Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022
30.4.2022 | 22:04
3137 - 120
Til stendur að heimurinn verði kolefnishlutlaus (tískuorð) árið 2050. Það hefur mér a.m.k. skilist. Öll stórveldin (5 eða 10 að tölu) munu fresta öllum aðgerðum í þá átt til 2049 og finna til þess ótal ástæður. Flestar verða þær afar skynsamlegar.
Hvað eiga smáríki eins og t.d. Ísland að gera í millitíðinni? Þessi spádómur er e.t.v. óhóflega svartsýnn, en enhvern vegin á þennan veg má alveg búast við að fari varðandi hnatthlýnunina.
Mannkyninu fjölgar verulega á þessu tímabili. Hjá því verður alls ekki komist. Áður en langt um líður mun væntanleg hnatthlýnun verða mjög stórt stjórnmálalegt vandamál í flestum ríkjum heims.
Kannski er svarið fyrir okkur Íslendinga að moka ofan í nógu mikið af skurðum. Skilst að ágóðinn af því hafi verið ofmetinn á svona norðlægum slóðum.
Svo getum við alltaf selt kuldann. Hann verður verðmætur að lokum. Síbería gæti orðið ríkasta og fjölmennasta ríki veraldar. Er Pútín kannski að bíða eftir því?
Þetta gæti sem best orðið maí-innleggið mitt. Um að gera að blogga öðru hvoru. Geta sagt að bloggið manns sé með þeim elstu á Moggablogginu. Kannski ég fari að auka bloggstarfsemina. Þetta hef ég tilkynnt svo lengi að allir (hundrað eða svo) hljóta að vera hættir að taka mark á því. Þetta með hundraðið minnir mig á vísuna þekktu, sem er svona:
4 8 5 og 7
14 12 og 9
11 13 eitt og tvö
18 6 og 10.
Fyrir langalöngu var talað um stórt hundrað, en ekki lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.4.2022 | 10:41
3136 - Súpu býður sitt á hvað
Á föstudaginn langa síðastliðinn fór ég í súpu til Bjössa og hitti þar systkini mín að undanteknum Björgvini að sjálfsögðu. Heim kominn gerði ég þessa vísu:
Súpu býður sitt á hvað
í svörtum pottagrélum.
Sigurbjörn í synda stað
safnar myndavélum.
Annars er ég að verða fráhverfur því að vera sífellt að slá um mig með misheppnuðum vísnaræflum eins og ég er að mestu hættur að taka myndir. Hvað gerir þú þá? Það er von að spurt sé. Ætli ég rembist ekki við að lifa sem lengst eins og margir fleiri. Finnst ég vera orðinn áttræður þó ég verði það ekki fyrr en í haust samkvæmt kirkjubókum.
Barnið spurði: Amma, hvað er menning?
Amma: Gullið mitt, það er bara svona rímorð. Rímar við þrenningu og er notað þannig.
Annars man ég eftir því að einn snúnasti kaflinn í dönskubókinni sem við lærðum í að Bifröst forðum daga hét og heitir væntanlega enn: Begribet kultur. Og ekki orð um það meir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2022 | 23:36
3135 - Ívar Hlújárn
Það er nú svoleiðis með mig. Held að sumir lesi bloggið mitt stundum, en sennilega fáir alltaf. Samt ætla ég að halda áfram. Þó ég noti fingrasetninguna sem ég lærði hjá henni Hildigunni að Bifröst fyrir margt löngu, já skömmu eftir miðja síðstu öld, þá horfi ég núorðið jafnan á stafina jafnóðum og þeir birtast á síðunni. Það gerði ég ekki forðum daga. Þá var ég líka yngri og hraustari. Man að ég svaraði auglýsingu, sennilega í Mogganum, þarsem boðin voru skipti á kvikmyndatökivél og ritvél. Þar lét ég Hrafn Gunnlaugsson fá Erica-ritvélina mína og fékk í staðinn kvikmyndatökuvél sem hann hafði fengið að gjöf. Þetta var nú bara smá namedropping hjá mér þó mér leiðist slíkt hjá öðrum. Svona er ég nú inbilskur og sjálfhverfur.
Þó ég hafi eitt sinn haft furðumikinn áhuga á myndatökum allskonar missti ég þann áhuga og fékk í staðinn bókaáhuga mikinn og las næstum yfir mig eins og sagt er. Enn þann dag í dag á ég fyrstu bókina sem ég las á ensku. Sem krakki las ég náttúrulega bara íslensku og þar var sagan af Ívari Hlújárn eftir Walter Scott í miklu uppáhaldí hjá mér. Las hana oft og lærði næstum því. Enn standa riddararnir Breki og Brjánn mér lifandi fyrir hugskotsjónum, að ógleymdum Ríkharði ljónshjarta.Tölum ekki um Sjóðrík og Rebekku hina fögru.
Man ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um að þessu sinni og læt þetta því nægja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2022 | 10:52
3134 - Margir Þorsteinar
Kannski ég sé að detta í það að blogga mun oftar en að undanförnu. Ef mér verður það á að skrifa um Ukrainu er einn Þorsteinninn ennþá óðar mættur. Þar á ég að sjálfsögðu við Þorstein Sch. Ég les ekki einu sinni langlokur hans. Briemarinn má eiga hann. Sch. er greinlega mikill stuðningsmaður Pútíns hins rússneska. Kannski Briemarinn, ég og fleiri séum undir áhrifum frá Soros og Gates. Mér bara dettur þetta svona í hug. Trumparar held ég að við séum ekki. Steini vann einu sinni á Morgunblaðinu hefur mér skilist. Ég vann lengi á Stöð 2 og fleira get ég kannski talið upp ef ég verð manaður til þess.
Ég er búinn að blogga mikið og lengi. Hef einhverntíma að ég held kallað Jón Val Jensson öfgahægrisinna en er að öðru leyti spar á stóryrðin. Sé ekki eftir því. Er á móti öllum öfgum.
Um að gera að hafa bloggin stutt. Þá eru þau frekar lesin. Kannski væri Twitter hentugur fyrir mig. Nenni samt ekki að skipta. Hef talsverðan ýmigust á Facebook en auglýsi samt bloggið mitt þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2022 | 09:42
3133 - Mannkynssaga
Þegar maðurinn komst að því að hann gat ráðið við eða forðast öll dýr merkurinnar, gerði hann sér grein fyrir því, að hann var orðinn herra jarðarinnar og nýtti sér það út í ystu æsar.
Þau tímamót í sögu heimsins gerðust að sjálfsögðu í fyrndinni og eftir það er saga mannsins í vissum skilningi saga þróunar lífsins, sem vissulega hefur nokkrum sinnum verið ógnað og þá helst af síendurteknum heimsstyrjöldum og tortímingarþrá mannsins sjálfs.
Þegar maðurinn hefur sigrast að þeirri þrá sinni að drepa sem flesta menn aðra en sjálfan sig er von til þess að mannkynið þróist áfram.
Þeirri þróun eru engin takmörk sett önnur en þau að maðurinn þrói smátt og smátt vélar sem taki völdin af honum. Takist að koma í veg fyrir það er ekkert sem kemur í veg fyrir að mannkynið leggi geiminn allan undir sig.
Það er þá helst að eitthvað annað mannkyn eða lífsform sé í rauninni komið lengra á þróunarbrautinni og útrými mannkyninu. Sú hætta er vissulega fyrir hendi, því við vitum ekki neitt um það hvort líf á öðrum hnöttum er fjandsamlegt eða vinsamlegt. Höfum samt leyfi til að vona hið síðarnefnda.
Þetta blogg er svosem alveg orðið nógu langt og ekki er hægt að segja að það fjalli um einskisverða hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2022 | 12:20
3132 - Rússarnir koma
3132 Rússarnir koma
Nú er komið talsvert fram í Apríl og ég er að mestu leyti kominn í þann farveg að ég skrifa (blogga) mánaðarlega til þess að geta bent á að ég hafi bloggað í hverjum mánuði alveg hreint óralengi. Hægt er að ganga úr skugga um slíkt útvortis á blogginu mínu. Svolítið vanda ég mig þegar ég skrifa hér og og breyti litlu sem engu eftirá. Þegar ég skrifa í hina dagbókina, sem ég geri svona öðru hvoru, læt ég mun meira vaða á súðum. Þau skrif má e.t.v. nota seinna meir til að staðsetja á tímalínu ýmsa fjölskylduatburði. Myndirnar sem ég hef tekið er líka hægt að nota til þess. (Ath. Þetta var skrifað í síðustu viku)
Á mánudaginn kemur eða þriðjudaginn er væntanlegur maður til að laga og breyta ýmsu á baðherberginu. Svo held ég að Benni og Co. fari til Tenerife fljótlega.
Af hverju í ósköpunum er ég að þessu bloggi? Sennilega er það merkilegasta varðandi mig hvað ég er í rauninni hrikalega venjulegur. Stundum finnst mér samt að ég sé afskaplega merkilegur. Líki mér jafnvel í huganum við meistara Þórberg. Hann ræktaði þó sína sérvisku og steinhætti að vinna venjulega launavinnu á unga aldri. Auk þess sem hann var greinilega langt á undan sinni samtíð í flestu eða öllu. Kannski var hann í rauninni ákaflega venjulegur að öðru leyti. Hvað veit ég?
Síðast þegar ég bloggaði fjasaði ég eihvað um Ukrainu-stríðið og þóttist voða gáfaður eins og venjulega. Kannski ég haldi því áfram. Ekki nenni ég að skrifa um kynþáttafordóma eða bankahneyksli einsog mest er í tísku þessa dagana. Sú mikla samúð sem Ukrinubúar fá um þessar mundir er ekki öruggt að þeir fái endalaust. Því miður. Ekki er líklegt að Pútín og hyski hans hætti öllum stríðsrekstri bara sísvona. Þó gæti verið að þeir sæju fljótlega hve tilgangslaust þetta er. Allir virðast vera á móti Rússum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)