2816 - Um klukkubreytingu

Ég er sífellt að verða sannfærðari og sannfærðari um að þetta með klukkuvitleysuna er ein allsherjar smjörklípa. Hef samt sem áður ekki almennilega áttað mig á því hverju er verið að leyna. Kannski vita það ekki aðrir en þeir sem byrjuðu á þessu.

„Í lífeðlis­fræðinni skipt­ir sól­ar­ljósið að kvöldi litlu fyr­ir líf okk­ar og líðan, það er morg­un­birt­an sem öllu máli skipt­ir. Lík­ams­klukk­an er þannig gerð af skap­ar­an­um að hring­ur­inn er 25 klukku­stund­ir og ef vís­bend­inga frá sól­ar­ljósi nýt­ur ekki við erum við að setja lífið í ójafn­vægi. Á Íslandi þarf fólk ein­fald­lega að fylgja ljós­inu og sofa meira; skv. nýj­um töl­um sofa ung­menni á Íslandi rétt rúm­ar 6 klukku­stund­ir á sól­ar­hring, sem er allt of lítið. Og haldi þessu áfram blas­ir við okk­ur eft­ir 20 ár eða svo far­ald­ur þeirra sjúk­dóma, eins og ég nefni hér að fram­an,“

Þetta segir Karl Ægir Karlsson prófessor í taugavísindum í viðtali við Morgunblaðið. Mér finnst þetta ekki sanna nokkurn skapaðan hlut, en ég er ekki prófessor í taugavísindum. Held samt endilega að fólk fari ekki almennt að sofa lengur þó klukkunni verði seinkað. Hef áður sagt það að ef þetta snýst um það að hrekja ekki blessuð börnin út í myrkrið eldsnemma á morgnana í misjöfnu veðri, þá sé einfaldast að byrja skólana svolítið seinna. Reyndar hélt ég að sólarhringurinn væri 24 klukkustundir en ekki 25.

Flestir lesa ekki og kynna sér ekki annað en það sem þeim líkar sæmilega vel við. Þannig verður til ósamstætt fólk, sem hugsar öðruvísi en aðrir. Að mörgu leyti er þetta jákvætt, en getur líka verið hættulegt. Ósamkomulag eykst og línur skerpast. Ef nógu markvissum áróðri er beitt er hægt að fá marga til að hugsa eftir svipuðum brautum. Sjálfur hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu með klukkuna. Sennilega snertir það mig ekki á nokkurn hátt. Held bara að mörgum bregði í brún þegar fer að skyggja klukkutíma fyrr en venjulega um eftirmiðdaginn. Auðveldast er að ná til fólks með eitthvað sem er nógu almenns eðlis. Efast ekki um að margir vilja breytingu breytinganna vegna og þetta ásamt bjórnum á sinni tíð er upplagt í þjóðaratkvæðagreiðslu tilraunir. Sem betur fer svæfir alþingi flest mál.

Klukkan átti allsekki að verða meginefni þessa bloggpistils. Mér finnst bara að ég sé að svíkja einhverja ef ég blogga ekki reglulega. Ekki get ég gert eins og Jens Guð að krydda bloggpistlana sína með veitingahúsadómum og allskyns tónlistarspekúlasjónum, því ég er með öllu laglaus og fer mjög sjaldan út að borða. Hinsvegar hef ég áhuga á mörgu eða það finnst mér a.m.k. Þó ekki á greinarmerkjasetningu enda er slíkt af skornum skammti hjá mér í þessum pistlum. Reynsla mín í bloggefnum er þó orðin talsverð og réttritunarkunnáttan og fésbókarandúðin í lagi hjá mér.

IMG 7169Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þó flestu oftast finni að
framhjá skautar fimur.
Hvað er hvurs og hvurs er hvað
og hverjum klukkan glymur?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.1.2019 kl. 12:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Klukkan glymur kannski hæst
karli Baldvins Jóa.
Laxdal núna fimur fæst
við frækinn skóla-spóa.

Sæmundur Bjarnason, 29.1.2019 kl. 12:57

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekki nóg að vera prófessor í taugavísindum ef maður getur ekki hugsað sæmilega skýrt.

Þorsteinn Siglaugsson, 29.1.2019 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband