2731 - Singapore fundurinn

Því er ekki að neita að hugsanlegt er að Trump bandaríkjaforseti virki nokkuð sannfærandi á suma. Lyginn og ómerkilegur er hann þó. Samt efast ég ekkert um að hann á sínar góðu hliðar. Og vel gefinn er hann greinilega. Hæfileikar hans í ræðumennsku og sannfæringarkrafti eru samt ekkert einstakir. Sjálfhælni hans ekki heldur. Sennilega er alltof mikið lagt uppúr ræðumannshæfileikum bæði hér á Íslandi og mjög víða annarsstaðar á kostnað annarra hæfileika þegar menn eru kosnir til ábyrgðarstarfa.

Ekki verður það af Trump greyinu skafið að hann hefur breytt forsetaembættinu töluvert. Ekki er líklegt að framtíðarforsetar bandaríkjanna verði kurteisir og elskulegir við sína landsmenn í framtíðinni. Ennþá frekar á þetta við um framkomuna við útlendinga, enda er mjög líklegt að Bandaríkjamenn einangrist mikið í framtíðinni og verði þar með afar hættulegir.

Nú er það að koma í ljós að Norður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn líta mjög mismunandi augum á fundinn í Singapore. Auðvitað þykist Trump alltaf hafa rétt fyrir sér eins og venjulega. Ekkert einkennilegt við það. Kim Jong-un hefur þó sennilega grætt mun meira en Trump á þessum fundi. Núorðið er hann viðurkenndur og þekktur um allan heim, þrátt fyrir sín grimmdarverk og mannréttindabrot. Eflaust líður ekki á löngu áður en hann eignast sína stuðningsmenn víða um veröldina. Flestir eru eflaust orðnir hundleiðir á Putin og eiga eins og ég í erfiðleikum með að muna hvað kínverski forsetinn heitir.

Kínverjar eru þó það afl sem án alls efa verður ríkjandi í framtíðinni. Hvenær þeir fara framúr bandaríkjunum í hernaðarmætti og hvernig sambúð þessara risavelda verður í framtíðinni er alls ekki hægt að spá um. Þegar frá líður og rykið hefur sest eftir Singapore fundinn, þá sér Trump sennilega að hann hefur gengið of langt í að vinna gegn sínum nágrönnum og Vestur-Evrópskum vinum og of langt í þjónkum sinni við Asíuþjóðir. Ekki er hægt að komast hjá því að kenna Trump um að Kim Jong-un nýtur nú alþjóðlegrar viðurkenningar.

Eftirmál Singapore fundarins eiga þó að miklu leyti eftir að koma í ljós. Og mér finnst á flestan hátt skynsamlegt að bíða. Á meðan við bíðum herðir Kim Jong-un vafalaust tökin heimafyrir. En hvaða rétt höfum við, sem tilheyrum Vestur-Evrópu eða réttara sagt Alþjóðasamfélaginu til að krefjast þess af öðrum að þeir hagi sér eins og okkur líkar. Lýðræðisfyrirkomulagið hefur sýnt sig að vera meingallað. Er samt alls ekki að mæla bót einræðisfyrirkomulagi eins og virðist vera í Norður-Kóreu.

Er svosem alveg að verða búinn að fylla kvótann minn með hjali um fundinn sem allir eru að tala um þessa dagana. Og enn styttist í fótboltann.

IMG 8071Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ljóta tvo hann sauði sá,
í Singapúr að kela,
ekki sást þar Unnur Brá,
undir rúmi fela.

Þorsteinn Briem, 13.6.2018 kl. 14:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úfinn Trump var ekki þar
óvíst hvað því veldur.
Unnur Brá þar ekki var
og ekki Steini heldur.

Sæmundur Bjarnason, 13.6.2018 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband