Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

2912 - Wuhan og Grindavík, einu sinni enn

Wuhan-vírus eða Corona-vírus. Þó mér finnist Wuhan-vírusinn vera meira réttnefni er ekki annað að sjá en nafnið Coronavírusinn sé um það bil að sigra. Þökk sé fjölmiðlum flestum. Þó mér þyki Wuhanvirusinn vera meira réttnefni verð ég víst að beygja mig fyrir ofbeldi fjölmiðlanna. Ekki er ég samt sannfærður um að þetta sé réttara. Lítilvæg er samt umræðan um nafngiftina samanborið við veikina sjálfa. Svipað má segja um Grindavíkur-gosið. Á næstu hundrað árum eða svo er líklegt að gjósi á Reykjanesi. Sagan segir okkur það. Kannski er samt ekkert að marka hana. Sennilega erum við á Akranesi betur garderuð gegn slíkri vá. (Er „garderuð“ annars ekki sletta) Ekki er ég samt að segja að það sé þessvegna sem við fluttum hingað frá Kópavogi. Heldur ekki til að auka afl atkvæða okkar um helming (eða 100%) Önnur atriði voru mun öflugri í því. Annars er þetta dæmigerð umræða um það sem engu máli skiptir.

Apropos Wuhan-virusinn. Það er næstum öruggt að þessi slæmska verður ekki að alheimsfaraldri á sama hátt og t.d. spænska veikin. Ef hann færi að breiðast út í fleiri löndum en Kína mundi ég hafa meiri áhyggjur, en þær eru næstum engar núna. Hvort þetta ár leiðir til almenns flugviskubits eða ekki er mun nærtækara til að hafa áhyggjur af. Kolefnisjöfnun okkar Íslendinga er meiri annmörkum háð en margra annarra. Ekki er endalaust hægt að halda flugferðum utan sviga. Kannski hækka flugfargjöldin bara, þó varla sé á það bætandi.

Sá sem er aðalmentor minn í bloggskrfum um þessar mundir er Jens Guð. Hann hefur haldið tryggð við Moggabloggið eins og ég. Einhverntíma minnir mig að hann hafi kommentað á bloggið hjá mér og sagst lesa það öðru hvoru. Aldrei bloggar hann um stjórnmál. Það gerði aftur á móti sá sem ég las reglulega það til fyrir skömmu. Hann bloggaði næstum eingöngu um pólitík og hét Jónas Kristjánsson.  

Kannski væri heppilegra fyrir mig að skrifa meira um sjálfan mig, en ég hef lagt í vana minn. Ekki er það vegna þess að ég áliti sjálfan mig svo merkilegan pappír, heldur aðallega vegna þess að þeir sem blogga um fréttir og stjórnmál eru svo margir að varla er á það bætandi. Flestir vilja einkum tala um sjálfa sig eða eitthvað sem þeir telja sig hafa meira vit á en aðrir. Svo eru þeir sem helst vilja tala sem minnst. Þeir eru stundum álitnir gáfaðri en aðrir. Kannski hafa þeir bara ekkert til að tala um. Og eru ekki sérfræðingar í neinu. Þó eru þeir líklega fleiri sem tala og tala eins og skrúfað sé frá krana.

Ekki þreytist ég á því að tala um Wuhan-veiruna og ýmsar nafngitir á henni. Nýjasta nafnið á henni og það sem opinberir aðilar hafa mælt með er COVID-19. Ekki veit ég hverning það nafn er tilkomið, en líklegt er samt að fjölmiðlar taki það upp. Ekki má víst styggja Wuhan-búa, en mér skilst að þeir séu talsvert margir. Þar að auki ku Córóna-veirurnar vera margar. Spænska veikin má þó áfram heita spænska veikin. Jafnvel er hugsanlegt að einhverjir fái frönsku veikina.

IMG 6402Einhver mynd.


2911 - Wuhan-veiran og Grindavíkur-gosið

Á hverjum degi kemur mér í hug einhver vísa. Tekur sér þar bólfestu og fer ekki. Sama hvað ég reyni. Oft hefur mér komið í hug hvort ég sé ekki alltaf að endurtaka sömu visurnar. Það held ég samt ekki. Yfirleitt finnst mér að ég ráði afar litlu um það hvaða vísur mér koma í hug. Rétt áðan kom mér t.d. þessi vísa í hug. Held að þetta sé gamall húsgangur. Ekki hef ég grænan grun um hvers vegna mér kom þessi vísa í hug:

Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.

Alltaf er verið að predika yfir manni að vara sig á falsfréttum og allskonar svindli, en aldrei er minnst á öruggasta ráðið við þessu. Það er nefnilega að vera nógu tortrygginn og prófa helst aldrei neitt nýtt og vera auk þess sífellt á varðbergi og telja öll tilboð sviksamleg. Þetta hef ég prófað en auðvitað eru gallar á þessu líka. Já, það er vandlifað í veröldinni. Auðvitað er best að vera hæfilega allan andskotann, en það er bara stundum dálítið erfitt.

Afbökun málshátta og orðatiltækja getur oft verið bráðskemmtilegt tómstundagaman. T.d. las ég einhverntíma um daginn (sennilega á fésbók) að einhver talaði eða skrifaði í fullri alvöru um að skíta í lófana og hefjast handa. Líklega hefur verið átt við þarna, „að spýta í lófana.“ Sumir tala alltaf um að „ekki sé hundur í hættunni“ í staðinn fyrir hundrað, en hvaða hundrað ætli sé átt við þarna? Sumir vilja telja að þetta sé komið úr Bridsmáli og vissulega geta menn verið „í eða á hættunni“ þar en ég mundi halda að fremur sé átt við jarnðarhunduð þarna, hugsanlega stór hundruð sem mér skilst að séu jafnt og 120 nútildax. Þetta „nútildax“ er annars fremur smellið orð og vel skiljanlegt. Það minnir mig á enn eina vísu, sem er þannig:

4, 8, 5 og 7
14, 12 og 9
11, 13 eitt og tvö
18, 6 og 10

Hugsanlega er Wuhan-veiran á undanhaldi. Síðustu 24 tímana fjölgaði nýjum tilfellum ekki eins mikið og sólarhringinn á undan. Auðvitað getur þetta stafað af einhverjum mistökum í skráningu og ekkert er hægt að fullyrða um þetta núna. Kannski bæði Grindavíkur-gosið og Wuhan-veiran láti okkur í friði að þessu sinni, nóg er nú samt. A.m.k. sakar ekki svolítil bjartsýni nú í öllu svartnættinu.

IMG 6404Einhver mynd.


2910 - Bjarni Harðarson

Nei, ég er svosem ekki dauður ennþá, þó langt sé umliðið síðan ég bloggaði síðast. Eiginlega ætti ég ekki að vera að þessum andskota. Einhverjir láta þó svo lítið að lesa þetta. Sennilega eru það einkum vinir og vandamenn. Annars veit ég minnst um það. Mér nægir alveg að blogga í sífellu. Ekki þar fyrir að það væri svosem gaman að vita hverjir lesa þessi ósköp. Konan mín gerir það, að ég held, svo og systkini og afkomendur. A.m.k. flestir hverjir. Einsog ég hef áður sagt, þá bloggaði ég einu sinni daglega, en er steinhættur því, enda er það til þess eins að þynna út þessi skrif. Svo merkileg eru þau ekki. Það að ég skuli vera að þessari vitleysu á Moggablogginu hefur enga sérstaka pólitíska merkingu. Ég áskil mér fyllsta rétt til þess að vera mótsnúinn Davíð frænda ef mér þykir þess þurfa og hef engar áhyggjur af því að verða vísað héðan. Svo vitlaus er hann ekki. Vitlaus er hann samt. Fer ekki nánar útí það hér og nú.

Rithöfundur er ég ekki. Vildi samt gjarnan vera það. Bjarni frændi minn Harðarson er rithöfundur en þó hef ég ekki lesið skáldsögur eftir hann til enda, þrátt fyrir góð tilhlaup til þess. Mér finnst hann oft fyrna þar mál sitt að óþörfu. Ingibjörg systir og Hörður pabbi hans gáfu mér eitt sinn bók eftir hann í afmælisgjöf og þó skömm sé frá að segja hef ég ekki lesið hana ennþá. Hinsvegar bera ferðaþættir hans og ýmis önnur skrif af, svo og eru ræður hans bráðskemmtilegar. Þar fer hann svo sannarlega á kostum. Hann er líka einn besti og frumlegasti viðmælandi sem Egill Helgason hefur kynnt fyrir okkur í Silfri sínu. Ættfræðingur og bóksali er hann einnig par excellence og að sjálfsögðu einnig fyrrverandi þingmaður.

Sennilega eru áhrifin af heimshlýnuninni og Wuhan-veirunni ofmetin í fréttum. Vonum það a.m.k. Einnig eru líkurnar á Grindavíkugosinu vonandi ofmetnar líka. Það sem búið er af óveðri og þessháttar er þó ekki ofmetið. Áður fyrr hefði fréttaflutningur af þessum hörmungum samt verið mun minni. Kannski stafar þetta einkum af því að tímarnir eru breyttir og ekki þýðir af fárast yfir því. Keppnin á milli félagslegu miðlanna og hinna er alltaf að aukast. Þeir félagslegu eru sífellt að auka útbreiðslu sína og verða, ef útbreiðslan er mikil, að gæta sín á falsfréttunum. Þeim fjölgar mjög sem vilja auka áhrif sín sem mest og skirrast e.t.v. ekki við að dreifa fréttum sem þá grunar að séu falsaðar.

Minningar og þessháttar á fésbókinni eru varasamar. Ef t.d. eru birtar myndir af börnum, sem manni sjálfum finnst kannski vera góðar og krúttlegar, er allsekki víst að krökkunum finnist það sjálfum seinna meir. Fyrir nú utan það að þær kunna að verða misnotaðar. Netið og fésbókin gleyma aldrei neinu, menn ættu að minnast þess. Fátt er opnara en lokaðar fésbókarsíður. Munið það fyrir alla muni.

Sennilega eru myndir með því vandmeðfarnasta á fésbókinni og á blogginu. Hver nennir að lesa gömul rituð blogg eða fésbókarinnlegg eftir aðra. Sumir liggja á því lúalagi að vísa í gömul blogg, en jafnvel ég sem er greinilega með bloggarblæti nenni yfileitt ekki að sinna slíku. Hámarkið er sennilega að lesa sín eigin gömlu blogg. Það geri ég stundum, en ráðlegg hér með öðrum frá því að gera það. Seint verður það eins og að lesa eða skoða gamlar bækur.

Oft og einatt gera menn þau mistök í greinaskrifum að hafa þau of löng. Óþarft er með öllu að skrifa um allt sem manni dettur í hug í sambandi við það sem um er rætt. Kannski er ég með þessu að afsaka minn eigin veikleika, sem er greinilega sá að vaða sífellt úr einu í annað. Krafa dagsins er að koma sér undireins að efninu. Þessvega er það sem krimmar eru stundum lítið annað en dægrastytting höfundar. Plottinu væri hægt að koma fyrir á örfáum síðum. Hitt er uppfylling. Auðvitað eru höfundar misjafnir að þessu leyti.

IMG 6410Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband