Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019
11.2.2019 | 13:59
2824 - Ísbirnir og fleira
Eiginlega er ég búinn að missa að mestu áhugann á Trump Bandaríkjaforseta. Allt þetta leikrit um fjárveitingar og múrinn við Mexíkó snýst að ég held aðallega um forsetakosningarnar á næsta ári. Trump er nokkuð viss um að verða í framboði fyrir repúblikana, en allsekki er fyrirsjáanlegt hver verði á móti honum demókratamegin. Samt sem áður held ég að þessi deila um lokun stjórnkerfisins snúist að miklu leyti um sálir almennings og hvort þeir muni kjósa Trump í næstu forsetakosningum. Ekki virðist a.m.k. vera mikill sáttahugur í fólki. Hvað sem sagt er. Endalok Mueller rannsóknarinnar gætu líka skipt miklu máli.
Hér heima virðist mér að fyrst nú reyni verulega á Katrínu forsætisráðherra. Ætlar hún virkilega að láta Sjálfstæðisflokkinn verða eina flokkinn, sem verulega græðir á Klaustur-vitleysunni? Sennilega hafa lætin útaf því máli orðið meiri en stuðningsmenn þess flokks reiknuðu með.
Annars er pólitíkin leiðindatík. Ég er ekki sá eini sem held þessu fram og þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem ég segi í mínu bloggi eitthvað á þessa leið. Samt er það svo að hvernig stjórnmálamenn haga sér skiptir okkur öll verulegu máli. Áhuginn á stjórnmálaskrifum er líka heilmikill. Um það eru bloggskrif af öllu tagi og önnur skrif á netinu órækur vitnisburður. Þó er það margt sem hægt er að ræða um án þess að láta stjórnmálaskoðanir skipta öllu og margir aðrir en ég reyna það.
A local official, Alexander Minayev, said that 52 polar bears were spotted between December and February near Belushya Guba, a settlement on the Novaya Zemlya.
Þetta kemur fram í fréttaskeyti frá Tass. Einhvernvegin er það svo að manni finnst afsakanlegra fyrir íbúana í þessu þorpi á Novaya Zemlya að vilja lýsa yfir hættuástandi en að Trump Bandaríkjaforseti lýsi yfir hættuástandi vegna múrleysis við landamærin að Mexíkó.
Ísbirnir og pólitík eru reyndar ekki meðal minna helstu áhugamála. Hver eru þau eiginlega? Mér finnst þau vera allmörg, jafnvel of mörg til að telja upp hér. Vissulega hef ég áhuga á stjórnmálum í Bandaríkjunum. Mest er það vegna þess að mér finnst þau svo skrýtin. Áhugi minn á ísbjörum er hinsvegar takmarkaður. Þó allmargar sögur séu til um ísbirni hér á Íslandi, óttast ég ekki svo mjög að verða á vegi þeirra. Grimmir hundar og hálka eru mér hinsvegar dálítið áhyggjuefni. Minna þó hér á Akranesi en í Reykjavík og þar í grennd.
Öll þessi afbrotamál, sem fjölmiðlarnir hamast við að segja okkur frá, gera mann alveg ringlaðan. Einu sinni var ég öryggisvörður hjá Securitas. Sindri Þór Stefánsson sem mig minnir endilega að hafi á sakaskránni frægan flótta frá Sogni í Ölfusi var dæmdur ásamt öðrum fyrir þjófnað á tölvum úr gagnaveri. Sá sem hjálpaði þeim og ætlar að una sínum skilorðsbundna dómi var víst öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni og hefur líklega sagt þeim hvernig þeir ættu að komast inn í gagnaverið. Ekki held ég að tölvurnar hafi fundist, enda skilst mér að þær séu sérhæfðar nokkuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2019 | 16:55
2823 - Bókasafn föður míns
Er nýbúinn að lesa bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson. Þessa bók las ég spjaldanna á milli, sem er fremur sjaldgæft að ég geri núorðið. A.m.k. á þetta við um íslenskar bækur, eða eigum við að segja hlutgerðar bækur. Stundum klára ég bækur á Kyndlinum (sem er spjaldtölvan mín) en þær eru yfirleitt eða næstum alltaf á ensku. Ég fæ mér nefnilega einungis ókeypis bækur þar. Skipti talsvert við bókasafnið hér á Akranesi og glugga oft í bækur sem ég fæ þar, en les þær sjaldnast spjaldanna á milli. Hef oftast nær hálfgerðan antipata á skáldsögum og þó einkum krimmum, þó ég lesi þá svosem stundum. Eða hafi gert.
Þessi nefnda bók er um Ólaf Ragnarsson sem ég man vel eftir úr sjónvarpinu. Man að það kom mér svolítið á óvart þegar hann keypti Helgafell. Hafði nefnilega lesið talsvert um Ragnar í Smára og bókaútgáfuna Helgafell, en þekkti eiginlega ekkert til Vöku. Bókin þessi er mjög góð og bæði áhrifamikil og fyndin. Samsett er hún úr tilvitnunum og allskyns hugleiðingum án þess þó að vera endurtekningarsöm.
Við hjónin gáfum bæði Bjarna og Benna þessa bók í jólagjöf. Veit ekki hversvegna ekki Hafdísi, eflaust hefur Áslaug ráðið því. Bjarni dundar sér við bókasöfnun og Benni hefur alla tíð lesið mjög mikið. Bók þessi fjallar mikið um bækur og verðleysi þeirra auk þess að vera einskonar minningarbók um Ólaf.
Vitanlega gæti ég fjölyrt talsvert um þessa bók hér, en það er ekki minn stíll. Einmitt núna vil ég frekar tala um Kyndilinn. Þó ég noti þessa spjaldtölvu (Kindle fire fyrsta útgáfa) talsvert og komist á netið með henni nota ég hana aðallega til að fara með í rúmið og skoða bækur þar.
Þar get ég verið með aðgang að þúsundum bóka og er alveg laus við bókastaflana við náttborðið og í kringum það eins og einu sinni var. Ekki hef ég gert mikinn reka að því að fá nema ágrip og kynningu á íslenskum bókum þarna. Þar er bókasafnið betra.
Áhrifavaldar skilst mér að hafi að mestu komið í veg fyrir stækkun svokallaðrar auglýsingaköku sem hefðbundnum og öldruðum fjölmiðlum verður mjög tíðrætt um. Líka er það orðið áberandi víða á Internetinu, sem ég flækist svolítið um, hve íslenskar auglýsingar eru orðnar algengar þar. Sennilega sjá þær þó ekki aðrir en þeir sem hafa endinguna .is í því sem ég man ekki hvað heitir á tölvumáli. Kannski er það einkum yngsta fólkið, sem þó er orðið fullorðið, sem er á valdi þessara áhrifavalda. Og börn og unlingar hugsanlega líka. Annars þekki ég þá ekki neitt.
Fésbókin hefur stundum fengið það óþvegið hjá mér. Að sumu leyti finnst mér að það sem ég segi um hana geti svosem átt við um samfélagsmiðlana alla. Mér finnst t.d. ekki vitund óþægilegt að hugsa til þess að allir geti lesið allt það sem þar hefur verið skrifað gegnum tíðina. Allt sem ég læt frá mér fara geri ég ráð fyrir að allir sem minnsta áhuga hafa á því geti hindrunarlaust kynnt sér hvenær sem er.
Sumir virðast halda að samfélagsmiðlarnir svokölluðu séu alveg sambærilegir við tal eða ættum við kannski frekar að segja kjaftæði, sem bara er ætlað þeim sem það hlusta á. Svo er ekki. Sumir þessara miðla halda því fram að eftir svo og svo langan tíma sé því eytt, sem skrifað hefur verið eða birt, en hvaða sönnur eru fyrir því og geta ekki þeir sem vilja tekið afrit á þeim tíma?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2019 | 09:17
2822 - Kambsmálið (ekki Kambsránið)
Eins og flestir eða allir vita hefjast fyrstu þingfundir hvers dags á því að þingmenn fá tíma til að ræða um störf þingsins eða koma með óundirbúar fyrirspurnir, venjulega eru þær greinilega eitthvað undirbúnar, en vafalaust lítið. Held að það hafi verið Jónas heitinn Kristjánsson fyrrum ritsjóri sem fann uppá því að kalla þetta hálftíma hálfvitanna. Að mörgu leyti er það réttnefni því satt að segja eiga þingmenn það til að haga sér eins og hálfvitar í þessum undanfara alvarlegra þingfunda um löggjafarmálefni. Sjálfur lít ég a.m.k. á umræðurnar um störf þingsins eins og nokkurskonar videóblogg þingmanna, því þar geta þeir talað um hvaðeina sem þeim dettur í hug.
Hálfvitagangur þingmann birtist okkur fávísum áhorfendum einkum í því að sumir þeirra stunda það að nota í andsvörum þær mínútur sem þeir mögulega mega nota í stað þess á segja á 5 sekúndum eða svo það sem þeir meina. Annað tækifæri fá þingmenn til að láta í ljós hálfvitagang sinn er þegar þeir gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Stundum eru þó þessar athugasemdir réttmætar. Forseti þingsins er svo kapítuli útaf fyrir sig og ráðherrarnir líka. Núorðið er litið niður á þá þingmenn sem fara áberandi fullir í ræðustól. Jafnvel er drykkjuskapur litinn hornauga á vinnustaðnum. Gott ef þingmenn þurfa ekki að fara alla leið útá Klausturbar til að fá sér bjór.
Það eina sem mér þykir svolítið skrýtið í sambandi við Klaustursmálið er að Bára Halldórsdóttir skuli hafa ákveðið nokkrum dögum eftir drykkjurausið að koma fram undir nafni. Ég hefði haldið að hún hefði ekki þurft þess. Kannski sá hún ofsjónum yfir því að einhver nafnlaus mundi hljóta heiðurinn af öllu saman. Nú er það semsagt komið í ljós að Sjálfgræðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem græðir á þessum Klausturósköpum.
Eru allar hugdettur allra jafgildar? Eru þær t.d. skáldskapur? Samanlagðar hugdettur á íslensku eru varla eins margar og á sumum öðrum þjóðtungum? Eru hugdettur kannski þjóðtungulausar, og þá kannski aldrei færðar í orð? Hvernig á þá að finna þær? Eru þær kannski endalausar mínus ein? Hvurslags endileysa er þetta? Mér væri sennilega nær að skrifa eitthvað um Kambsmálið.
Þann 4. júni 1953 mætti hreppstjóri Árneshrepps að bænum Kambi í sömu sveit til þess að bjóða upp dánarbú heimilisföðurins, sem látist hafði fyrr á árinu. Húsmóðirin var á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir einungis börnin, átta talsins og á aldrinum 7 til 18 ára. Þegar búið var að selja hæstbjóðendum allt sem nýtilegt var af búsmunum, stóð til að ráðstafa barnaskaranum á heimili í sveitinni eftir fornum reglum um sveitarómaga. Þá gerist það að átján ára heimasæta stillir sér upp í útidyrum og fyrirbýður að nokkurt systkina hennar verði tekið í burtu af heimilinu. Eftir nokkurt stímabrak lúpast yfirvöld af bænum og skilja börnin eftir í reiðileysi.
Takið eftir því, kæru lesendur að þetta gerðist árið 1953, en ekki átjáhundruð og eitthvað, eða sautjánhundruð og súrkál. Nei þetta var árið 1953. Sjálfur hef ég verið orðinn tíu ára þegar þetta var. Kannski hefur höfundurinn fært þetta eitthvað í stílinn, en ekki er hægt að mótmæla því að þetta uppboð fór fram. Fyrir því eru óyggjandi sannanir. Líka er það staðreynd að hreppstjóratuskan hefur haft einhvern samviskusnepil. A.m.k. lúskraðist hann í burtu, án þess að koma fyrirætlun sinni að fullu í framkvæmd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2019 | 15:37
2821 - Dönsk strá og pálmar
Um daginn skrifaði ég um Íslendingabrag Jóns Ólafssonar. Danahatur eins og það birtist þar var kannski algengt á þeim tíma og jafnvel lengur. Í þá átt bendir t.d. Íslandssaga sú sem Hriflu-Jónas skrifaði og kennd var í skólum lengi vel og ég og fleiri af minni kynslóð voru gegnsýrð af. Sú bók einkenndist af óvild í garð Dana. Síðar meir finnst mér að sagnfræðingar hafi hneigst til mun meiri óvildar í garð innlendra stóreignamanna og afsakana í garð Dana. Sennilega er sannleikurinn þarna mitt á milli. Staðreynd er að stórveldisdraumar Dana á fyrri öldum leiddu oft til þess að dönsk stjórnvöld litu á Ísland og Íslendinga sem einskonar skiptimynt í friðarsamningum. Kannski var danskur almenningur almennt hlynntari Íslendingum en stundum er látið í veðri vaka. Líklega hafði hann samt sem áður engan eða lítinn áhuga á Íslandi og vissi jafnvel ekki að það væri til.
Pálmatré hefur verið skipulagt að hafa einhversstaðar. Ég man ekki hvar. Umtöluð eru þau samt og ég hef einkum það að segja um þau að viðhaldið á þeim og hólkunum í kringum þau, getur orðið meira og dýrara en gert er ráð fyrir. Sé hita, vökvun og gegnsæi plastins eða glersins haldið í góðu horfi um langa framtíð, sé ég ekkert í veginum með að þau geti lifað. Jafnvel er ekki útilokað að eitthvað af þeim draumum sem aðstandendur þeirra hafa um nánasta umhverfi þeirra geti ræst ef nógu vel er hugsað um þau. Um verðið hef ég ekkert sérstakt að segja. Ef viðmiðanir eru réttar og sanngjarnar er ekkert víst að það sé svo hrikalega hátt. Verktakar borga, að hluta er sagt, og ekki vorkenni ég þeim það. Fáir eða engir byggja hús sín sjálfir núorðið eins og áður tíðkaðist. Nú eru það fyrirtæki (kverktakar) sem um slíkt sjá.
Erfitt er að skrifa um alþjóðleg málefni án þess að minnast á Venezúela. Forseti og helsti ráðamaður þar er Nikulás nokkur Maduro sem er arftaki kommúnistans Hugo Chaves. Ýmislegt er þar að og verðbólga mikil ásamt skorti á ýmsu. Reynt er að fá Maduro til að leggja niður völd með góðu en ekki er útlit fyrir að það takist. Eins og víða annars staðar er það í raun herinn sem flestu ræður. Hingað til hefur hann staðið með Maduro en ekki er víst að svo verði til langframa. Ekki er líklegt að Bandaríkjamenn ráðist þar inn þó Trump vilji það kannski. Alþjóðlegi fréttamannahópurinn er sennilega að flytja sig frá Sýrlandi til Venezúela um þessar mundir. Margir búast við borgarastyrjöld þar og líklegt er að fleiri flækist í þau mál. Deilurnar eru a.m.k. magnaðar.
Veðrið er sérlega fagurt núna. Dálítið frost að vísu en sólskin og nánast logn. Að sjálfsögðu er snjór yfir öllu og birtan mikil. Spáð er versnandi veðri og satt að segja óttast ég að svell og hálka kunni að myndast á næstu dögum. Ekki er fyrir það að synja að pálmatré og strandlíf heilli Íslendinga núna og frá því sjónarmiði er réttast að líta á fyrirhugaðar pálma-hugmyndir. Að mestu er nú hætt að tala um bragga og dönsk strá og í staðinn hafa tekið við pálmar, sem hugsanlega eru danskir líka. Er það virkilega svo að allt sem slæmt er komi frá Danmörku?
Jón Baldvin Hannibalsson berst nú um á hæl og hnakka og þykist enginn karlpungur vera. Því er þó ekki að neita að oft er það svo að þar sem reykur er mikill, leynist eldur undir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2019 | 23:13
2820 - Íslendingabragur
Eitt allra frægasta og umtalaðasta kvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu er án efa Íslendingabragur Jóns Ólafssonar ritstjóra skálds og síðar alþingismanns (1850-1916), sem birtist fyrst í tímaritinu Baldri þann 19. mars 1870 með nótnasetningu. Hægt var semsagt að syngja kvæðið og lagið er það sama og við franska þjóðsönginn Marseillesinn - Höfundurinn var aðeins 19 ára gamall þegar kvæðið birtist. Þó var hann í raun ritstjóri Baldurs og hafði verið það í svona tvö ár. Ekki eru tök á því að birta allt kvæðið hér í örstuttu bloggi, enda er það næstum 150 ára gamalt og tungutak dálítið breytt. Ef til vill er þetta frægasti kafli þess:
En þeir fólar, sem frelsi vort svíkja
og flýja í lið með níðingafans,
sem af útlendum upphefð sér sníkja,
eru svívirða og pest föðurlands.
Bölvi þeim ættjörð á deyjanda degi,
daprasta formæling ýli þeim strá,
en brimrót, fossar, fjöllin há
veiti frið stundar-langan þeim eigi.
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.
Þetta kvæði varð samstundis frægt um allt land. Loks var hann svo auðvitað kærður af Hilmari Finsen stiftamtmanni og útgáfa Baldurs stöðvuð. Þó Jón væri sýknaður af alvarlegustu kröfunum hér á Íslandi, var málinu áfrýjað til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn og hann þurfti að borga allan málskostnað og flýði í framhaldinu til Noregs þann 10. október 1870. Kvæðið kveðju til Íslands orti hann þá og það hefst þannig:
Íslands tindar sökkva í sjá
sjónum fyrir mínum.
Skyldi ég oftar Frón ei fá
faðmi að sveipast þínum?
Margar bækur mætti skrifa um Jón þennan Ólafsson. Hann var sannur ævintýramaður og flæktist víða um lönd. Fór meðal annars til Alaska og ferðaðist þar um. Kynntist þáverandi Bandaríkjaforseta Ulysses S. Grant, gerði samkomulag við hann eða stjórn hans um að Íslendingar flyttu til Kodiak-eyju undan Vesturströnd Ameríku, sem Banadríkjamenn réðu. Úr því varð þó ekki. Seinna kom hann svo aftur til Íslands og hafði afskipti af ýmsu. Stofnaði prentsmiðju, gaf út tímarit og margt fleira. Alkunnugt er ennþá a.m.k. eitt kvæði eftir hann og hefst það þannig: Máninn hátt á himni skín.
Það var Þorsteinn Thorarensen sem skrifað dálítið (35 bls.) um Jón Ólafsson í bók sinni ELDUR Í ÆÐUM sem Fjölvi gaf út árið 1967. Ég studdist dálítið við þá frásögn við þetta blogg. Sennilega er ekki ástæða til að blogga meira að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.2.2019 | 23:21
2819 - Vinstri og hægri
Áður fyrr var alltaf talað um milljónir, nú þykir ekki fínt að tala um minna en milljarða. Man vel eftir því þegar fjárlög Íslenska ríkisins fóru í fyrsta skipti yfir eitt þúsund milljónir. Man samt ekki greinilega hvort það var fyrir eða eftir gjaldmiðilsbreytinguna sem ég held að hafi átt sér stað um 1980. Hlýtur eiginlega að hafa verið eftir hana. Man nefnilega vel eftir því að við verslunarstjórarnir hjá Kaupfélagi Borgfirðinga báðum Skúla Ingvarsson gjaldkera Kaupfélagsins að gæta þess að kaup okkar færi ekki yfir milljón á mánuði. Í gríni auðvitað og hann skildi það örugglega þannig. Þetta hlýtur að hafa verið áður en tvö núll voru tekin af krónunni og nýir seðlar teknir í notkun.
En ég var að tala um milljónir og milljarða. Fyrir að stela smápeningum eins og milljónum er hengt grimmilega, en ef stolið er milljörðum er tekið í höndina á mönnum og þeir mærðir af félögum sínum og mörgum fleirum. Satt að segja stefnum við Íslendingar hraðbyri í átt til Bandarískrar menningar. Sú menning hefur sogað til sín auð allrar veraldar auk þess að búa í frjósömu landi og að útrýma svotil indíánum. Þó eru milljónir manna og kvenna þar á vonarvöl. Þeir ríkustu þar fleyta rjómann af auðæfum heimsins og velta sér uppúr honum.
Verst er að kommúisminn hefur mistekist víðast hvar, þar sem honum hefur verið komið á. Við megum samt ekki láta eins og kapítalisminn hafi sigrað, því það hefur hann alls ekki gert, þó hann þykist eiga Guð almáttugan. Miðjumoðið er það sem blívur. Margir sjá drottnum alþjóðlegu auðhringanna sem helstu og mestu ógn mannkyns. Einhverjir sjá Kínverja sem lausnara heimsins en þeir eru gallagripir. Þó þjóðskipulagið í Kína sé eftirtektarvert er ekki víst að það henti okkar vestræna hugsunarhætti.
Þó ég tali stundum eins og sá sem valdið hefur, er ég í rauninni fullur efasemda. Sérstaklega á þetta við um vinstri og hægri sinnuð viðhorf. Ekki finnst mér ég geta fallist á sum vinstri sjónarmið og mörgum hægri sinnuðum slíkum er ég alfarið á móti þó ég bloggi hér á Moggablogginu og forðist að verða of háður fésbókinni.
Í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum voru tvær múslimskar konur kjörnar í fulltrúadeildina. Eins og kunnugt er þá eru Ísraelsvinir ákaflega öflugir í USA og er þá ekki eingöngu átt við ríku íhaldsmennina í repúblikanaflokknum, heldur eru gyðingar einnig mjög fjölmennir í demókrataflokknum. Staða þessara kvenna er því mjög erfið. Þær eru af palestínskum og sómalískum uppruna og njóta sín alls ekki innanum íhaldssinnaða þingmenn þar. Oft eru þær kallaðar Gyðingahatarar og jafnvel eitthvað þaðan af verra. Evrópskir stjórnmálamenn eru upp til hópa hlynntari Palestínumönnum en Ísraelsku stjórninni. Unga kyslóðin í Bandaríkjunum hefur pólitískar áherslur sem líkjast meira Evrópskum hugmyndum en íhaldssömum.
Einhverntíma ætla ég að skrifa um Brexit. Ég hef mjög ákveðnar skoðanir í því efni, en hef ekki kynnt mér það efni hingað til eins vel og Bandarísk stjórnmál. Mest af því sem við Íslendingar heyrum um það mál er annaðhvort þýddar eða endursagðar greinar úr erlendum fjölmiðlum sýnist mér. Ríkisútvarpið reynir þó að gera eitthvað af viti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2019 | 23:42
2818 - Bakki kostaði ríkið 4,2 milljarða
Nú er víst kominn febrúar, svo óhætt ætti að vera að fara að hlakka til vorsins. Ekki er þó beinlínis hægt að segja að það sé á næstu grösum, enda engin grös sjáanleg núna hvað sem kann að leynast undir snjónum. Já, það er snjór núna yfir öllu þó það sé ekki mjög algengt hér á Akranesi. Verið er að kvarta yfir hörkufrosti í henni Reykjavík en hér er frostið ekki nema fáeinar gráður. Margir keppast við að dásama snjóinn, en ég geri það ekki.
Frekar vil ég myrkrið, frostleysið og rigninguna. Kann heldur ekkert á skíðum og hér eru hvort eð er engar skíðabrekkur í nánd. Þrátt fyrir að oft sé talað um öfgar í veðurfari held ég að oftar hafi verið farið á skauta o.þ.h. hér áður fyrr. Þó ég sé orðinn nokkuð gamall og það megi sjálfsagt sjá á göngulaginu óttast ég allsekki hálku meðan frost er. En þegar frostleysið kemur aftur má eflaust búast við hálku og slabbi í einhvern tíma og þá er okkur gamalmennunum hætt.
Superbowl er víst á sunnudaginn og mér skilst að Los Angeles Rams og New England Patriots muni þá keppa í Atlanta. Ekki hef ég mikinn áhuga á þeim leik en um úrslitin mun ég sennilega forvitnast daginn eftir. Kannski kemst ég ekki hjá því að fá að vita hvor sigrar og hvernig, en mér er svosem alveg sama. Held að Bandaríkjamenn hafi meiri áhuga á þessu en mörgu öðru.
Fórum í bæinn í gær, til að passa Helenu. Eða var það kannski hún sem passaði okkur? Áslaug keyrði í Hafnarfjörð, en ég til baka. Svolítill skafrenningur var á leiðinni en svosem ekki til trafala. Þó fórum við kannski lítið eitt hægar en venjulega.
Það var þann 17. janúar s.l., sem Bjarni sonur okkar lenti í bílslysi, en slapp næstum ómeiddur úr því. Hann var um ellefuleytið um kvöldið að koma úr vinnunni hingað niður á Akranes til að sækja Tinnu dóttur sína, sem verður unglingur á þessu ári. Er semsagt bara 9 ára núna. Hann keyrði útaf veginum vegna hálku og bíllinn fór þónokkrar veltur og skemmdist mikið og er sennilega ónýtur með öllu.
Bakki kostaði ríkið 4,2 milljarða. Æpir mbl.is í stórri fyrirsögn. Getur verið að Bjarni Benediksson sé með þessu að gagnrýna Steingrím Jóhann Sigfússon? Já, ég er að persónugera þetta svolítið. Bjarni Benediksson hlýtur að tala í nafni Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið eiginlega líka. Húsvíkingar og reyndar allir íbúar Norð-Austurlands hljóta að þakka Steingrími J. öðrum fremur fyrir kísilverksmiðjuna á Bakka. Er þá ekki hægt að líta svo á að Sjálfstæðisflokkurinn sé að kenna vinstri-grænum um það að ríkið hafi eytt í óþarfa 4,2 milljörðum? Svo getur hugsast, og jafnvel meira en það að sumra áliti, að ríkið tapi fyrir rest einhverju á Vaðlaheiðargöngunum. Ég er svosem ekki að segja að íbúarnir þarna eigi þetta ekki skilið. En samanborðið við aðra landshluta eru þetta talsverðar upphæðir hjá fámennri þjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)