2892 - Spilltir Samverjar

Nú er ég farinn að átta mig svolítið á muninum á tilverunni hér á Akranesi og í hitabeltinu. Mesti munurinn finnst mér vera veðurfarslegur. Hér birtir ákaflega seint á morgnana um þessar mundir og svo er kaldara hér og rignir meira. Auðvitað er maturinn bæði fjölbreyttari og betur útilátinn á fínum fjögurra stjörnu hótelum eins og á La Siesta, þar sem við dvöldumst. Ósköp fannst manni hann samt vera orðinn „mötuneytislegur“ þegar á leið.

Annars ætlaði ég ekki útí nein samanburðarfræði, en ósköp leiðist mér birtuleysið hér. Hitinn og fjölmennið má alveg missa sig og ég kvarta ekkert undan fámenninu og kuldanum hér á Íslandi. Rigningin leiðist mér aftur á móti. Nú er bara að bíða eftir vorinu. Ég er að mestu hættur að hlakka til jólanna og sprengingarnar á gamlárskvöld fara nánast í taugarnar á mér.

Þegar ég fer í morgungöngu er iðulega talsverð umferð á götunum hér. Enda er fólk oft almennt að fara til vinnu um það leyti. Þurfi ég að fara yfir götu á zebrabraut stansa bílar oft langt frá gangbrautinni, til að gefa mér tækifæri á að fara yfir. Bregðist það og bílarnir snarstoppi rétt við gangbrautina eða gefi mér ekki neitt tækifæri til að fara yfir, hugsa ég gjarnan sem svo: „Þetta hlýtur að vera Reykvíkingur“. En þegar stoppað eru langt í burtu hvort sem margir bíla eru rétt á eftir eða enginn hugsa ég sem svo: „Þetta er sennilega Akurnesingur. Skelfing eru þeir alltaf kurteisir“.

Auðvitað veit ég ósköp vel að svona samanburður er ósanngjarn. Reykvíkingar eru alls ekkert ókurteisari í umferðinni en aðrir. Mér finnst samt að óþolinmæði þeirra sé stundum meiri en annarra, og get ekkert gert að því. Svo er það kannski bara skiljanlegt, eftir að hafa þurft að hanga í biðröð klukktímum (eða a.m.k tugum mínútna) saman. Í gamla daga hafði hver sýsla, að ég held, sinn einkennisstaf. Með nýju númerunum var sú regla aflögð, enda stórgölluð.

Ekki líst mér nógu vel á nýja flugfélagið. Þó er ekkert sérstkt sem mælir gegn því að hægt sé að gera út lág-gjaldaflugfélag héðan. Hætt er samt við árekstrum um laun við starfsfólk ef það á að vera íslenskt.

Nýjasta hneykslunarefnið er svo Samherjamálið. Ég ætla samt ekkert um það að segja annað en það að svona haga nýlenduherrar og stórfyrirtæki sér yfirleitt. Sé allt rétt sem fram kom í Kveiksþættinum eiga þeir sér varla nokkrar málsbætur. Ólíklegt er þó að þeir sleppi eins vel og Sigmundur Davíð & Co. sluppu frá Klausturbarsmálinu. Sigmundur er langt kominn með að gera útaf við Framsóknarflokkinn og hægri sinnaða Sjálfstæðismenn.

IMG 6539Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband