3154 - Um vinsældir

Lykillinn að því að ná vinsældum hér á Moggablogginu er að skrifa oft og reglulega. Helst daglega. Það er að segja ef það er það sem maður er að sækjast eftir. Ég sækist eftir því, sem stórhaus, eins og Brjánn sagði einhvern tíma, að vera á meðal þeirra 50 vinsælustu hérna. Allir sem skrifa hér eru stórskrýtnir. Ekki öfunda ég PallaVill af vinsældum sínum. Hann er vafalaust búinn að venja sig á fyrir löngu (það var fyrir fisk, að þessi garður var ull) að blogga á hverjum degi og alltaf um pólitík. Hægrisinnaður er hann með afbrigðum, en við því er ekki neitt að gera. Ómar Ragnarsson hefur í ellinni reynt að hamla eitthvað gegn vinsældum hans, en það gengur illa, þó hann hafi frá mörgu að segja. Það koma bara einhverjir hægrisinnar og blogga eins og enginn sé morgundagurinn. Sumir skrifa í hálfkæringi og eru gjarnan vinsælir vegna þess. Svo eru menn eins og ég, sem komast nokkuð hátt í vinsældum, en skrifa bara stundum.

IMG 3862Einhver mynd.


3153 - Gamlar vísur og fleira

Trump ætlar sér að rísa upp aftur. Svo er að skilja að Murdoch sé samt að leita sér að einhverjum nýjum til að fást við Soros og Gates. Trump var kannski einum of óútreiknanlegur. Annars er það furðulegt að miklu fleiri Bandaríkjamenn segjast vera demókratar en repúblikanar. Óheftur kapítalismi er það sem Murdoch og fleiri hægrisinnar elska. Allt endar þetta með stríði. Segi samt sem minnst um Ukrainu-stríðið. 

Að sumu leyti er ágætt að vera gamall og úreltur. Þá getur maður sér til hugarhægðar rifjað upp gamlar vísur, eins og þessa:

Þar sem enginn þekkir mann
Þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
Er þar hægt að gera.

Þetta er vísan sem er að bögglast fyrir fyrir mér akkúrat núna. og það minnir mig á aðra:

Biblían er sem böggla roð
Fyrir brjósti mínu.
Át ég hana alla í einu
Ekki kom að gagni neinu.

Þessi er líklega úr leikritinu um Skugga-Svein. Um hina veit ég ekki neitt. Gamall húsgangur, sennilega.                                                                                                                                                                                  Þetta er núsennilega orðið of langt til að nokkur nenni að lesa það. Svo best er að hætta.

IMG 3863Einhver mynd.

 


3152 - Hugleiðingar um hitt og þetta

Þegar ég verð andvaka, sem er næstum alltaf. (Þ.e.a.s. næstum allar nætur. - Kannski er það bara vegna of tíðra þvagláta. – Tími helst ekki að nota Saga Pro.) Þegar ég glaðvakna fer ég oft að skrifa, lesa eða þessháttar í tölvunni. Les nokkuð vandlega yfir það sem ég blogga. Þykist voða vel að mér og skrifa stundum gáfulegar hugleiðingar. Þó er ég að mestu leyti hættur að blogga. Furðu margir lesa þetta rugl í mér. Kannski einkum ættingjar. Nenni ekki að spekúlera mikið í því. Skynsamlegast er að blogga stutt. Ætti etv. aðallega að snúa mér að Fésbókinni, en ég er svona heldur á móti henni. Mig hefur eiginlega dagað uppi á blogginu. Furðulegt með PallaVill sem ekki skrifar um annað en pólitík (sem er leiðinda tík). Bloggar á hverjum degi og hefur marga lesendur. Nenni þessu varla lengur. Hættur.

Þetta ætlaði ég að setja upp í gær, en eitthvað hefur það farið í handaskolum. Reyni því aftur. Minnir að ég hafi líka gleymt að stækka myndina síðast þegar ég bloggaði. Ath. að allar myndirnar eru endurnýttar. Það er minna vesen.

IMG 3864Einhver mynd.


3151 - Ukraina og kettir

Þessar sífelldu kjarnorkuhótanir hjá Putín eru með öllu óþolandi. Ég get ómögulega skilið að Vesturveldin þurfi að taka mark á þeim. Þeim ætti að vera í lófa lagið að ljúka Ukrainustríðinu á stuttum tíma. Putin og hirð hans mun aldrei dirfast að gera alvöru úr þessum hótunum. Verði um að ræða kjarnorkusprengur með litla geislavirkni munu Rússar tapa mest sjálfir. Sama er að segja um ICBM-sprengjur þar mundu þeir fara sjálfir verst útúr öllu saman.

Ef dæma skal eftir því sem vestrænir fjölmiðlar segja mun fljótlega draga til mikilla tíðinda í þessu stríði og hættan á því að Putin noti kjarnorku aukast verulega. Ukrainumenn mega varla vinna eigi ekki að auka kjarnorkuhættuna. Hinn möguleikinn er sá að Putin sigri og þá mun þessi hótun verða mikið notuð.

Þannig verður víst nóvember innleggið mitt (enda er hann að verða búinn). Man ekki hve margir dagar eru síðan ég skrifaði þetta.

Kettlingurinn er ennþá hjá okkur og er ekki smákettlingur lengur heldur næstum fullvaxin læða. Við erum búin að fara með hana í viðeigandi aðgerð. Gekk þó illa að finna dýraspítalann. Inni eða útiköttur, það er spurningin.

 

Komdu kisa mín, kló er falleg þín
og grátt þitt gamla trýn.

Mikið malar þú, mér það líkar nú,
víst ertu vænsta hjú.

Banar margri mús, mitt svo verndar hús.
Ekki er í þér lús. Oft þú spilar brús.

Ofursniðug, létt og liðug,
leikur bæði snör og fús.
Við skulum drekka dús.

 

Já, við erum svo forn í skapi að þetta er það sem hún heyrir oftast af þessu tagi. Hvernig er það annars, eru engir að yrkja um ketti núorðið?

Jæja læt þessu lokið, að sinni. Kannski fer ég bráðlega að skrifa meira.

IMG 3868Einhver mynd.


3150 - ukrainustríðið

Þetta verður sennilega októberinnleggið mitt. Ekki er það sérlega merkilegt. Þó ég bloggaði tvo daga í röð í september boðaði það enga breytingu á þessu bloggleysi mínu. Kannski hressist ég einhverntíma að þessu leyti.

Ég ætlaði víst að skrifa um stríðið í Ukraínu. Alveg er ég hissa á því hvað samstaðan með Ukraínu hefur haldið lengi bæði í Evrópu og víðar. Innlimun héraðana í Ukraínu var fordæmd á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna með 143 atkvæðum gegn 4. Að vísu sátu ein 35 ríki hjá og þar á meðal voru bæði Kína og Indland, sem hingað til hafa verið talin möguleg stuðningsríki Rússa – eða réttara sagt Pútíns. Kalla má þetta stríð einkastríð hans, enda hefur hann með öllum sínum lygum og sögufölsunum, komið sér allsstaðar útúr húsi.

Ekki veit ég frekar en aðrir hvenær eða hvernig þessum ósköpum lýkur, en öruggt er að Rússar, einkum Pútín og hirð hans, mun lengi þurfa að búa við hatur Evrópuþjóða í sinn garð vegna þessa og öruggt er að stórveldisdraumar þeirra hafa beðið mikinn hnekki.

IMG 3877Einhver mynd.


3149 - Heimur versnandi/batnandi fer

Enn hef ég mikinn áhuga á heimsmálum.

Vissulega er Biden bandaríkjaforseti ekki verulega atkvæðamikill. Hann tekur þó þær pólitísku ákvarðanir sem þarf að taka. Trump var afsprengi þeirrar peningalegu óreiðu sem margir óska sér.

Að fjölyrða um eðlufólkið eins og gert var á RUV um daginn er og var ósmekklegt. Þvílíka vitleysu er best að þegja um. Beta er dauð og hún var sko engin eðla. Bretar mega hafa sína hentisemi eins og þeim sýnist, en við erum engir aftaníossar þeirra.

IMG 3881Einhver mynd.


3148 - Áttatíu ár

Nú er maður orðinn áttræður og kominn tími til að skrifa septemberinnleggið. Kannski skrifa ég meira seinna. Svo er ekki útilokað að ég fari að skrifa á Fésbókina, eins og aðrir. Stór hluti af því sem þar er sagt finnst mér samt vera óttalegt skvaldur. Eiginlega hef ég ekkert að skrifa um nema sjálfan mig. Kannski er það alveg nóg. A.m.k. voru afmæliskveðjurnar svo margar að allmargir virðast muna eftir mér.

Við fórum á Galito í gærkvöldi. Fimm saman. Minn betri helmingur bauð mér. Og á eftir fórum við til Hafdísar og Jóa til að púsla og háma í okkur ís og allskonar sælgæti. Þó ég yrði áttræður í gær var það ekkert á móti því að í fyrradag varð Helena 10 ára, sem er ólíkt merkilega frá afmælislegu sjónarmiði séð. Tinna fór í gær í fermingarfræðslu og verður þar í nokkra daga.

Hef ekki frá mörgu að segja fram yfir þetta. Líka er betra að hafa blogg innleggin í styttra lagi. Þá verða þau frekar lesin.

IMG 3884Einhver mynd.


3147 - Blogg

Einu sinni bloggaði ég daglega. Ekki veit ég hvernig ég fór að því. Staðreynd er engu að síður að það gerði ég. Þó ég hafi bloggað áður í dag er ekki þar með sagt að ég hafi eitthvað að segja núna.

Hörður er dáinn og fimmtudaginn 11. ágúst næstkomandi mun ég væntanlega fara til Hveragerðis. Einhverntíma mun röðin sjálfsagt koma að mér, en hugsum sem minnst um það.

Ég gæti náttúrulega vísað í gömul blogg eins og sumir gera. Það væri samt hálfgert svindl. Einhver af þessum rúmlega þrjúþúsund bloggum mínum hljóta þó að vera sæmileg.

Nú orðið hugsa ég mest um að hafa bloggin sem styst. Áður reyndi maður að hafa bloggin löng og ítarleg. Lesefni allt er orðið svo mikið á netinu, að engum er ætlandi að lesa það allt. Ekki einu sinni það athyglisverðasta.

Það er þar sem svokallaðir „social media“ koma inn. Allt skal vera sem allra styst. Attention spanið er orðið svo stutt hjá flestum að langlokur henta ekki. Sumir (margir) reyna eftir megi að segja sem mest í sem fæstum orðum. Orðin eru oft fá, en um innleggin að öðru leyti er best að lesendur segi sem mest. Sjálfsagt er að nota slettur mikið. A.m.k ef maður er sæmilega sannfærður um að skiljast. Auðvitað skrifar hver og einn fyrir sinn lesendahóp, sem getur verið stór eða lítill eftir atvikum.

Nú get ég sem best sagt Amen eftir efninu, eins og séra Sigvaldi forðum.

IMG 3886Einhver mynd.


3146 - Úrelt hegðun

Sé að ég hef sett sömu myndina á tvö síðustu blogg. Ég sæki alltaf þessar myndir á Moggabloggið og hef tekið þær allar sjálfur, svo ég þarf ekkert að hugsa um höfundarrétt. Talan sem er á undan fyrirsögn allra minna blogga er hlaupandi raðtala þeirra blogga sem ég hef sett á Moggabloggið. Komið hefur fyrir að ég ruglist í því en venjulega er það með því fyrsta sem ég geri þegar ég undirbý næsta blogg. Myndirnar rugla mig frekar því þær sæki ég á Moggabloggið um leið og ég set upp nýtt blogg og endurbirti þær þar. Bloggin sjálf skrifa ég í word og afrita þau svo með ctrl-c og ctrl-v.

Þetta er nú um það. Ég veit ekki hvað ég ætti að blogga um næst. Kettlingurinn sem ég sagði frá um daginn er hér ennþá, en hverfur sennilega á braut í þessari viku. Ekki er víst að ég bloggi meira fyrr en seinni partinn í Ágúst.

Margir eru óstjórnlega gáfaðir þegar rætt er um stríðið í Ukrainu og afleiðingar þess, en ég ætla ekki að hætta mér í þann söng. Auðvitað eru margir sem þekkja betur til í því efni en ég. Ekki er samt víst að þeir sem mest skrifa um þau mál séu þeir sem mest vit hafa á þeim.

Þetta er ágústinnleggið mitt ef ekki reynist verða breyting á blogghegðun minni. Vissulega eru blogg úrelt, en það er ég nú að verða líka.

IMG 3937Einhver mynd.


3145 - Sjónvarp allra landsmanna

Sennilega verður „sjónvarp allra landsmanna“ svona hundleiðinlegt í allt sumar. Í vetur var stundum hægt að horfa á það á föstudögum og jafnvel hægt að hlusta á útvarpið einstöku sinnum.

Ætlaði einmitt að vera svolítið jákvæður í dag en það er erfitt núna þegar ekki gengur á öðru en banvænum skotárásum, afsögnum og stríði. Jafnvel pólitíkusar komast upp með að fresta öllu og skipa nefndir um eitthvað sem hefði átt að vera búið að kippa í lag fyrir löngu. Muna kannski einhverjir eftir bankasölunni sem öllum kom saman um að hefði verið misheppnuð að flestu leyti. Einhver stofnun átti að skila áliti sínu á því máli í Júní síðastliðnum (eða var það kannski í Júní eftir nokkur ár?)

Sennilega verð ég að láta þetta duga fyrir júlí. Ég nenni eiginlega ekki að standa í þessu bloggveseni núna, en það getur reyndar breyst hvenær sem er.

IMG 3945Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband