Bloggfærslur mánaðarins, október 2021
26.10.2021 | 17:40
3113 - Snobb
Ekki er að sjá að Trump sé dauður úr öllum æðum. Nýjustu fréttir af honum herma að hann hafi ákveðið að koma á fót fjölmiðli í stíl við Facebook. Honum var nefnilega eins og kunnugt er úthýst á Twitter og Facebook og hefur síðan ekki getað verið með daglegar árásir á menn og málefni. Nú heldur hann semsagt að þetta eigi eftir að breytast. Ekki hefur hann samt tilkynnt opinberlega að hann ætli að reyna að komast í forsetaframboð árið 2024. Þar með væri hann nefnilega að viðurkenna óbeint að Biden hafi unnið síðast.
Trump hefur haldið því fram statt og stöðugt að kosningarnar í fyrra hafi verið svindlkosningar. Ég hef spáði illa fyrir honum, en við skulum sjá til. Þetta með að hann ætli að stofna sinn eigin fjölmiðil í byrjun næsta árs er víst alveg satt. Nú kemur Þorsteinn Siglaugsson sennilega og óskar mér til hamingju með að fá eitthvað til að skrifa um. Ég er samt ekki viss um að þessi fjölmiðill hans verði til stórræðanna. Fésbókin er ekkert lamb að leika sér við. Og Twitter ekki heldur. Til stendur að stofna eignarhaldsfélag og nefna eitthvað annað utanum fésbók og fleira. Sykurbergur er víst orðinn leiður á þessari sífelldu neikvæðu umræðu um fésbók.
Helmingurinn af allri þeirri svokölluðu menningarumræðu sem ber fyrir mín augu og eyru er bölvað snobb. Þetta get ég af augljósum ástæðum ekki rökstutt, því þá mundu lesendur mínir (þessir fáeinu) rísa upp á afturfæturna og mótmæla hástöfum og lofsyngja það sem ég hef rakkað niður. Vissulega er ég óttalega neikvæður, en er sú jákvæðni sem heimtuð er af öllum nokkuð betri? Já, allir þykjast vera skelfilega jákvæðir á félagslegu miðlunum, en eru oftast í raun óttalega neikvæðir. Neikvæðnin er í sannleika sagt alfa og omega okkar Íslendinga. Stundum er reynt að færa hana í jákvæðan búning, en það tekst ekki alltaf. Tilfinningavella sú og trúarhiti sem einkennir alla umfjöllun um svokallaða loftslagsvá og flóttamenn er nánast geðveikisleg og í raun neikvæð mjög, því þetta altsaman fælir í stórum stíl þá frá boðskapnum sem vel gætu fleytt honum eitthvað áfram. Í raun er þó fátt meira misnotað en blessuð geðveikin. Ef reynt er að afsaka glæpamenn og rugludalla er venjulega sagt að þeir séu geðveikir og þarmeð á að hætta að tala um þá og snúa sér að geðveiki almennt. Hún er víst stórhættuleg, að sagt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2021 | 21:26
3112 - Loftslag og þessháttar
Umhverfismál eru mikið til umræðu um þessar mundir. Loftslagsráðstefna ein mikil verður haldin í Skotlandi á næstunni. Hversvegna í Skotlandi? Það hef ég ekki hugmynd um. Samt má segja að mál þessu tengd séu hið nýja fagnaðarerindi nútímans. Margir vilja tengja þetta stjórnmálum, sem er að mestu rangt þó menn hafi mismunandi áherslur í þessum efnum.
Margir virðast hugsa sem svo: Því skyldi ég vera að leggja á mig ómælt erfiði ef aðrir geta náð sama árangri án fyrirhafnar eða kostnaðar?
Svona má ekki hugsa, því þá næst enginn árangur í stóra samhenginu. Enginn vafi er á því lengur að mannkynið og jörðin öll stefna til glötunar eða að minnsta kosti stórfelldra vandræða. Hverjum það er að kenna skiptir litlu máli. Hvernig við því verður brugðist tengist vissulega stjórnmálum. Gæðum jarðar þarf að skipta jafnar. Allt sem gert er eða ógert getur orkað tvímælis.
Ekki er hægt lengur að efast um að heimur hlýnandi fari. Deila má um hve hröð sú hlýnun sé, hverju sé um eða kenna og hver viðbrögðin eigi að vera. Þar koma stjórnmálaskoðanir til sögunnar, en hugsanlegt er að sameina megi skoðanir og gera það sem næstum allir eru sammála um. Hörðum höndum er unnið að því að kristna sem flesta. Hætt er þó við að lítið verði gert og satt að segja er ekki líklegt að mikið dragi úr hlýnuninni næstu áratugina. Þó má vona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2021 | 07:30
3111 - Voltaire
Sumir segja að heilbrigðismálin séu í algjörum ólestri og stórhættuleg hér á Íslandi. Aðrir segja að greinilega séu heilbrigðismálin á Íslandi þau langbestu í heiminum. Ómögulega getur hvorttveggja verið rétt. Hugsanlegt er að sannleikurinn sé einhversstaðar þarna á milli. Ekki ætla ég mér þá dul að segja hvoru megin við miðjuna sá sannleikur er.
Illa virðist ganga að mynda ríkisstjórn hér. Líklegast er þó að það takist fyrir rest og næstu fjögur ár verði nokkurnvegin eins og þau síðustu fjögur. Kannski má draga kófið mikla frá og líklegt er að skuldir ríkissjóðs reynist erfiðar. Svo má alveg búast við að loftslagsmálin verði mikið til umræðu. Ekkert bendir til bættra lífskjara. Þau hafa samt batnað mikið undanfarna áratugi ef rétt viðmið eru fundin.
Stuttu bloggin eru skást. Það er að segja ef oft og reglulega er bloggað. Það ætla ég að reyna að gera.
Um þessar mundir er ég að lesa Birting eftir Voltaire í þýðingu Halldórs Kiljan Laxness í útgáfu Bókmenntafélagsins frá 1975. Athyglisverð bók. Hissa á því að ég skuli ekki hafa lesið hana fyrr. Las í eina tíð allt sem ég gat komið höndum yfir og hafði einhvern smááhuga á. Man meðal annars eftir að hafa lesið ástarsögu eftir Ib Henrik Cavling sem var afar vinsæll höfundur í eina tíð. Forspjall Þorsteins Gylfasonar á undan texta Voltaires er líka áhugavert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2021 | 10:11
3110 - Játningar
Já, já. Ég er gamalmenni. Orðinn 79 ára. Bráðum áttræður semsagt. Því skyldi ég ekki lifa svona 20 til 30 ár í viðbót. Óþarfi að láta einhver meðaltöl hafa of mikil áhrif á sig. Eiginlega er ekkert að mér. Finn samt að ég er gamall að verða. Þreytist fljótt og fer mér afar hægt við allt sem ég geri. Jafnvægið, hægðirnar og þvaglátin gætu svosem verið betri. Sef líka oft illa og svitna mikið þá. En ekki er mikið við því að gera. Peningalega hef ég og við bæði tvö það betra en oftast áður. Við ég og konan mín lifum fremur spart. Með því að láta læknana og heilbrigðiskerfið hafa sinn skerf, börnin og barnabörnin einnig sitt, er vel hægt að draga fram lífið þó tekjurnar séu ekki miklar. Ekki held ég að það sé ríkisstjórninni né stjórnvöldum almennt að þakka.
Miklu fremur konunni minni. Hún teiknar og málar af miklum krafti, eldar mat og þvær þvotta en ég hugsa og hugsa en geri fremur lítið, reyni þó að vera til einhvers gagns. Les og skrifa og læt semsagt tímann líða. Það er helst að ég bloggi svolítið. Stundum oft og stundum sjaldnar. Þetta bloggvesen á mér er vel hægt að líta á sem einskonar dagbók. Hér skrifa ég um allt mögulegt. Minnst samt um sjálfan mig að ég held. Reyni ævinlega að vera sem gáfulegastur. Er ekki langskólagenginn. Hef enga pólitíska sannfæringu. Að minnsta kosti endist hún illa. Margir, einkum þeir sem hér skrifa, hafa þessa sannfæringu. Skrifa einkum um stjórnmál og víst er þar um margt um að skrifa. Of mikil pólitík er samt leiðinleg til lengdar.
Kannski er sagnfræði af öllu tagi áhugamál mitt. Um þau fræði öllsömul er líka endalaust hægt að skrifa. Rithöfundur gæti ég ekki verið. Skrifa og skrifa alla daga og birta það einu sinni á ári eða svo, það er ekki minn tebolli. Vanafastur og kenjóttur er ég vissulega, en mér finnst ég ekki vera tiltakanlega vitlaus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2021 | 08:18
3109 - Þorsteinar tveir
Eiginlega sakna ég Þorsteinanna minna. Þorsteinns (Steina) Briem og Þorsteinns Siglaugssonar. Þeir voru vanir að kommenta hér einu sinni. Svo fór ég að blogga æ sjaldnar og þá hættu þeir þessu að sjálfsögðu.
Steini Briem var ansi fundvís á skemmtilegt rím og lét ýmsar vísur flakka. Ég reyndi að svara þeim, en gekk það stundum illa. Fangaráðið var oft að taka rímorð og fleira upp hjá Steina, afbaka það og láta það duga. Steini, sem ég trúi alveg að hafi eitt sinn unnið hjá Mogga sjálfum, var líka verulega glúrinn við að finna lagagreinar og annað sem snertu það sem ég hafði verið að skrifa um.
Þorsteinn Siglaugsson var líka oft nokkuð skemmtilegur, lögfræðingur eins og margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og mikill andstæðingur Þórólfs sóttvarnarlæknis, sem hann uppnefdi gjarnan og kallaði Sóttólf. Kannski hafa fleiri gert það.
Ómar Ragnarsson og Jens Guð ásamt fleirum virtust stundum lesa bloggið mitt og kommenuðu endrum og sinnum.
Nú er mér greinilega að fara fram í því að hafa bloggin stutt.
Ég hugsa að Trump komist ekki einu sinni í framboð fyrir repúblikana árið 2024, hvað þá að hann vinni þær forsetakosningar sem þá verða. Áhrif hans verða þó einhver.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2021 | 11:20
3108 - Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela
Mér virðist einkum vera rætt hér á Moggablogginu um Covid og pólitík. Læt mér það í léttu rúmi liggja. Skrifa um allan fjandann hér og er alveg sama hvort menn lesa þessi ósköp eða ekki.
Þessi dægrin eru það einkum tveir málshættir eða orðtök sem þvælast fyrir mér. Annar er svona: Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela. Ég er nokkuð klár á óeiginlegri merkingu þessa málsháttar, en um uppruna þess og upphaflega merkingu veit ég ekki neitt, enda með öllu ólærður í þessum fræðum. Hvaða hunda er verið að tala um og hverju stela þeir? Helst hefur mér dottið í hug að um sé að ræða Grænlenska sleðahunda og að þeir steli sér matarbita. Dugnaðurinn í þeim kann að skýrast með grimmd og hungri.
Hinn málshátturinn er að ég held ævagamall og hljóðar þannig: Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.
Held að þessi málsháttur sé einskonar veðurspádómur. Vel getur verið að mér fróðari menn skýri hann á allt annan hátt, en mér datt í hug skýring á honum þegar ég var andvaka um fimm eða sexleytið í fyrrinótt. Þá settist ég útá svalir, sem eru gleri girtar. Myrkur var og stjörnubjart. Svo fór aðeins að birta. Þá sá ég eins og rönd af tunglinu rétt fyrir ofan Akrafjallið og greinilega var sólin ekki langt á eftir á himninum. Af þessu dró ég þá ályktun að gíllinn væri tunglið, en sólin úlfurinn. Kannski er þetta tóm vitleysa, en mér finnst þetta ekki fráleitt. Spurning hvort nýtt tungl sé að kvikna um þessar mundir.
Maður einn kom á bæ um vetur að kvöldi og þóttist vera blindur. Þetta gerði hann til að þurfa ekki að gera neitt á vökunni, en ætlast var til að gestir gerðu eitthvað gagnlegt þá. Þegar kona ein missti ull á gólfið sagði gesturinn: Mér heyrðist svartur ullarlagður detta. Síðan er þetta haft að orðtaki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2021 | 07:21
3107- Khashoggi
Þann 2. október 2018, eða fyrir 3 árum, fór Jamal Khashoggi í sendiráð Saudi Arabiu í Ankara í Tyrklandi til að sækja plögg varðani giftingu sína og tyrkneskrar konu. Þar var hann myrtur og sundurlimaður og ekkert hefur til hans spurst síðan. Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna lét á sér skilja að hernaðartækjakaup Saudi Arabiu í Bandaríkjunum væru mikilvægari en líf eins blaðamanns. Þetta atvik var mikið í fréttum á sínum tíma og í kosningabaráttunni s.l haust í Bandaríkjunum lýsti Biden núverandi Bandaríkjaforseti þvi yfir að hann mundi láta MBS eða Muhammad bin Salman, stjónanda Saudi Arabiu, sem sannað var af FBI, að hefði gefið skipun um morðið, gjalda þess.
Fyrir nokkrum dögum var Sullival sérstakur fulltrúi Bidens í Saudi Arabiu. Ekki til að minnast Khashoggis heldur í tilefni loftárása Saudi Araba á uppreisnarmenn í Yemen. Þannig efnir Biden kosningaloforð sín.
Annars eru Íslendingar uppteknir af kosningasvindli, stjórnarmyndun og þessháttar nú um stundir. Býst fastlega við að reynt verði að svæfa tvítalninguna í Norðvesturkjördæmi eins og Samherjahneykslið. Getur samt orðið erfitt og snúið fyrir Alþingi.
Á endanum tekst mér væntanlega að láta hvert blogg vera eina setningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)