2486 - Fótbolti og forsetakjör

Fyrir nokkrum dögum býsnaðist góða fólkið á fésbók mikið yfir því að górilla var drepin eftir að hafa náð í lítinn dreng sem klifrað hafði yfir girðingu í dýragarði. Reiðin beindist einkum að foreldrunum fyrir að hafa ekki gætt drengsins betur. Nokkru seinna var lítill drengur á tilbúinni Disney strönd drepinn af krókódíl. Sú frétt var einnig umtöluð á fésbók. Í þetta sinn var samt af eðlilegum ástæðum ekki talað um vanrækslu af hálfu foreldranna heldur var öðrum kennt um.

Auðvitað eru slys sem börn lenda í með því hræðilegasta sem hægt er að hugsa sér. Samt er ekki annað hægt en velta fyrir sér mismuninum á viðbrögðum við fréttum að þessu tagi. Vitanlega skiptir það máli hvort börnin bjargast eða ekki. En fleira getur haft áhrif. Til dæmis þau dýr sem við sögu koma. Einnig staðurinn þar sem slysið á sér stað og margt fleira.

Einnig er hægt að velta því fyrir sér hvers vegna ég sé að minnast á þetta hér. Sennilega veldur því einhverskonar fésbókar-komplex. Satt að segja er fésbókin og aðrir félagslegir fjölmiðlar orðnir svo samgrónir menningu okkar að hvorki er hægt að líta á þá sem góða eða vonda í eðli sínu. Þeir eru bara þarna og hafa vissulega breytt mörgu í mannlegum samskiptum.

Sá auglýsingu frá Davíði Oddssyni í sjónvarpinu og aðra í Fréttablaðinu. Annars hefur kosningabaráttan fyrir komandi forsetakosningar að mestu farið framhjá mér. Kannski hefur áróður af þessu tagi einhver áhrif, en ég efa stórlega að þau séu mikil. Morgunblaðið sé ég næstum aldrei. Geri samt alveg ráð fyrir að þar sé ritstjóranum hampað. Ég ætla þrátt fyrir það að kjósa Guðna Th. eins og ég var víst búinn að segja fyrr. Samt er það svo að fjölmiðlana skyldi enginn vanmeta. Þar er það yfirleitt fjármagnið sem mestu ræður.

Flestum nægir að skrifa öðru hvoru langa fésbókarstatusa þar sem ævisagan er vandlega tíunduð, en ekki mér. Ég þarf helst að láta móðann mása svotil viðstöðulaust. Finnst bloggið henta betur til þess en fésbókin. Sumir telja lækin en sumir eru fremur sparir á þau þó þeir séu allmikið að flækjast á fésbókarræflinum. Þannig er ég til dæmis. Fylgist samt öðru hvoru með heimsóknarfjöldanum á blogginu mínu. Og þá man ég eftir því. Held að myndin sem ég birti með blogginu mínu í gær eða fyrradag hafi komið með fésbókarauglýsingunni sem ég setti inn. Sem er mjög gott. Eins og maðurinn sagði. Skil samt ekki af hverju það gerist ekki alltaf.

IMG 0595Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband