Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019
29.11.2019 | 16:59
2895 - Gauss
Eftirfarandi tvær klásúlur eða málsgreinar setti ég á fésbókina í morgun (föstudag). Mér fannst þær nefnilega dálítið bundnar deginum. Þið getið sem best sleppt þeim eða lesið þær í mestu fljótheitum ef þið hafið séð þær áður. Mér finnst samt réttast að hafa þær með, því e.t.v. lesa sumir bloggið mitt þó þeir fari sjaldan á fésbók.
Þetta svarta föstudagsrugl er bara fundið upp af kaupmönnum sem vilja umfram allt selja sem mest af allskonar rusli. Og fjöldi fólks lætur glepjast. Ef hægt er að selja allan fjandann með 25 til 40 prósent afslætti án þess að depla augunum, þá hlýtur venjuleg álagning að vera einhver. Hversvegna ættum við, með okkar dýrmætu peninga, að auðvelda þeim lífið sem hafa nóg fyrir? Annars er svosem gáfulegast fyrir okkur sem eigum eitthvað smávegis af peningum að eyða þeim sem fyrst. A.m.k. áður en stjórnvöldum tekst að krækja sér í þá með auknum sköttum og hvers kyns álögum. Hinsvegar er ekki skynsamlegt að hleypa sér í stórskuldir fyrir þessa kolsvörtu kaupmenn.
Ekki held ég að margir lesi það sem ég set bara á fésbókina, jafnvel þó hún tíðkist mun meira en bloggið. Ég er semsagt að velta því fyrir mér að setja þessa hugvekju, ef hugvekju skyldi kalla, á fésbókina og kannski einhverntíma seinna á bloggið, því mér finnst þetta fullstutt til að setja þangað og nenni ekki að skrifa meira núna.
Ég man vel eftir því að einu sinni þegar ég var í einhverjum af fyrstu bekkjum barnaskólans var það að Helgi Geirsson, sem þá var skólastjóri við Barna- og Miðskólann í Hvergerði, kenndi okkur af einhverjum ástæðum, man samt ekkert hvaða fag það var sem átti að vera í þessum tíma. Samt held ég að hann hafi ekki verið fastur kennari okkar. Þegar þetta var man ég að ég sat framarlega í gluggaröðinni. Raðirnar voru þrjár og sú þriðja var við vegginn þar sem dyrnar inn í skólastofuna voru. Helgi vildi útskýra fyrir okkur hvernig á árstíðarskiptunum stæði og bað mig þessvegna að standa upp, koma út á gólfið og bað bekkinn að ímynda sér að ég væri Sólin. Síðan tók hann hnattlíkan (með réttum möndulhalla) og gekk með það í kringum mig þannig að ýmist norður eða suðurhluti hnattarins sneri að Sólu (mér). Þetta atvik hafði af einhverjum ástæðum djúp áhrif á mig og eftir það átti ég í engum vandræðum með að skilja hvernig stóð á sólmyrkvum, tunglmyrkvum og öðrum fyrirbrigðum himingeimsins.
Satt að segja varð þetta kannski til þess að ég fékk nokkrum árum síðar talsvert mikinn áhuga á stjörnufræði. Komst meðal annars einhvern vegin yfir (í skamma stund þó) kíki sem stækkaði að mig minnir 8 eða 10 sinnum og var held ég 50 m/m breiður. Með honum horfði ég m.a. á Júpíter og studdi mig og kíkinn við húshornið á meðan. Auðvitað vissi ég hvar Júpíter var að finna. Ég sá hnattlögun hans og að nálægt honum voru þrír eða fjórir ljósdeplar. Skömmu seinna (kannski daginn eftir) sá ég svo að þeir höfðu breytt mjög stöðu sinni. Þetta var mér mikil uppgötvun, þó ég hefði reyndar lesið að Galileó Galilei hefði komist að þessu mörgum öldum fyrr.
Einhverntíma um svipað leyti las ég að Jörðin og aðrar plánetur gengju umhverfis Sólina eftir sporbaug og alltaf á jöfnum hraða. Sporbaugur hefur eins og kunnugt er tvo brennipunkta og sagt var að Sólin væri í öðrum þeirra. Þetta fannst mér að ætti að vera hægt að sanna með því að telja dagana milli jafndægra á vori og hausti bæði fram og aftur. Þetta gerði ég og komst að því að það munaði nokkrum dögun hvort talið var yfir veturinn eða sumarið. Minnir fastlega að sumarið hafi verið aðeins lengra en veturinn. Þetta gerði ég án allrar aðstoðar og þótti mér það mikil uppgötvun og merkileg á þeim tíma.
Ekki er ég með þessu að halda því fram að ég hafi verið efni í einhvern mikilhæfan stjörnufræðing. Get þó ekki látið hjá líða af þessu tilefni, að segja smásögu sem ég las eða heyrði einhverntíma um þýska stærðfræðinginn Friedrich Gauss sem var að því er Google heldur fram fæddur 1777. Þegar hann var í barnaskóla ætlaði kennarinn eitt sinn í reikningstíma að hafa það náðugt og lesa í bók og sagði bekknum að leggja saman allar tölur milli 1 og 100. Hann var ekki einu sinni búinn að opna bókina þegar Gauss litli rétti upp hendina og sagðist vera búinn að þessu. Ágætur samkvæmisleikur er að spyrja hvernig hann hafi farið að. Nei, þetta er ekkert plat. Tekur enga stund ef rétt aðferð er notuð og lafhægt að gera þetta í huganum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2019 | 23:42
2894 - Kaffi
Kaffi er eina eiturlyfið sem ég veit til að ég noti um þessar mundir. Meira að segja er ég að mestu hættur að nota sykur. Auðvitað er ekki svo gott að forðast hann því hann er notaður í ýmsan mat, þó hann sé hugsalega ekki viðbættur. Sykur og sætuefni eru líka af svo mörgu tagi og í svo mörgu t.d. ávöxtum og berjum, auk þess sem líkaminn á það til að breyta ýmiss komar mjölvöru í sykur. Svo er allsekki víst að allir fallist á að hann sé eiturlyf þó eflaust komi að því. Þó finnst mér það (altsvo kaffið) fremur vont á bragðið. Áhrifin eru samt umtalsverð. Ekki er því að neita. Ekki vil ég samt viðurkenna að ég drekki kaffi í óhófi. T.d. fæ ég mér aldrei (eða a.m.k. afar sjaldan) kaffi eftir kvöldmat. Ég trúi semsagt því sem sagt er að svefn og kaffidrykkja eigi ekki vel saman, þó mín reynsla sé ekki á þá leið.
Margt má eflaust um kaffið segja, en það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa hér í þetta vesæla blogg allt sem ég hugsanlega veit um kaffi. Sumum þykir þó tilheyra í blogg- eða blaðagreinum að segja allt sem þeim hugsanlega hugkvæmist um það efni sem greinin fjallar um. Það er samt eins og lesendur mínir (ehemm) ættu að vita allsekki minn stíll. Ég er meira fyrir að vaða úr einu í annað, eins og þar stendur. Jafnvel að hrúga saman orðatiltækjum og spakmælum, ef ekki vill betur.
Pólitík leiðist mér stundum, en þó ekki alltaf. Einstrengingsleg flokksbundin afstaða í þeim efnum finnst mér yfileitt til baga. T.d. er ég að mestu hættur að hafa sömu áhyggjur af Trump bandaríkjaforseta og ég hafði í upphafi forsetatíðar hans. Hvað sem um hann og framkomu hans má segja, held ég að hann komist auðveldlega frá kæru þeirri sem verið er að fjalla um í fulltrúadeildinni um þessar mundir. Jafnvel er hugsalegt að hann (með aðstoð embættisins) standi sig nokkuð vel í kosningunum á næsta ári. Þó kæran verði væntanlega samþykkt í fulltrúadeildinni, þá er mjög ólíklegt að svo fari í öldungadeildinni einnig. Þar þarf tvo þriðju hluta atkvæða svo forsetinn þurfi að víkja. Þar hafa repúblikanar meirihluta.
Flokkshollusta hefur mjög aukist að undanförnu í bandaríkjunum og ekki hefur Trump dregið úr henni. Segja má að hann hafi breytt forsetaembættinu. Hingað til hafa forsetar þar hagað sér öðruvisi en hann gerir. Hann beitir lygum og blekkingum eins og fleiri í umgengni sinni við fésbók og tvitter. Hingað til hafa kollegar hans litið niður á félagslegu miðlana og þóst vera yfir þá hafnir. Svo hefur hann átt í miklu stríði við fjölmiðla og þykist alltaf vita betur en þeir.
Segja má að nokkurskonar stjórnarskrárdeila sé komin upp í bandaríkjunum. Forsetanum og þinginu kemur alls ekki saman um hvaða völd þingið hefur. Má það kalla til vitnis nánustu ráðgjafa forsetans eða getur forsetinn bannað það? Jafnvel þó þingið sigraði í slíku máli fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna er hugsanlega eftir að komast að því hvort þeir gætu komist upp með að neita að svara tilteknum spurningum og tekið gæti langan tíma að fá úr því skorið. Þá væri kannski komið að nýjum forsetakosningum. Gæti Trump t.d. boðið sig fram þar þó hann yrði dæmdur til embættismissis?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2019 | 06:51
2893 - Hong Kong
Svo virðist sem uppreisnarseggir og lýðræðissinnar ásamt unga fólkinu hafi unnið mikilvægan sigur í Hong Kong um helgina. Stjórnvöld hafa sennilega tapað eftirminnilega í einskonar borgarstjórnarkosningum sem ef til vill hafa einkum snúist um lögregluofbeldi. Eins og lýst hefur verið margoft í fréttum hefur mikil ókyrrð verið í Hong Kong í marga mánuði. Upphaflega var það einkum um helgar sem mótmælt var en undanfarið hafa mótmælin aukist. Í þeim kosningum sem fram fóru um helgina var þó allt fremur rólegt, og stjórnvöld virðast hafa beðið talsverðan hnekki.
Sannleikanum verður hver sárreiðastur, segir í gömlu íslensku orðtaki. Mörgum er í fersku minni hvernig Þorsteinn Már Balvinsson lét við Má seðlabankastjóra fyrir skemmstu. Nú bítur sú framkoma í rassinn á honum, því e.t.v. var það einmitt þetta sem nú er á milli tannanna á fólki sem seðlabankastjóri og fleiri voru að reyna að sanna. Annars er hugsanlega verið að flýta sér óhóflega að fella dóma í þessu máli þar sem aðeins önnur hliðin kemur fram. Það er samt áreiðanlega engin tilviljum hve Afríku hefur verið haldið niðri á undanförnum áratugum og öldum. Svipað hefur verið að gerast hér á Íslandi í skjóli útgerðarauðvaldsins. Kynþáttafordómar birtast með ýmsum hætti. Sumir kalla þá föðurlandsást.
Sumir, jafnvel margir, segja að loftlagsmál séu lang- langstærsta og merkilegasta mál okkar tíma. Og ef okkur tekst ekki að draga úr útblæstri bíla og breyta stórlega öllum okkar lífsháttum, á fáeinum árum, sé allt unnið fyrir gýg og mannkynið muni farast mjög fljótlega. Þessu er ég að mestu leyti ósammála og er kallaður afneitunarsinni fyrir vikið. Þessi trúarbrögð eru mjög útbreidd á Vesturlöndum um þessar mundir og þeir sem þessu mótmæla eru gjarnan úthrópaðir sem afneitunarsinnar.
Margt af því sem haldið er fram, er skynsamlegt í meira lagi, en að geta alls ekki fallist á að hlýnun og kólnun loftslags geti átt sér náttúrulegar orsakir er ekki skynsamlegt. Æstustu talsmenn hinna nýju trúarbragða halda því samt fram að öll breyting á loftslagi hljóti að vera af mannavöldum. Svo er þó ekki.
Að mannkynið muni að lokum kafna í eigin skít er annars ekki með öllu útilokað. Fáum virðist detta í hug að grunnástæða alls þessa er óhófleg fjölgun mannkynsins. Misskipting auðæfa jarðarinnar mun einnig valda miklum hörmungum, en það á ekki mikið með loftslag að gera. Ef Jörðin vill losa sig við mannkynið gerir hún það. Kannski með heimshlýnun og kannski með einhverjum öðrum ráðum. Hver segir annars að maðurinn sé merkilegri en önnur dýr? Að vísu hefur honum tekist að forðast það náttúrulega, (eða réttara sagt náttúruöflin) að miklu leyti, en kannski getur hann það ekki endalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2019 | 17:23
2892 - Spilltir Samverjar
Nú er ég farinn að átta mig svolítið á muninum á tilverunni hér á Akranesi og í hitabeltinu. Mesti munurinn finnst mér vera veðurfarslegur. Hér birtir ákaflega seint á morgnana um þessar mundir og svo er kaldara hér og rignir meira. Auðvitað er maturinn bæði fjölbreyttari og betur útilátinn á fínum fjögurra stjörnu hótelum eins og á La Siesta, þar sem við dvöldumst. Ósköp fannst manni hann samt vera orðinn mötuneytislegur þegar á leið.
Annars ætlaði ég ekki útí nein samanburðarfræði, en ósköp leiðist mér birtuleysið hér. Hitinn og fjölmennið má alveg missa sig og ég kvarta ekkert undan fámenninu og kuldanum hér á Íslandi. Rigningin leiðist mér aftur á móti. Nú er bara að bíða eftir vorinu. Ég er að mestu hættur að hlakka til jólanna og sprengingarnar á gamlárskvöld fara nánast í taugarnar á mér.
Þegar ég fer í morgungöngu er iðulega talsverð umferð á götunum hér. Enda er fólk oft almennt að fara til vinnu um það leyti. Þurfi ég að fara yfir götu á zebrabraut stansa bílar oft langt frá gangbrautinni, til að gefa mér tækifæri á að fara yfir. Bregðist það og bílarnir snarstoppi rétt við gangbrautina eða gefi mér ekki neitt tækifæri til að fara yfir, hugsa ég gjarnan sem svo: Þetta hlýtur að vera Reykvíkingur. En þegar stoppað eru langt í burtu hvort sem margir bíla eru rétt á eftir eða enginn hugsa ég sem svo: Þetta er sennilega Akurnesingur. Skelfing eru þeir alltaf kurteisir.
Auðvitað veit ég ósköp vel að svona samanburður er ósanngjarn. Reykvíkingar eru alls ekkert ókurteisari í umferðinni en aðrir. Mér finnst samt að óþolinmæði þeirra sé stundum meiri en annarra, og get ekkert gert að því. Svo er það kannski bara skiljanlegt, eftir að hafa þurft að hanga í biðröð klukktímum (eða a.m.k tugum mínútna) saman. Í gamla daga hafði hver sýsla, að ég held, sinn einkennisstaf. Með nýju númerunum var sú regla aflögð, enda stórgölluð.
Ekki líst mér nógu vel á nýja flugfélagið. Þó er ekkert sérstkt sem mælir gegn því að hægt sé að gera út lág-gjaldaflugfélag héðan. Hætt er samt við árekstrum um laun við starfsfólk ef það á að vera íslenskt.
Nýjasta hneykslunarefnið er svo Samherjamálið. Ég ætla samt ekkert um það að segja annað en það að svona haga nýlenduherrar og stórfyrirtæki sér yfirleitt. Sé allt rétt sem fram kom í Kveiksþættinum eiga þeir sér varla nokkrar málsbætur. Ólíklegt er þó að þeir sleppi eins vel og Sigmundur Davíð & Co. sluppu frá Klausturbarsmálinu. Sigmundur er langt kominn með að gera útaf við Framsóknarflokkinn og hægri sinnaða Sjálfstæðismenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2019 | 06:55
2891 - Dúsu sýgur
Ekki veit ég af hverju Viðskiptabaðið (takið eftir að þetta er baðið, en ekki blaðið) hefur svona mikinn áhuga á mér óverðugum. Sennilega er ætlast til að ég trúi þessari vitleysu. Þessi ósköp eru að flækjast á minni fésbókarsíðu. Í mínum augum er þetta eins og hvert annað Nígeríubréf. Það er nú eitt. Maður getur ekki vitað með neinni vissu hvort fleiri fá þetta. Til fjandans með fésbókarræfilinn. Auglýsingarnar eru að sökkva honum. Mogginn er lítið eitt skárri. Kannski er búið að fjalla um þetta áður. Ég les ekki blöðin og varla les nokkur maður fésbókina alla.
Dúsu sýgur, drullar og mígur undir.
Þykir snótum þráskælinn.
Þú er ljótur nafni minn.
Einhverntíma í fyrndinni sá ég (og lærði) þessa vísu. Ekki hef ég hugmynd um eftir hvern hún er. Ekki er hún eftir mig. Dag hvern kemur mér í hug einhver vísa. Stundum eða jafnvel oft tauta ég hana fyrir munni mér lengi dags. Stundum (eins og t.d. með þessa) þá kemur mér fyrst í hug eitt orð eða vísupartur og svo rifjast þetta smám saman upp fyrir mér. Í þessari var það orðið þráskælinn, sem kom mér á sporið. Sennilega er það orð fremur sjaldgæft.
Einu sinni orti ég samt vísu man ég eftir sem tengist þessum fræga degi. Hún var svona:
Bindindi ég herlegt hóf
og heilsu minnar gætti.
Föstudaginn níuna nóv
við nikótínið hætti.
Af hverju ég man svona vel eftir þessari vísu veit ég ekki. Líklega hefur þetta verið svona á sjöunda áratug síðustu aldar. Eflaust væri hægt að komast að þessu því ég man greinilega eftir því að dagurinn í þriðju ljóðlínu var föstudagur. Seinna meir varð dagurinn níundi nóvember frægur í sögunni, en ég fer ekki nánar útí það hér. Bindindið held ég að hafi ekki staðið lengi.
Sé núna að ég hef víst notað karlsefnismyndina a.m.k. tvisvar. Það var alveg óvart og ég skal reyna að passa að slíkt komi ekki fyrir aftur. Að sækja myndir til að setja á bloggið er að verða eitt það leiðinlegasta í sambandi við þessi skrif. Þessar myndir eru gamlar og ég nenni ekki að setja inn nýjar. Auðvitað tók ég eitthvað af myndum á Tenerife, en þær eru raunverulega orðnar úreltar. Maður hefur ekki tileinkað sér þann hraða sem nú um stundir er á öllu.
Greinilega er kominn svolitill jólafílingur í mannskapinn. Það er svosem engin furða. Enda komið fram í Nóvember. Til siðs er þó að hneykslast á þessu og gamalmenni eins og ég eiga að segja að ekki hafi tíðkast í sínu ungdæmi að byrja jólaundirbúninginn fyrr en í fyrsta lagi um mánaðamótin Nóvember og Desember. Ég bara nenni því ekki. Að venju er formaður kaupmannasamtakanna voða vongóður og í rauninni er þetta bara krúttlegt.
Að venju gengur mér illa að halda mig við eitt efni í heilu bloggi. Sennilega er það minn stíll að rjúka úr einu í annað. Ekki dugir að valda lesendum sínum vonbrigðum að því leyti. Ég man þá tíð að ekki þurfti annað en minnast á trúmál til allt yrði vitlaust. Nú eru svo margir með skrifkrampa og uppteknir við að horfa á eigin nafla að viðbrögð við svonalöguðu eru í lágmarki. Ef maður segist vera afneitunarsinni spretta fulltrúar góða fólksins samt fram og úthúða slíkum trúvillingum.
Já, ég er einskonar afneitunarsinni og vil ekki trúa því að allt sé að fara til fjandans útaf bílaútblæstsri og lélegri ofanískurðmokunarstefnu. Hinsvegar fjölgar mannkyninu alltof hratt og nokkurskonar Malthusar-kenning gæti alveg átt rétt á sér. Það ber vott um nafladýrkun og mikilmennskubrjálæði að ganga útfrá því að við mennirnir höfum eins mikil áhrif á Náttúruna og stundum er haldið fram. Í rauninni er það ljótt að ala börn upp í miklum ótta við einskonar Ragnarök á næstu árum. Samt er það svo að í sambandi við ýmis mál þessu tengd er greinilegt að ekkert annað en breyttur hugsunarháttur almennings getur framlengt veru okkar á þessari jörð.
Óveðrið sem spáð var virðist vera bæði komið og farið. A.m.k. hér á Akranesi og bráðum fer sennilega að birta á þessum fagra laugardegi skömmu fyrir jólaföstu á því herrans ári 2019.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2019 | 07:11
2890 - Um blaðlýs o.fl.
2890 Um blaðlýs o.fl.
Veit svosem ekki hvað ég á að skrifa um. En nú er ég andvaka sem oft áður og ekkert veit ég skemmtilegra við þær aðstæður en að blogga.
Já, ég er nýkominn frá Tenerife og þar var svosem mikið af sumri og sól, nóg að éta o.s.frv. Um það og háttalag landans, og reyndar miklu fleiri, þar um slóðir mætti margt segja. Matarsóun, hávaði, mannfjöldi og ýmislegt annað er þar geigvænlegt og gaf svo sannarlega tilefni til ýmiss konar hugleiðinga, jafnvel heimspekilegra.
Við Íslendingar eigum svo sannarlega mikið land og stórt, einkum í ljósi þeirrar heimshlýnunar sem að okkur er haldið. Í umræðum um það fyrirbrigði sem heimshlýnun vissulega er, tíðkast mjög að rugla saman eigin skít og loftslagi. Að flestu leyti er þar samt um gjörsamlega óskyld fyrirbæri að ræða.
Ef litið er á Jörðina sem lifandi veru er á allan hátt hægt að líta á mannkynið sem hvern annan blaðlúsafaraldur, sem Jörðin mun hrista af sér í fyllingu tímans. Fyrir henni er svo sannarlega einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir og margmilljarðlega mætti eflaust margfalda þá samlíkingu til að nálgast einhvern sannleika.
Mér hættir mjög til að verða í bloggskrifum mínum, einum um of hátiðlegur. Eins og ég sé prestlærður og að predika yfir óupplýstum lýð. Þetta er bara veikleiki sem ég á í mestu erfiðleikum með að losa mig við. Fésbókina, snjallsímann, Internetið og auglýsingar dagsins ásamt hinum gífurlega hraða nútímans er að flestu leyti hægt að líta á sem verkfæri andskotans. Með þessu getur yfirstéttin ráðið yfir því sem pöpullinn hugsar. Í rauninni er þetta sama fyrirbærið og hjá Rómverjum í sínum brauð og leikjum Aðferðirnar eru talsvert breyttar samt.
Enn er hátíðleikinn að trufla mig. Ekkert vil ég frekar en að dásama lýðræðið, en vera samt á móti því í raun og veru. Er það ekki lýræðislegt að hella yfir fólk allskonar upplýsingum og peningum í þeim tilgangi að ráða hvað það hugsar. Kínverjar virðast hafa fundið upp aðferð til að láta völdin ekki vera undir lýðræði komin, þó sumir vilji það (lýðræðið) umfram allt.
Þetta blogg mitt er þegar orðið lengra en ég hélt að það yrði. Einskonar millibilsástand vil ég samt helst líta á það. Þegar ég er betur búinn að jafna mig á muninum á hitabeltinu og heimskautabeltinu mun ég líklega láta ljós mitt skína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2019 | 22:32
2889 - Tenerife
Nei, ég er ekki alveg dauður ennþá. Er nýkominn úr hálfsmánaðarfríi á Tenerife og þegar ég fer í frí, eins og núna, meina ég algjört frí. Les ekki blöð og þaðan af síður Fésbók, sem ég uppnefni alltaf þannig. Horfi ekki á fréttir eða neitt þessháttar. Skoða símann minn sem minnst (hleð hann þó) og hugsa fyrst og fremst um eigin maga. Fer ekki í sólbað og skil ekki þennan sólbaðshugsunarhátt. Segi kannski lítið en hugsa þeim mun meira.
Af þessu öllu leiðir að ég er kannski lengur að komast í blogg-gírinn aftur en ætla mætti. Er samt að hugsa um að halda áfram með þessa vileysu (bloggið) þegar ég er búinn að kynna mér umræðuna hérlendis, síðasta hálfa mánuðinn eða svo. Einhverjir eru svo langt leiddir að þeir fara hingað á bloggsvæðið mitt þó ekkert sé að gerast þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)