Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022
21.12.2022 | 21:54
3159 - Kattablogg einu sinni enn
Myndin sem fylgdi síðasta bloggi var ekki af Doppu Dimmalimm heldur af Elizabeth von Kattholt, sem nú er dáin. Myndir eru til af Doppu en ég skirrist við að birta þær. Það var fyrir hreina tilviljun sem myndin af Lísu (eins og hún var yfirleitt kölluð) birtist þarna. Ég er nefnilega önnum kafinn við að endurnýta myndir. Þar að auki veit ég ekki hvort nokkur eftirspurn er eftir Doppu-myndum.
Held að Lísa hafi á sínum tíma kostað krónu. Kannski var það Hólmfríður Högnadóttir sem kostaði eina krónu á sínum tíma. Eiginlega finnst mér að allt ætti að kosta eina krónu í Krónunni, en það er önnur saga. Man eftir mjólkurstríðinu milli Bónuss og Krónunnar. Það var nokkru seinna sem ég gerði athugasemd við strarfsmann Krónunnar útaf verðmerkingu. Þá var mér sagt að þetta væri svona samkvæmt beinum og skýrum fyrirmælum forsætisráðherra landsins, sem á þeim tíma var Jóhanna Sigurðardóttir. Mér féll allur ketill í eld við þessar upplýsingar og sagði ekki múkk meira.
En þetta var útúrdúr. Man ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um, en líklega er þetta orðið alveg passlega langt blogg að þessu sinni.
Jú, ég held að ég hafi ætlað að skrifa eitthvað um sálarlíf katta, þó ég sé nú enginn sérfræðingur á því sviði. Kattafólk ætti að fylgjast með þessu bloggi, því vel getur verið að ég geri alvöru úr þessu bráðlega. Mér finnst merkilegra að skrifa um það en að skrifa daglega um Samherja eins og sumir gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2022 | 23:12
3158 - Doppa Dimmalimm
Það var eins og mig grunaði. Kötturinn sem við fengum hjá Bjarna og Tinna átti að fá er hagmæltur. Þó það hafi ekki komið í ljós fyrr en núna þegar hann er orðinn meira en sjö mánaða gamall er enginn vafi á þessu. Meira aftar í þessu bloggi.
Það var nefnilega þannig að Áslaug Ben. konan mín fékk Covid-19. Ég var af því tilefni sendur snimmhendis í Hafnarfjörð suður í nokkurs konar sóttkví hjá Benedikt syni mínum. Í ljós kom þó að það var að mestu marklaust, því ég var þegar smitaður. Þegar það kom í ljós fór ég heimleiðis hingað á Akranes aftur, sömuleiðis í sóttkví. Síðan hef ég rembst við að láta mér batna.
En aftur að kettinum henni Doppu Dimmalimm. Hún er af Hvalfjarðarættum, en mér skilst að þar hafi sundkunnátta verið nokkur í fornöld og eflaust hafa einhverjir verið hagmæltir þar. Í þjóðsagnasöfnum (veit ekki hve mörgum) er getið um Árna í Botni, eflaust er átt við Hvalfjarðarbotn þar (sbr, Botnssúlur). En fjölyrðum ekki meira um það.
Þegar við tókum hana að okkur var eitthvað liðið á júní í sumar. Þá var hún kassavön sem kallað er og eins og köttur í laginu. Að öðru leyti var hún pínulítil. Fæðingardagur hennar er 8. maí, en opinber fæðingardagur hennar er 10. maí.
Ekki er það með öllu óþekkt að kettir séu ljóðelskir og hagmæltir. Þó held ég að sjaldgæft sé að kettir byrji á slíku á svo ungum aldri sem hún. Sennilega gefur hún út ljóðabók um eða fyrir fermingu. Ég hef svosem fundið að hún er mjög forn í skapi, en mig óraði ekki fyrir þessum hæfileikun hennar.
Þessari vísu gaukaði hún að mér í dag. Ég get ekki annað en sett hana hingað:
Atlot Covids eru dýr.
Eins og Jólin sanna.
Eðalmaður aftur snýr.
Unnin Lokasenna.
Mér finnst nú þetta með Lokasennuna vera fulllangt seilst. En vísan er sæmileg, miðað við aldur og fyrri störf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2022 | 09:20
3157 - Um fótbolta og fleira
Sé að ég hef gleymt að setja myndina neðst, sem ég setti með síðasta bloggi. Allar þessar myndir hef ég sjálfur tekið og þær eru endurnýttar.
Apropos myndir. Ég borgaði Moggatetrinu eitt sinn 1000 krónur fyrir aukið pláss undir myndir og hef sett þær margar upp síðan. Annars er það ekki aðallega fyrir sparsemis sakir sem ég nota myndir oftar en einu sinn með bloggi. Það er ólíkt minna vesen fólgið í því.
Fyrir utan Jólin hugsa sumir um fótbolta um þessar mundir. Man óljóst eftir HM í fótbolta í Svíþjóð 1958. Þar held ég að Pele hafi verið 17 ára og skorað þrjú mörk í úrslitaleiknum í 5:2 sigri Braslíumanna. Hann er tvímælalaust merkasti knattspyrnumaður sem uppi hefur verið. Ég hef þá trú að Brasilíumenn verði heimsmeistarar að þessu sinni og leiki úrslitleik við Frakka. A.m.k. vona ég að Englendinar verði ekki heimsmeistarar. Veit ekki af hverju það er. Enska knattspyrnan er allavega samt mjög vinsæl hér á Íslandi.
Hafði enga hugmynd um spilafíkn Michaels Jordan og fleiri vandræði. Finnst hann hafa verið merkasi körfuboltamaður heimsins á sinni tíð. Ekki meira um íþróttir að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2022 | 10:35
3156 - Jólastandið
Nú er ég aftur farinn að blogg reglulega og þokast því upp vinsældalistann. Samt finnst mér ekkert eitt standa uppúr til að skrifa um.
Jólaríið er alltumlykjandi. Eins og ekkert annað en væntanleg Jólahátið geti átt sér stað. Veit ekki betur en ýmislegt merkilegra en Jólin hafi átt sér stað í desember. Svo orti Matthías að mig minnir:
Hvað boðar nýárs blessuð sól
hún boðar náttúrunnar Jól.
Kann ekki meira af þessu. En staðreynd er það samt að daginn tekur að lengja nokkrum dögum fyrir Jól. Vissulega er ástæða til að fagna því, en óþarfi er að eyða og spenna í allt það drasl sem auglýst er um þessar mundir. Nú þarf helst að kaupa Jólagjafir og þessháttar í nóvember eða fyrr. Kaupmenn eru duglegir við að auglýsa allskyns afslætti, en hvers virði eru þeir ef ekkert er vitað um raunverulegt verð? Skiljanlegt er þó að vilja losna við atið og djöfulganginn sem oft var síðustu dagana fyrir jól og þó sérstaklega á Þorláksmessu.
Man vel eftir því að við hæfi þótti að sprengja púðurkerlingar eða kínverja í Austurstræti á Þorláksmessukvöldi og vera fullur. Þar var allt pakkað af fólki enda hvorki Kringlan eða Smáralind til á þeim tíma. Unnið var víðast til hádegis á aðfangadag. Yfirleitt tíðkuðust ekki Jólaskreytingar í verslunum fyrr en eftir fyrstu helgina í desember.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2022 | 15:41
3155 - Það er nefnilega það
Nú er ég kominn í nokkurskonar bloggstuð. Veit ekki hve lengi það varir. En er á meðan er. Svo rammt kveður að bjartsýni minni eftir augnsteinaskiptin að ég skrifa þetta með sólgleraugu á nefinu. Annars er það ekki frétt heldur ekkifrétt. En á tímum allsherjar upplýsingaóreiðu er alveg sjálfsagt að stuðla að slíku. Upplýsingaóreiða held ég að þýði oftast nær lyga- eða ýkjufréttir. Þegar þessháttar er haldið að almenningi úr öllum áttum getur orðið vandlifað. Best er að trúa engu. Svo má trúa ákveðnum miðlum og engu öðru. Sumir trúa öllu sem sagt er. Einu sinni var sagt að það hlyti að vera satt sem hefði verið svart á hvítu. Svo er ekki lengur. Menn geta ráðið litnum sjálfir.
Eina jólabók er ég búinn að lesa. Hún er eftir Einar Kárason og var ákaflega fljótlesin. Hún er byggð á afreki Guðlaugs Friðþórssonar, sem flestum hlýtur að vera í fersku minni. Í fyrra minnir mig að hann hafi skrifað bók sem byggðist á flugslysinu í Héðinsfirði. Las hana líka. Þessar bækur eru mjög góðar þó maður viti sögulokin. Las líka eitthvað af Sturlungubókum hans og þótti þær sömuleiðis ágætar. Hann er greinilega sagnamaður af bestu gerð.
Þetta blogg er þegar orðið lengra en ég hugsaði mér í upphafi. Um að gera að hafa bloggin samt stuttaraleg. Þá eru þau frekar lesin. Fésbók og Twitter henta mér þó ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2022 | 10:06
3154 - Um vinsældir
Lykillinn að því að ná vinsældum hér á Moggablogginu er að skrifa oft og reglulega. Helst daglega. Það er að segja ef það er það sem maður er að sækjast eftir. Ég sækist eftir því, sem stórhaus, eins og Brjánn sagði einhvern tíma, að vera á meðal þeirra 50 vinsælustu hérna. Allir sem skrifa hér eru stórskrýtnir. Ekki öfunda ég PallaVill af vinsældum sínum. Hann er vafalaust búinn að venja sig á fyrir löngu (það var fyrir fisk, að þessi garður var ull) að blogga á hverjum degi og alltaf um pólitík. Hægrisinnaður er hann með afbrigðum, en við því er ekki neitt að gera. Ómar Ragnarsson hefur í ellinni reynt að hamla eitthvað gegn vinsældum hans, en það gengur illa, þó hann hafi frá mörgu að segja. Það koma bara einhverjir hægrisinnar og blogga eins og enginn sé morgundagurinn. Sumir skrifa í hálfkæringi og eru gjarnan vinsælir vegna þess. Svo eru menn eins og ég, sem komast nokkuð hátt í vinsældum, en skrifa bara stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.12.2022 | 05:35
3153 - Gamlar vísur og fleira
Trump ætlar sér að rísa upp aftur. Svo er að skilja að Murdoch sé samt að leita sér að einhverjum nýjum til að fást við Soros og Gates. Trump var kannski einum of óútreiknanlegur. Annars er það furðulegt að miklu fleiri Bandaríkjamenn segjast vera demókratar en repúblikanar. Óheftur kapítalismi er það sem Murdoch og fleiri hægrisinnar elska. Allt endar þetta með stríði. Segi samt sem minnst um Ukrainu-stríðið.
Að sumu leyti er ágætt að vera gamall og úreltur. Þá getur maður sér til hugarhægðar rifjað upp gamlar vísur, eins og þessa:
Þar sem enginn þekkir mann
Þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
Er þar hægt að gera.
Þetta er vísan sem er að bögglast fyrir fyrir mér akkúrat núna. og það minnir mig á aðra:
Biblían er sem böggla roð
Fyrir brjósti mínu.
Át ég hana alla í einu
Ekki kom að gagni neinu.
Þessi er líklega úr leikritinu um Skugga-Svein. Um hina veit ég ekki neitt. Gamall húsgangur, sennilega. Þetta er núsennilega orðið of langt til að nokkur nenni að lesa það. Svo best er að hætta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2022 | 17:38
3152 - Hugleiðingar um hitt og þetta
Þegar ég verð andvaka, sem er næstum alltaf. (Þ.e.a.s. næstum allar nætur. - Kannski er það bara vegna of tíðra þvagláta. Tími helst ekki að nota Saga Pro.) Þegar ég glaðvakna fer ég oft að skrifa, lesa eða þessháttar í tölvunni. Les nokkuð vandlega yfir það sem ég blogga. Þykist voða vel að mér og skrifa stundum gáfulegar hugleiðingar. Þó er ég að mestu leyti hættur að blogga. Furðu margir lesa þetta rugl í mér. Kannski einkum ættingjar. Nenni ekki að spekúlera mikið í því. Skynsamlegast er að blogga stutt. Ætti etv. aðallega að snúa mér að Fésbókinni, en ég er svona heldur á móti henni. Mig hefur eiginlega dagað uppi á blogginu. Furðulegt með PallaVill sem ekki skrifar um annað en pólitík (sem er leiðinda tík). Bloggar á hverjum degi og hefur marga lesendur. Nenni þessu varla lengur. Hættur.
Þetta ætlaði ég að setja upp í gær, en eitthvað hefur það farið í handaskolum. Reyni því aftur. Minnir að ég hafi líka gleymt að stækka myndina síðast þegar ég bloggaði. Ath. að allar myndirnar eru endurnýttar. Það er minna vesen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)