Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
11.6.2016 | 11:26
2481 - Ólafía hvar er Vigga?
Lesendum mínum á blogginu hefur fækkað nokkuð undanfarna daga. Kannski er það vegna þess að ég hef ekki vandað mig nógu mikið við fyrirsagnirnar. Þær þurfa helst að vera í einhverjum tengslum við fréttir dagsins. Ekki er verra að þar sé að finna nafn eða nöfn. Annars verð ég bara að taka þessu. Ég er alls ekki að skrifa fyrir aðra. Eða ég ímynda mér það allavega. Lesendum mínum hefur svosem ekki fækkað svo mikið að ég sé að hugsa um að hætta. Fjarri því. Já, þetta er hótun. Það er engin hætta á því að ég hætti. Og ég mun halda áfram að skrifa um það sem mér sýnist. Hvort sem um er að ræða skítandi túrista eða spýtubrjóstsykur. Svoleiðis er það bara. Já, þetta er innihaldslaust raus, ég geri mér alveg grein fyrir því.
Einhvern veginn er það svo að fólk lítur ekki á hnífa sem vopn. En auðvitað eru þeir það. Ég á að sjálfsögðu við flugbeitta eldhúshnífa. Þeir eru samt ekki eins ópersónulegir og fjarlægir og byssufjandarnir eru núna og í framtíðinni verða drónarnir það. Í þeim löndum þar sem byssur eru leyfðar svotil hindrunarlaust eru þær miklu algengari til drápa en hnífar. Ætli það sé ekki einkum vegna þess að þær eru svo ópersónulegar og fjarlægar. Hnífar eru á allan hátt síður til slíks fallnir og sérlega ógeðslegir ef þannig er á málin horft. Hvers vegna í ósköpunum er ég að velta þessu fyrir mér. Get bara ekkert að því gert. Svona er þetta bara. Allan andskotann hugsa ég um og velti fyrir mér.
Appú sagði Lilla Hegga. Eða var það ekki? Allavega held ég að þetta sé frá Þórbergi komið. Fyrst þegar ég heyrði þetta skildi ég það ekki. Appú þýðir að sjálfsögðu allt búið og má alveg nota í staðinn fyriri enskuglósuna The End sem margir hafa séð. Lilla Hegga var systir hennar Biddu að ég held. Bidda eða Birna Torfadóttir var á Bifröst um svipað leyti og ég. Einu sinni koma Lilla Hegga í heimsókn þangað og þá var Þórbergur búinn að gera hana fræga.
Mér finnst það nú svolítið hinsegin að vígja nýja fangelsið á Hólmsheiði án þess að fangar fái að koma þar nærri. Ekki get ég álitið það að fullu tekið til starfa fyrr en fangar hafa komið sér þar fyrir. Eða verið komið þar fyrir. Vel hefði fulltrúi þeirra sómt sér hjá þeim sem nú klappa sér á bakið fyrir þetta afburðafína fangelsi. Kannski verða fangar sem þar verða vistaðir hunóánægðir með nýja fangelsið. Nú, eiga þeir ekki að vera það? Eginlega hefði verið stæll á því að láta útrásarvíkinga gista þar fyrst. En það er víst orðið of seint.
Auðvitað ætti maður að vera löngu dauður miðað við alla þá óhollustu sem maður hefur látið ofan í sig á langri ævi. Man t.d. vel hvað mér brá þegar ég tók gúlsopa af steinolíu sem ég hélt að væri seven-up. Var að drepast í maganum allan daginn. Einu sinni þefaði ég líka uppúr besíntanki á traktor þangað til ég var svo ruglaður að ég valt um koll. O.s.frv. o.s.frv.
Ólafía hvar er Vigga?
Hún er uppí sveit
að elta gamla geit
Ólafía hvar er Vigga?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2016 | 20:58
2480 - Er Sanders ákveðinn í að koma Trump til valda?
Ýmislegt bendir til að Bernie Sanders hyggist ekki nota það tækifæri sem ósigurinn í Kaliforníu færði honum til að gefast upp við baráttu sína til þess að öðlast útnefningu Demókrataflokksins. Heldur ætli hann að reyna sitt til þess að eyðileggja Demókrataflokkinn og færa valdið til einangrunarsinnans Donalds Trump. Ekkert bendir til þess að Hillary Clinton verði neitað um útnefninguna og flest bendir til þess að póstkassamálið sé dautt og grafið. Haldi Sanders áfram að þrjóskast við er líklegast að hann færi Trump sigurinn í baráttunni um embætti forseta bandaríkjanna sem háð verður í haust.
Held að Höski fái ekki til lengdar að tala gegn foringjanum. Bíðið bara framsóknarmenn þar til framboðslistarnir verða kynntir. Nú þegar Davíð Oddsson er um það bil að falla af sínum stalli tekur framsóknarflokkurinn við í foringjadýrkuninni. Hvar endar þetta eiginlega? Þetta er næstum eins og í Kóreu. Man bara ekki í augnablikinu hvort það er Suður eða Norður.
Mér finnst alveg fáránlega asnalegt hve klósettin á landinu eru fá. Ég man svo langt að þau voru eitt sinn tolluð sem lúxusvarningur. Nú er ég ekki einu sinni viss um að þau séu í hærri tollflokki en hlandskálar eða annar munaðarvarningur svo sem spýtubrjóstsykur. Annars er fremur lítið að marka mig í þessu efni því ég er alltaf svo neikvæður enda fyrrverandi besserwisser. Þó ég hafi orðið að viðurkenna ósigur gagnvart Gúgla karlinum þá reyni ég af veikum mætti að bessarwissast eftir föngum. En það er sífellt að verða erfiðara og erfiðara.
Áhyggjulaust ævikvöld. Það er svosem ágætt að þurfa ekki að fara í vinnuna á morgnana. Hvað áhyggjurnar snertir er ekki víst að í staðinn fyrir áhyggjurnar í vinnunni komi eitthvað einfaldara. Áhyggjurnar af afkomendunum eru til dæmis ekki til að hrópa húrra fyrir. Er ekki heimurinn á hraðri leið til glötunar? Reyndar hefur hann oft verið það. Á mínu æviskeiði man ég vel eftir því að vegna mannfjölgunar væri allt að fara til fjandans. Sömuleiðis átti öll olía að vera uppurin löngu fyrir árið 2000. Nú um stundir er það heimshlýnunin sem er alla að drepa. Sennilega er það samt alveg rétt að við höfum ekki gefið umhverfismálum nægan gaum hingað til. Hugsanlega breytist það þó. Kannski að vísu fullseint en hvað um það. Heimurinn hefur hingað til kraflað sig útúr allskyns vandræðum og mun eflaust halda því áfram.
Vel er hægt að nota fésbókina til að fá hugmyndir. T.d. skýst ég oft sem snöggvast inn á fésbókina ef mig vantar hugmynd að einhverju til að skrifa á bloggið mitt. Fréttasíðurnar eru ekki það sem verður mér oftast að gagni samt sem áður. Sumir virðast varla geta skrifað nokkuð nema leggja útaf fréttum dagsins og setja það í persónulegt samhengi. Þetta hef ég prófað en hætti því fljótlega því ófrelsið er í rauninni algert. Miklu skárra er að leggja útaf einhverju sem enga athygli vekur, svona eitt og sér. Fæ oft svo fáránlegar hugmyndir þar að varla er hægt að skrifa um það. Geri það þó stundum.
Vel getur verið að þeir séu til sem hvorki hafa áhuga á yfirvofandi forsetakosningum eða Evrópumótinu í krassspynnu. Sé svo hafa þeir fremur lítið til fjölmiðlanna að sækja. Alveg er ég hissa á þeirri geðveiki sem virðist hafa gripið nær alla fjölmiðlunga nú um stundir. Ekki ætla ég að borga Símanum 6900 krónur fyrir að fá að sjá svolítið fleiri leiki frá þessu umtalaða EM í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Heldur ekki hef í hyggju að skoða torfurnar á Ingólfstorgi. Kannski horfi ég samt á einhverja leiki í mímum eða réttara sagt okkar fína flatskjá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2016 | 22:38
2479 - Um trosnaða taugaenda og ýmislegt fleira
Um eitt get ég örugglega aldrei orðið sammála þeim æstustu í stjórnarskármálinu og það er að þjóðin sé búin að samþykkja endanlega að taka í gagnið stjórnarskárdrög þau sem svokallað stjórnlagaþing sendi frá sér og samþykkti einróma. Jafnvel þó þau stjórnarskárdrög yrðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu er ég ekki sannfærður um að rétt væri að skipta. Hinsvegar er það umdeilanlegt hvort alþingi (með litlum staf) eigi að hafa úrslitavald í því efni. Vel mætti hugsa sér sérstaka bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál. Allsekki er fullvíst að öll ákvæði nýju stjórnarskrárinnar séu svo þaulhugsuð að ekki verði um bætt. Sú gamla er hinsvegar bæði óljóst og illa samin og bráðliggur á talsverðum endurbótum á henni. Ekki liggur þó í augum uppi hvernig halda skuli á þessu máli. Líklegast er að ekkert gerist þessu tengt á yfirstandandi kjörtímabili. Hvort sem það verður þrjú eða fjögur ár.
Trosnaðir taugaendar. Af hverju fylgja ellinni hægari hreyfingar? Skil það ekki almennilega. Velti ýmsum læknisfræðilegum spurningum fyrir mér. Læknar geta ekkert ráðið í þessháttar. Allra best er að vera ómenntaður með öllu. Samkvæmt munnmælum gefst það afar vel. Eiginlega ættu allar hreyfingar að verða hraðari með aldrinum. Æfingin vex og reynslan segir til sín. Er það ekki þannig? Einhvers staðar las ég að DNA-keðjan yrði lélegri í endann eftir því sem frumuskiptum fjölgaði, en hvernig vita þær að þær séu gamlar? Og af hverju geta þær ekki alltaf verði eins og nýjar? Ekki gengur þetta alveg upp hjá mér svo kannski er bara best að halda sig við trosnaða taugaenda. Ellin lætur samt ekki að sér hæða. Frumurnar hætta kannski að tala saman. Hvernig skyldi þetta frumumál eiginlega vera?
Einn aðalgallinn við fésbókina er að þar geta allir stofnað allskonar síður útum allar jarðir og gera það svikalaust. Svo hætta menn að sinna þessu eða nenna því ekki. Stundum hefur maður ekki neina hugmynd um yfir hverju er verið að óskapast þegar maður fær áríðandi tilkynningu. Tilkynningarnar eru stundum svo margar að maður hefur enga möguleika á að skoða þær allar. Gleymir jafnvel hversvegna í ósköpunum maður var að flækast á fésbókinnni. Svo virðast sumir halda að þetta sé upphaf og endir alls. Tala jafnvel um Internetið sem heild en eiga þá bara við fésbókarræfilinn. Og svo framvegis. Og svo framvegis.
Líklega er það bráðóhollt að skrifa svona mikið á bloggið (og fésbókina) eins og ég geri. Sennilega væri bara best að hætta þessu með öllu. Helstu áhyggjurnar sem maður hefur varðandi slíkar hættu-hugsanir eru þær að þá mundu margir halda að maður væri steindauður. Hversvegna var maður þá að byrja á þessum fjára? Og er það ekki bara allt í lagi? Ég meina að sumir haldi að maður sé steindauður. Þeir fylgjast bara ekki nógu vel með. Og hvað með það? Nógu erfitt er að fylgjast með því hvaða frægðarfólk deyr. Svona hugsa ég stundum í endalausa hringi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2016 | 10:04
2478 - Skítandi túrhestar
Auðvitað þurfa túristar að skíta eins og annað fólk. Að menn (og þar á meðal ráðherrar) skuli ekki hafa fattað þetta er dálítið skrítið. Ef ekki er um klósett eða kamra að ræða er engin furða þó ferðamenn skíti hvar sem er. Reyndar er þetta svolítið ógeðfellt umræðuefni, en umbætur í þessu efni virðast ekki gerast af sjálfu sér. Mannaskítur er á góðri leið með að verða aðaltáknmynd ferðamennsku á Íslandi. Vissulega varð Þórbergi eitt sitt brátt í brók eins og sagt er frá í bréfi til Láru en samt er engin ástæða til að stinga höfðinu í sandinn (eða skítinn) þegar kemur til umræðu um svona mál. Auðvelt er að laga þetta. En það kostar peninga eins og allt annað.
Heimilislausir í borginni Los Angeles í Kaliforníuríki í bandaríkjunum er sagðir um 47 þúsund talsins. Nú hafa yfirvöld í þeim hreppi fengið þá snjöllu hugmynd að skattleggja þá sem hafa yfir milljón bandríkjadollara í árstekjur um heilt prósent af launum sínum til að ráða bót á þessu ástandi sem mörgum þar um slóðir finnst til mikilla vandræða. Þessi skattur er talinn muni skila um 243 milljónum bandaríkjadollara á ári. Vissulega eru ekki eins margir heimilislausir í Reykjavík og í Los Angeles, en ef svo væri þá ímynda ég mér að einhver væri búinn að fá þessa hugmynd þar. Það er semsagt ekki bara hér á Íslandi sem fólki finnst eðlilegt að þeir ríku borgi fyrir þá sem minna mega sín. Gallinn við þessa hugmynd er sá að til stendur að setja hana í almenna atkvæðagreiðslu og þar mun hún þurfa samþykki tvegga þriðju hluta atkvæða sem hugsanlega telja mun fleiri en 47 þúsund. Og svo er ekki öruggt að skattur þessi mundi nægja til að byggja hús fyrir allan þennan fjölda heimilislausra.
Ekki hafði ég í hyggju að skrifa mikið meira um forsetakosningarnar sem fram fara hér á Íslandi síðar í þessum mánuði. Get þó ekki orða bundist yfir svívirðingum þeim sem notaðar eru á fésbók og víða annars staðar. Heldur fólk virkilega að ef svívirðingarnar eru nógu viðbjóðslegar og rætnar að þá séu þær líklegri til að hafa áhrif? Get eiginlega ekki annað en tekið undir orð Guðna um sómatilfinninguna. Jón Baldvin Hannibalsson segir í grein í Kvennablaðinu að líklega verði þau orð Guðna minnisstæðust úr þessari kosningabaráttu þegar frá líður og ég er honum sammála um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2016 | 16:18
2477 - Bjarni konungur Íslands
Í mínum huga er lítill vafi á því að Bjarni Benediksson er á margan hátt valdamesti maður landsins. Hann virðist ráða því sem hann vill og margt bendir til að svokallaður forsætisráðherra í vasa hans í þeim málum sem Bjarni vill beita sér. Margt styður þessa skoðun mína sem varð að vissu þegar þeir fóstbræður Sigurður og hann stóðu í stiganum í alþingishúsinu og töluðu við pöpulinn.
Líklega er það einn mesti sigur Bjarna á hans stjónmálaferli þegar honum tókst að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að fallast á það á Laugarvatni, eða í einhverjum sumarbústað, að mynda ríkisstjórn með sér. Þó Sigmundur fengi að vera forsætis var eiginlega enginn vafi á því þegar og ef í baksýnisspegilinn er horft að Bjarni hafði alla þræði í hendi sér. Hugsanlega hafa þeir ekki einu sinni rætt um þingrofsheimild en Bjarni talið sig vissan um að ÓRG hefði sama skilning og hann á því máli.
Sigmundur hefur líklega talið að hann hefði þingrofsheimildina því venjulega hefur hún annaðhvort fylgt forsætisráðherraembættinu eða sérstaklega verið um hana samið. En eins og flestir Íslendingar ættu að vita er Ólafur Ragnar Grímsson enginn venjulegur forseti og þessvegna tók hann ekkert mark á því þó SDG hótaði þingrofi.
Eftir núverandi forsetakosningar er áreiðanlegt að Davíð Oddsson verður óskaðlegur með öllu. Þó hefur það verið svo hingað til að hann er sá maður sem Bjarni konungur hefur óttast hvað mest. Allsekki er víst að neinar kosningar verði næsta haust. Bjarni notar þetta bara sem hótun við stjórnarandstöðuna. Ef þið verðið ekki þæg og hlýðin samþykkjum við aldrei að hafa kosningar í haust.
Líkur eru samt á því að hann beygi sig fyrir hótun um að gera alþingi óstarfhæft með málþófi. Í því sambandi er vel hugsanlegt að strax í haust komi til kasta Guðna í forsetaembættinu.
Kannski er bara best að setja þetta strax á bloggið áður en það verður úrelt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2016 | 11:23
2476 - Forsetakosningarnar enn og aftur
Satt að segja er mér ofboðið þegar ég les fésbókina og það sem menn þar láta frá sér fara í tilefni af forsetakosningunum. Mér er nær að halda að marga vanti alla sómatilfinningu. Það er næsta víst að ekki eykst tiltrú mín á fésbókinni við þessar forsetakosningar. Jafnvel Moggabloggið er betra hvað orðbragð snertir. Skyldi enginn skammast sín?
Vitanlega fara úrslit forsetakosninganna lítt eftir því hver forsetalegastur er. Og allra síst eftir því hvað einum einstaklingi finnst í því efni. Samt sem áður ætla ég að segja frá því hver þeirra sem venjulega eru efstir í skoðanakönnunum mér finnst vera forsetalegastur.
Satt að segja er það Guðni Th. sem þar hefur vinninginn. Af einhverjum ástæðum finnst mér Andri Snær vera strákslegastur (í góðri merkingu) þeirra allra og ég hef þá trú að hann muni skjótast framúr Davíð á lokasprettinum, en þrátt fyrir góða og skýra framtíðarsýn ekki hafa neina möguleika á að ná Guðna. Halla Tómasdóttir ætti skilið að vera mun ofar, en líklega er stuðningur hennar við útrásarvíkingana og tengsl við þá á árum áður, henni talsverður fjötur um fót.
Af einhverjum lítt skiljanlegum og fárálegum ástæðum virðast minningar fólks úr þorskastríðunum ætla að verða þungamiðjan í þessum forsetakosningum. Ég get bara sagt það um mig að þó ég ruglist stundum svolítið í ártölum í þessu sambandi þá man ég vel eftir þeim. Auðvitað var það svo að allir vissu að Bretar vildu ekki eða fengu ekki fyrir Bandaríkjamönnum að beita sér að fullu. Þeir máttu t.d. ekki drepa menn. Að margir Íslendingar hafi samt sem áður álitið að þeir væru að berjast fyrir lífsafkomu sinni þarf ekki að vera nein mótsögn í sjálfu sér.
Eftirminnilegasta atvikið úr þessum stríðum hvað mig snertir er hve litlu mátti muna að Íslendingar gripu til ófyrirsjáanlegra og afdrifaríkra ráða þegar varðskip stöðvaði togarann Everton fyrir norðan land og hélt honum þar í nokkurn tíma. Ef uppúr hefði soðið þar og Íslendingar gripið til örþrifaráða er ekki að vita hvernig farið hefði.
Mikið er deilt nú um stundir um hvað fram hafi farið í tveggja manna tali milli Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sumir virðast jafnvel telja að þetta hafi áhrif á núverandi kosningabaráttu fyrir næstu forsetakosningar. Því fer samt fjarri. Krakkarnir mundu segja að ÓRG hafi haldið kúlinu en SDG ekki. Ég ætla ekkert að segja um þetta, kúlið má bara eiga sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)