2739 - Fótbolti og heimspólitík

Að sumu leyti er Suðrið að minna á sig. Varkárlegar er ekki hægt að taka til orða. Við stöndum nú e.t.v. andspænis mikilli ógn. Hún er hugsanlega sú að þeir sem hafa það verulega slæmt eru nú loksins að innheimta hjá okkur Vesturlandabúum það sem við í hinum vestræna heimi skuldum þeim í raun og veru. Hugsanlega er millistéttin á vesturlöndum alls ekki tilbúin til að ganga til skuldajöfnunar við þriðja heiminnn núna. Einhverntíma kemur samt að því. Einangrunarstefna sú sem Trump og hans lið stendur fyrir getur leitt til mikilla hörmunga. Ekki er ég svosem að spá þriðju heimsstyrjöldinni, en þróunin í heiminum gæti bent í þá átt. A.m.k. má búast við miklum átökum í heimspólitíkinni. Tollamál og flóttamannamál eru bara yfirborðið.

Er annars hægt að skrifa um annað en fótbolta núna. Að mörgu leyti er ég sammála þeim sem haldið hafa því fram að það að hafa tekið Emil Hallvarðsson út úr liðinu hafi verið afdrifaríkustu mistökin sem gerð voru á HM í Rússlandi. Stjórnendur liða segja oft að það eigi aldrei að breyta sigurliði. Að flestu leyti má líta á jafnteflið við Argentínumenn sem sigur. Annars stóðu sig eiginlega allir vel í þessu mikla ævintýri. Og vitanlega er hálfósanngjarnt að kenna Heimi Hallgrímssyni um að okkur tókst ekki að komast áfram. Vitanlega hefði það verið gaman.

Nú er semsagt hægt að fara að hugsa um annað en fótbolta og væntanlega verður það gert. Þó má eflaust margt skrifa um hann. Endalaust er hægt að segja ef og hefði. Samt er þetta búið að þessu sinni. Óþarfi með öllu er samt að leggja árar í bát. Þetta lið hefur gert góða hluti og getur vel haldið því áfram. Vel gæti verið ástæða til að leyfa leikmönnunum að fylgjast með HM-keppninni til loka. KSÍ hefur oft eytt peningum í meiri vitleysu.

Trump bandaríkjaforseti er líklega að lenda í meiri vandræðum en áður útaf flóttamannamálum. Dómari einn hefur skipað honum að sameina fjölskyldur strax. Sennilega verður hann að gera það eða Republikanaflokkurinn tapar eftirminnilega í kosningunum í haust. Bandaríkjamenn láta ekki fara með sig eins og borðtuskur.

Þó ég hafi lítið álit á íslenskri pólitík (en þykist vita ýmislegt um alþjóðastjórnmál) er því ekki að leyna að vegur sósíalista er vaxandi hér í Evrópu. Trump bandaríkjaforseti reynir að synda móti straumnum, en hræddur er ég um að hann verði fyrr eða síðar að gefast upp. Sú vinstri sveifla sem nú er að flæða um heiminn mun vonandi bjarga honum. Öfgahægrið er sífellt að verða einangraðra og öfgafyllra. Unga fólkið í dag er von heimsins.

IMG 8025Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alla leiki unnum við,
ef við bara skoðum,
rauða Messi rassgatið,
rennir undir stoðum.

Þorsteinn Briem, 27.6.2018 kl. 09:33

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Því meiri vandræðum sem Trumpsi kallinn lendir í, því meira elskar þjóðin hann. Er það ekki bara þannig?

Þorsteinn Siglaugsson, 27.6.2018 kl. 14:05

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, sennilega er það þannig, Þorsteinn. Ég hef samt dálitlar áhyggjur af því að USA verði verri fyrir okkur Evrópubúa vegna Trumps. Maður var orðinn svo vanur litlausum forsetum þar, þó þjóðlífið sé ákaflega hægrisinnað og alls ekki til eftirbreytni fyrir okkur Norðurlandabúa.

Sæmundur Bjarnason, 27.6.2018 kl. 23:01

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Enga leiki unnum við
öllum fyrir láum.
Rotað var þá raupgatið
af Rússadindlum fáum.

Hvusslags öfugmæli eru þetta? Við náðum þó einu jafntefli.

Sæmundur Bjarnason, 27.6.2018 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband