Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019

2834 - Trump og Kata

Takið eftir að þið lásuð það fyrst hér og gleymið því ekki. Trump mun tapa í forsetakosningunum á næsta ári og líklegasti andstæðingur hans þar er demókratinn Joseph Robinette Biden Jr. fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Þessi spádómur byggist annarsvegar á vissu um það að erfiðleikar Donalds Trump muni fara vaxandi á næstu mánuðum. Þingið mun neyða hann til að beita neitunarvaldi sínu í fyrsta skipti á lagafrumvarp sem ógildir yfirlýsingu hans um neyðarástandið á landamærunum við Mexikó. Það mun gerast á næstu vikum.

Samtímis eða jafnvel fyrr mun Mueller skila skýrslu sinni og dómsmálin gegn honum hrannast upp. Jafnvel neyðist hann til að gera skattskýrslu sína opinbera, en gegn því hefur hann lengi barist. Margt hefur Trump samt gert sæmilega vel og satt að segja hefur hann verið ótrúlega heppinn. Allt tekur samt enda og fyrirsjáanlegt er að bandarískir kjósendur munu ekki styðja þennan oflátung lengur.

Spádómurinn um Biden er um margt óvissari. Auðvitað kemur það honum til góða að hafa verið varaforseti. Stuðningur Obama, ef hann fæst, getur líka komið honum mjög vel því völd og áhrif Obama innan demókrataflokksins eru ennþá talsverð. Erfitt er samt að sjá fyrir allt sem gerast kann á næsta ári innan demókrataflokksins, en forkosningar þar hefjast snemma á næsta ári. Þegar eru allmargir búnir að tilkynna um framboð sitt, en Biden ekki.

Erfitt er að fjalla um innanlandspólitík án þess að minnast á verkföll og verkalýðsbaráttu. Samt ætla ég að reyna.

Ekki er annað að sjá en þreytu sé talsvert farið að gæta hjá Katrínu Jakobs. Enda er það engin furða. Ekki er að sjá að hún komi neinum málum fram. Ekki dugir að hrópa hátt um óskyld mál og skipta um þau daglega eins og hún hefur gert að undanförnu. Satt að segja virðist sem henni hafi verið bannað að tala um sum mál. Annars er íslensk pólitík um margt jafnvel skrýnari en sú bandaríska og er þá mikið sagt.

Ekki veit ég fremur en aðrir hvar þingrofsheimildin liggur. Hugsanlegt er jafnvel að Guðni forseti taki ekkert mark á slíkri vitleysu. Hver veit nema það sé ímyndun valdalausra forsætisráðherra að hún sé hjá þeim. Allavega fór Sigmundur flatt á því gagnvart Ólafi kóngi. Læt ég svo útrætt um íslensk stjórnmál.

Mikið er fimbulfambað um samfélagsmiðla þessa dagana. Auðvitað er það ekkert annað en veikleiki hjá skólastjórnendum að hafa látið nemendur komast upp með að hafa og nota jafnvel snjallsíma í kennslustundum. Vitanlega er auðveldara um þetta að tala en í að komast. Ekki get ég samt vorkennt kennurum sem hafa misst allt snjalltækjavald í bekkjum sínum. Þeim hefði verið nær að taka fastar á þessu í upphafi. Auðvitað getur kennari sett allskyns reglur og ætlast til þess að þeim sé hlýtt.

IMG 7058Einhver mynd.


2833 - Þverpokar

2833 – Þverpokar

Það er nú svolítið billegt þykir mér að setja bara örsögu sem þessvegna getur verið örstutt og kalla hana blogginnlegg. Þessa samdi ég í beinu framhaldi af sögunni af Jóni á Hóli og sækýrinni, en mér finnst ansi þunnur þrettándi að kalla þetta blogg. Samt má reyna:

 

  • Hvað eru þverpokar?
  • Það er svona pokar sem eru þversum.
  • En hvað er þversum?
  • Það er, skal ég segja þér. Andstæðan við langsum.
  • En hvað er þá langsum?
  • Eitthvað sem er að endilöngu.
  • Hvað er að endilöngu?
  • Það er endanna á milli.
  • Hvað er endanna á milli?
  • Æ, hættu nú þessum spurningum.
  • Af hverju?
  • Af því bara.
  • Bara hvað?
  • Bara einhvern vegin.
  • Nú, eru þá þverpokar endalausir?
  • Það sagði ég ekki.
  • En, meintirðu það kannski?
  • Eiginlega ekki.
  • Hvað er að reiða vitið í þverpokum?
  • Að vera voða gáfaður.
  • Er það eins og að reiða á reiðhjóli?
  • Já, einmitt.
  • Ég mundi aldrei reiða neinn þversum á mínu hjóli.
  • En langsum?
  • Veit það ekki. Veit bara að ég er voða gáfaður.

 

 

IMG 7060Einhver mynd.

 


2832 - Sækýrin

Nú hefur mér loksins tekist að semja eitt stykki örsögu og fylgir hún hér með:

Sækýr eru merkilegar skepnur. Einu sinni þegar Jón á Hóli var að koma heim frá gegningum sá hann eina slíka. Hún var grá að lit eins og sagt er að þessar skepnur séu jafnan. Strax fór Jón að reyna að sprengja blöðruna sem var framan á nösunum á henni. Hann hafði nefnilega heyrt að með því mót mætti koma í veg fyrir að hún leitaði í sjóinn aftur.

Ef allt gengi síðan að óskum gæti hann kannski komið henni fyrir á auða básnum við hliðina á hinum tveimur beljunum sem hann átti. Samkvæmt sögusögnum voru sækýr mestu kostagripir.

Fyrr en varði tókst honum að komast milli kýrinnar og sjávarins og þá var mikið unnið. Kýrin var nefnilega ekkert ákaflega fljót í förum og Jóni bónda tókst eftir talsvert stímabrak að sprengja blöðruna.

Kýrin varð þá ljúf eins og lamb og leyfði honum að leiða sig inn í fjósið. Þegar þangað kom flýtti Jón sér að koma henni fyrir á auða básnum.

Hann tók nú í hendina á sjálfum sér og óskaði sér til hamingju með afrekið.

Því miður er saga þessi ekki lengri en fróðlegt hefði verið að vita hvernig kýrin reyndist. En hvernig sem leitað er í lausum blöðum frá Sighvati á Stóru-Móum hefur mér ekki tekist að finna niðurlag þessarar sögu. Og er það skaði.

- - - - - - - - - - - -

Pólitíkin er skrýtin tík. Eins og ástandið í þjóðfélaginu blasir við mér núna er ekki annað að sjá en Klausturvitleysan ætli að sigra. Ekkert hefur orðið úr háværum mótmælum feminista og annarra útaf þeim dónaskap sem hafður var í frammi á Klausturbarnum sællar eða vansællar minningar. Margir höfðu þá hátt um nauðsyn þess að hinir og þessir segðu af sér þingmennsku.

Ekkert hefur orðið úr því og verður sennilega ekki úr þessu. Sigmundur Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru þeir einu sem græða á þessu upphlaupi. Katrín litla tapar sennilega mestu. Hún er orðin alger ómerkingur orða sinna. Kannski BB hreki hana bara úr ríkisstjórninni og taka Simma í staðinn. Ekki kæmi mér það á óvart. Líka er hægt að búast við kosningum að áliðnu sumri. Mestu ræður þar hverning verkfallsmál skipast. Ég er ekki sérlega bjartsýnn á að þjóðarhagur verði hafður þar í fyrirrúmi.

Ég gæti haldið áfram að bollaleggja um þess skrýtnu tík, en sennilega þýðir það ekki neitt. Ólíklegt er að ríkisstjórnin taki sönsum og líklegast er að hún atist eitthvað áfram. Vorið og sumarir gæti liðið áður en hún gerir sér grein fyriri vanmætti sínum og sigri vinstri aflanna.

IMG 7075Einhver mynd.


2831 - Þrælahald

Hvernig er þetta eiginlega með íslensku ánægjuvogina. Allir virðast vera bestir. Hvort sem það eru Byko, Sjóvá, Nettó eða Brúttó, jafnvel Róló og Nóló gengur vel þar. Kannski er það einmitt leyndardómurinn. Bara að vera nógu jákvæður. Allir geta unnið og allir eru bestir. Um að gera.

Verkföllin gætu breiðst út. Hver veit nema þau séu næsta tískubóla. Hver hermir eftir öðrum. Sums staðar rífast menn samt um eitthvað annað. En er ekki „eitthvað annað“ einmitt betra en ólukkans verkföllin. Þetta gæti alveg endað með verkbönnun eða einhverju álíka.

Annars finnst mér að verkföllin snúist ekki aðallega um krónur og aura heldur eitthvað mun mikilvægara. Kannski bara um sjálfan grundvöll réttarríkisins. Sú spilling og yfirgangur valdsins sem tíðkast hefur lengi hér á landi hlýtur að fara að breytast. Samanborið við milljónaþjóðirnar erum við eins og hvert annað ættarmót í undirbúningi. Satt að segja erum við Íslendingar svo fáir að við ættum alveg að geta losað okkur við sérgæðin sem víðast annarsstaðar eru greinilega undirstaða spillingarinnar.

Spillingin sem byrjar með valdinu, yfirganginum og sérgæðunum er óhjákvæmileg hjá fjölmennum þjóðum. Vissulega er reynt að hamla gegn henni, en hvergi gengur það vel. Litlar og fámennar þjóðir eins og við Íslendingar ættum að eiga auðveldara með að berjast gegn henni en flestar aðrar þjóðir. Jafnvel höfum við Íslendingar stundum látið eins of við trúum því sjálf að spilling sé hér minni en víðast hvar annarsstaðar. Svo er þó ekki. Hún er bara á svolítið öðru formi en víðast er.

Yfirvöldin eru alveg jafn yfirgangssöm og þau berjast alveg jafnhart fyrir því að halda völdunum. Bara á svolítið annan hátt. Þrjóskast lengur við að segja af sér t.d. Einnig er menntahrokinn landlægur hér. Kannski er það svipað annarsstaðar, ég bara þekki það ekki, því ég er svo ómenntaður. Það er nú eitt. Áður og fyrr þá voru utanfarir eingöngu á snærum þeirra ríku og valdamiklu. Svo er ekki lengur. Vinda þurfti samt bráðan bug að því að koma Wowair á hausinn því þar með var komið í veg fyrir að pöpullinn legðist í ferðalög. Látum vera þó túrhestar glápi á landann, það sakar ekki mikið. Verst hvað auðvelt er að tala við aðra. Hvernig er það annars. „Standa þeir sem eiga símafyrirtækin sig ekki í stykkinu?“

Já, það er allsstaðar hægt að finna sökudólga, ef sú er stefnan. Verum bara feitir þrælar, það er hampaminnst. Kannski hrökkvar einhverjir eigulegir molar af borðum þeirra ríku og voldugu. Best að vera tilbúinn.

Þetta er nú eiginlega bara fimbulfamb hjá mér. Svona gæti ég haldið áfram endalaust. Samsærissögur eru brauð og leikar hinna fátæku og snauðu. Allir geta búið til þessháttar. Um að gera að æfa sig í því. Falsfréttir eru sannleikur nútímans. Samsæri eru allt um kring. Ef ekki til þess að drepa þig, þá til þess að ræna frá þér því sem þú hefur nurlað saman á langri ævi. Göngum bara í sjóinn. Það er mesta vitið.

IMG 7088Einhver mynd.


2830 - Þetta er lokaður fésbókarhópur um verkföll

Er nokkuð það til sem er opnara en lokaður fésbókarhópur? Ég held ekki. Einhverjir virðast samt halda að svo sé. A.m.k. er sífellt verið að birta einhverjar yfirlýsingar í slíkum hópum og furða sig svo á því að allir viti af þessu.

Auðvitað eru vinnudeilurnar mál málanna hérlendis þessa dagana. Mér finnst svona deilur vera hálfmarklausar ef litið er samtímis á heimsmálin. Vitanlega erum við Íslendingar afskaplega smáir og fáir í þeim skilningi að við verðum í stórum dráttum að haga okkur eins og ætlast er til af hinu óskilgreinda alþjóðasamfélagi. Í þeim skilningi verður allt smátt hér á þessari litlu eyju okkar. Mér finnst mestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga í hvaða átt mál þróast hér á landi.

Sú þróun sem hefur verið hér á landi undanfarið er öll í áttina til USA fremur en til Norðurlandanna. Þetta finnst mér a.m.k. og undanskil ég ekki verkalýðsmál. Heppilegara tel ég að við snúum okkur í vaxandi mæli til ESB landanna og Norðurlandanna alveg sérstaklega. Vissulega er það svo að öfga-þjóðernisstefna á víða miklu fylgi að fagna bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Sérstaklega þó í Bandaríkjunum.

Í sambandi við verkfallsmálin vil ég taka fram að mér finnst verkalýðsforkólfar óskapast of mikið yfir því hvað aðrir hafi í kaup. Mér finnst miklu nær að einbeita sér að því að reyna að fá laun þeirra sem lítið bera úr býtum hækkuð.

Bankastjórar eða þeir sem ákveða launin fyrir þá þurfa að gera sér grein fyrir því að með því að hækka launin eru þeir að lýsa því yfir að þeim komi ekkert við þó aðrir hafi það skítt. Einu sinni var óskapast mikið yfir því að læknar og flugmenn hefðu of há laun. Þær raddir hafa hljóðnað að mestu núna, en í staðinn er talað um bankastjóra.

Ef þeir hafa of há laun ættu verkalýðsforingjar að geta notað það sem röksemd fyrir því að hækka laun sinna umbjóðenda. Bankastjórar mega fyrir mér hafa 10 eða 20 millur á mánuði. Kannski getur það orðið til þess að laun annarra hækki. Ef ekki þá verður bara svo að vera. Best væri auðvitað að þeir ákvæðu sjálfir sín laun eins og þingmenn gerðu um árabil. Óþarfi að vorkenna þeim það. Sjáið bara forsetann. Hann er látinn vera af því hann er með Svarta Pétur og eykur í sífellu vinsældir sínar. Eiginlega ættu opinberir starfsmenn ekki að hafa verkfallsrétt. Væri ekki spennandi ef þingmenn færu í verkfall? Vonandi kemur að því.

BB segist vera hissa á kröfum launþega. Hann er þá sennilega eini Íslendingurinn sem ekki hefur vitað af því lengi, að til stæði að fara í verkfallsaðgerðir. Annars er augljóst að valdastéttin í landinu hefur yfir þúsund sinnum fleiri aðferðum að ráða til að auka tekjur sínar en verkalýðurinn. T.d. gætu veitingamenn sem best gengið úr SA og samið um hærri laun.

IMG 7093Einhver mynd.


2829 - Ferðastiklur feðginanna

Ennþá eimir svolítið eftir af klaka hér á bílastæðinu fyrir utan. Snjór er eiginlega alveg horfinn. Þegar „asahlákan“ er búin að ljúka sér af, sem væntanlega verður núna um helgina ætlast ég eiginlega til þess að vorið sé á næsta leiti. Auðvitað gæti komið páskahret og allskyns veðurkárínur, en ég ætla samt að vona að svo verði ekki. Klakabreiðurnar eru hálfleiðinlegar. Hinsvegar er maður orðinn vanur suddanum.

Verkalýðurinn er orðinn hálfórólegur núna. Og það er engin furða. Katrín forsætis virðist hafa svikið flest sem hún þóttist standa fyrir. Sagðist vera á móti hvalveiðum, Ekki vilja þetta og ekki hitt, en allt virðist vera breytt núna. Skjólið af BB og Sigurði getur farið hvenær sem er. Þeir eru að vísu stórir og stæðilegir en kannski ekki svo stórir, að þeir geti hlíft henni við dómi sögunnar.

Víðtæk verkföll virðast alveg vera inni í myndinni. Þó talsvert nýnæmi væri í útbreiddum verkföllum er ekki hægt að mæla með þeim. Maður veit aldrei á hverjum þau bitna mest. Alveg síðan Steingrímur Jóhann vildi frekar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill (eða a.m.k. minni) fiskur í stórri tjörn hefur mér óneitanlega verið svolítið í nöp við vinstri græna. Já, þetta gerðist þegar Samfylkingin var stofnuð.

Af hverju er það talið fínt að vera í götóttum gallabuxum? Eða að láta klofbótina í nefndu fati strjúkast við götuna? Skil þetta ekki. Enda hef ég aldrei skilið tísku. Tískusveiflur eru mér að mestu lokuð bók. Þó man ég að á sínum tíma, í upphafi rokkbylgjunnar, þurftu allir að vera í hvítri peysu og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Nei, tískan, sem einu sinni var með setu, er ekki fyrir mig.

Nú er ég nýkominn úr gönguferðinni og þó lognið hafi þurft að flýta sér svolítið er það þakkarvert hjá máttarvöldunum að það er orðið alveg snjólaust. A.m.k. hér á Akranesi. Nú er bara að bíða eftir vorinu eins og tíðkast hefur frá aldaöðli.

Þættir þeir í sjónvarpi allra landsmanna sem þau feðginin Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson eru skrifuð fyrir eru athyglisverðir í meira lagi. Þessir þættir eru nefndir ferðastiklur. Einkum er það myndatakan sem er eftirtektarverð. Þar hlýtur góðum drónum að vera beitt af mikilli kunnáttu. Myndavélar eru líka góðar. Í fréttablaði dagsins er hinsvegar grein eftir Gunnar V. Andrésson um fólkið á Guðmundarstöðum í Vopnafirði og þar gerir hann heldur lítið úr sögu Ómars um búskaparhætti fólksins þar. Vissulega voru þeir gamaldags, en er ekki stundum ágætt að sækjast ekki alltaf eftir því nýjasta?

IMG 7105Einhver mynd.


2828 - Ný stjórnarskrá eða ekki

Stundum getur kjöftugum ratast satt orð á munn. Ég held t.d. að það séu ekki nema hörðustu Sjálfstæðismönnum, sem dettur andartak í hug að það sem Gunnar Bragi sagði í fylliríinu margfræga á Klausturbarnum um sendiherramálin sé ekki bæði satt og rétt. Auðvitað vita allir sem vilja vita að sendiherraembætti ganga kaupum og sölum milli flokka. „Ef þú gerir þetta fyrir mig núna, skal ég svo sannarlega muna eftir þér næst þegar ég hef yfir slíku embætti að ráða.“ Hingað til hafa landsmenn litið svo á að spilling af þessu tagi væri meinlaus. En vitanlega er hún það ekki þó hún sé kannski skárri en mörg önnur spilling sem þrífst meðal stjórnenda þessa lands og allir vita um. Mörg önnur ríki úthluta einmitt slíkum embættum sem einskonar verðlaunum, ef sæmilega hæf skyldmenni finnast ekki. Að sjálfsögðu átti Gunnar Bragi að þegja yfir þessu. Fyrst hann kjaftaði frá, fær hann þetta líklega ekki. Ég bókstaflega nenni ekki að fjölyrða meira um þetta.

Auk þess að hafa áhuga á stjórnmálum almennt hef ég sérstakan áhuga á stjórnarskrármálum og Alþingisáhugi minn takmarkast oftast við hálftíma hálfvitanna svokallaðan. Kannski vita ekki allir hvað ég á víð þegar ég tala um hálftíma hálfvitanna. Þar er um að ræða fyrstu 30 mínútur hvers dags á almennum þingfundum sem sjónvarpað er.

Stjórnarskrármálin standa þannig núna að ég held að nauðsynlegt sé að koma sem fyrst að ákveðnum breytingum. Sæmileg sátt virðist vera um þessar breytingar að öðru leyti en því að eins og vanalega vill Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur alls engu breyta. Einstakir þingmenn kunna í hjarta sínu að vera hlynntir ýmsum breytingum en flokkurinn sem slíkur er alfarið á móti öllu þvíumlíku. Í stjórnarsáttmálanum er samt sem áður talað um heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Óvíst er þó með öllu að Sjálfstæðisflokkurinn viljí í raun taka þátt í slíku.

Vissulega er þeim alltaf að fjölga sem vilja láta ljós sitt skína með skrifum sínum eða einhverju öðru. Nú um stundir ber mest á þeim á fésbókinni og ekki græt ég það. Hér á Moggablogginu er á margan hátt gott að vera. Engin eru vandræðin með birtinguna og það er svo sannarlega mikils um vert. Sennilega nýt ég þess að hafa bloggað hér æði lengi. Einhverjir stunda það greinilega líka að lesa bloggin. Annars væri maður sennilega ekki að þessu. Útaf fyrir sig er alveg frábært að þurfa ekki að hafa neitt fyrir því að láta þetta virka. Er það ekki annars svo? Meðan ég held áfram að fá einstaka komment held ég áfram að halda það. Þeir sem ánetjast fésbókinni finnst kannski að blogg sé gamaldags tjáningarmáti. Svo er ekki og satt að segja hentar hann mönnum eins og mér miklu betur en fésbókarræfillinn, sem alltaf er að breytast og verður sífellt flóknari og flóknari.

Í gamla daga var rusl bara rusl. Svo er ekki lengur. Nú þarf að sortera þetta allt saman eftir kúnstarinnar reglum og ekki finnst mér það neitt verra. Samt hefur alls ekki gengið vel að mennta almenning í sorpflokkunarmálum. Þar kemur til bæði það að erfitt er að kenna gömlum hundi (eins og mér) að sitja og einnig er á það að líta að samræming í þessu efni hefur verið afar stopul og áhuginn ekki mikill. Svo hefur alls ekki verið ljóst hver ætti að sjá um þessa fullorðnismenntun.

IMG 7112Einhver mynd.


2827 - Trúgirni fjölmiðla

Eitt er það mál sem mér finnst hafa upplýst vel hvernig túlkanir á rannsóknum eru meðhöndlaðar á fjölmiðlum. Það kom fram í fjölmiðlum nýlega að samkvæmt einhverri rannsókn hefði skordýrum lílega fækkað á undanförnum árum. Fjölmiðlar voru fljótir að reikna áfram og samkvæmt þeim benti þetta til þess að skordýr fyrirfyndust ekki á jörðinni eftir svo og svo mörg ár. Auðvitað er þetta tóm tjara. Skordýr munu a.m.k. lifa manninn og jafnvel leggja undir sig jörðina í fyllingu tímans. Ekkert fær komið í veg fyrir það og þetta hefur lengi verið vitað.

Fjölmiðlar (a.m.k. flestir) stunda það að flytja falsfréttir. Hugsun þeirra er eingöngu að græða sem mesta peninga. Þó blaða- og fréttamenn séu óvitlausir verða þeir að gegna sínum yfirmönnum og skrifa eins og fyrir þá er lagt. Annars missa þeir vinnuna. Fréttastjóri ræður að öllu leyti hvaða fréttir eru birtar. Yfirleitt eru það einkum þær fréttir sem koma eigendum fjölmiðilsins best. Enda er eins gott fyrir fréttamenn að sleikja sig upp við þá. Sumar fréttir verður þó að birta án tillits til þessarar sjálfsögðu og eðlilegu kröfu. Valdastéttin verður t.d. umfram allt að halda sínum völdum. Og allt er leyfilegt til að tryggja það. Ekki síst útúrsnúningar og hálfkveðnar vísur.

Hver er munurinn á dystópíu og útópíu? Sumir mundu eflaust segja að útópía sé þjóðfélag þar sem allir séu hamingjusamir og hafi það gott, en dystópía sé þjóðfélag þar sem allt er að fara til fjandans. Menn drepi hvern annan og hópar allskonar illvirkja vaði uppi. Bækur og skáldverk sem fjalla um dystópíu eru miklu algengari en þau sem um útópíu fjalla. Ef alvarlegir og skelfilegir aðburðir gerast hvort er skelin sem verndar þegnana þykkari hjá svokölluðum lýðræðisríkjum eða þar sem einræði þrífst? Hvort eru stór eða smá þjóðfélög útsettari fyrir kaos af þessu tagi? Þetta finnst mér skipta miklu máli. Annað sem mér finnst skipta talsverðu máli eru sívaxandi tök alþjóðlegra stórfyrirtækja á smærri ríkjum. Ísland er líklega svo lítið að þau hafa ekki áhuga á því ríki. Því hefur verið haldið fram að spákaupmenn af minna taginu hafi of mikil áhrif hérlendis t.d á gengisskráningu o.fl. Vitanlega er ýmislegt fleira sem skiptir máli og hver og einn hlýtur að hafa sínar ástæður fyrir afstöðu sinni.

Á sínum tíma þegar Bandaríkin o.fl. réðust inn í Írak fannst mér þurfa ótrúlega litið til svo þjóðfélagið hryndi. Þeir sem réðust þar inn virtust heldur ekki hafa gert ráð fyrir þessu og ráðstafanir til úrbóta. Þó stefnufesta geti í sjálfu sér verið ágæt er augljóst að hún hefur orðið mjög til trafala í Sýrlandi og sama má sennilega segja um deilur Palestínumanna og Ísraela. Annars eiga deilur í Austurlöndum nær sér svo langa sögu að varla er hægt að ímynda sér að ég hafi yfir lausn á þeim að ráða.

Mér finnst áhersla sú sem þjóðir á Vesturlöndum leggja á mannréttindi og einkarétt vera það sem skilur einkum á milli okkar og þjóða í mið-austur Asíu. Þar skilst mér að víða sé lögð meiri áhersla á samstarf og samvinnu en hér á Vesturlöndum. Þeir ásar sem alþjóðleg stjórnmál munu einkum snúast um á næstu áratugum held ég að séu: Bandaríkin, EBE, Rússland og Kína. Smærri þjóðir munu væntanlega fylgja einhverju ofantalinna stórvelda. Kjarnorkuríkin verða samt hugsanlega svolítið sér á parti.

IMG 7116Einhver mynd.


2826 - Júlli prjón

Eitt er það sem mér hefur alltaf fundist vanta í mitt blogg. Það eru örsögur eða mjög stuttar sögur. Annað passar eiginlega ekki í þetta form. Nú er ég nýbúinn að finna í gömlu drasli örstutta sögu eftir sjálfan mig, sem ég er að hugsa um að setja hér inn og halda því kannski áfram, ef mér dettur eitthvað í hug. Þessi saga heitir Júlli prón og er svona:

Þannig er með Júlla prjón að hann kann ekkert að prjóna. Þessvegna er hann kallaður Júlli prjón. Auðvitað er ekki hægt að gefa öllum sem ekki kunna að prjóna slíkt viðurnefni. Ég skil samt ekki hversvegna hann er kallaður Júlli prjón. Það eru einskonar æðri vísindi sem erfitt er að skilja.

Einu sinni var Júlli á leiðinni til Hveragerðis. Hann var fótgangandi eins og venjulega því hann á engan bíl. Þá keyrir skyndilega uppað honum svartskeggjaður náungi á rauðum Bronco og segir:

„Ert þú ekki Júlli prjónn?“

„Nei, og ég held að ég þekki hann ekkert.“

„Nú, ég hélt endilega að það værir þú.“

„Af hverju?“

„Það veit ég ekki. Bara.“

„Ég er nú oft kallaður Júlli prjón.“

„Nú, er það?“

„Já, en ekki Júlli prjónn.“

„Já, svoleiðis. En viltu ekki fá að sitja í? Ég er á leiðinni til Hveragerðis.“

„Jú, takk.“

Og Júlli klöngraðist upp í jeppann og settist í framsætið við hliðina á þessum velgjörðamanni sínum.

Þeir héldu nú áfram þegjandi en Júlli var alltaf að hugsa um prjónið og sagði að lokum:

„Ég kann nú eiginlega ekkert að próna.“

„Af hverju ertu þá kallaður Júlli prjón?“

„Af því að ég kann ekki að próna.“

„Varla er það ástæðan.“

„Jú, það held ég.

„Nú, það er einkennilegt. Ég hélt að þú værir kallaður það af því þú prjónaðir svo mikið.“

Svo halda þeir áfram góða stund. Júlli er greinilega mjög hugsi og allt í einu segir hann upp úr eins manns hljóði.„

Ég væri alveg til með að læra að prjóna, en ég kann bara ekki neitt. Gætir þú kennt mér það?“

„Ha, ég?“

„Mér datt það bara svona í hug. Þú gætir kannski kennt mér eitthvað.“

„Nei, það held ég ekki.“

„Jæja, það er allt í lagi.“

Þegar þeir komu til Hveragerðis stöðvaði sá svartskeggjaði bílinn við hringtorgið og hleypti Júlla út. Júlli labbaði niður á Hótel Ljósbrá en þar var enginn heima svo hann hélt áfram og fór upp Gossabrekku og alla leið upp að Álfafelli. Þar var heldur enginn heima svo hann fór niður á veg aftur.

Þá var sá svartskeggaði einmitt að koma frá Selfossi og stoppaði hjá Júlla og spurði hann hvert hann væri að fara.

„Til Reykjavíkur“ svaraði Júlli að bragði.

„Ertu ekki nýkominn hingað til Hveragerðis?“

„Jú, en það var enginn heima svo ég verð að fara til Reykjavíkur aftur.“

„Ha?“

„Já, ég bankaði á báðar dyrnar, en það kom enginn.“

„Já, einmitt.“ Sagði sá svartskeggjaði og sagði ekki meir. Þeir óku svo alla leið til Reykjavíkur án þess að segja fleira. Sá skeggjaði var nefnilega hálfhræddur um að Júlli væri eitthvað skrýtinn. Sem var alveg rétt hjá honum.

IMG 7126Einhver mynd.


2825 - Um skordýr og fleira

Er ekki öll okkar þekking meira og minna brotakennd? Heyrði um daginn að svo og svo margir heimsæktu vísindavefinn á hverjum degi og hve mörg innleggin og spurningarnar væru. Ég á dálitið erfitt með að muna tölur (man þó símanúmer ótrúlega vel) en man þó að þessar tölur báðar voru mjög háar. Eru einhverjir sem lesa allt sem kemur inn á vísindavefinn, og skilja þeir fyllilega allt sem þar er sagt? Eru þeir sem það hafa gert, séu þeir einhverjir, þar með orðnir vísindamenn? Sennilega ekki. Allir fá líklega allskyns áreiti á heilann á hverjum degi og tengja það á sinn hátt við annað sem hefur komið annars staðar frá. Þannig held ég að þekking og trú hverrar mannveru sé einstök.

Fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á könnunum hverskonar. Ég líka. Í einhverri könnun sem ég heyrði af fyrir stuttu kom fram að meirihluti fólks áleit sjálft sig mikið yfir meðallagi hvað snerti færni við bifreiðaakstur. Ekki kom mér það á óvart. Sennilega eru langflestir ökumenn langt yfir meðallagi hvað slíkt snertir. Á þetta ekki við um margt fleira en bílakstur? Mér hefur virst að sjálfsálit margra sé mjög mikið. Ekki er það nein furða. Ef maður hefur ekki álit á sjálfum sér, hver ætti þá að hafa það?

Nú er ég greinilega kominn í þann fasann að ég er farinn að blogga á hverjum degi. Að því leyti er hægt að segja að þetta sé einskonar dagbók. Ekki get ég þó státað af því að vera fyrstur með fréttirnar. Hvað þá að ég geti haldið því fram að ég geti eins og segir í aulýsingunni „verið með fréttirnar áður en þær gerast“ eða var það kannski jafnóðum sem sagt var. Man það ekki en það skiptir varla máli.

Hundasýningar eru merkilegar fyrir kattamenn eins og mig. Oft held ég að það sé svo, að ef sýnt er frá þessum sýningum í sjónvarpi, þá fylgist hinir venjulegu and-hundaeigendur  betur með hvernig mannverurnar hlaupa heldur en hundarnir. Vonandi eru það samt fleiri sem horfa á hundana en á mannfólkið. Samt er ég ekki viss. Fólkið sem hleypur með hundunum er samt að sýna sig. Ekki mundi ég taka í mál að hlaupa með hundi á slíkri sýningu.

Man vel eftir þessari fyrirsögn í dagblaði: „Hrun í geitungastofninum“. Eiginlega var ég bara feginn. Geitungar eru þær einu flugur sem ég ber óttablandna virðingu fyrir. Líka er ég óskaplega feginn því að hvorki kakkalakkar né moskítóflugur fái þrifist hér á Íslandi. Af einhverjum ástæðum er mér meinilla við þessi kvikindi. Samkvæmt nýjustu fregnum fer skordýrum mjög fækkandi í heiminum. Veit ekki hvort ég á að gleðjast eða hryggjast yfir því. Fólki er alltaf að fjölga í veröldinni og vegna fæðuöflunar meðal annars þarf það sífellt á auknu plássi að halda. Þar með minnkar það pláss sem aðrar dýrategundir hafa til ráðstöfunar. Skordýr eru þar ekki undanskilin. Þó ég sjái mjög fá skordýr eða kóngulær (kóngulær eru ekki skordýr) um þessar mundir þýðir það ekki endilega að þeim sé að fækka. Svo getur þó vel verið og kannski kemur það til með að hafa áhrif á okkur mannfólkið.

IMG 7135Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband