2815 - Snælega snuggir

Nú er lokið þessari störukeppni milli þingsins og forsetans í Bandaríkjunum. Reyndar var bara samþykkt að fresta aðgerðum til 15. febrúar, en ég held að samið verði um eitthvað fyrir þann tíma svo ekki komi til lokunar aftur. Í rauninni eru demókratar og repúblikanar sammála um ýmislegt þegar kemur að öryggismálum og landamæravörslu. Það eru frekar flóttamannamál og ýmislegt sem þeim tengist sem þeir eru ósammála um. En liklega verður samið um eitthvað sem bjargar andlitinu fyrir Trump. Forsetakosningarnar sem verða á næsta ári er það sem þetta fólk einblínir á.

En það eru ekki múramál, sem mestum áhyggjum valda fólki hér um slóðir. Það eru frekar Klausturmál, sem í sjálfu sér eru ekkert merkilegri en múrinn í Bandaríkjunum. Sennilega er Venesúelabúum líka skítsama um múrinn, þeir hugsa bara um hann Maduro sinn. Eiginlega hefur hann með þrákelkni sinni valdið Venesúelum miklu tjóni. Það réttlætir samt ekki allar aðgerðir Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Í sjálfu sér er ekki við öðru að búast af stórveldi en einhverju slíku og Rússar eru stuðningsmenn Madurós eins og við mátti búast. Nú þegar stuðningur þeirra við Assad Sýrlandsforseta virðist vera að bera árangur er ekkert skrítið þó þeir snúi sér að Venesúela. Það gæti reyndar orðið ný Kúba. Já, ekki ber á öðru en að nýtt kalt stríð sé í undirbúningi. Vonum bara að það verði kalt sem lengst, en hitni ekki.

Þegar ég leit út um gluggann um hálftíu leytið (í morgun mánudag) kom mér í hug forna spakmælið sem er svona: „Snælega snuggir sögðu Finnar, áttu andra fala.“ Nei, þetta er ekki úr Hávamálum en gamalt samt. Lét mig þó hafa það að fara út að ganga skíðalaus með öllu (andrar). Og viti menn, þegar hætti að snjóa og birti almennilega var veðrið bara alveg þokkalegt og þar að auki búið að skafa gangstígana.

Hver veit nema ég skreppi í Bónus á eftir. Það þarf allavega að kaupa mjólk og ýmislegt fleira hugsa ég. Sennilega fer ég þangað á bílnum, þó það verði talsvert fyrirtæki að skafa af honum snjóinn. Sé að ég hef lagt honum á vitlaust stæði þegar ég kom heim eftir að hafa skutlað Tinnu og Bjarna uppeftir í gærkvöldi. Bjarni kemur líklega eftir hádegið og sennilega fer ég með hann í vinnuna þá.

Blogga að líkindum ekki meira í dag. Í gær voru víst eitthvað yfir fimmhundruð sem skoðuðu bloggið mitt. Líklega er það einhverskonar met. Kannski hefur fólk ekki haft mikið annað að gera í það sinnið. Notkun tölva er alltaf að aukast. Veit ekki hvar þetta endar.

IMG 7188Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þó að snuggi sjaldan hér
er Sæmi alltaf vílinn.
Fleira að kaupa flýtti sér
ef fyndi árans bílinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.1.2019 kl. 14:17

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Snarvitlaus að snugga hér
snjórinn alltof kaldi.
Akranes finnst allaf mér
á æringjanna valdi.

Sæmundur Bjarnason, 28.1.2019 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband