3158 - Doppa Dimmalimm

Það var eins og mig grunaði. Kötturinn sem við fengum hjá Bjarna og Tinna átti að fá er hagmæltur. Þó það hafi ekki komið í ljós fyrr en núna þegar hann er orðinn meira en sjö mánaða gamall er enginn vafi á þessu. Meira aftar í þessu bloggi.

Það var nefnilega þannig að Áslaug Ben. konan mín fékk Covid-19. Ég var af því tilefni sendur snimmhendis í Hafnarfjörð suður í nokkurs konar sóttkví hjá Benedikt syni mínum. Í ljós kom þó að það var að mestu marklaust, því ég var þegar smitaður. Þegar það kom í ljós fór ég heimleiðis hingað á Akranes aftur, sömuleiðis í sóttkví. Síðan hef ég rembst við að láta mér batna.

En aftur að kettinum henni Doppu Dimmalimm. Hún er af Hvalfjarðarættum, en mér skilst að þar hafi sundkunnátta verið nokkur í fornöld og eflaust hafa einhverjir verið hagmæltir þar. Í þjóðsagnasöfnum (veit ekki hve mörgum) er getið um Árna í Botni, eflaust er átt við Hvalfjarðarbotn þar (sbr, Botnssúlur). En fjölyrðum ekki meira um það.

Þegar við tókum hana að okkur var eitthvað liðið á júní í sumar. Þá var hún „kassavön“ sem kallað er og eins og köttur í laginu. Að öðru leyti var hún pínulítil. Fæðingardagur hennar er 8. maí, en opinber fæðingardagur hennar er 10. maí.

Ekki er það með öllu óþekkt að kettir séu ljóðelskir og hagmæltir. Þó held ég að sjaldgæft sé að kettir byrji á slíku á svo ungum aldri sem hún. Sennilega gefur hún út ljóðabók um eða fyrir fermingu. Ég hef svosem fundið að hún er mjög forn í skapi, en mig óraði ekki fyrir þessum hæfileikun hennar.

Þessari vísu gaukaði hún að mér í dag. Ég get ekki annað en sett hana hingað:

Atlot Covids eru dýr.
Eins og Jólin sanna.
Eðalmaður aftur snýr.
Unnin Lokasenna.

Mér finnst nú þetta með Lokasennuna vera fulllangt seilst. En vísan er sæmileg, miðað við aldur og fyrri störf.

IMG 3834Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eru hér nú dægrin dimm,
Doppa sér samt leikur,
dável yrkir Dimmalimm,
en dárinn Sæmi veikur.

Þorsteinn Briem, 21.12.2022 kl. 00:40

2 identicon

Hæfileikarík kisa.

Asthor Ragnarsson 3.1.2023 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband