2733 - Fótbolti

Fjölmiðlalega séð þá er þetta heimsmeistaramót í Rússlandi mun verra en venjulega. Ég vorkenni þeim sem engan áhuga hafa á fótbolta og geta ekki töfrað hann fram. Þetta er eiginlega verra en nokkrar kosningar. Sumir eiga það þó til að verða æstir yfir þeim. Allir íslenskir fjölmiðlar eru undirlagðir. Ekki er fjallað um neitt annað en fótbolta. Ef einhver slysast til að tala um eitthvað annað þá er reynt að finna einhverja fótboltatengingu. Eiginlega er svolítið barnalegt að láta svona. Þó getur maður varla annað en hrifist með.

Auðvitað er það talsvert sögulegt að svona fámenn þjóð, eins og við Íslendingar erum, skuli hafa komist á þetta heimsmeistaramót. Látum samt ekki óskhyggjuna alveg blinda okkur. Þó okkur hafi tekist að komast upp úr okkar riðli á síðasta Evrópumeistaramóti og meira að segja að slá út Englendinga, þá er fremur ólíklegt að okkur takist að vinna svipað afrek aftur. En vitanlega er allt hægt. Einkum vegna þess að margar góðar knattspyrnuþjóðir og knattspyrnumenn leggja meiri áherslu á deildakeppni liða en landsliðin sem slík. Samhæfingin er hugsanlega ekki eins góð þessvegna.

Ef Íslendingum gengur ekki eins vel í knattspyrnunni í Rússlandi einsog æstustu stuðningsmenn vilja, þá verður væntanlega fljótt að fenna yfir þennan atburð hjá flestum. Heimsóknin til Rússlands mun þó væntanlega skapa ágætis minningar hjá mörgum.

Flestir virðast eiga smartfón-farsíma. Spurningin er bara hve vel þeir kunna á hann og hvort þeir nota hann mikið. Þegar fólk er annars hugar og potandi í símann sinn úti á götu er það kannski bara að spekúlera í hvernig þetta apparat virkar. Svo fer þetta líka dálítið eftir aldri. Það er t.d. talsvert skref fyrir gamlan hund eins og mig að hætta að nota tölvuna til að flækjast um Internetið og fara þess í stað að nota farsímann. Fyrir utan það að letrið í símanum er sannkallað lúsaletur. Svo er líka nokkuð algengt að fólk sé í hrókasamræðum á stöðum þar sem manni hefði ekki dottið í hug að tala á áður fyrr. Man enn hvað ég varð hissa þegar ég var í stórverslun og sá þar mann sem talaði bæði hátt og mikið. Við sjálfan sig virtist mér a.m.k.

Já, það er þetta með fótboltann. Nú er ég búinn að sjá nokkra leiki í sjónvarpinu og það eru fyrst og fremst Spánverjarnir sem hafa heillað mig. Kannski ég spái þeim bara sigri og heimsmeistaratign. Íslendingar tapa næstum áreiðanlega fyrir Argentínumönnum á eftir. Allt minna en 3:0 ósigur er eiginlega sigur hjá þeim. Verst að líklega komast þeir ekki uppúr riðlinum.

Þetta innlegg er í styttra lagi hjá mér, en það verður bara að hafa það.

IMG 8057Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alltaf bestir í að spá,
af við sjaldan brennum,
graðir oft við getum smá,
góðir ef við nennum.

Þorsteinn Briem, 16.6.2018 kl. 11:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alltaf sinnir enginn því
af þó Messi brenni.
Enda Steini oftast í 
ofsastuði og nenni.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2018 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband