2774 - Er karlaveldið að hruni komið?

Er karlaveldið að hruni komið í Bandaríkjunum? Ein er sú stofun þar sem segja má að sé fulltrúi þess. Það er dómsmálanefnd öldungadeildarinnar. Mjög fáar konur eru í öldungadeildinni sjálfri, en þær finnast samt. Sú staðreynd blasti hinsvegar við repúblikönum að fyrir þeirra hönd var enga konu að finna í dómsmálanefndinni þegar að því kom að yfirheyra Blasey Ford og Kavanaugh. Aðeins gamla (og ekki svo gamla) karla. Þessvegna var fengin að reynslumikil kona til að yfirheyra Christine Blasey Ford um daginn. Demókratar hafa þó eina konu í þessari nefnd. Það er Dianne Feinstein. En það er meðal annars hlutverk þessarar nefndar að rannsaka þá sem tilnefndir eru til setu í Hæstarétti Bandaríkjanna. Í þessari valdamiklu nefnd eru 21 af 100 öldungardeildarþingmönnum. Skiptingin er 11 – 10 repúblikönum í vil. Einn repúblikani vildi þó rannsaka málið frekar, en það var Jeff Flake frá Arizona. Hann vildi að FBI rannsakaði þetta nánar og þessvegna frestast málið eitthvað.

Enginn þorir að nefna fílinn í stofunni þarna, en það er #MeToo byltingin og kosningarnar sem framundan eru. Allir eru skíthræddir við þessa byltingu og óttast að forysta repúblikana í báðum deildum þingsins kunni að vera í hættu og þarmeð er hugsanlegt að hitni undir Trump sjálfum. Að setja ábyrgð á þessu, á tvær manneskjur, er eitt af undarlegheitum bandarískra stjórnmála. Hvergi er karlaveldið eins fullkomið og í bandaríska þinginu. Öldungadeildin eða Senatið er þar alveg sér á parti. Ekki veit ég samt hver meðalaldur þingmanna þar er, en vafalaust er öldungadeild réttnefni. Sumir segja að bandarísk stjórnmál séu flókin og illskiljanleg, en það finnst mér ekki vera. Erfitt er samt að skilja Trump forseta stundum. Læt ég svo lokið vangaveltum mínum um bandarísk stjórnmál að þessu sinni, en af nógu er að taka.

Að sumu leyti er þetta að verða að myndarlegasta bloggi en þó getur vel verið að ég bíði eihvað með að senda það út í eterinn. Nú er laugardagsmorgunn og ég á næstum alveg eftir að fletta í gegnum hnausþykkt Fréttablað dagsins. Á morgun förum við væntanlega í afmælisveislu í Hafnarfjörðinn. Fór áðan í mína næstum því daglegu gönguferð og þó veðrið væri sæmilega gott lét sjórinn samt frekar illa og ærslabelgurinn var enn vindlaus og hvassviðrið líka.

Sennilega er best að notfæra sér ókeypis akstur um Hvalfjarðargöngin. Ætli sumir keyri þar ekki fram og aftur alla helgina til að spara sem mest. Að misheppnuðum fimmaurabröndurum frátöldum, er ég ekkert viss um að það verði mjög lengi sem hægt verði að fara ókeypis um þessi göng. Trúi ekki almennilega á það fyrr en gjaldskýlið verður rifið. Hver á það annars?

Helvítis fésbókin. Puðrar bara út í loftið einhverjum bréfun og ef þú ert svo vitlaus að lesa þau ekki og/eða að fara eftir þeim útí hörgul, ákveður þessi bókardrusla að gera eitthvað róttækt við fésbókaráskriftina þína án þess að þú vitir nokkuð af því. Ég er semsagt nýbúinn að uppgötva enn einn glæpinn sem þessi bókarandskoti hefur framið. Þreyti mína blogglesendur ekki með nánari útlistun.

Einhver mynd.Untitled Scanned 64


Bloggfærslur 29. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband