2915 - Karlagrobb

Úr því ég er byrjaður að skrifa karlagrobbsögur af sjálfum mér er kannski bara best að halda því áfram. Ekki er að sjá að lesendum mínum fækki verulega við það. Hugleiðingar mínar um alþjóðastjórnmál eða þá íslensk músarholustjórnmál eru sennilega lítils virði, þó ég vilji alls ekki meina að þau séu röng. Held að ég sé númer tuttugogeitthvað á vinsældalista Moggabloggsins nú um stundir. Ef mér tekst að halda mér innan við 50 þar þýðir það að ég get í færri smellum fylgst með því hvar ég er í röðinni, en það geri ég nokkuð oft.

Hef alveg sætt mig við það að deyja á sóttarsæng, en ekki af slysförum. Það er óneitanlega meiri reisn yfir því að deyja í slysförum. Lítill vandi ætti að vera fyrir skyldmenni og afkomendur að setja hulu hetjuskapar yfir slíkan dauðdaga. Oft hef ég velt því fyrir mér hvað ég muni hugsa um þegar ég veit fyrir víst að ég muni deyja fljótlega. Kannski fæ ég ekkert að vita það og held fram í rauðan dauðann að ég muni lifa, eins og ég hef alltaf gert til þessa. Ekki fær maður þó að velja sér dauðdaga og satt að segja mundi ég helst vilja komast lífs af úr slysförum. En nóg um það. Nú er ég að verða áttræður svo ég má sennilega alveg skrifa svona. Annars tíðkast það hér á landi og sennilega viðar að láta eins og dauðinn sé ekki til. Auðvitað deyja allir, annars væri ekkert spennandi að lifa. Sumir tala að vísu um að lifa lífinu lifandi, en meina ekkert sérstakt með því. Oft hef ég ætlað að skrifa einhverjar krassandi minningar en orðið að hætta við það vegna þess að hugsalega gætu aðrir gert það betur. Áður en ég dey þarf ég samt að koma ýmsu frá mér. Kannski er ég ekkert skrýtnari en aðrir, þó undarlegur sé.

Skrifaði eitthvað um Eirík á Hótelinu í síðasta bloggi. Bjarni í Kaupfélaginu var líka eftirminnilegur. Marga fleiri gæti ég nefnt, en eihvernvegin finnst mér að saman hafi safnast undarlegir menn (og konur, sem líka eru menn, bara kvenmenn – þetta var svona smáaukainnskot til heiðurs Sigurði Hreiðari, sem aldrei þreytist á að halda þessu fram). Nú, ég var víst eitthvað að tala um undarlega Hvergerðinga. Bjarni í Kaupfélaginu var svo sannarlega undarlegur. Man að ég kom einhverju sinni heim til hans og þá sá ég útbúnað, sem ég öfundaði hann mikið af. Hann hafði lagt í og drakk „skrugguna“ óblandaða (nennti semsagt ekki að breyta henni í landa) „Skrugguna“ hafði hann í 60 lítra kút upp á háalofti og hafði síðan slöngu niður þannig að hann gat hvenær sem var fengið sér sopa af miðinum. Margar fleiri sögur gæti ég sagt af honum, því ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum vel. Þessar sögur ætla ég að geyma mér þangað til seinna en segja í staðinn frá öðrum. T.d. Skafta Jósefssyni garðyrkjumanni, sem var talsverður pípureykingamaður, hafði t.d. átt sömu pípuna í ein 30 ár og ekki þurft að skipta nema 7 sinnum um haus og 8 sinnum um munnstykki.

Siggi Árna var formaður Verkalýðsfélagsins og margar sögur gengu af honum. Hann kom á fót fyrstu leirböðunum í Hveragerði og var mikill aðdáandi sovétskipulagsins. Fékk sér m.a. rússajeppa og sagt er að hann hafi byrjað á því að skrúfa dekkin undan honum og fara með þau inn í stofu og hleypa þar loftinu úr þeim. „Júððneskt loft, júððneskt loft“, á hann að hafa sagt þá. Sigurður var nefnilega svolítið smámælur og söguna átti að segja með eftirhermusniði.

IMG 6347Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Á langri ævi hefur hert
hugann, Sæmi grobbar.
Enda er hann introvert
sem engu fyrir snobbar.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.2.2020 kl. 14:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laxdalinn er lagsi minn
og löngum yrkir bögur.
Þar leynist ætíð löngunin
í lygilegar sögur.

Sæmundur Bjarnason, 20.2.2020 kl. 08:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband