3112 - Loftslag og þessháttar

Umhverfismál eru mikið til umræðu um þessar mundir. Loftslagsráðstefna ein mikil verður haldin í Skotlandi á næstunni. Hversvegna í Skotlandi? Það hef ég ekki hugmynd um. Samt má segja að mál þessu tengd séu hið nýja fagnaðarerindi nútímans. Margir vilja tengja þetta stjórnmálum, sem er að mestu rangt þó menn hafi mismunandi áherslur í þessum efnum.

Margir virðast hugsa sem svo: „Því skyldi ég vera að leggja á mig ómælt erfiði ef aðrir geta náð sama árangri án fyrirhafnar eða kostnaðar?“

Svona má ekki hugsa, því þá næst enginn árangur í stóra samhenginu. Enginn vafi er á því lengur að mannkynið og jörðin öll stefna til glötunar eða að minnsta kosti stórfelldra vandræða. Hverjum það er að kenna skiptir litlu máli. Hvernig við því verður brugðist tengist vissulega stjórnmálum. Gæðum jarðar þarf að skipta jafnar. Allt sem gert er eða ógert getur orkað tvímælis.

Ekki er hægt lengur að efast um að heimur hlýnandi fari. Deila má um hve hröð sú hlýnun sé, hverju sé um eða kenna og hver viðbrögðin eigi að vera. Þar koma stjórnmálaskoðanir til sögunnar, en hugsanlegt er að sameina megi skoðanir og gera það sem næstum allir eru sammála um. Hörðum höndum er unnið að því að „kristna“ sem flesta. Hætt er þó við að lítið verði gert og satt að segja er ekki líklegt að mikið dragi úr hlýnuninni næstu áratugina. Þó má vona.

IMG 4165


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmundur Barnason þú segir: Ekki er hægt lengur að efast um að heimur hlýnandi fari. Deila má um hve hröð sú hlýnun sé, hverju sé um eða kenna og hver viðbrögðin eigi að vera.

Trúboð er sannarlega í gangi og gengur út á þá trúarjátningu að hlýnunin sé af manavöldum og brýn þörf sé á að stöðva mannkynið nú þegar í tortímandi hegðun sinni, sem veldur hlýnuninni. Unnið er að því að kristna sem flesta, þ.e.a.s. að sem flestir samþykki og játi þessa trú. Og séu tilbúnir að greiða hærri skatta, enda verði þeim sagt að fé þeirra fari í að stöðva hlýnunina. Slíkt er reyndar ekki á valdi manna, heldur aðeins Guðs.

En Guð hefur ákveðið að það hlýni verulega svo um muni á jörðinni. Í 2. Pétursbréfi stendur í 3. Kafla og versi 10: En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.

Nú kemur upp hvert eldgosið af fætur öðru, á Íslandi, á Kanaríeyjum, í Japan og líklega heldur þetta svona áfram. Ekkert af þessu er af mannavöldum, eða hvað. Jú reyndar, þetta eru viðbrögð Guðs við syndum mannanna í heiminum, sem vekja upp reiði hans. En hjá Guði telst það ekki til syndar að aka um á bensínbíl í stað rafmagnsbíls. Nei, grófustu syndir okkar gegn Guði er að drepa um það bil eittþúsund barna okkar á ári í móðurkviði, börn sem hann hefur skapað og elskar.

Í Matteusarguðspjalli 4. Kafla og versi 17 stendur: Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.

Þegar við gerum iðrun og játumst Jesú Kisti, björgumst við

Guðmundur Örn Ragnarsson 21.10.2021 kl. 01:49

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er Bjarnason, ekki Barnason, en sleppum því. Sennilega er þetta bara prentvilla.

Óþarfi finnst mér að blanda Guði í þetta mál. Jafnvel villutrúarmenn eiga sinn rétt.

Æstustu boðberar sannleikans í þessu máli virðast eiga erfitt með að fallast á að einhver hluti hlýnunarinnar sé náttúrulegur. Allt mannskepnunni að kenna.

Gott er þó að hugsa sinn gang. Mannfjölgunin er geigvænleg í heiminum.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2021 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband