2587 - Fígaró

Ekki eru dagblöðin öfundsverð. Þurfa sífellt að huga að því að geðjast öllum. Ekki get ég sagt að ég hafi nokkurn minnsta áhuga á að lesa frétt sem hefur þessa fyrirsögn: „Survivor-stjarna hittir 30 íslenska aðdáendur“. Samt getur vel verið að einhverjum finnist þessi frétt skipta máli. Sömuleiðis fletti ég sem hraðast yfir flestar auglýsingar í Fréttablaðinu. Eiginlega er engin þörf á að fletta því eðla og ókeypis dagblaði nema í mesta lagi aftur að miðju. Þar fyrir aftan eru yfirleitt bara auglýsingar og ómerkilegt efni fyrir fréttasjúkling eins og mig. Annars tefur Fréttablaðið mig stundum frá því að lesa það efni á netinu sem ég hef áhuga á. Þar að auki tekur mig sífellt lengri tíma að gera slíkt.

Já, ég viðurkenni það alveg. Sennilega er ég með helvítið hann Donald Trump á heilanum og þar að auki þykist ég hafa eitthvert vit á heimsmálum. Þetta má glöggt sjá á blogginu mínu. Kannski ég reyni að komast eitthvað útúr þessu hjólfari. Það er samt erfitt og einhvern veginn finnst mér að landsmálin, að ég nú tali ekki um sveitarstjónarmálin, vera hálfómerkileg. Líklega ætti ég samt að einbeita mér meira að slíku.

Ég er svo mikill analfabeti í tónlistarefnum að ég hélt einu sinni að Sjúpeng og Chopin væru tveir menn. Því vitanlega kunni ég að lesa og hlustaði talsvert á útvarp. Aðallega talað mál þó. Sömuleiðis hélt ég lengi vel að til væru tveir söngvarar sem hétu Nikola Gedda og hinn héti Nikolai Edda. Já, margur er misskilningurinn og stundum er um að ræða rangan misskilning og þá er illa komið. Í sumum öðrum málum er ég ekki nærri eins vitlaus.

Um daginn settist ég inn í bílinn minn, eða réttara sagt okkar, setti hann í gang og hugðist aka af stað. Þá var öskrað svo hátt að undir tók a.m.k í bílnum og e.t.v. víðar: „FÍGARÓ FÍGARÓ FÍGARÓ. Mér krossbrá að sjálfsögðu og áttaði mig ekki alveg strax á því að þetta kom frá útvarpinu og einhver var að ég held að kynna útvarpsþátt. Auðvitað flýtti ég mér að þagga niður í tækinu og eiginlega er ekkert meira um þetta að segja.

Sennilega er VR eitt stærsta verkalýðsfélag landsins. Auðvitað er það ekkert smámál einmitt um þessar mundir að Ólafía B. Rafsdóttir skuli hafa tapað fyrir Ragnari Þór Ingólfssyni í formannskjöri þar. Þó kjörsókn hafi verið lítil er það bara vaninn í þessu félagi. Þannig var það líka þegar ég starfaði þar og var að mig minnir í trúnaðarráði félagsins en Magnús L. Sveinsson stjórnaði því þá og hafði lengi gert. Gegndi á sama tíma trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann var álitinn (flokkurinn altsvo) eiga þetta félag. Ég sat líka á sínum tíma nokkur Alþýðusambandsþing og verkalýðsmálin voru jafnvel talin vera hallari undir stjórnmálaöflin þá en nú.

Þrátt fyrir árangur vinstri manna að undaförnu s.s. með umræddum sigri Ragnars og þingkosningunum í Hollandi í gær er ekki hægt að afskrifa þá skoðun að þjóðernisrembingur og útlendingahræðsla virðist fara vaxandi í Evrópu. Reynt er að blanda trúmálum í þetta með Múslima-andúð. Stjórnmálin í Bandaríkjunum eru líka hatrammari en venjulega hverju sem um er að kenna.

IMG 1769Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband