Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017

2595 - Er Kirsan að missa tökin?

Uppnefning sýnir venjulega aðdáun eða a.m.k. meðlíðan með þeim sem uppnefndur er samanber málsháttinn sem er á þessa leið: kært barn hefur mörg nöfn. Samt sem áður er það svo að margir uppnefna af ímynduðu hatri og ekki eru öll uppnefnin beinlínis falleg.

Einhvernstaðar las ég að hægt væri núna að fá 7000 króna afslátt af miða á þjóðhátíð í Eyjum. Ég mundi ekki einu sinni íhuga að kaupa miða á þjóðhátíð í Eyjum á 7000 krónur. Það væri illa farið með góða peninga að mínu mati.

Ekkert skil ég í fólki sem gerir í því að auka viðsjár í illvígu forræðismáli. DV segir frá einu slíku og þó ég standi yfirleitt með forsjárlausum feðrum finnst mér Margrét Pála hafa sýnt þarna virðingarverða athygli. Eina reglan sem skólar og leikskólar ættu að mínu viti að hafa í heiðri í svona málum er afskiptaleysi. Ef í þessu tilfelli hefur verið komið með drenginn í skólann er út í hött að ætlast til þess að skólinn láti einhvern annan hafa barnið. Sama þó augljóst sé að barnið þekki föðurinn. Í málum sem þessu er rétt að láta lögleg yfirvöld skera úr. Það er skárra en að allir geti tekið lögin í eigin hendur.

Held að Trump sé hræddur um að með Rússlandstengingunni sé verið að undirbúa embættismissi hans. Svo er væntanlega ekki. Jafnvel þó afskipti Rússa af kosningunum sannist, eins of virðist vera raunin, held ég ekki að hægt sé að áfellast Trump sjálfan fyrir það. Hins vegar kann vel að vera að samband þeirra sem stjórnuðu kosningabaráttu hans og Rússa hafi verið með þeim hætti að hann verði sjálfur kærður til embættismissis. Hvað sem öllu þessu líður er augljóst á öllu að hann er í þann veginn að missa traust Repúblikana í þinginu.

Mönnum kemur alls ekki saman um hvort Kirsan Ilyumzhinov forseti FIDE (sem er alþjóðaskáksambandið) sé enn við völd eða ekki. Tilkynnt var á heimasíðu sambandsins að hann væri hættur, en ekki vill hann viðurkenna það sjálfur. Um þetta er nú rifist af miklum móð.

Hef tekið eftir því að sé rætt hér á þessari bloggsíðu um trúmál eða fóstureyðingar má búast við að margir vilji taka þátt. Slíkt er engin furða því vissulega eru þetta umdeild mál og snerta innsta kjarna mennskunnar ef svo má segja. Pólitískar liðsskiptingar eiga alls ekki við í þessu efni. Annars eru umræður af þessu tagi sem betur fer að mestu leyti búnar að færa sig á fésbókina. Ég þarf því ekki að óttast nein ósköp þó ég minnist á slík mál svona í „forbifarten.“

IMG 1729Einhver mynd.


2594 - Að gubba í gömlum mölétnum smóking

Á margan hátt er það krafa dagsins að skemmta sér undir drep. Helst eiga menn að horfa á sjónvarp allan liðlangan daginn. Það kostar ekki nema nokkur hundruð krónur á dag. Ef menn endast ekki til þess þá geta þeir farið svotil ókeypis á netið.

Það er haft fyrir satt að Galileó Gallilei, hinn frægi ítalski hugsuður og sjáandi hafi tautað fyrir munni sér: „Og hún snýst nú samt,“ þegar rannsóknarrétturinn hafði neytt hann til að viðurkenna að sólin snerist kringum jörðina en ekki öfugt. Auðvitað má segja að það sé lélegur vísindamaður sem afneitar því sem hann trúir staðfastlega að sé rétt. Vitanlega gera menn samt ýmislegt miður fallegt til að bjarga lífi sínu. Kannski eru þessi orð ekki rétt eftir höfð.

Guðmundur Andri Thorsson segir að Jónas Kristjánsson skrifi tóman skæting og sé bara maður að gubba í gömlum og mölétnum smóking. Að vísu segir hann þetta ekki beinlínis um Jónas en þó er varla hægt að horfa framhjá að það er einmitt það sem hann meinar. Guðmundur er ekki vanur að vera svona stórorður en tilefnið var einkum það að Nicole Leigh Mosty leyfði sér að gagnrýna ríkisútvarpið og Mikael Torfason.

Guðmundur Andri, Jónas og Bergur Ebbi eru þeir föstu pennar sem ég oftast les. Það að auki má nefna t.d. Egil Helga og Jens Guð sem eru undir svipaða sök seldir. Ég les nefnilega stundum það sem þeir skrifa. Ekki man ég eftir fleiri góðpennum í svipinn en þeir gætu alveg verið svolítið fleiri. T.d. gæti ég vel hugsað mér að lesa það sem Nicole skrifar. Þ.e.a.s. ef hún heldur því áfram.

Ég ætlaði að fara að baða mig um daginn, en þá kom maður í einkennisbúningi aðvífandi og sagði:

„Ertu með köfunarsérleyfi?“

„Nei, eiginlega ekki.“ Neyddist ég til að viðurkenna.

„Nú, þá geturðu ekki fengið að baða þig hérna.“

„Er það ekki. Ég hélt að það mættu allir baða sig hér.“

„Nei, það þarf sérstakt köfunarsérleyfi.“

„En hversvegna eru þá þessir mátunarklefar hérna?“

„Þetta eru sérstakir búningsklefar fyrir þá sem eru með sérstakt köfunarsérleyfi. Og allsengir mátunarklefar.“

„Nú, ekki vissi ég það. Má ég þá ekki klæða mig úr á víðavangi?“

„Nei, allsekki.“

„En ég kann ekkert kafsund.“

„Það er alveg sama. Öll köfun er bönnuð hér á Þingvallatvíæringnum. Og þú verður að gjöra svo vel að fara útfyrir hann til að hátta þig.“

IMG 1734Einhver mynd.


2593 - Æxlisbærinn Akranes

Eftir langa yfirlegu hef ég komist að því hvað það er sem hrjáir okkar vestrænu samfélög. Hvorki meira né minna. Ég er eiginlega búinn að leysa lífsgátuna. Eða svona næstum því. Maturinn sem við borðum er nefnilega alltof góður. Allt snýst um mat. Sennilega er þetta matgæðingum um allan heim að kenna. Sumir geta ekkert að sér gert, en borða næstum allt sem að kjafti kemur. Og auðvitað borða þeir meira ef maturinn er góður. Offita (sem stundum er nefnd lífsstílssjúkdómur) er alvarlegasta mein samtímast. A.m.k. hér á Vesturlöndum. Þessvegna er það sem aðrir vilja komast hingað þar sem maturinn er bæði ódýr og góður. Flóttamannavandamálið er nefnilega angi af þessu máli. Vitanlega viljum við vestræningjar (sko fjögur vöff í röð) ekki fá aðra með okkur að veisluborðinu. Þá má búast við því að við fáum minna.

Grimmdin í góða fólkinu á fésbók ríður ekki við einteyming. Nýlega ætlaði þingkonan Nichole Leigh Mosty að gera sig gildandi þar um slóðir, en var snimmhendis tekin alvarlega í karphúsið og hrökklaðist til baka. Bæði var það að hún var í vitlausum flokki. Vinstri-grænir þykjast nefnilega eiga bæði fésbókina og ríkisútvarpið eins og allir vita. Henni varð það líka á að gagnrýna bæði ríkisútvarpið og Mikael Torfason, sem er eiginlega alveg ófyrirgefanlegt í vissum kreðsum og þar að auki skrifaði hún ekki nærri nógu góða íslensku. Satt að segja alveg hræðilega. Stelpugreyið var eiginlega nánast tekin af lífi bæði af góða fólkinu á fésbók og af „virkum í athugasemdum“ á Stundinni svokölluðu, sem birti eins og ekkert væri sjálfsagðara upphaflega innleggið frá henni.

Á heimsvísu er víst hægt að búast við 71,4 ára aldri núna samkvæmt einhverri alþjóðlegri stofnun eða einhverju þessháttar. Þróunarríkin eru líklega að bæta mestu við sig í þessum útreikningi, en lönd eins og Sýrland sennilega minnstu. Sjálfur er ég víst kominn yfir þetta og er þannig séð á einskonar lánstíma. Sjálfsagt er Ísland frekar ofarlega á þessum lista eins og öllum öðrum.

Get ekki annað en hlegið. Ég ólst upp í Hveragerði innan um allar baneitruðu hveragufurnar og ætti samkvæmt því að vera löngu dauður. Nú er ég semsagt búsettur í æxlisbænum Akranesi og hef ekki einu sinni verið krabbameinsgreindur. Kannski er ég bara greindur. Mér finnst stundum að sjúkdómafólkið sjáist ekki fyrir. Kannski er þetta með krabbameinið sem leikur lausum hala á Akranesi nýtilkomið en satt að segja er það ekkert betra fyrir það.

Undarlegt með poppið. Tónlistarsérfræðingarnir þreytast ekki á að dásama það. Útvarpsblesarnir lesa upp það sem stendur á plötuumslaginu og þykjast voða gáfaðir. Virðast halda að popptónlistin sé það merkilegasta sem fundið hefur verið upp síðustu 500 árin eða svo. Ekki er ég þessarar skoðunar. Mér finnst þessi tegund tónlistar með því ómerkilegasta sem ég heyri. Þá er nú þögnin betri.

Eiginlega hefði mér verið nær að flýta mér ekki svona áðan. Nú er eiginlega kominn tími til að setja upp blogg aftur. Miðað við lengdina a.m.k.

Einhver mynd. IMG 1735


2592 - Nafn á einhverjum. Það gefst vel

Sumir þingmenn lesa upp langar greinargerðir eða ræður úr ræðustól alþingis og ég býst við að það sé samviskusamlega tekið upp á segulband eða bönd og svo skrifað upp af þartilgerðum riturum sem ómögulegt er að hafa aðgerðarlausa. Ef þetta er ekki atvinnubótavinna þá hef ég ekki hugmynd um hvað það hugtak þýðir. Þrátt fyrir öll þau leiðindi sem algengust eru í þingsal held ég að þingmenn sofni sjaldan í sæti sínu. Til þess hafa þeir sérstakar skrifstofur og svo geta þeir alltaf farið heim og lagt sig. Annars eru þeir ekkert öfundsverðir af hlutskipti sínu. Þeir ættu að bera ábyrgð á því sem þeir gera eða gera ekki. Gera það aftur á móti sjaldnast. Eru flestir annaðhvort í stjórnarliðinu eða hinu og haga sér samkvæmt því. Einstöku sinnum fá þeir að kjósa samkvæmt samvisku sinni. Og þá fer illa.

Trump núverandi Bandaríkjaforseti hafði hátt um það í kosningabaráttunni að hann ætlaði að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka „glæpi“ Hillary Clinton. Hversvegna þorir hann ekki að láta verða af því? Ýmislegt ætlaði hann að gera. Sumu af því hefur hann komið til framkvæmda. Hann kvartar reyndar undan því að flókið sé að afnema Obamacare. Sumt af því sem hann sagðist vilja gera rímaði ágætlega við stefnu Repúblicanaflokksins en ekki nærri allt. Það gæti hæglega orðið honum að falli síðar meir, að hafa ekki flokkinn óskiptan á bakvið sig.

Er Trump alveg trompaður? Þetta stríð hans um ferðabannið er að verða svolítið einkennilegt. Nú er hann búinn að banna fartölvum að ferðast í farþegarýminu hjá ákveðnum flugfélögum. Einhvern vegin er sprengjuhættan ekki nógu sannfærandi skýring því fartölvurnar mega ferðast í farangursrýmunum hefur mér skilist. Einhver af þessum grunuðu flugfélögum eru álitin stunda óhóflegar niðurgreiðslur svo hugsanlega er þetta bann í rauninni efnahagslegt.

Ja, hver Skollinn. Alltaf eru bloggin hjá mér að styttast. Þetta er ekki neitt orðið. Best ég hætti þessu bara. A.m.k. að rembast við að blogga daglega.

IMG 1744Einhver mynd.


2591 - Kellyanne Conway

Þó ég sé mjög svo á móti flestu því sem Útvarp Saga heldur fram get ég ekki neitað því að réttarhöldin sem nú fara fram um „tjáningarfrelsi“ stöðvarinnar fá mig til þess að hugsa mig vandlega um. Það er í rauninni enginn vandi að verja tjáningarfrelsi þeirra sem maður er að mestu leyti sammála. Ég get ekki annað en verið sammála því að það sé fáránlegt að ætla sér að ákæra Pétur Gunnlaugsson fyrir brot á lögum sem eiga að vernda minnihlutahópa.

Tjáningarfrelsið sjálft er miklu mikilvægara en allt slíkt. Eiginlega eru þessi lög dæmi um þöggun af versta tagi. Í mínum huga er tjáningarfrelsið mikilvægara en flest annað. Ef ekki er hægt að finna því stað að sérstökum ummælum sé í raun og veru ætlað að hafa tiltekin áhrif er engin leið að segja að ráðist sé gegn minnihlutahópum. Tiltekin orðræða getur ekki gert tjáningarfrelsið ómarktækt.

Að sumu leyti eru ljósmyndir og vídeómyndir að ganga af Internetinu dauðu. Sömuleiðis fésbókin. Sumir hræðast hana og það er engin furða. Í gamla daga var allt svart/hvítt eins og myndirnar. Litaðar ljósmyndir frá þeim tíma eru lítils virði. Talaða málið og málverkin blíva. Í gamla daga sá ég Internetið fyrir mér sem eitt gríðarmikið bókasafn. Sú hefur þróunin alls ekki orðið. Bandvíddin hefur öll orðið til þess að myndirnar eru settar í öndvegi. Ein mynd segir meira en þúsund orð segir ofnotað máltæki. Eins má snúa þessu við. „Eitt orð getur hæglega sagt meira en þúsund myndir.“

Kellyanne Conway er á margan hátt Vigdís Hauksdóttir þeirra Bandaríkjamanna. Hún er stundum með fótinn í munninum eins og þeir sem enskumælandi eru komast stundum að orði og gerir bommertur sem eru eiginlega engum ætlandi. Á sama tíma segir hún sannleikann umbúðalausan og kemst stundum vel að orði. Er elskuð af aðdáendum sínum, en hötuð af gagnrýnendum. 

Trump sjálfur er sennilega í miklum vandræðum útaf ummælum sínum um Obama fyrirrennara sinn. Hatur hans á höfuðborginni, löggjafarsamkomunni, dómsvaldinu og eiginlega öllu sem snýr að daglegri stjórnun, virðist ekki eiga sér nein takmörk og ekki er annað að sjá en það verði honum að falli. Hann virðist vera búinn að glata trausti flokksbræðra sinna og með því er fokið í flest skjól hjá honum. Óvinsældir hans meðal almennings eru orðnar næstum eins miklar og íslensku ríkisstjórnarinnar.

Læt ég nú lokið stjórnmálahugleiðingum mínum og reyni að taka upp léttara hjal. Öfgamenn í  þjóðernisrembingi munu áreiðanlega ekki vera sammála þessari greiningu minni. Trump er og hefur verið á margan hátt þeirra sameiningarmerki og nú hafa þeir ekkert nema Brexit til að krunka um.

Hvað er léttara hjal? Hvernig er hægt að segja brandara eftir reiðilesur af þessu tagi? Ég bara skil ekki hvernig sumt fólk hugsar. Tökum sem dæmi Þorstein þann Scheving sem setur fjölda linka á síðuna hjá mér í gær. Heldur hann að stórblöð eins og Washington Post, New York Times og fleiri séu að gagnrýna Trump forseta bara af því að það sé svo gaman? Sjónvarpsstöðin Fox News er eina stóra fréttaveitan sem styður Trump, enda trúir hann allri  vitleysu sem þaðan kemur.

IMG 1747Einhver mynd.


2590 - Comey og Trump

Sennilega eru menn alveg búnir að sætta sig við að túristunum hætti að fjölga fyrr eða síðar. Ég er svosem ekki að spá því að ferðamenn hætti að koma hingað og öll hótelin standi meir og minna auð. Sumir aðrir gera það kannski, en ég hef þá trú að hingað haldi túristar áfram að koma. Þeim getur hinsvegar ekki haldið áfram að fjölga jafn ævintýralega og undanfarið.

Held að búið sé að ákveða hvað eigi að taka við af ferðamönnunum. Áreiðanlega verður það laxeldið, fyrst skattaparadísin gekk ekki upp. Gallinn er bara sá að það er búið að prófa þetta. Það gekk alls ekki vel. Líklega er laxeldið ennþá óvissara en ferðamannabísnessinn. Mér líst satt að segja alls ekki á þessar skýjaborgir sem verið er að reyna að troða uppá okkur um þessar mundir.

Helga Vala Helgadóttir minnist á það í bakþönkum Fréttablaðsins að heyrnardaufir séu það margir hér á landi að fyllsta ástæða sé til þess að texta innlenda dagskrá. Þarna er ég með öllu sammála henni. Mér finnst að verið sé að nauðga þessum minnihlutahóp sem sennilega er ekki neinn minnihlutahópur.

Fréttablaðið virðist álíta að það sé mikil frétt að búið sé að selja Arion banka. Að mínu viti er alltaf verið að selja þessa bankaræfla eða a.m.k. að undirbúa sölu á þeim. Þeir virðast ekki geta horfið úr fréttum. Sennilega eru upphæðirnar sem nefndar eru svo háar að vesalings fréttamennirnir skjálfa í hnjáliðunum.

Það sem mér finnst merkilegast í fréttum núna (mánudagsmorgun) er það að Bandaríska þingnefndin sem sér um njósnir og þess háttar ætlað að halda opinn fund í dag með Comey forstjóra FBI o.fl. og þar verður kannski rætt um flest sem ekki er algjört hernaðarleyndarmál. Ef formaður nefndarinnar, sem er Repúblikani og varaformaður hennar, sem er Demókrati verða sammála um eitthvað er eftir því tekið. En það er svosem ekki mikið að marka mig, því ég sé fátt annað þessa dagana en Bandaríkin og Tromparann.

Nú er ég farinn að blogga svo oft að ég verð sennilega að fara með þetta á fésbókina hvað líður. Alltaf reyni ég samt að hafa þetta sem allra styst. Eiginlega má ekki tala (eða skrifa) lengi um það sama, því „attention spanið“ hjá flestum er svo stutt.

IMG 1752Einhver mynd.


2589 - Halldór Kiljan

Alveg er ég ódrepandi í blogginu. Nú er ég u.þ.b. að verða búinn að venja mig á að skrifa á hverjum degi einhverja endemis vitleysu. Kannski er það ekki allt saman vitleysa því einhverjir láta glepjast og lesa þetta. Allt upp í nokkur hundruð manns. En sleppum því. Samt er ég að monta mig eins og ég geri stundum.

Kannski er það afrek út af fyrir sig að blogga svotil daglega án þess að segja frá neinu. Gallinn er nefnilega sá að ég hef frá engu að segja. A.m.k. finnst mér ég ekki hafa það.

Sennilega þýðir ekkert fyrir mann að halda því fram að auglýsingar hafi engin áhrif á mann. Gjarnan mundi ég vilja vita í kvöld hvernig slagsmálin hjá Gunnari Nelson fara. Ekki minnist RUV á svona heimsfrétt. Samt vil ég ekki gerast áskrifandi að sjónvarpsstöð bara útaf þessu. Auglýsinga- og peningalega séð virðist þetta eiga að koma í staðinn fyrir hnefaleikana sem hafa liðið talsvert fyrir það hve box-samböndin eru eða voru mörg. Kannski var boxið bara ekki nógu blóðugt.

Einhver stærsti gallinn við atvinnuskrifara er hvað þeir fjölyrða lengi um sama hlutinn. Oft dettur þeim eitthvað sniðugt í hug en geta ekki eða vilja ekki og mega varla sleppa þeirri hugsun og fimbulfamba endalaust um hana. Ekki hef ég í hyggju að nefna nein nöfn en vitanlega er ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta fyrst og fremst öfund. Enginn hefur ennþá boðið mér svo mikið sem eina krónu fyrir skrif mín. Samt finnst mér þau bera af mörgu sem ég sé annars staðar og líklega er borgað fyrir. Þó veit ég ekkert um það.

Einhverntíma reyndi ég að lesa Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson en gafst upp á endanum því það sem mér a.m.k. þá fannst vera tómt Guðsorðastagl fór í taugarnar á mér. Helsti kosturinn við Halldór Kiljan hefur mér alltaf þótt vera víðsýni hans í trúmálum. Þó hef ég ekki lesið allar hans bækur.

Kannski ég prófi svona einu sinni að blogga tvisvar á dag. Held þó að ég hafi gert það áður.

IMG 1753Einhver mynd.


2588 - Ómar Ragnarsson

Hef áður lýst yfir aðdáun minni á Bergi Ebba, sem skrifar reglulega í Fréttablaðið. Held að það sé svona vikulega og oftast á fimmtudögum eða föstudögum. Eiginlega er ekkert hægt að endursegja það sem hann heldur fram og ég bendi bara mínum lesendum (sem ekki eru les endur) á að kynna sér það sem hann skrifar.

Bakþankar blaðsins, sem starfsmenn þess eru sennilega skikkaðir til að skrifa, eru oft dálítið áreyslulegir. Stundum eru þeir afleitir og fjalla um einskisverða hluti, en stundum eru þeir ágætir og fjalla um athyglisverð málefni.

Washington Post skrifar um að margir ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum óttist nú um sinn hag og séu jafnvel hættir að sækja um „food stamps“ þessvegna. Halda að stjórnvöld geti notað það til að „finna“ þá. Þessi fullyrðing blaðsins er partur af gagnrýni þess á Trump forseta sem nú hefur verið gerður afturreka með ferðabann sitt. Ekki eru þó allir möguleikar hans á því að koma sínum vilja fram uppurnir. Eiginlega ætlaði ég að komast hjá því að minnast á Tromparann, en það er erfitt.

Hversvegna í ósköpunum set ég ekki linka þar sem ég vitna í aðra? Stutta svarið er að ég kann það varla. Auðvitað gæti ég vanið mig á það. En ég hreinlega nenni því ekki. Og svo gæti ég, ef ég miða við sjálfan mig, misst lesendur mína á því. Kannski gleyma þeir alveg að koma aftur. Stundum flækist ég fram og aftur um netið með því að klikka á allskyns linka og gleymi hvar ég byrjaði á því. Hver veit nema aðrir séu líkir mér að þessu leyti. Mér finnst linkleysi betra.

„Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp“. Ómar Ragnarsson heimfærir þetta gamla rússneska spakmæli uppá Trump og Pútín, eins og ekkert sé. Ekki er annað að skilja á honum en að Internetið og allt sem því fylgir sé jörðin en Trump og Pútín ormarnir. Mér finnst dálítið langt gengið að kalla þá félaga orma, en auðvitað ræður Ómar sínum skilningi. Satt að segja er ég ekki frá því að Trump sé að safna glóðum elds að höfði sér. Stjórn hans þarf að gæta fyllstu varúðar í umgengni sinni við Kim Jong Un í Norður-Kóreu því svo virðist samkvæmt fréttum (sem e.t.v. eru frá CIA komnar) sem þar fari harðstjóri sem einskis svífst.

Ef kalda stríðið verður endurvakið eins og miklar horfur eru á verða menn að reikna með að þáttakendur verði fleiri en síðast. Auk Rússa og Bandaríkjamanna er ekki fráleitt að reikna með Kínverjum og jafnvel Norður-Kóreumönnum sem hugsanlegum þátttakendum. 

Allir eru eitthvað skrítnir eða að minnsta kosti pínulítið dularfullir. Langflestir eiga sín leyndarmál sem þeir deila ekki með neinum öðrum. Hvað er það sem plagar mig mest? Kynni einhver að spyrja. Svarið liggur ekki í augum uppi.

Megrunarfæðið sem mér líst best á þessa stundina er: Egg og beikon, gróft brauð, tómatar og hvítlaukur. Ekkert að þessu held ég að sé hefðbundið megrunarfæði nema kannski grófa brauðið og hvítlaukurinn. Af hverju hefur hvítlaukurinn svona slæmt orð á sér? Ég hef aldrei fundið neina lykt af honum. Samt kemur fyrir að ég finni lykt. Lyktnæmur er ég þó ekki.

Bölvað bull er þetta. Get ég ekki talað um eitthvað skysamlegra en mat núna. Það mætti halda að ég væri svangur. Svo er þó ekki. Er jafnvel að hugsa um að fara út að labba núna rétt bráðum. Skelfing eru þessi skrif mín eitthvað sundurlaus. Þannig á skáldskapur að vera. En þetta er nú samt ekki skáldskapur.

Fór út og hér á Akranesi er snjór yfir öllu. Sporrækt um allt. Þarna hefur einhver hlaupið. Svo stoppað. Númer hvað skyldu þessir skór vera? Þarna hefur köttur farið í hringi. Og hundur líka. Þetta spor hlýtur að vera eftir kvenskó. Skyldi þetta vera eftir strigaskó? Svona er hægt að stytta sér stundir. Margt er mannanna bölið. Og misjafnt drukkið ölið. Nú er ég hættur.

IMG 1768Einhver mynd.


2587 - Fígaró

Ekki eru dagblöðin öfundsverð. Þurfa sífellt að huga að því að geðjast öllum. Ekki get ég sagt að ég hafi nokkurn minnsta áhuga á að lesa frétt sem hefur þessa fyrirsögn: „Survivor-stjarna hittir 30 íslenska aðdáendur“. Samt getur vel verið að einhverjum finnist þessi frétt skipta máli. Sömuleiðis fletti ég sem hraðast yfir flestar auglýsingar í Fréttablaðinu. Eiginlega er engin þörf á að fletta því eðla og ókeypis dagblaði nema í mesta lagi aftur að miðju. Þar fyrir aftan eru yfirleitt bara auglýsingar og ómerkilegt efni fyrir fréttasjúkling eins og mig. Annars tefur Fréttablaðið mig stundum frá því að lesa það efni á netinu sem ég hef áhuga á. Þar að auki tekur mig sífellt lengri tíma að gera slíkt.

Já, ég viðurkenni það alveg. Sennilega er ég með helvítið hann Donald Trump á heilanum og þar að auki þykist ég hafa eitthvert vit á heimsmálum. Þetta má glöggt sjá á blogginu mínu. Kannski ég reyni að komast eitthvað útúr þessu hjólfari. Það er samt erfitt og einhvern veginn finnst mér að landsmálin, að ég nú tali ekki um sveitarstjónarmálin, vera hálfómerkileg. Líklega ætti ég samt að einbeita mér meira að slíku.

Ég er svo mikill analfabeti í tónlistarefnum að ég hélt einu sinni að Sjúpeng og Chopin væru tveir menn. Því vitanlega kunni ég að lesa og hlustaði talsvert á útvarp. Aðallega talað mál þó. Sömuleiðis hélt ég lengi vel að til væru tveir söngvarar sem hétu Nikola Gedda og hinn héti Nikolai Edda. Já, margur er misskilningurinn og stundum er um að ræða rangan misskilning og þá er illa komið. Í sumum öðrum málum er ég ekki nærri eins vitlaus.

Um daginn settist ég inn í bílinn minn, eða réttara sagt okkar, setti hann í gang og hugðist aka af stað. Þá var öskrað svo hátt að undir tók a.m.k í bílnum og e.t.v. víðar: „FÍGARÓ FÍGARÓ FÍGARÓ. Mér krossbrá að sjálfsögðu og áttaði mig ekki alveg strax á því að þetta kom frá útvarpinu og einhver var að ég held að kynna útvarpsþátt. Auðvitað flýtti ég mér að þagga niður í tækinu og eiginlega er ekkert meira um þetta að segja.

Sennilega er VR eitt stærsta verkalýðsfélag landsins. Auðvitað er það ekkert smámál einmitt um þessar mundir að Ólafía B. Rafsdóttir skuli hafa tapað fyrir Ragnari Þór Ingólfssyni í formannskjöri þar. Þó kjörsókn hafi verið lítil er það bara vaninn í þessu félagi. Þannig var það líka þegar ég starfaði þar og var að mig minnir í trúnaðarráði félagsins en Magnús L. Sveinsson stjórnaði því þá og hafði lengi gert. Gegndi á sama tíma trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann var álitinn (flokkurinn altsvo) eiga þetta félag. Ég sat líka á sínum tíma nokkur Alþýðusambandsþing og verkalýðsmálin voru jafnvel talin vera hallari undir stjórnmálaöflin þá en nú.

Þrátt fyrir árangur vinstri manna að undaförnu s.s. með umræddum sigri Ragnars og þingkosningunum í Hollandi í gær er ekki hægt að afskrifa þá skoðun að þjóðernisrembingur og útlendingahræðsla virðist fara vaxandi í Evrópu. Reynt er að blanda trúmálum í þetta með Múslima-andúð. Stjórnmálin í Bandaríkjunum eru líka hatrammari en venjulega hverju sem um er að kenna.

IMG 1769Einhver mynd.


2586 - Maddow, Trump og Erdogan

Hvað eiga Donald Trump og Erdogan Tyrklandsforseti sameiginlegt? Þeir er báðir uppfullir af rembingi og hatri. Samt eru þeir sæmilega sléttmálir í ræðum sínum sem greinilega eru einkum til heimabrúks. Ljúga kannski óvenju mikið. En það gera svo margir. Kannski er Pútín Rússlandsforseti líkur þeim að þessu leyti. Og líka skrattakollurinn í Norður-Kóreu. Væri ekki landhreinsun ef hægt væri að losna við þá alla í einu? Auðvitað gerist það ekki. Heimsfriðurinn er í meiri hættu núna en oftast áður og það er þessi fjórmenningaklíka sem því veldur. Varla er nokkur vafi á því.

Rachel Maddow sýndi gamalt skattframtal frá Donald Trump og jók með því svolítið, í bili a.m.k., vinsældir sjónvarpsþáttar sem hún stjórnar. Lagalegar flækjur kunna að rísa af þessu uppátæki hennar og ekki er útséð með hvort þetta skiptir verulegu máli. Hún sagði frá þessu á Twitter nokkrum klukkutímum áður en sjónvarpsþátturinn fór í loftið.

Ekki er enn vitað hvernig hinu nýja ferðabanni Trumps reiðir af. Búist er við úrskurði dómstóla í dag (miðvikudag) samt sem áður.

Finnst vera meira um allskyns afsláttartilboð núna en venjulega. Kannski er verslunin í vanda stödd. Hugsanlega óttast menn komu Costco. Veit ekki hvað veldur þessari afsláttargleði um þessar mundir. Ekki er ég í neinni aðstöðu til að nýta mér hana. Kannski er þetta líka tómt plat.

Fésbókarlíf er ekkert líf. Fésbókin er svosem ágæt samt til að halda sambandi við þá sem maður vill endilega halda sambandi við, en hún er ekki góð að neinu öðru leyti. Getur í besta falli minnt mann á að kynna sér fréttir af einhverjum atburðum af því sumir séra allt sem þeim finnst athyglisvert. Á engan hátt kemur hún í staðinn fyrir líkamlega nánd, en auðvitað er hægt að ræða um allt mögulegt þar. Ef menn vilja predika yfir öðrum er bloggið heppilegra. Fáir nenna að athugasemdast þar en finnst hampalítið að láta allan fjandann vaða á fésbókinni. Fá það svo kannski í hausinn þegar verst gegnir.

Eins gott að ég á helling af gömlum myndum á lager hjá Moggaræflinum. Annars mundi ég ekki endast til að hafa sama háttinn á varðandi þetta blogg eins og að undanförnu. Kannski ég sendi þetta bara út í eterinn núna þó stutt sé.

IMG 1777Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband