2589 - Halldór Kiljan

Alveg er ég ódrepandi í blogginu. Nú er ég u.þ.b. að verða búinn að venja mig á að skrifa á hverjum degi einhverja endemis vitleysu. Kannski er það ekki allt saman vitleysa því einhverjir láta glepjast og lesa þetta. Allt upp í nokkur hundruð manns. En sleppum því. Samt er ég að monta mig eins og ég geri stundum.

Kannski er það afrek út af fyrir sig að blogga svotil daglega án þess að segja frá neinu. Gallinn er nefnilega sá að ég hef frá engu að segja. A.m.k. finnst mér ég ekki hafa það.

Sennilega þýðir ekkert fyrir mann að halda því fram að auglýsingar hafi engin áhrif á mann. Gjarnan mundi ég vilja vita í kvöld hvernig slagsmálin hjá Gunnari Nelson fara. Ekki minnist RUV á svona heimsfrétt. Samt vil ég ekki gerast áskrifandi að sjónvarpsstöð bara útaf þessu. Auglýsinga- og peningalega séð virðist þetta eiga að koma í staðinn fyrir hnefaleikana sem hafa liðið talsvert fyrir það hve box-samböndin eru eða voru mörg. Kannski var boxið bara ekki nógu blóðugt.

Einhver stærsti gallinn við atvinnuskrifara er hvað þeir fjölyrða lengi um sama hlutinn. Oft dettur þeim eitthvað sniðugt í hug en geta ekki eða vilja ekki og mega varla sleppa þeirri hugsun og fimbulfamba endalaust um hana. Ekki hef ég í hyggju að nefna nein nöfn en vitanlega er ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta fyrst og fremst öfund. Enginn hefur ennþá boðið mér svo mikið sem eina krónu fyrir skrif mín. Samt finnst mér þau bera af mörgu sem ég sé annars staðar og líklega er borgað fyrir. Þó veit ég ekkert um það.

Einhverntíma reyndi ég að lesa Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson en gafst upp á endanum því það sem mér a.m.k. þá fannst vera tómt Guðsorðastagl fór í taugarnar á mér. Helsti kosturinn við Halldór Kiljan hefur mér alltaf þótt vera víðsýni hans í trúmálum. Þó hef ég ekki lesið allar hans bækur.

Kannski ég prófi svona einu sinni að blogga tvisvar á dag. Held þó að ég hafi gert það áður.

IMG 1753Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband