2895 - Gauss

Eftirfarandi tvær klásúlur eða málsgreinar setti ég á fésbókina í morgun (föstudag). Mér fannst þær nefnilega dálítið bundnar deginum. Þið getið sem best sleppt þeim eða lesið þær í mestu fljótheitum ef þið hafið séð þær áður. Mér finnst samt réttast að hafa þær með, því e.t.v. lesa sumir bloggið mitt þó þeir fari sjaldan á fésbók.

Þetta svarta föstudagsrugl er bara fundið upp af kaupmönnum sem vilja umfram allt selja sem mest af allskonar rusli. Og fjöldi fólks lætur glepjast. Ef hægt er að selja allan fjandann með 25 til 40 prósent afslætti án þess að depla augunum, þá hlýtur venjuleg álagning að vera einhver. Hversvegna ættum við, með okkar dýrmætu peninga, að auðvelda þeim lífið sem hafa nóg fyrir? Annars er svosem gáfulegast fyrir okkur sem eigum eitthvað smávegis af peningum að eyða þeim sem fyrst. A.m.k. áður en stjórnvöldum tekst að krækja sér í þá með auknum sköttum og hvers kyns álögum. Hinsvegar er ekki skynsamlegt að hleypa sér í stórskuldir fyrir þessa kolsvörtu kaupmenn.

Ekki held ég að margir lesi það sem ég set bara á fésbókina, jafnvel þó hún tíðkist mun meira en bloggið. Ég er semsagt að velta því fyrir mér að setja þessa hugvekju, ef hugvekju skyldi kalla, á fésbókina og kannski einhverntíma seinna á bloggið, því mér finnst þetta fullstutt til að setja þangað og nenni ekki að skrifa meira núna.  

Ég man vel eftir því að einu sinni þegar ég var í einhverjum af fyrstu bekkjum barnaskólans var það að Helgi Geirsson, sem þá var skólastjóri við Barna- og Miðskólann í Hvergerði, kenndi okkur af einhverjum ástæðum, man samt ekkert hvaða fag það var sem átti að vera í þessum tíma. Samt held ég að hann hafi ekki verið fastur kennari okkar. Þegar þetta var man ég að ég sat framarlega í gluggaröðinni. Raðirnar voru þrjár og sú þriðja var við vegginn þar sem dyrnar inn í skólastofuna voru. Helgi vildi útskýra fyrir okkur hvernig á árstíðarskiptunum stæði og bað mig þessvegna að standa upp, koma út á gólfið og bað bekkinn að ímynda sér að ég væri Sólin. Síðan tók hann hnattlíkan (með réttum möndulhalla) og gekk með það í kringum mig þannig að ýmist norður eða suðurhluti hnattarins sneri að Sólu (mér). Þetta atvik hafði af einhverjum ástæðum djúp áhrif á mig og eftir það átti ég í engum vandræðum með að skilja hvernig stóð á sólmyrkvum, tunglmyrkvum og öðrum fyrirbrigðum himingeimsins.

Satt að segja varð þetta kannski til þess að ég fékk nokkrum árum síðar talsvert mikinn áhuga á stjörnufræði. Komst meðal annars einhvern vegin yfir (í skamma stund þó) kíki sem stækkaði að mig minnir 8 eða 10 sinnum og var held ég 50 m/m breiður. Með honum horfði ég m.a. á Júpíter og studdi mig og kíkinn við húshornið á meðan. Auðvitað vissi ég hvar Júpíter var að finna. Ég sá hnattlögun hans og að nálægt honum voru þrír eða fjórir ljósdeplar. Skömmu seinna (kannski daginn eftir) sá ég svo að þeir höfðu breytt mjög stöðu sinni. Þetta var mér mikil uppgötvun, þó ég hefði reyndar lesið að Galileó Galilei hefði komist að þessu mörgum öldum fyrr.

Einhverntíma um svipað leyti las ég að Jörðin og aðrar plánetur gengju umhverfis Sólina eftir sporbaug og alltaf á jöfnum hraða. Sporbaugur hefur eins og kunnugt er tvo brennipunkta og sagt var að Sólin væri í öðrum þeirra. Þetta fannst mér að ætti að vera hægt að sanna með því  að telja dagana milli jafndægra á vori og hausti bæði fram og aftur. Þetta gerði ég og komst að því að það munaði nokkrum dögun hvort talið var yfir veturinn eða sumarið. Minnir fastlega að sumarið hafi verið aðeins lengra en veturinn. Þetta gerði ég án allrar aðstoðar og þótti mér það mikil uppgötvun og merkileg á þeim tíma.

Ekki er ég með þessu að halda því fram að ég hafi verið efni í einhvern mikilhæfan stjörnufræðing. Get þó ekki látið hjá líða af þessu tilefni, að segja smásögu sem ég las eða heyrði einhverntíma um þýska stærðfræðinginn Friedrich Gauss sem var að því er Google heldur fram fæddur 1777. Þegar hann var í barnaskóla ætlaði kennarinn eitt sinn í reikningstíma að hafa það náðugt og lesa í bók og sagði bekknum að leggja saman allar tölur milli 1 og 100. Hann var ekki einu sinni búinn að opna bókina þegar Gauss litli rétti upp hendina og sagðist vera búinn að þessu. Ágætur samkvæmisleikur er að spyrja hvernig hann hafi farið að. Nei, þetta er ekkert plat. Tekur enga stund ef rétt aðferð er notuð og lafhægt að gera þetta í huganum.

IMG 6481Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má segja að Gauss hafi kunnað STÆ 101 smile

Ben 29.11.2019 kl. 21:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á þessum tíma var ekki einu sinni búið að finna STÆ 101 upp. 

Kennarinn hefur lika vanmetið Gauss litla.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2019 kl. 22:21

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Var það ekki Gauss sem fann upp normaldreifinguna?

Annars fannst mér tilvitnun dagsins sú sem kom frá formanni Neytendasamtakanna um þennan svarta föstudag, að á þessum degi keypti fólk hluti sem það þyrfti ekki fyrir peninga sem það ætti ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 29.11.2019 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband