Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017
14.3.2017 | 21:57
2585 - Um Guð, Jesú o.fl.
Andskotinn. Ekki má minnast á trúmál í þessu bloggi, þá rýkur heimsóknafjöldinn upp í rjáfur. Líklega hefur Mogginn einkarétt á Guði. Jafnvel Jesú líka. Þó ég sé trúlaus vil ég helst engan meiða. Þessvegna hef ég hingað til látið þá himnafeðga að mestu leyti í friði og hyggst gera það áfram. Auðvitað er aukinn heimsóknafjöldi ekki alfarið af því illa. Fíla það alveg ágætlega að sem flestir lesi þetta blogg. Vanda mig yfirleitt við skriftirnar.
Ef vorið kæmi núna bara svona hægt og rólega þá væri það alveg eftir mínu höfði. Daginn er talsvert farið að lengja og ef ekki koma alvarlegar snjókomur og þess háttar úr þessu, þá væri það mjög gott. Auðvitað vilja krakkar og margir fleiri hafa hæflega mikinn snjó sem lengst, en við gamalmennin viljum fyrir hvern mun forðast hálkuna. Hún er okkar versti óvinur.
Enginn vafi er á að einhverntíma mun sá tími koma að efnahagslega verða veiðar á villtum fiski ekki arðbærar og leggjast einfaldlega að mestu leyti af. Eldisfiskur í risastórum búrum mun koma í staðinn. Ekki verðum við Íslendingar eins framarlega þar og í veiðum á villtum fiski. Kannski verðum við þá ofurseld túristunum og verðlag hér orðið líkt og í siðuðum samfélögum. Annars megum við vara okkur á því að drepa ekki mjólkurkúna eins við erum vön. Túristar gætu fundið uppá því að fara einnhvert annað og hætt að koma hingað. Og hvað gera Danir þá?
Stórfrétt aldarinnar Messi og Suarez pissa sitjandi og Þorgrímur Þráinsson líka. Held að það hafi verið í DV sem ég las þessa banebrydende frétt. Já, mér þykir mjög kúl að slá um mig með dönskuslettum. En þetta með pisseríið er ekkert smámál. Þetta þyrfti að ræða í þaula. Hlandskálar yrðu, ef þetta yrði almennt tekið upp, óþarfar með öllu. Kvenfólk segir oft að karlmenn pissi útfyrir og þetta þyrfti að rannsaka ýtarlega. Margt hefur verið rannsakað sem minna máli skiptir. Hingað til hefur það jafnvel verið talinn kostur að geta pissað standandi og meira segja fundin upp sérstök tæki fyrir kvenfólk sem gerir það. Já, það er til og sennilega gera þær það einkum útivið. Einu sinni kom ég á hestamannamót og þar man ég að það vakti furðu mína hve margir (karlmenn) þurftu að pissa samtímis fyrir allra augum.
Eitt helsta ráðið sem öryggissérfræðingar gefa þeim sem vilja vernda sig gegn því að ristavélin þeirra breytist skyndilega í myndavél er að hafa nógu löng og flókin lykilorð og skipta oft um þau. Mér hugnast þetta ekki. Hefur alltaf verið hálfilla við lykilorð og á í erfiðleikum með að muna þau. Á maður kannski að skrifa þau hjá sér?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2017 | 10:13
2584 - Guðni forseti
Einu sinni þurfti ég að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur í náttmyrkri og rigningu. Mætti á leiðinni miklum fjölda flutningabíla og verð að segja að annarri eins lífsreynslu hef ég aldrei lent í. Þó átti svo að heita að vegurinn alla leiðina væri með bundnu slitlagi. En að sumarlagi í þurru veðri og með hæfilegum stoppum er þetta ekki mikið mál. Eða var ekki. Kannski er umferðin orðin svo gríðarmikil núna að þetta sé ekkert gaman lengur.
Mér sýnist að Trump bandaríkjaforseti ætli að dansa á þeirri línu að andstæðingum hans sýnist jafnan jaðra við að hægt sé að ákæra hann. (e-impeach). Annars er ég um það bil að fá leið á Trump. Hann er á flestan hátt svo fjarlægur okkur í hugsun sem mest getur verið. Finnst að ríkisstjórninni hérlendis (Bjarna-bófunum) væri nær að taka skandinavísku ríkin sér til fyrirmyndar en Bandaríkin. Norræna velferðin er mun skárri en sú bandaríska.
Mér finnst Guðni forseti þurfi svolítið að vara sig á að gera ekki embættið of pólitískt. Auðvitað var það bara brandari, frekar ómerkilegur þó, að hann vildi láta banna að hafa ananas ofan á pizzum. Hinsvegar er það varla brandari hjá honum að vilja að Íslendingar almennt eða a.m.k. ríkisstjórnin og jafnvel alþingi eigi að biðja Geir Haarde afsökunar á að hann skuli hafa verið dreginn fyrir landsdóm og dæmdur. Auðvitað var það spurning hvort rétt hafi verið að dæma hann einan sekan en ekki aðra þá sem draga átti fyrir landsdóm. Einnig voru þau ákvæði sem hann var dæmdur eftir hugsanlega úrelt orðin og vafasamt að dæma hann eftir þeim. Nei, mér finnst að Guðni eigi að láta það ógert að skipa sér í pólitíska sveit. Ananasbann hans var kannski brandari en ekki gátu allir útlendingar vitað það.
Held að sá landsdómur sem nú er talað um sé allt annars eðlis en sá sem Geir var dæmdur eftir. Líklega þarf þó að kalla hann eitthvað annað eða fella ákvæðin um hann niður. Minnir að þau séu í stjórnarskránni og þá er talsvert verk að koma þeim í burtu.
Ekki er ég þeirrar skoðunar að ekki megi hrófla við samningi milli ríkisins og kirkjunnar. Held að hann fjalli um það að ríkið skuli áfram greiða prestum laun og fá í staðinn kirkjujarðir þær sem kirkjan telur sig hafa fengið til eignar við siðaskiptin. Þær voru margar fengnar með misjöfnum hætti. Held að Sr. Sigurður Árni Þórðarson hafi nýlega verið að skrifa um það mál og notað tækifærið til að hnýta í Pírata eins og mörgum finnst sjálfsagt. Ég hef kosið Píratana í tveimur undanfarandi kosningum og hef talsverðan skilning á afstöðu þeirra til ýmissa mála. Hnútukast Sigurðar hefur þar engin áhrif. Enginn vafi er á því í mínum huga að lög landsins geta í vissum tilvikum verið samningum æðri. Í samningum við kirkjuna verður auðvitað að gæta þess að taka ekki með annarri hendinni það sem afhent hefur verið með hinni. Þó er það svo að samninga má oft endurskoða í ljósi breyttra aðstæðna.
Allir eru dálítið eigingjarnir inn við beinið. Fara samt mismunandi vel með það. Enginn er með öllu laus við eigingirnina, en varast ber að láta hana stjórna lífi sínu of mikið. Gagnrýni fólks byggist oft, að hluta til a.m.k., á eigingirni. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við hana. Oft kemur hún manni til bjargar og á dauðastundinni er maðurinn alltaf einn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.3.2017 | 14:23
2583 - Um túrhesta o.fl.
Yfirleitt er fólk ekki eins og það heldur að það sé. Nema þá helst á fésbókinni. Fésbókin getur fengið fólk til að trúa því að það sé bæði fallegt og gáfað, þó svo sé alls ekki. Skelfingar raus er þetta. Sennilega er ég bara haldinn einhverri minnimáttarkennd.
Stjórnmálamenn keppast við að segja okkur að engin hætta sé á hruni. Það gerðu þeir líka fyrir síðasta hrun. Engin ástæða er til að ætla að næsta hrun verði alveg eins og það síðasta. Það er líka mesti óþarfi að trúa stjórnmálamönnum og bankasérfræðingum þegar þeir segja að engin hætta sé á hruni. Þetta sé allt eðlilegt og eiginlega stórkostlegt. Ekki veit ég hvort hrunið kemur á þessu ári, því næsta eða jafnvel enn seinna, en það kemur. Á því er enginn vafi. Það verður kannski í grundvallaratriðum ólíkt því síðasta. Samt sem áður er rétt að búa sig undir það, ef maður verður ekki dauður þá. Svartagallsrausi lokið.
Ekki held ég að Tromparanum og Kim Jong Un takist að koma af stað kjarnorkustyrjöld þó þeir séu greinilega að einbeita sér að því. Pútín og Kínverjablækurnar vilja að þeir einbeiti sér sem mest í að ergja hvorn annan, en varla óska þeir sér slíkrar styrjaldar. Þó heimsmálin séu mér hugleikin fylgist ég svolítið með íslenskum stjórnmálum. Aðallega til að hlæja að fíflaganginum. Valdabaráttan hérlendis er einkum á milli ríkisstjórnarinnar og alþingis. Ríkisstjórnin ræður greinilega meiru en sveigist svolítið til og frá vegna hagsmunahópanna sem reyna að hafa hátt. Alþingi og þó einkum stjórnarandastaðan eru greinilega þar á meðal.
Sjálfum finnst mér norðurljósin hundómerkileg. Merkilegasta myndin af þessu fyrirbrigði sem ég hef séð er tvímælalaust tekin úr geimstöðinni sem sveimar stöðugt í kringum jörðina. Ef túristar vilja fyrir hvern mun sjá þessi ljós er samt sjálfsagt að leyfa þeim það. Mér vex samt svolítið í augum allur sá gróði sem ferðaþjónustuaðilar hafa af því að selja túristum aðgang að öllum fjáranum. Þó oft sé talað um túrhestana sem auðlind þykir mér vænlegra að líta á þá sem fólk. Á okkar mælikvarða er þetta fólk þó yfirleitt fremur ríkt, en ekkert verra fyrir það.
Það eru auraráðin en ekki túristarnir sem gera Íslendinga að öpum. Aðalfyrirsögnin í Fréttablaðinu í dag er svona Airbnb stór þáttur í hærra íbúðaverði. Það er semsagt verið eins og venjulega að kenna vesalings túristunum um allt sem aflaga fer hérlendis. Eiginlega eru ríkisstjórnin og alþingi þeir aðilar sem ábyrgð bera á þessu eins og flestu öðru. Það eina sem besservisserar af öllu tagi geta sameinast um er að svo sé. Fáeinir besservisserar kunna samt að styðja ríkisstjórnina en þeir eru áhrifalitlir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2017 | 09:56
2582 - Njósnir og þessháttar
Enginn vafi er á að njósnaþjónustur stórveldanna nýta sér í síauknum mæli tölvutækni ýmiss konar. Frægt varð á sínum tíma að Bandaríkjamenn hleruðu síma Angelu Merkel. Hún fór auðvitað í fýlu, en jafnaði sig fljótlega. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að þessum stofnunum hafi farið aftur síðan Snowden flýði undan þeim. Sagt er að þær geti farið létt með að breyta sjónvörpum í upptökutæki og afrita tölvur og diska í sjónhendingu einni saman. Sennilega er samt meirihluti þess sem safnað er með þessum hætti gagnslaus með öllu. Öflugar tölvur geta þó fundið það sem leitað er að.
Frægir popplistamenn á ferðalögum eiga það til að heimta furðulegustu hluti af skipuleggjendum. Einn heimtar t.d. alltaf sköllótta og tannlausa vændiskonu og setur tónleikahaldara með því í talsverðan vanda. Sumir halda því fram að þetta sé einhverskonar misheppnaður brandari hjá honum og kannski er svo. Annar heimtar að allir hurðarhúnar sem hann þarf að snerta séu sótthreinsaðir á tveggja tíma fresti. O.s.frv.
Sá texti sem við gamlingjarnir í dag ólumst upp við var að mestu leyti dauðhreinsaður. Texti dagblaðanna og bókanna var yfirfarinn og prófarkalesinn af kunnáttufólki sem útrýmdi miskunnarlaust hvers kyns hugsanlegum ambögum, réttritunarvillum og þessháttar í máli blaðamanna og rithöfunda. Eftir að sjónvarpið kom til sögunnar var allur texti þar meira og minna yfirlesinn og lagfærður ef þurfa þótti. Svona er þetta ekki í dag. Útbreiddir og vinsælir fjölmiðlar virðast ekki síður en aðrir hafa hætt öllum yfirlestri. Jafnvel blaðamennirnir sjálfir virðast ekki hafa tíma til að lesa yfir sinn eigin texta. Þar að auki geta allir nú á öld internetsins skrifað texta sem hugsanlega kemur fyrir augu alls heimsins. Sífelldar leiðréttingar og aðfinnslur eru samt afar leiðinlegar til lengdar og sennilega alls ekki lesnar af þeim sem mest þyrftu á þeim að halda. Áhyggjur fólks af framtíð íslenskunnar eru því öðruvísi en verið hefur. Samt kannski þýðingarlausar. Góður texti stendur alltaf fyrir sínu.
Twitterinn hefur ekki áhrif á mig. Þar er bara hægt að skrifa örstuttar athugasemdir. Ég er svo gamaldags að mér finnst bloggið best. Fésbókin er of flókin fyrir mig. Mín hilla er bloggið. Best er samt líklega að blogga lítið og oft. Jafnvel væri hægt að nota fésbókina þannig. Kannski enda ég þar. Þó vil ég ekki láta ráðskast of mikið með mig. Sennilega eru Moggabloggsguðirnir hættir að nenna öllu eftirliti. Bráðum fer ég að hætta að nenna að setja myndir með þessu bloggi mínu. Það er of mikil fyrirhöfn. Áfram mun ég þó skrifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2017 | 11:05
2581 - Sessions og Trump
Í sjálfu sér er ekkert merkilegt eða sérkennilegt við það að Sessions hafi hitt yfirnjósnara Rússa, sem stundum er kallaður ambassador eða sendiherra. Það er aftur á móti svolítið sérkennilegt að hann hafi ekki skýrt frá því fyrr en núna. Hann talar um misskiling og sinn skilning án þess að útskýra það nánar og satt að segja getur svo farið að það verði fleiri en dómsmálaráðherrann sem Trump neyðist til að reka eins og Flynn. Annars virðist mér að þessir 40 dagar eða svo sem liðnir eru síðan Trump tók við embættinu hafa verið röð mistaka. Hann hefur pressuna svotil alla á móti sér. Hefur líka logið eins og hann er langur til. Er hann annars langur? Aumingja kallinn. Kannski er þetta næstum því einelti sem hann verður fyrir, en fjandinn vorkenni honum. Hann kallaði þetta yfir sig.
Deildakeppnin í skák stendur yfir núna um þessa helgi. Eiginlega gæti skáklífið hér á Íslandi verið miklu betra en það er. Of mikið er rifist um framkvæmd deildakeppninnar og á margan hátt er hún misheppnuð og eykur allsekki veg skákarinnar. Samt er allsekkert að því að finna að skákmenn komi saman svona tvisvar á ári. Þyrfti að vera oftar og víðar. Peningar þeir sem tekist hefur að fá til handa skálistinni eru alltaf of litlir og vitlaust notaðir. Að því leyti er ég sammála flestum skákunnendum. Yfirleitt hafa þeir mikið yndi af að rífast.
Ég hef það fyrir sið, þegar ég sé eitthvað misjafnt um mig á netinu, að læka það hefur Fréttablaðið eftir Loga Bergmann og sennilega er það rétt eftir haft. Þessu er haldið fram í þættinum mín skoðun, sem Fréttablaðið virðist halda fram að Logi skrifi sjálfur. Logi er ekki einn um það að setja samasem-merki á milli netsins og fésbókarinnar. Það virðist hann þó gera þarna. Kannski meinar hann það ekki þannig. Held samt að fjölmargir haldi að það sé sami hluturinn. Mín skoðun er sú að fésbókin sé bara eitt forrit sem að vísu sé mikið notað en vel hægt að komast hjá að nota, sé mönnum umhugað um það.
Gallarnir við fésbókina er fjölmargir. Einn af þeim ræðir Bergur Ebbi um í föstudagsblaði Fréttablaðsins. Ég hef áður talað um það að hann skrifi mjög athyglisverðar greinar. Falskar fréttir, mismunandi skilningur og ýmislegt fleira er honum hugleikið í nefndri grein. Grein þessa nefnir hann ananaskismi en ég mundi vilja nefna hana ananas-ismi.
Var að enda við að lesa erlendar fréttir. Hugsanlega er í uppsiglingu annað eins hneyksli og Watergate-málið. Í sínum frægu twitter-færslum ásakar Trump bandaríkjaforseti nú Obama fyrirrennara sinn um að hafa staðið fyrir hlerunum á síma sínum. Fylgjumst með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)