2826 - Júlli prjón

Eitt er það sem mér hefur alltaf fundist vanta í mitt blogg. Það eru örsögur eða mjög stuttar sögur. Annað passar eiginlega ekki í þetta form. Nú er ég nýbúinn að finna í gömlu drasli örstutta sögu eftir sjálfan mig, sem ég er að hugsa um að setja hér inn og halda því kannski áfram, ef mér dettur eitthvað í hug. Þessi saga heitir Júlli prón og er svona:

Þannig er með Júlla prjón að hann kann ekkert að prjóna. Þessvegna er hann kallaður Júlli prjón. Auðvitað er ekki hægt að gefa öllum sem ekki kunna að prjóna slíkt viðurnefni. Ég skil samt ekki hversvegna hann er kallaður Júlli prjón. Það eru einskonar æðri vísindi sem erfitt er að skilja.

Einu sinni var Júlli á leiðinni til Hveragerðis. Hann var fótgangandi eins og venjulega því hann á engan bíl. Þá keyrir skyndilega uppað honum svartskeggjaður náungi á rauðum Bronco og segir:

„Ert þú ekki Júlli prjónn?“

„Nei, og ég held að ég þekki hann ekkert.“

„Nú, ég hélt endilega að það værir þú.“

„Af hverju?“

„Það veit ég ekki. Bara.“

„Ég er nú oft kallaður Júlli prjón.“

„Nú, er það?“

„Já, en ekki Júlli prjónn.“

„Já, svoleiðis. En viltu ekki fá að sitja í? Ég er á leiðinni til Hveragerðis.“

„Jú, takk.“

Og Júlli klöngraðist upp í jeppann og settist í framsætið við hliðina á þessum velgjörðamanni sínum.

Þeir héldu nú áfram þegjandi en Júlli var alltaf að hugsa um prjónið og sagði að lokum:

„Ég kann nú eiginlega ekkert að próna.“

„Af hverju ertu þá kallaður Júlli prjón?“

„Af því að ég kann ekki að próna.“

„Varla er það ástæðan.“

„Jú, það held ég.

„Nú, það er einkennilegt. Ég hélt að þú værir kallaður það af því þú prjónaðir svo mikið.“

Svo halda þeir áfram góða stund. Júlli er greinilega mjög hugsi og allt í einu segir hann upp úr eins manns hljóði.„

Ég væri alveg til með að læra að prjóna, en ég kann bara ekki neitt. Gætir þú kennt mér það?“

„Ha, ég?“

„Mér datt það bara svona í hug. Þú gætir kannski kennt mér eitthvað.“

„Nei, það held ég ekki.“

„Jæja, það er allt í lagi.“

Þegar þeir komu til Hveragerðis stöðvaði sá svartskeggjaði bílinn við hringtorgið og hleypti Júlla út. Júlli labbaði niður á Hótel Ljósbrá en þar var enginn heima svo hann hélt áfram og fór upp Gossabrekku og alla leið upp að Álfafelli. Þar var heldur enginn heima svo hann fór niður á veg aftur.

Þá var sá svartskeggaði einmitt að koma frá Selfossi og stoppaði hjá Júlla og spurði hann hvert hann væri að fara.

„Til Reykjavíkur“ svaraði Júlli að bragði.

„Ertu ekki nýkominn hingað til Hveragerðis?“

„Jú, en það var enginn heima svo ég verð að fara til Reykjavíkur aftur.“

„Ha?“

„Já, ég bankaði á báðar dyrnar, en það kom enginn.“

„Já, einmitt.“ Sagði sá svartskeggjaði og sagði ekki meir. Þeir óku svo alla leið til Reykjavíkur án þess að segja fleira. Sá skeggjaði var nefnilega hálfhræddur um að Júlli væri eitthvað skrýtinn. Sem var alveg rétt hjá honum.

IMG 7126Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bankaðir á báðar dyr
og burtu hvarfst sem bófi.
Svo örsöguna afgreiddir
á einhverfunnar rófi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.2.2019 kl. 20:44

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bankar hann sem bölvað flón
og burtu rýkur síðan.
Í Bronco Júlli potast prjón
með pirrum kennda líðan.

Sæmundur Bjarnason, 14.2.2019 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband