Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

2491 - Um kirkjugrið og fleira þess háttar

Orðanotkun getur skipt máli. Til dæmis urðu ýmsir vitlausir þegar talað var um dráp Tyrkja á Armenum sem „þjóðarmorð“ en ekki „fjöldamorð“. Auðvitað getur skipt máli í þessu sambandi hvort morðin voru framkvæmd vegna skipunar yfirvalda eða einhverra annarra. Engum blandast þó hugur um að skipulagning var á morðunum og þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem minnst er á þau. Morðin í Srebrenitsja (eða hvernig sem það er nú skrifað) eru smámundir einir samanborið við Armeníumorðin. Samt er undarlegt að Júgóslavíumorðin, sem framin voru á okkar tíð, skuli hafa verið látin viðgangast.

Mér leiðist allt trúarbragðajukk hvort sem það heitir „kirkjugrið“ eða eitthvað annað. Lögreglan verður að fá að vinna sín verk í friði. Að lögreglumenn slái til fólks að nauðsynjalausu er þó óhæfa. Yfirmenn lögreglu og stjórnvöld öll verða þó að bera ábyrgð á gjörðum lögregluþjóna. Annahvort er trúfrelsi í landinu eða ekki. Þjóðkirkjan á ekki að vera yfir lög hafin.

Setti þessa klausu um trúmál og kirkjugrið á fésbókina og ekki stóð á viðbrögðunum. Sennilega er ég með trúlausari mönnum. Skil samt ekki hvernig fólk getur látið svona hjárænulega tilburði blekkja sig. Það er með öllu óhugsandi að fornfálegar hugmyndir eins og um kirkjugrið geti haft áhrif á framkvæmd laga í dag. Líka blasir við að deilur um trúmál skila yfirleitt engu. Auðvitað má samt deila um hvernig lögreglan beitti valdi sínu í Laugarneskirkju.

Aðalgallinn við Islam er að mínu viti sá að trúarhugmyndir hafa oft of mikil áhrif á stefnu stjórnvalda. Líka hafa mörg vestræn ríki vanrækt að gera innflytjendum ljós áhrif trúfrelsis þess sem þar ríkir yfirleitt. Fleira mætti tína til og yfirleitt er best að sneiða sem mest hjá trúarbragðadeilum. Svipað mætti segja um flokkapólitík. Þar étur hver úr sínum poka, en ef minnst er á knattspyrnu þessa dagana virðast allir Íslendingar hafa sömu skoðun.

IMG 0607Einhver mynd.


2490 - Um fótbolta o.fl.

Öll börn jarðarinnar eiga jafnan rétt til gæða hennar. Norðið er samt ríkt og suðrið fátækt. Sú tíð mun koma að fólkið í suðrinu kemur og sækir auðæfi okkar og kallar þau sín auðæfi. Auðvitað er þetta kommúnistaáróður og allt það fólk sem nú um stundir hefur nægilegt að bíta og brenna skilur það mætavel. Þeir sem ríkastir eru skilja það betur en aðrir. Fátæka fólkið í suðrinu skilur ekki neitt. Það vonum við að minnsta kosti. Góða fólkið í norðrinu skilur allt.

Það er alveg eins og Bretar séu strax farnir að sjá eftir Brexit. Cameron segist ætla að hætta í haust. (Minnir á eitthvað annað.) Þingið þarf að samþykkja úrsögnina og svo segja Bretar að það geti tekið svona tvö ár að ganga frá öllum lausum endum. ESB er ekki alveg örugglega á sama máli og Bretar þarna og vel getur verið að þar á bæ sé enginn áhugi á að gera þeim þetta sem auðveldast. Meirihlutanum verður samt að hlýða og ég trúi ekki öðru en það verði gert. Það sem eftir er af Breska heimsveldinu liðast sennilega í sundur og ESB gæti gert það líka. Hugsanlega styttist í stríðið sem Ástþór (og fleiri) er búinn að boða síðan hann byrjaði að bjóða sig fram í forsetakosningum.

Eiginlega er fáránlegt að blogga án þess að minnast á fótbolta. Ég man vel eftir hve hissa maður varð um árið þegar Danir urðu Evrópumeistarar. Og svo sigruðu Grikkir einhverntíma líka. Af hverju ættu Íslendingar ekki að geta það? Liðið virðist vera ansi gott og þjálfarinn er reynslumikill. Að sigra Frakka á þeirra heimavelli er þó nokkuð stór biti. Ekki veit ég hve stóra mynd Fréttablaðið ætlar að birta ef það tekst.

Ef ég minnist svolítið á loftslagsmálin er ég búinn að minnast á flest sem máli skiptir í þessu stutta bloggi. Einu sinni var talað um Móðuharðindi af mannavöldum. Kannski verða endalok siðmenningar okkar einhvern veginn þannig að loftslagsmálin verði okkur að aldurtila. Samt er ekki líklegt að það gerist skyndilega. Skilningur manna á þeim málum fer mjög vaxandi.

IMG 06461Einhver mynd.


2489 - Frá Brexit til Texit

Á margan hátt var það Elísabet Jökulsdóttir sem var skemmtilegasti forsetaframbjóðandinn. Halla Tómasdóttir var svona eftirá séð einna forsetalegust, en segja má að aðstæður allar hafi verið Guðna hagstæðar og meðal annars þess vegna hafi hann verið kosinn.

Ég get fallist á það með Össuri Skarphéðinssyni að Guðni hefði tæpast þolað mikið lengri kosningabaráttu. Halla hefði hugsanlega brunað framúr honum. Hinsvegar var Andri Snær alltof glottaralegur til að komast almennilega úr sporunum og þar að auki með pólitískan stimpil. Aðrir held ég að hafi aldrei komið til greina.

Að mörgu leyti virðist þessi kosningabarátta hafa farið vel fram. Kannski kunna Íslendingar fleira en að leika knattspyrnu.

En það dugir ekki að dvelja við þetta alltof lengi. Nú er það knattspyrnan sem blívur. Leikurinn við Englendinga í 16-liða úrslitunum á Evrópukeppninni er það sem allt snýst um. Vinni Íslendingar hann, sem vel er hugsanlegt, erum við farnir að nálgast undanúrslitin og lengra er gjörsamlega útilokað að við komumst.

Hver verða áhrifin af Brexit? Mín skoðun er sú að svo mikilvægt sé fyrir ESB að halda Bretum þar inni að þeir muni gera þeim tilboð áður en eiginlegar viðræður hefjast um raunverulega útgöngu. Eflaust mun þurfa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

From Brexit to Texit var fyrirsögn sem ég sá einhversstaðar og þar er átt við að fylkið eða ríkið Texas vilji gjarnan fá sjálfstæði aftur frá Bandaríkjunum. Það sem margir eru vanir að kalla þrælastríðið var í rauninni stríð sem háð var um það að nokkur fjöldi af Suðurríkjunum svokölluðu vildu segja sig úr lögum við Norðurríkin. Það fengu þau ekki og af spratt blóðug borgarastyrjöld. Frá um 1860 (þegar Abraham Lincoln var kjörinn forseti) og þar til skömmu áður en hann var myrtur stóð sú styrjöld.

Auðvitað er ég ekki að spá því að útganga Breta leiði til slíkra hörmunga, en á ýmsan hátt kann þetta að leiða til margs.

IMG 0744Einhver mynd.


2488 - Forsetakosningarnar eru fjölmiðlahátíð

Auðvitað er útganga Breta úr ESB mál málanna. Trú mín er sú að reynt verði að gera sem minnst úr þessu. Óvissa verður þó ríkjandi um margt því margt þarf að semja um áður en af raunverulegri útgöngu verður. Slæmar fréttir eru þetta fyrir marga. Flóttamenn og almennt þá sem minnst mega sín þó sérstaklega. Líka má búast við straumhvörfum í allri þróun heimsmála í kjölfar þessa.

Í dag eru það samt forsetakosningarnar sem skipta okkur Íslendinga mestu máli. Í gær var það Brexit og á mánudaginn er það fótbolti. Eiginlega er of margt að gerast þessa dagana. Allir ættu þó að hafa nóg til að óskapast yfir. Ekki vantar það. Fjölmiðlar hafa lítið talað um gúrkutíð. Hún mun samt taka við að þessu loknu.

Annars hefur aðdragandi forsetakosninganna verið tíðindalítill að þessu sinni og hægt er að reikna með að kosningarnar sjálfar fari nokkuð vel fram. Æsingurinn er lítill og allt er þetta fremur hófstillt. Ýmislegt kann þó að hafa verið sagt á fésbókinni og fleiri samfélagsmiðlum, en auðvelt er að leiða það allt hjá sér.

Auk þess að hafa verið tækjasjúkur besserwisser á mínum sokkabandsárum hef ég alla tíð verið heldur þungur í skapferli finnst mér a.m.k. núna á ævikvöldinu. Það er ekki alltaf hægt að vera hress og kátur. Þeir sem alltaf eru þannig eru fljótir að verða gervilegir og flestir sjá auðveldlega í gegnum þá. Eiginlega er nauðsylegt að fara í fýlu öðru hvoru. Spurningin er bara hve auðvelt er að komast úr henni aftur. Sú leið er, hvað mig snertir, sífellt að verða auðfarnari, líkamlegu atgervi fer þó aftur.

Blogg og hverskyns skrif eru bara stundarfyrirbrigði. Akkúrat á því augnabliki sem þau eru skrifuð eru þau kannski innileg meining þess sem skrifar. Hvort þau halda áfram að vera það getur verið alveg undir hælinn lagt. Bókmenntir virðast eiga sífellt minna erindi til almennings nú þegar allir geta skrifað og fjölmiðlast eins og þeim sýnist og um allt má skrifa.

IMG 0527Einhver mynd.


2487 - Er hægt að ræða um annað en forsetakosningarnar?

Af gömlum vana skipti ég stjórnmálum oftast í hægri og vinstri. Mér er fullljóst að sú skipting hefur marga galla en ég nota hana samt a.m.k. í huganum. Að mestu leyti er sú skipting hefðbundin. Þannig lít ég t.d. á að netmiðlarnir Kjarninn og Stundin séu vinstri sinnaðir, en DV hafi orðið hægri öflunum að bráð. Um Morgunblaðið og mbl.is þarf svo varla að fjölyrða. Mér finnst þau ansi hægri sinnuð.

Önnur skipting sem ég legg talsvert uppúr er hvort miðlarnir eru ókeypis eða ekki á netinu. Mér er engin launung á því að ég les helst ekki neitt sem ég þarf að borga fyrir. Meðfædd níska er að mér finnst ekki aðalástæðan fyrir þessu. Heldur sú stefna sem grasserað hefur hér á landi nokkuð lengi að eðlilegt og sjálfsagt sé að níðast sem mest á þeim sem minnst hafa. Kannski erum við Íslendingar ekki þjóða verstir í þessu tilliti, en heldur allsekki þjóða bestir. Núverandi ríkisstjórn finnst mér að hafi ekki stefnt að auknu jafnræði meðal landsins barna. Mér finnst ég vera eðalkrati. Sumir nota það orð samt í óhófi og það getur haft ýmsar merkingar.

Sjálfur þykist ég vera fremur vinstri sinnaður, þó ég bloggi eingöngu á Moggablogginu. Og þessvegna þykir mér það mjög miður að geta ekki annað en kvartað undan Stundinni og ritstjóra Herðubreiðar að gefa engan kost á ókeypis lesefni. Lesefni sem ég ímynda mér að sé oft og einatt vel þess virði að lesa. Í orð sem þar falla er oft vitnað, en þeir sem aldrei sjá slík ósköp vita ekkert hvað verið er að tala um.

Á margan hátt er greinilegt að komandi forsetakosningum er ætlað af víðlesnum fjölmiðlum að falla nokkuð í skuggann af Evrópukeppninni í fótbolta. Að flestu leyti eru kosningarnar lítt áberandi í fjölmiðlum og er það vel.

Ef endilega þarf að setja forsetaframbjóðendur í stjórnmálaflokka þá býst ég við að ég mundi segja að Guðni væri krati, Andri Snær vinstri grænn, Davíð sjálfstæðismaður af gamla skólanum og Halla sjálfstæðismaður af þeim nýrri. Um aðra hirði ég minna. Auðvitað er lítið að marka þessa skiptingu og undarleg er sú viðleitni sumra að reyna að hræða vinstri sinnað fylgi frá Guðna. Sennilega er þetta vegna gamalla viðhorfa.

1952 man ég eftir að pólitíkin hafi spilað mikla rullu í sambandi við stuðning við forsetaframbjóðendur. Árið 1968 (kannski er ártalið vitlaust hjá mér) þegar Kristján Eldjárn var kosinn var þessu sjónamiði afdráttarlaust hafnað. 1996 þegar Ólafur Ragnar var kjörinn forseti fór pólitíkin aftur að skipta máli. Segja má að ÓRG hafi ekki dregið úr þeim þætti. Þegar þjóðin vill síðan fara aftur í gamla farið og gera þjóðhöfðingjann ópólitískan ryðst Davíð Oddsson fram á sjónarsviðið. Sem betur fer virðist honum ætla að verða eftirminnilega hafnað.

IMG 0949Einhver mynd.


2486 - Fótbolti og forsetakjör

Fyrir nokkrum dögum býsnaðist góða fólkið á fésbók mikið yfir því að górilla var drepin eftir að hafa náð í lítinn dreng sem klifrað hafði yfir girðingu í dýragarði. Reiðin beindist einkum að foreldrunum fyrir að hafa ekki gætt drengsins betur. Nokkru seinna var lítill drengur á tilbúinni Disney strönd drepinn af krókódíl. Sú frétt var einnig umtöluð á fésbók. Í þetta sinn var samt af eðlilegum ástæðum ekki talað um vanrækslu af hálfu foreldranna heldur var öðrum kennt um.

Auðvitað eru slys sem börn lenda í með því hræðilegasta sem hægt er að hugsa sér. Samt er ekki annað hægt en velta fyrir sér mismuninum á viðbrögðum við fréttum að þessu tagi. Vitanlega skiptir það máli hvort börnin bjargast eða ekki. En fleira getur haft áhrif. Til dæmis þau dýr sem við sögu koma. Einnig staðurinn þar sem slysið á sér stað og margt fleira.

Einnig er hægt að velta því fyrir sér hvers vegna ég sé að minnast á þetta hér. Sennilega veldur því einhverskonar fésbókar-komplex. Satt að segja er fésbókin og aðrir félagslegir fjölmiðlar orðnir svo samgrónir menningu okkar að hvorki er hægt að líta á þá sem góða eða vonda í eðli sínu. Þeir eru bara þarna og hafa vissulega breytt mörgu í mannlegum samskiptum.

Sá auglýsingu frá Davíði Oddssyni í sjónvarpinu og aðra í Fréttablaðinu. Annars hefur kosningabaráttan fyrir komandi forsetakosningar að mestu farið framhjá mér. Kannski hefur áróður af þessu tagi einhver áhrif, en ég efa stórlega að þau séu mikil. Morgunblaðið sé ég næstum aldrei. Geri samt alveg ráð fyrir að þar sé ritstjóranum hampað. Ég ætla þrátt fyrir það að kjósa Guðna Th. eins og ég var víst búinn að segja fyrr. Samt er það svo að fjölmiðlana skyldi enginn vanmeta. Þar er það yfirleitt fjármagnið sem mestu ræður.

Flestum nægir að skrifa öðru hvoru langa fésbókarstatusa þar sem ævisagan er vandlega tíunduð, en ekki mér. Ég þarf helst að láta móðann mása svotil viðstöðulaust. Finnst bloggið henta betur til þess en fésbókin. Sumir telja lækin en sumir eru fremur sparir á þau þó þeir séu allmikið að flækjast á fésbókarræflinum. Þannig er ég til dæmis. Fylgist samt öðru hvoru með heimsóknarfjöldanum á blogginu mínu. Og þá man ég eftir því. Held að myndin sem ég birti með blogginu mínu í gær eða fyrradag hafi komið með fésbókarauglýsingunni sem ég setti inn. Sem er mjög gott. Eins og maðurinn sagði. Skil samt ekki af hverju það gerist ekki alltaf.

IMG 0595Einhver mynd.


2485 - Beinar útsendingar fyrir alla

Sumir samfélagsmiðlar eru nú farnir að bjóða notendum sínum uppá beinar útsendingar. Til dæmis er mér sagt að Facebook geri það. Einn af viðskiptavinum þeirra sem það þáði var meðlimur í glæpagengi í Chicago og lenti þar í byssubardaga. Fyrsta dauðsfallið af því tagi kom þegar sá viðskiptavinur varð fyrir byssukúlu og drapst. Beinar útsendingar eru samt ekkert hættulegar, en þegar útsendarar eru farnir að skipta milljónum hverjir eiga þá að horfa á ósköpin. Ég bara spyr.

Hvernig verður almenningsálitið til? Er það eitthvað líkt Alheimssamfélaginu? Hvorttveggja hefur talsvert óljósan uppruna. Hvað almenningsálitið snertir er það e.t.v. summan af almennri umræðu og fjölmiðlun í víðasta skilningi. Þá á ég við bæði það sem venjulega er kallað fjölmiðlar og eins hitt sem oft er kallað félagslegir fjölmiðlar. Þ.e.a.s. Facbook, Twitter, o.s.frv. Með öðrum orðum er almenningsálitið e.t.v. summan af því sem sagt er, séð er, eða heyrt, hvar sem er. Auðvitað er allt þetta mismunandi áhrifaríkt og áreitið er slíkt nútildags að hver og einn ákveður að mestu leyti hvert samband hans við almenningsálitið er. Starfsemi fjölmiðlafulltrúa hlýtur að vera svolítið snúin. Pólitísk vitund nærist auðvitað á almenningsálitinu. Hver og einn verður smám saman það sem hann neytir af fjölmiðlafóðri. Heimfæra má þetta að talsverðu leyti undir spakmælið: Þú ert það sem þú étur.

Sá sem hefur góðan skilning á almenningsálitinu getur hvenær sem er komið sér inná alþingi, en kannski er það ekkert eftirsóknarvert í sjálfu sér. Aðalvandamálið er hugsanlega að velja sér réttan flokk.

Erfiðara er að eiga við Alheimssamfélagið. Sumpart er það glósa sem notuð er þegar þarf að ná sér niðri á þriðja heims þjóðum. (Hver flokkar þjóðir annars í fyrsta heims, annars og þriðja?) Og sumpart er það óáþreifanlegt hugtak sem notað er til að réttlæta ýmsar gerðir fyrsta heims landa.

Eitt má sennilega þakka Davíð Oddssyni fyrir. Það er að hann skuli sjálfviljugur setja ljós sitt undir mæliker. Þá á ég við að landsmenn þekkja hann sem forsætisráðherra o.s.frv. og fá núna tækifæri til að útskúfa honum. Útreið sú sem útlit er fyrir að hann fái í forsetakosningum þeim sem í undirbúningi eru, er á margan hátt uppgjör við hann því allir kannast við hann og enginn er hlutlaus þegar að honum kemur og með því að kjósa hann ekki er honum hafnað.

Ekki fór það svo að Íslendingar tryggðu sér rétt til að halda áfram á EM í fótbolta. Svo mikill er íþróttaáhuginn orðinn að ég horfði á allan leikinn í sjónvarpinu. Eiginlega á ég alveg eins von á að síðasti leikurinn verði sömuleiðis jafntefli og að Íslendingar komist ekki áfram að þessu sinni. Hugsanlega er það slæmt fyrir knattspyrnuna á Íslandi að landsliðið hafi komist á EM í þetta skipti. Hér eftir verður það heimtað að íslenska liðið komist á öll stórmót, jafnt í fótbolta sem í handbolta.

IMG 1541Einhver mynd.


2484 - Girðing um Austurvöll

Ekki er hægt annað en fallast á rök þeirra sem halda því sífellt fram að allt sé svo dýrt hér á Íslandi. Enn er það svo að margir flytjast til útlanda í sparnaðarskyni. Sérstaklega er illa farið með Elli- og örorkuleyfisþega og er engin ástæða til að fjölyrða meira um það. Sönnur hafa svo oft verið færðar á að þessi fullyrðing sé rétt að óþarfi er fyrir mig að endurtaka það allt hér. Að vísu er það svo að ef öldruð hjón búa saman og eiga íbúð sem ekki kostar í afborgunum meira en svona fjörutíu til sextíu þúsund á mánuði, má samt komast af ef lækniskostnaður er lítill eða enginn. Auðvitað veita ellilífeyrisþegar sér ekki neitt sem til óþarfa má telja og hafa flestir vanist því frá blautu barnsbeini að hafa lítið handa á milli.

Að því kemur að ellilífeyrisþegar munu í stórum stíl (stærri en núna) flýja land. Þangað til verða þeir bara að herða sultarólina og láta sig hafa hin slæmu kjör. Hvers vegna er annars verið að hamast við að lengja líf allra ef ekki á að sjá til þess að þeir sem við lökust kjör búa geti lifað mannsæmandi lífi?

Mér finnst það nú langt gengið að girða Austurvöll af. Ég verð bara að segja það. Vona að þetta verði í fyrsta og síðasta sinn á 17. júní sem slíkt er gert. Hingað til höfum við Íslendingar gumað mikið af því að hér á landi væri engin stéttaskipting. Nú getum við það ekki lengur. Þessi girðingarfjandi kemur í veg fyrir það. Vitanlega er hún fyrst og fremst táknræn. Hún táknar endanlega skiptingu landsins barna í yfirstétt og undirstétt. Ef það er þetta sem yfirstéttin vill þá skulum við eftirláta henni það. En hún verður þá vonandi rekin úr Alþingishúsinu í staðinn með skömm. Í mínum huga er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á þessu. Vonandi verður ný komin og ekki svona hrædd við pöpulinn næst þegar haldið verður uppá 17. júní.

Á morgun er laugardagur og ég man ekki betur en Íslendingar eigi þá að spila í fótbolta við Ungverjaland á Evrópumeistaramótinu. Annars er það undarlegur siður hjá blaðamönnum og fjölmiðlafólki yfirleitt, að láta eins og þetta Evrópumeistaramót sé einhver heimsviðburður. Svo er allsekki. Þetta er bara knattspyrnumót sem haldið er reglulega. Auðvitað er það í augum okkar Íslendinga merkilegra en önnur slík, því þetta mun vera í fyrsta skipti sem við höfum unnið okkur rétt til að taka þátt. Íþróttir allar eru ópíum fólksins og ekki neitt annað. Lágmenning í sinni tærustu mynd. Að svo miklu leyti sem þetta getur komið í veg fyrir annað og verra er það samt jákvætt mjög. En hliðarverkunin er sú að þetta fær fjöldann til að sætta sig betur við ótrúlegustu spillingu og þjófnaði.

IMG 1085Einhver mynd.


2483 - Þorvaldur Gylfason

Sko. Ég er víst búinn að lýsa því yfir að ég ætli að kjósa Guðna Th. í komandi forsetakosningum. Ekki ætla ég mér annað, en ég get ekki að því gert að Andri Snær og barátta hans er mér nokkuð hjartfólgin. Að Guðna frátöldum vegna yfirburðaþekkingar sinnar á forsetaembættinu og öllu sem því tilheyrir væri ég líklega til með að ljá Andra Snæ atkvæði mitt. Þar á eftir kæmi Halla Tómasdóttir þó ekki væri nema vegna þess að ég man eftir henni frá því að hún var starfsmannastjóri á Stöð 2. Þjónkun hennar við útrásarvíkingana dregur eflaust úr fylgi hennar því hún kemur áberandi vel fyrir sig orði. Einnig er hún eina konan sem í þessum kosningum á hugsanlega raunhæfan möguleika á kjöri. Sturla er dálítið sér á parti en greinilega mikill hugsjónamaður. Sem forseti væri hann þó alls ekki á réttri hillu.

Aðra tekur því varla að minnast á. Davíð hefur hingað til hagað sér líkt og hann áliti sig einan hafa möguleika á að fella Guðna úr forystunni. Líklegast er þó að hann verði í fjórða sæti eða svo og líti á það sem ósigur sinn.

Aðalgallinn við þessar forsetakosningar er hve fyrirsjáanlegar þær eru. Vel gæti það orðið til þess að kjörsókn verði áberandi lítil. Mörgum mun eflaust finnast að ekki taki því að vera að ómaka sig á því að fara á kjörstað.

Langathyglisverðasta frétt dagsins er sú að nú sé farið að handtaka menn vegna Guðmundar og Geirfinns málsins. Ekki er seinna vænna því þeir sem líklega eru þar sekir fara sennilega að drepast bráðum. Bíð með óþreyju eftir að frétta meira af þessu máli. Ég held að fáir hafi reiknað með því á sínum tíma að rétt væri að öllu staðið í sambandi við það mál. Þó hefur það verið látið dankast í öll þessi ár.

Einn algengasti veikleikinn hjá flestum dálkahöfundum og besservisserum er að vilja kommenta eða skipta sér af næstum öllu. Margir kannast við þetta en vilja ekki viðurkenna það. Sjálfur reyni ég eftir mætti að forðast þetta og þessvegna segi ég að ég sé fyrrverandi besservisser, en hafi orðið atvinnulaus þegar Gúgli náði sér á strik.

Þorvaldur Gylfason hefur hvað eftir annað haldið því fram að Íslendingar hafi samþykkt nýju stjórnarskrárdrögin með tveimur þriðju hlutum atkvæða í kosningum árið 2012. Þetta er alrangt hjá honum og ætti ekki að þurfa að brýna það fyrir prófessornum. Í nefndri þjóðaratkvæðagreiðslu var samþykkt að leggja nýsamþykkt stjórnarskrárdrög til grundvallar nýrri. Hvorki meira né minna. Hins vegar var spurt nokkurra ákveðinna spurninga jafnframt en ekkert gert með svörin við þeim. Þessvegna, meðal annars, eru landsmenn búnir að fá hrikalega leið á hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og hefur það komið vel fram í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu.

IMG 1181Einhver mynd.


2482 - Enn og aftur um Tromparann

Svo er að sjá að forsetakosningarnar sem verða hérna í þessum mánuði verði ekki einu sinni spennandi. Yfirburðir Guðna Th. virðast vera það miklir að aðrir hafi litla sem enga möguleika á að ná honum. Það er alveg sama hvað Davíð Oddsson óskapast ekki er að sjá að fylgi Guðna haggist neitt við það. Ekki vantar samt tilraunirnar og ýmislegt er virkjað í baráttunni. Ég held nú samt að ég muni svosem mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunum því andvaraleysi sem gjarnan birtist í því að fólki þykir ekki taka því að mæta á kjörstað getur einmitt verðið fólki í svipaðri aðstöðu og Guðni er hvað hættulegast. Og gæti komið í veg fyrir að hann verði kosinn. Varla er ástæða til að fjölyrða mikið um þessa kosningu. Úrslit hennar eru svo fyrirsjáanleg.

Veðrið er um það bil að verða óttalega fyrirsjáanlegt líka. Allaf hlýtt og gott veður. Þó er stundum þoka a.m.k. hér um slóðir.

Hætt er við að markvisst sé unnið að því að magna upp gagnkvæma andúð meðal trúarhópa. Mestum árangri virðast þeir ná sem magna vilja deilur milli kristinna manna og múhameðstrúar. Einnig er svo að sjá að þeim sem vilja magna deilur milli islamskra trúarhópa verði ágætlega ágengt. Ekki hef ég neina hugmynd um hverjir þetta eru svo kannski er þessi sannfæring mín lítils virði. Óttast þó að þeir sem flestum steinum kasta í þessu stríði séu viljalaus verkfæri þó þeir viti það ekki sjálfir. Slæmt að sjaldnast skuli vera hægt að spurja þá að því.

Gunna litla var að fara í vist á bæ sem ekki hafði sérleg gott orð á sér og pabbi hennar var að leggja henni lífsreglurnar:
„Og gættu þess svo að láta hann Jón bónda ekki barna þig. Hann er manna vísastur til þess. Og þau hjónin bæði.“

Kannski muna einhverjir eftir látunum útaf fæðingarvottorði Barachs Obama bandaríkjaforseta. Kaupsýslumaður nokkur í New York gekk meira að segja svo langt að hann kostaði leynilögreglumann til Hawaii til að rannsaka þetta. Hver var þessi kaupsýslumaður? Hann heitir Donald Trump. Nú ásakar þessi sami Trump Obama um að vera viðriðinn fjöldamorðin í Orlando. Ég er ekki viss um að neinn trúi honum.

IMG 1204Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband