Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

2817 - Um Bandarísk stjórnmál

Áreiðanlega er ég allskrýtinn, ef ekki stórskrýtinn. Ég hef nefnilega engan áhuga á söngvakeppni Evrópu. Og ekki nóg með það. Ég hef heldur engan áhuga á stjörnustríðsmyndum eða hringadróttinssögum né Ófærð og amerískum hasarmyndum eða lögguþáttum. Heldur ekki á matargerð eða poppi. Sennilega eru þeir allmargir sem horfa á Ófærðina bara af því að hún er íslensk. En fjölyrðum ekki um þetta. Það er lítils virði. Í staðinn hef ég áhuga á furðulegustu hlutum. T.d. þjóðlegum fróðleik, fjölmiðlum, bókmenntum, bloggi, skák og ýmsu öðru. Eiginlega finnst mér það mjög slæmt að allir hafi ekki sömu áhugamál og ég. Kannski eru aðrir líkir mér að því leyti.

Einu sinni hafði ég heilmikinn áhuga á íþróttum. Þó af einhverjum ástæðum minnstan á fótbolta. Sund og fótbolti voru þó þær einu íþróttir sem ég stundaði eitthvað á mínum unglingsárum. Boltaíþróttir sem tröllríða öllu í fjölmiðlum nútímans eru óttalega ruglingslegar og lítið spennandi. Spurningaþáttum í sjónvarpi hafði ég líka einusinni heilmikinn áhuga á en hef varla lengur. Horfi einkum á skemmtigildi þeirra fremur en spurningarnar sjálfar.

Bandaríkjamenn eru þegar farnir að búa sig undir næstu forsetakosningar sem verða í nóvember árið 2020. Reikna má með að Trump sækist eftir endurkjöri og þó hann fái ef til vill einhverja málamynda andstöðu er óhætt að gera ráð fyrir því að hann verði í framboði fyrir repúblikanaflokkinn. Margir munu eflaust verða um hituna demókratamegin. Eins og staðan er núna má sennilega helst reikna með Warren, Bloomberg, Biden, Harris og hver veit nema Sanders reyni fyrir sér aftur. Hann stóð sig að mörgu leyti vel síðast.

Bandarísk stjórnmál heilla mig flestum öðrum stjórnmálum fremur og helgast það e.t.v. mest af því að aðgangur að bandarískum fjölmiðlum er afar auðveldur. Trump er líka umdeildur og hataður á helstu miðlum þar og víðast hvar um heiminn. Samt sem áður á hann sér allmarga fylgjendur í Bandaríkjunum sjálfum.

Annars virðast íhaldssöm viðhorf vera nokkuð ríkjandi hér á Moggablogginu og vissulega er Morgunblaðið að sumu leyti besta fréttablaðið virðist mér og vefurinn þeirra mbl.is hefur margar góðar hliðar. DV.is er miklu síðri. Visir.is er að mörgu leyti skárri og hermir mikið eftir erlendum stórblöðum. Vegna þess að Fréttablaðið er ókeypis er það sennilega eina blaðið sem ég les að einhverju ráði. Fréttaflutningur þar er þó fremur tilviljanakenndur og ekki mikill.

Nú virðist ég vera að detta í það far að blogga daglega. Það er aðallega vegna þess að lesendum mínum hefur fjölgað svolítið að undanförnu og mér finnst þeir, sumir hverjir a.m.k., ætlast til þess að ég bloggi daglega. Kannski er það vitleysa og hver veit nema þessar ímynduðu vinsældir mínar séu einkum vegna þess að ég bloggi sjaldan.

IMG 7164Einhver mynd.


2816 - Um klukkubreytingu

Ég er sífellt að verða sannfærðari og sannfærðari um að þetta með klukkuvitleysuna er ein allsherjar smjörklípa. Hef samt sem áður ekki almennilega áttað mig á því hverju er verið að leyna. Kannski vita það ekki aðrir en þeir sem byrjuðu á þessu.

„Í lífeðlis­fræðinni skipt­ir sól­ar­ljósið að kvöldi litlu fyr­ir líf okk­ar og líðan, það er morg­un­birt­an sem öllu máli skipt­ir. Lík­ams­klukk­an er þannig gerð af skap­ar­an­um að hring­ur­inn er 25 klukku­stund­ir og ef vís­bend­inga frá sól­ar­ljósi nýt­ur ekki við erum við að setja lífið í ójafn­vægi. Á Íslandi þarf fólk ein­fald­lega að fylgja ljós­inu og sofa meira; skv. nýj­um töl­um sofa ung­menni á Íslandi rétt rúm­ar 6 klukku­stund­ir á sól­ar­hring, sem er allt of lítið. Og haldi þessu áfram blas­ir við okk­ur eft­ir 20 ár eða svo far­ald­ur þeirra sjúk­dóma, eins og ég nefni hér að fram­an,“

Þetta segir Karl Ægir Karlsson prófessor í taugavísindum í viðtali við Morgunblaðið. Mér finnst þetta ekki sanna nokkurn skapaðan hlut, en ég er ekki prófessor í taugavísindum. Held samt endilega að fólk fari ekki almennt að sofa lengur þó klukkunni verði seinkað. Hef áður sagt það að ef þetta snýst um það að hrekja ekki blessuð börnin út í myrkrið eldsnemma á morgnana í misjöfnu veðri, þá sé einfaldast að byrja skólana svolítið seinna. Reyndar hélt ég að sólarhringurinn væri 24 klukkustundir en ekki 25.

Flestir lesa ekki og kynna sér ekki annað en það sem þeim líkar sæmilega vel við. Þannig verður til ósamstætt fólk, sem hugsar öðruvísi en aðrir. Að mörgu leyti er þetta jákvætt, en getur líka verið hættulegt. Ósamkomulag eykst og línur skerpast. Ef nógu markvissum áróðri er beitt er hægt að fá marga til að hugsa eftir svipuðum brautum. Sjálfur hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu með klukkuna. Sennilega snertir það mig ekki á nokkurn hátt. Held bara að mörgum bregði í brún þegar fer að skyggja klukkutíma fyrr en venjulega um eftirmiðdaginn. Auðveldast er að ná til fólks með eitthvað sem er nógu almenns eðlis. Efast ekki um að margir vilja breytingu breytinganna vegna og þetta ásamt bjórnum á sinni tíð er upplagt í þjóðaratkvæðagreiðslu tilraunir. Sem betur fer svæfir alþingi flest mál.

Klukkan átti allsekki að verða meginefni þessa bloggpistils. Mér finnst bara að ég sé að svíkja einhverja ef ég blogga ekki reglulega. Ekki get ég gert eins og Jens Guð að krydda bloggpistlana sína með veitingahúsadómum og allskyns tónlistarspekúlasjónum, því ég er með öllu laglaus og fer mjög sjaldan út að borða. Hinsvegar hef ég áhuga á mörgu eða það finnst mér a.m.k. Þó ekki á greinarmerkjasetningu enda er slíkt af skornum skammti hjá mér í þessum pistlum. Reynsla mín í bloggefnum er þó orðin talsverð og réttritunarkunnáttan og fésbókarandúðin í lagi hjá mér.

IMG 7169Einhver mynd.


2815 - Snælega snuggir

Nú er lokið þessari störukeppni milli þingsins og forsetans í Bandaríkjunum. Reyndar var bara samþykkt að fresta aðgerðum til 15. febrúar, en ég held að samið verði um eitthvað fyrir þann tíma svo ekki komi til lokunar aftur. Í rauninni eru demókratar og repúblikanar sammála um ýmislegt þegar kemur að öryggismálum og landamæravörslu. Það eru frekar flóttamannamál og ýmislegt sem þeim tengist sem þeir eru ósammála um. En liklega verður samið um eitthvað sem bjargar andlitinu fyrir Trump. Forsetakosningarnar sem verða á næsta ári er það sem þetta fólk einblínir á.

En það eru ekki múramál, sem mestum áhyggjum valda fólki hér um slóðir. Það eru frekar Klausturmál, sem í sjálfu sér eru ekkert merkilegri en múrinn í Bandaríkjunum. Sennilega er Venesúelabúum líka skítsama um múrinn, þeir hugsa bara um hann Maduro sinn. Eiginlega hefur hann með þrákelkni sinni valdið Venesúelum miklu tjóni. Það réttlætir samt ekki allar aðgerðir Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Í sjálfu sér er ekki við öðru að búast af stórveldi en einhverju slíku og Rússar eru stuðningsmenn Madurós eins og við mátti búast. Nú þegar stuðningur þeirra við Assad Sýrlandsforseta virðist vera að bera árangur er ekkert skrítið þó þeir snúi sér að Venesúela. Það gæti reyndar orðið ný Kúba. Já, ekki ber á öðru en að nýtt kalt stríð sé í undirbúningi. Vonum bara að það verði kalt sem lengst, en hitni ekki.

Þegar ég leit út um gluggann um hálftíu leytið (í morgun mánudag) kom mér í hug forna spakmælið sem er svona: „Snælega snuggir sögðu Finnar, áttu andra fala.“ Nei, þetta er ekki úr Hávamálum en gamalt samt. Lét mig þó hafa það að fara út að ganga skíðalaus með öllu (andrar). Og viti menn, þegar hætti að snjóa og birti almennilega var veðrið bara alveg þokkalegt og þar að auki búið að skafa gangstígana.

Hver veit nema ég skreppi í Bónus á eftir. Það þarf allavega að kaupa mjólk og ýmislegt fleira hugsa ég. Sennilega fer ég þangað á bílnum, þó það verði talsvert fyrirtæki að skafa af honum snjóinn. Sé að ég hef lagt honum á vitlaust stæði þegar ég kom heim eftir að hafa skutlað Tinnu og Bjarna uppeftir í gærkvöldi. Bjarni kemur líklega eftir hádegið og sennilega fer ég með hann í vinnuna þá.

Blogga að líkindum ekki meira í dag. Í gær voru víst eitthvað yfir fimmhundruð sem skoðuðu bloggið mitt. Líklega er það einhverskonar met. Kannski hefur fólk ekki haft mikið annað að gera í það sinnið. Notkun tölva er alltaf að aukast. Veit ekki hvar þetta endar.

IMG 7188Einhver mynd.


2814 - Enn ein Klausturauglýsing

Orð eru dýr. Orð skipta máli. Þessu hafa þeir Klaustursmenn fegið að kynnast og fá eflaust enn betur næstu daga. Þeir reyna að tala um eitthvað annað, en raunveruleikinn kemur alltaf aftur. Reyna má að kalla það sem sagt hefur verið „fylliríisraus“ og að „öl sé annar maður“ jafnvel þykjast ekki muna eftir neinu. En það leysir engan vanda og er eins og hver önnur tilraun til að drepa málinu á dreif. Ef þeir hafa talað illa um samstarfsfólk sitt er eðlilegt að þeir gjaldi þess. Engar afsakanir duga. Ef þessir samstarfsmenn svo kjósa er fullkomlega eðlilegt að þeir fái að gjalda þess sem þeir hafa sagt. Hunsun er ævagamalt og áhrifaríkt ráð. Enginn kemst af án allra samskipta við aðra.

Kannski ætti ég að fara að skrifa meira um sjálfan mig í þessu bloggi. Sumir líta á bloggið sem einskonar dagbók. Svo er ekki. Á margan hátt er þetta samskonar fyrirbrigði og innleggin á fésbókina. Einræða samt. Enginn truflar. Einhverjir sjá samt eða vita a.m.k af þessu. Eiginlega dettur mér samt ekkert í hug. Nú er hægt að segja að veturinn sé kominn. Jafnvel hér á Akranesi. Hér er snjór og alhvít jörð. Þó er snjórinn ekki mikill, en alls óvíst að hann fari fljótlega, ef dæma skal eftir veðurfréttum. Og svo tapaði Trump sem þykist vera svo góður í störukeppni að hann hefur skrifað eða látið skrifa margar bækur um það.

Annars ætti ég nú að geta skrifað um eitthvað annað en veðrið. Mér leiðast slík skrif en get þó ekki annað en fylgst með þeim að einhverju leyti. Jólaljósin eru smásaman að hverfa. Ekki eru þau þó allstaðar horfin þó febrúar sé að nálgast. Að búa á fjórðu hæð í blokk og geta horft yfir lágreist einbýlishús í tuga eða hundraðatali er að vissu leyti einskonar forréttindi. Og þá er ekki minnst á fjöll, sjó eða annað landslag. Ekki skil ég mikið í sálarlífi þeirra, sem þurfa að horfa á sama steinsteypuvegginn út um gluggann sinn áratugum saman.

Væntingastjórnun. Við stjórnum því sjálf hverju við vonumst eftir hjá öðrum. Samband okkar við annað fólk er það mikilvægasta í lífinu. Sumir virðast halda að hægt sé að fljóta ofaná og vera alltaf einn. Svo er ekki. Allt sem gert er og sagt getur hvenær sem er komið í bakið á manni. Þessvegna er eins gott að venja sig á að flana ekki að neinu. Betra er að segja of lítið, en of mikið.

Í þeim táradal sem veröldin vissulega er, þýðir ekki annað en að reyna að lifa lífinu með bros á vör. Akomendur okkar, sem virðast hafa það svo gott, munu þurfa að glíma við heim sem er á fallanda fæti. Þetta finnst a.m.k. mörgum. Allt sé að fara til fjandans. Ef það eru ekki loftslagsmálin og mengunin, þá eru það mannfjölgunin og flóttamennirnir. Að búa að sínu og minnka það ekki eru eðlileg viðbrögð, en jafnframt hættuleg. Að ýkja þann mun sem finnarlegur er á fólki er oft upphaf hverskonar ósamkomulags og ófriðar. Fjölmenning þýðir óhjákvæmilega oft útþynningu þjóðlegrar menningar. Þó er auðvitað hægt að halda í þá þjóðlegu án þess að hatast við þá fjölþjóðlegu.

IMG 7190Einhver mynd.


2813 - Siðleysi

Síðasta blogg mitt vakti svolitla athygli. A.m.k. fékk það fleiri heimsóknir en ég á venjulega að fagna. Ekki veit ég hvort það er JBH að þakka eða því að ég kallaði hann siðlausan. Hann er samt sá stjórnmálamaður sem ég tek, eða réttara sagt tók, meira mark á en flestum öðrum. Óþarfi með öllu er að réttlæta þar með allar hans gjörðir. Annars er því ekki að leyna að siðleysi getur hjálpað mjög til í þeirri endalausu baráttu sem pólitík að sjálfsögðu er. Ekki blandast mér t.d. hugur um að Davíð Oddsson, Sigmundur Davið og Donald Trump eru með einhverjum hætti siðlausir, eða a.m.k. er vel hægt að líta svo á.

Ég er nú svo takamarkaður að ég er ennþá að hugsa um þessa klukkuvitleysu, þó ég sé nýbúinn að setja upp blogg þar sem einmitt var talað um þetta. Man að í þau fáu skipti sem ég hef til Kanaríeyja komið hefur mér þótt það einn mesti kosturinn við þær eyjar, fyrir utan hitann og sólskinið, að þar þurfi maður ekki að vera að þessu sífellda klukkuhringli sem annars fylgir venjulega ferðalögum til annarra landa.

Um daginn var ég eitthvað að skrifa um uppáhaldslesefni mitt og minntist meðal annars á bakþanka Fréttablaðsins. Uppáhaldshöfunar mínir þar eru Gumundur Brynjólfsson og Óttar Guðmundsson. Einhverja Sirrý er mér dálítið uppsigað við. Kannski er vegna þess að hún snerti einhverja pólitíska taug í mér. Sif Sigmarsdóttir er líka áberandi góður penni. Geri ekki ráð fyrir að Óttar sé sonur Guðmundar þó það gæti alveg verið nafnsins vegna. Báðir virðast þeir vera nokkuð við aldur og eiga létt með að blogga. Það minnir mig á að einn af blaðamönnum DV, sem Ágúst Borgþór heitir er eiginlega einn af mentorum mínum í bloggvísindum. Var alltaf dálítið ósáttur við hvað hann gerði á sínum tíma lítið úr blogginu samanborið við alvarleg smásöguskrif, sem hann er óneitanlega superflinkur við.

Stóra Blöndals-brjóstamálið er talsvert á milli tannanna á fólki um þessar mundir. Allskonar umræður um klám og þessháttar eru líka ólíkt safameiri en Klaustur-umræður þær sem flestir eru búnir að fá leið á. Alþingi sem vinnustaður ætlar þó halda þessum umræðum vakandi og hefur reitt sjálfan Simma alvitra til reiði með því að skipa enn eina nefndina. Svo er víst Samfylkingin flækt í málið líka og óvíst hvernig þetta allt saman endar. Líklegt er þó að Gunnar Bragi og Bergþór eigi ekki afturkvæmt á þing.

Vísurnar eftir Jóhannes Laxdal og mig sjálfan hafa e.t.v. ekki haft beinlínis áhrif á vinsældir þess bloggs en samt eru þær nokkuð góðar. Einkum vísur Jóhannesar og sérstaklega þær allrasíðustu. Nú bíð ég bara eftir vísu hans um þetta blogg. Greinilega hefur það samt áhrif að tala um nafngreinda einstaklinga í blogginu.

IMG 7191Einhver mynd.


2812 - JBH

Varðandi þetta JBH-mál sem virðist tröllríða öllu núna vil ég bara segja það að að mér hefur lengi þótt Jón Baldvin Hannibalsson eftirtektarverður pólitíkus, en stórgallaður á margan hátt. T.d. hefur hann oft og einatt talað um „dómgreindarbrest“ hjá sjálfum sér, þegar upp um hann hefur komist. Mér finnst margar athafnir hans benda til þess að hann sé einmitt siðlaus með öllu. Kannski hefur hann einmitt valdið í gegnum tíðina svo miklum skaða að það réttlæti að ráðist sé nú á það gamalmenni, sem hann hlýtur að vera, á þann hátt sem gert er. Síst af öllu er ég til þess fallinn að skera úr um það.

Svo ég haldi nú áfram hugleiðingum mínum um hið ritaða mál vs. hið talað og/eða sýnilega. Þá er augljóst með öllu að bækur eru þverrandi auðlind. Þó má alveg gera ráð fyrir því að við Íslendingar höldum lengur áfram að semja, gefa út og jafnvel lesa bækur en flestir aðrir. Alveg eins og við komumst snemma uppá lag með að semja skáldsögur getur vel verið að við höldum því lengi áfram. Ekki eru þó allar bækur skáldsögur þó þær hafi löngum verið vinsælar. Staðreyndum og ýmiss konar fróðleik er þó vel hægt með rafrænum hætti að safna saman og gera öllum eða nær öllum aðgengilegan. Vinsælt er hjá rithöfundum nútímans að rugla sem mest saman staðreyndum og skáldskap svo stundum er erfitt að greina þar á milli. Ekki dugir alltaf að fara eftir því sem haldið er fram af þeim sem sjá um að koma bókinni eða verkinu á framfæri.

Hvað framtíðina varðar að þessu leyti er vandasamt að spá. Vel er þó t.d. hægt að hugsa sér að gúgglsamband verði við alla veggi og þeir geti talað og spyrja megi þá um hvað sem er. Já, og auðvitað verður gúgglið miklu betra og fljótvirkara þá en nú er. Samt er það svo að ég undrast oft hvað Google er fljótur að svara. Það verður bara að spyrja hann á réttan hátt. Það er allsekki sama hvernig það er gert. Hann á það til að vera næstum eins flókinn og fésbókin.

Annars er þetta með skáldsögur og sannar lífreynslusögur talsvert merkilegt mál. Er það sem gerist í heilanum á okkur ekki alveg jafnmikill sannleikur og hvað annað. Um markverða atburði má vitanlega segja að ræða megi um ákveðnar staðreyndir í sambandi við þá. Samt má auðveldlega setja staðreyndirnar í þann búning sem hentar hverju sinni eða hverjum og einum hentar best, með því að sleppa ákveðnum atriðum og leggja einkum áherslu á önnur. Þetta hljóta allir að kannast við og þetta nota flestir fjölmiðla sér óspart.

Sjálfur hef ég stundum prófað að segja sannleikann á þann hátt að allir haldi að um tilbúning sé að ræða. Slík getur verið furðulega auðvelt. Um þetta má margt segja. Merkilegust allra veikinda eru svokölluð „geðræn“ slík. Kannski skrifa ég meira um þetta síðar. Og kannski ekki.

Eiginlega hef ég alveg ákveðið að þetta með klukkuna sé endileysa. Tvennt er það einkum sem sannfærir mig um þetta. Vitanlega kemst ruglingur á ýmsa líkamsstarfsemi við það að ferðast yfir mörg tímabelti. Fólk jafnar sig þó furðu vel og fljótt á því. Hitt er að það mundi fækka mjög birtustundum á vökutíma flestra ef farið væri útí þessa vitleysu. Lesið bara Moggabloggið hans Ágústs H. Bjarnasonar ef þið trúið mér ekki hann er sá vísindalegasti afneitunarbloggari sem ég veit um.

IMG 7193Einhver mynd.


2811 - Kjaftavaðall

Blogg Fréttablaðsins heitir „bakþankar“ Þar eru menn skikkaðir til þess að skrifa um eitthvað annað en fréttir dagsins og pólitík. Auðvitað veit ég ekkert um þessa skikkun, en ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að það eru aðallega starfsmenn blaðsins, sem þá skrifa og gjarnan er þar látið vaða á súðum. Yfirleitt les ég alltaf þessi innlegg og eins og gengur er ég stundum sammála því sem þar er sagt og stundum ekki. Að mörgu leyti eru þetta einskonar blogg. Sama má oft segja um hálftíma hálfvitanna á alþingi. Þar eru þingmenn stundum að reyna að koma sínum hugðarefnum á framfæri. En plássið er lítið útaf fjárans fésbókinni.

Fréttaþorsti minn gengur stundum út í öfgar er óhætt að segja. Oft er það svo að ég hlusta (nú eða horfi) oft á sömu fréttina. Þó virðast miðlarnir ekki segja sömu fréttina oft. Gallinn er bara sá að miðlarnir eru svo margir og sjónarmiðin margvísleg. Best væri að gefa þeim öllum frí. Láta fréttirnar finna sig í staðinn fyrir að leita að þeim. En það er erfitt. Næstum eins erfitt og að fara í megrun.

Já, vel á minnst. Megrun. Ég er að hugsa um að taka slíkt upp núna á nýbyrjuðu ári. Hætta að mestu að éta brauð og tilbúinn mat. Eiginlega veit maður ekkert hvað maður er að láta ofan í sig með því að vera sífellt að éta einhvern unninn mat. Víða eru fátæklingarnir nú feitir en þeir sem betur mega sín grennri. Einu sinni var þetta alveg öfugt. A.m.k. hér á Íslandi. Ódýr matur, batnandi lífskjör og óðagotið á öllum stuðlar að þessu.

Ég er að hallast að því að þessi klukkuvitleysa sé ein allsherjar smjörklípa. Allt eða svotil allt sem um þetta og hina svokölluðu líkamsklukku er sagt finnst mér vera hin mesta vitleysa. Ef krakkar og unglingar þurfa að sofa meira liggur þá ekki beinast við að byrja skólana svolítið seinna. Kannski hentar það kennurunum ekki eins vel. Sumir þeirra þurfa víst að grilla. En er ekki skólinn frekar fyrir nemendurna en kennarana? Svo er oft ekki að sjá. Nemendurnir eru þó a.m.k. fleiri. Áður fyrr voru verslanir alltaf opnaðar í síðasta lagi klukkan níu. Það held ég að sé ekki lengur. Kannski vörurnar hafi kvartað.

Hvort er merklegra hið talaða orð eða hið skrifaða? Mér finnst hið skrifaða orð (bækur, greinar) mun merkilegra. Unga fólkinu í dag finnst sennilega hið talaða orð merkilegra. Skólabörn lesa helst ekki. Það er ekki kúl. Aðdáendur fésbókar og twitter lesa kannski einsöku sinnum stuttan texta, en hið talaða mál og ég tala nú ekki um myndir og videó, er álitið miklu áhrifameira. Vinsældir sjónvarpsefnis, kvikmynda og útvarps er til vitnis um að smám saman er hið talaða mál að ná yfirhöndinni. Meðan hlustað er eða horft, er hægt að gera eitthvað að gagni með höndunum og ekki er þörf á að hugsa. Vegna skilta, leiðbeininga og ýmislegs annars er samt nauðsynlegt í nútímasamfélagi að kunna að lesa. Hið ritaða mál er þó greinilega á undanhaldi. Myndmálið og talmálið er nútímalegum börnum eiginlegt. Kjaftavaðall er einkenni nútímans. Ég er bara orðinn svo gamall að ég á erfitt með að skipta um.

IMG 7197Einhver mynd.


2810 - Bumfuzzle

Undarlegt hvað ég hef stundum lítið fyrir því að svara vísum hér. Þó er ég allsekki hraðkvæður sem kallað er. En það hjálpar mikið að geta tekið stuðla og jafnvel rímorð úr vísunni sem svarað er. Yfirleitt á ég í mestu vandræðum með að semja vísur þó ég kunni nokkurnvegin bragfræði og sé sæmilega kunnugur algengustu rímnaháttum. Ástæðulaust að fjölyrða um þetta. Samt á ég í stökustu vandræðum með að gera limrur, þó það sé einn vinsælasti bragarhátturinn þessi dægrin.

Ekki gerist mikið hér á Moggablogginu um þessar mundir. Ekki heldur á fésbókardruslunni. Og þó. Fjölmiðlar flestir virðast standa í þeirri meiningu að ýmislegt gerist þar. Mest er það samt óttalegur kjaftavaðall og ýmislegt bull. En margur miðillinn gerir sig ánægðan með það. Ekki þreytist ég á að hallmæla fésbókinni. Það ber vott um andlega fátækt mína. Ekki orð um það meir.

Alveg vissi ég það fyrir löngu, (það var fyrir fisk, að þessi garður var ull) að Sigurður Hreiðar væri að undirbúa einhverskonar sjálfsævisögu. Skyldi sú bók vera fáanleg á bókasöfnum? Hvernig ætli skylduskilum, sem einu sinni voru við lýði, sé háttað núna? Ég er nú tekinn að gamlast nokkuð, en var einu sinni að hugsa um einhverskonar sögu líkt og Sigurður, en er eiginlega hættur við það. Samt er það eina sem ég get nokkurn vegin skammlaust núorðið, að skrifa. Skrattann ráðalausan mundi einhver segja, en það er önnur saga.

Ferðasögur eru eiginlega mín sérgrein. Það er að segja lestur slíkra bókmennta, en ekki skrif, enda ferðast ég lítið. Um þessar mundir er ég að lesa á Kyndlinum mínum bók sem heitir „Bumfuzzle“ og er um ferðalag á skútu í kringum hnöttinn. Þessi bók var ókeypis þar, svo ég var fljótur að taka hana. Sérgrein mín númer 2 er nefnilega ókeypis bækur. Merkileg bók og merkilegt nafn. Þar að auki er til vefsetur sem heitir „Bumfuzzle.com“.

Seint virðist ætla að ganga að auka virðingu alþingis. Það eina sem mér dettur í hug varðandi virðingu þess er aldurinn. Sagt er að þetta sé elsta löggjafarþing í heimi, en það er nú eins og með heimsmetin hans Sigmundar Davíðs að efast má um allt. Svo er okkur talin trú um að íslensk tunga (þ.e. tungumálið) sé sú merkilegasta í heimi. Líklega er samt rétt að við höfum komist fyrr upp á lag með að skrifa skáldsögur en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Kannski er framlag okkar til heimsmenningarinnar þar með upptalið. Ekki er ég bær til að kveða uppúr með það.

Sennilega hef ég frá unga aldri verið mótfallinn hvers konar breytingum. Man vel að ég var á sínum tíma á móti því að breyta yfir í hægri umferð. Lenti þó aðeins einu sinni alvarlega í vinstri villu þar. Líka var ég á móti bjórnum þegar það var aktúelt. Nú er ég semsagt á móti því að breyta klukkunni. Skelfing er það erfitt þetta líf. Alltaf þarf maður að vera að taka afstöðu. Langþægilegast er samt að berast bara með straumnum. Vera alltaf sammála síðasta ræðumanni. Rugga aldrei bátnum að óþörfu.

IMG 7203Einhver mynd.


2809 - Verkbann

Sú er villa margra ástríðufullra fésbókarskrifara að innlegg þeirra skipti einhverju máli. Sumir bloggarar eru einnig haldnir þessari firru. Svo koma fjölmiðlarnir og látast vera uppteknir af því sem þar er sagt. Þannig verður mörg smjörklípan til. Tökum dæmi af pólitíkinni. Nú eru pólitískir fésbókarskrifarar uppteknir af því að klukkuvitleysan sé smjörklípa til að leyna einhverju stórkostlegu. Kosningaúrslit eru alltaf á skjön við það sem hægt væri að ætla eftir slíkum skrifum að dæma. Hvernig ætli standi á því? Getur verið að bloggarar og fésbókarskrifarar séu færri en af er látið? Fjölmiðlagúrúarnir eru ekki margir.

Sumir nota fésbókina sem allsherjar uppflettirit. Slíkt er óvitlaust. Ef spurningarnar eru nógu hversdagslegar má búast við mikilli þátttöku. Hún verður því meiri sem spurningarnar eru almennari. Best er að eiga ekki mjög marga fésbókarvini. Sumir leggja það að jöfnu að fá læk eða svar við spurningu og klapp á bakið. Jafnvel neikvæð læk eru nokkurs virði. Líf margra snýst um fésbókina. Costco er að detta úr tísku. Auglýsingapeningar eru á leið úr landinu. Allt er breytingum undiropið, jafnvel andvökur. Af hverju er Twitter sums staðar vinsælli en sjálf fésbókin? Það er að verða jafnhallærislegt að hanga á fésbókinni og að drekka skyr.is.

Verkbannið í Bandaríkjunum snýst að sjálfsögðu um valdsvið forsetans. Allstór hluti þingsins er greinilega þeirrar skoðunar að það sé orðið of mikið. Kannski er þetta of seint í rassinn gripið og þó Trump sé vissulega meingallaður að mörgu leyti, þá gerir hann sér sennilega grein fyrir þessu. Hvors aðilans það bætir stöðuna meira að þetta verkbann standi sem lengst er auðvitað stóra spurningin. Nú þegar er það líklega búið að standa lengur en aðilar reiknuðu með. Ríkisstarfsmenn (kannski einkum alríkisstarfsmenn) hafa að ég held allsekki verkfallsrétt í þessu Guðs eigin landi. Þessvegna getur pólitíkin þarlendis tekið á sig allskrýtnar myndir.

Nú er að hefjast kuldatíð. Vonandi stendur hún ekki lengi. Tíðarfar hefur verið óvenju gott hér á Akranesi það sem af er vetri. Snjór er hér enginn. Kannski kemur hann, en er á meðan er. Snjóleysi þýðir auðvitað meira myrkur. Satt að segja er ég orðinn dálítið leiður að því að ekki skuli birta fyrr en um ellefuleytið. Sumir vilja halda að birtumagn aukist við að hringla með klukkuna, en svo er ekki. Sé ekki að við græðum neitt á því þó fari að dimma um tvöleytið í staðinn fyrir fjögur. Kannski þessi hringavitleysa með klukkuna sé bara smjörklípa.

Var að enda við að lesa eina smábók eftir Þórarinn Eldjárn. Hún fjallar um vaxmyndasafnið og er dásamlega stutt og fljótlesin. Man vel eftir þessu merka safni. Var alltaf dálítið hissa á því að sjá strákinn í duggarapeysunni innanum stórmenni sögunnar. Þekkti ekki alla Íslendingana enda var það að vonum. Íslendingar eru upp til hópa ekki heimsfrægir og ekkert við því að segja. Svoleiðis er það bara og alveg sama hvað við streðum mikið.

IMG 6298Einhver mynd.


2808 - Hrossatað

Kannski er ég búinn að verða mér úti um sérstakan bloggstíl, með númeragjöfinni einkum og sér í lagi. Treysti mér varla til að fullyrða um neitt annað. Aðra get ég miklu fremur fjölyrt um. Til dæmis er mér engin launung á því að undanfarið hef ég einkum hrifist af þeim bloggstíl sem Jens Guð hefur tamið sér. Í gegnum tíðina hef ég þó haft fleiri mentora í þessum efnum, en ég læt liggja á milli hluta að nefna þá. 2808 blogg verða sko ekki til af sjálfu sér.

Man vel eftir mínum fyrstu bloggum hér á Moggablogginu. Áður hafði ég gert smávegis tilraunir með slíkt á PITAS.COM. Salvör Kristjana varð einna fyrst til að veita bloggum mínum athygli og kommenta á þau. Bloggkomment eru að sínu sínu leyti alveg eins og blessuð lækin á fésbókarfjáranum. Menn geta alveg orðið háðir þeim. Alltaf hef ég bloggað hér á Moggablogginu og er ekkert á leiðinni með að hætta því. Þeir eru greinilega farnir að skipta nokkrum hundruðum, sem varla láta hjá líða að lesa bloggið mitt. Enda er lestur ekki erfiður. Þó er eitthvað um það að erfiðlega gangi stundum að kenna slíkt og er það furðulegt. Þekki samt vel að börnum vaxi slík kunnátta mjög í augum. Svipað má um vísnagerð segja. Hún er ekki erfið ef menn leggja sig eftir slíku.

Talsvert hef ég velt því fyrir mér hve fyrirferðarmikil öll mín blogg yrðu ef þau væru prentuð út. Það held ég þó að verði seint. Eitthvað er um endurtekningar að ræða meðal minna blogga en þó held ég og vona að svo sé ekki í miklum mæli. Að minnsta kosti ekki í svo ríkum mæli að til vandræða horfi. Myndskreytingarnar hafa þó orðið sífellt fyrirhafnarsamari. Undarfarið hef ég einkum leitað í gamlar myndir, enda er ljósmyndadella mín á undanhaldi.

Sennilega er ég ekki einn um að fylgjast með „Ófærðinni“ í sjónvarpinu. Merkilegast er þar að ekki ber mikið á ófærðinni sönnu og einu að þessu sinni. Þó ég geti ekki annað en viðurkennt að þessi þáttaröð er talsvert spennandi, átel ég stundum sjálfan mig fyrir að horfa á þennan samsetning. Í raun og veru er þetta ekki annað en það sem amerískar lögguseríur snúast yfirleitt um. Eini raunverulegi munurinn er sá að íslenska er töluð (oft illskiljanleg) í  þessum þáttum og leikararnir eru íslenskir. Já, og svo má minna á það að hestaskítur er oftast nefndur hrossatað á íslensku.

Nú er orðið svo langt liðið á Janúar-mánuð og svo lagt síðan ér byrjaði á þessu blogginnleggi að ég verð eiginlega að fara að koma því frá mér. Ekki get ég að því gert þó það sé í styttra lagi. Það er bara svo lítið að frétta, þó Trumparinn sé ennþá einu sinni að æsa sig smávegis og með nýja árinu hefur sú gagnmerka breyting orðið á dauðanum sjálfum, að ríkið á núna innvolsið úr flestum Íslendingum. Ekki reikna ég með að ég hafi döngun í mér til þess að mótmæla þessu ofríki. Akkúrat í dag virðast flestir vera uppteknir af klukkunni. Ég er nú svo gamall að ég man greinilega eftir því að þegar ákveðið var að hætta þessari hringavitleysu með klukkuna (ætli það hafi ekki verið árið 1968 – það var mikið breytingaár, var ekki hægri umferð tekin upp þá?) þá var ein aðalrösemdin sú að sennilega mundu flestar þjóðir hætta þessu fljótlega. Það hefur samt ekki orðið raunin og ég heyri ekki betur en sama röksemd sé uppi núna. Það er auk allra annarrra. Eiginlega byrjaði ég á þessu bloggi fyrir alllöngu en hef ekki komið því í verk að klára það. Set það bara upp eins og það er núna.

pepperEinhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband