó minntist hann ekkert á að sumum þætti gjarnan eitthvað tussufínt, en talaði þeim mun meira um Haugtussu og tussuleg fjöll og þessháttar. Eitt sinn var talað um að einhverjir væru tussulegir og ég man að mér fannst þá vera meint að þeir væru rotinpúrulegir eða eitthvað þessháttar. Kannski hefur það verið mesti misskilningur hjá mér og átt hafi verið við að þeir væru alveg tussufínir. Úr því að Magnús þessi gat skrifað heilt blogg um þetta eina orð þá ætti mér ekki að verða skotaskuld (hvaða skuld er það annars?) að skrifa svona einsog eina klásúlu um einstakt orð sem stundum er notað um sama fyrirbrigðið og téður Magnús skrifaði um og það er orðið Pussa. Hvort skyldi nú vera álitið dónalegra orð pussa eða tussa? Mér er spurn. Þetta vildi ég gjarnan vita.

Margar auglýsingar eru um þessar mundir um það að veittur sé „allt að 70 % afsláttur “ Í raun held ég að flestir hugsi með sér þegar þeir sjá slíkar auglýsingar annaðhvort eitthvað á þessa leið: „Kannski er bara örlítið brot af því sem er til sölu þarna, sem er með 70 % afslætti“ eða einhvern vegin svona: „Ætli þetta sé ekki jafnhátt og venjuleg álagning hjá þessari verslun“. Auðvitað veit ég ekkert um það hvað aðrir hugsa, en þetta er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég sé eða heyri slíkar auglýsingar.

IMG 7820Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband