Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

2529 - Store stygge ulv

Í mjög stórum dráttum lít ég þannig á stjórnmálin að í seinni tíð hafi það verið flokkum mjög hættulegt að vera í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn minnkaði sífellt í samstarfi sínu við hann fyrir Hrun. Samfylkingin gekk til samstafs við hann þegar Framsókn dugði ekki lengur og nú má sjá hvernig það hefur leikið hana ásamt auðvitað ýmsum öðrum vandræðum. Í kosningunum 2013 vann Framsókn mikinn sigur og hóf aftur samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Sá sigur byggðist að mestu á blekkingum og enn tapaði Framsókn.

Af þessu dreg ég þá ályktun að þó Bjarna Benedikssyni verði verið falin stjórnarmyndun sé ekki víst að það takist. Katrín Jakobsdóttir er hugsanlega líklegri til þess og þá jafnvel með öllu án atbeina Sjálfstæðismanna. Það er þó alls ekki einfalt mál.

Stjórnarmyndun gæti tekið talsverðan tíma og víst er að reyna mun á hinn nýkjörna forseta.

Annars finnst mér mikill óþarfi að bregðast þannig við kosningaúrslitum að andstæðingarnir hljóti að vera svona geðbilaðir og/eða vitlausir fyrst þeir sjá hlutina ekki með sömu augum og viðkomandi. Þar finnst mér jafnvel stjórnmálamennirnir bregðast við af meiri skynsemi en sumir fésbókarsérfræðingarnir.

Hef aldrei náð almennilegu sambandi við twitter. Þar finnst mér áherslan vera lögð á „oneliners“, en sú gáfa að geta skrifað þannig er ekki öllum gefin. Satt að segja finnst mér twitter kommentin sem ég hef séð yfirleitt vera heldur léleg. Þó eru þau yfirleitt úr öðrum fjölmiðlum og greinilega valin úr mörgum. Fésbókin virðist að miklu leyti hafa tekið við af símanum og kaffibollanum, en bloggið er greinilega það sem hentar mér best. Og á Moggabloginu blogga ég bara vegna þess að það er svo ódýrt og einfalt. Enginn hefur heldur bannað mér að blogga þar tvisvar sama daginn.

IMG 3044Einhver mynd.


2528 - Kosningar 2016 o.fl.

Áhugaleysi mitt um kosningaúrslitin er kannski til marks um ellihrumleika minn. Ég fór nefnilega að sofa um tvöleytið í nótt. Þá fannst mér vera útséð um kosningaúrslitin í stórum dráttum. Vaknaði fremur snemma þessvegna og er að hugsa um að blogga pínulítið núna meðan ekki er orðið almennilega bjart. Næstu dagar verða undirorpnir pólitískum fréttum og ég á von á því að Bjarni Benediksson myndi stjórn með einhverjum. Eiginlega er mér næstum sama með hverjum. A.m.k. mun hann þurfa tvo flokka með sér til þess.

Eflaust má margt um þessar kosningar segja en ég fylgdist ekki svo grannt með þeim að ég geti fjölyrt um þær af einhverju viti.

Kannski er það óvenjulegast við þessar kosningar að þær skuli ekki eiga sér stað að vori eins og venjulega. Sumum finnst þó áreiðanlega ekkert venjulegt við þingkosningar en mér finnst það.

Bíllinn okkar er svo nýlegur að ég þarf ekki að láta skoða hann fyrr en á næsta ári. Bílar eru í mínum augum aðeins tæki til að nota til þess að komast á milli staða. Sumir hafa þetta að áhugamáli og sjá úr langri fjarlægð hvaða tegund og árgerð er á ferðinni. Aðrir líta einkum á bíla sem stöðutákn og vilja sífellt vera að bóna þá og þvo. Sjálfur hef ég mestan áhuga á undarlegum nafngiftum á íhlutum í bíla. Fjölyrði samt ekki um það núna. Sé þó að hefðbundnar og gamaldags bílaviðgerðir heyra að mestu leyti sögunni til. Nútildags er oftast skipt um stærri og merkilegri hluti en áður var.

Nú er klukkan að verða níu og hugsanlegt að ekki séu allir farnir að sofa ennþá.

IMG 3144Einhver mynd.


2527 - Vera Illugadóttir

Kannski eru þessar kosningar sem fram fara um næstu helgi minna áhugaverðar en margar aðrar þó mér finnist alls ekki vera svo. Umræðuefnin í kosningaumræðunni eru æði einkennileg. Alls ekki má minnast á ESB eða stjórnarskrá. Ef ekki má ræða um slíkt núna, hvenær þá? Eftir 4 ár? Mér finnst það of langur tími. Allir segjast vilja bæta heilbrigðismál. Samfylking vill fyrirframgreiðslu vaxtabóta uppá 3 milljónir. Framsókn vill að nýr Landsspítali rísi við Vífilsstaði. Bjarni vill stöðugleika, sem er nýtt orð yfir íhaldssemi. Píratar vilja stutt þing. Vinstri grænir vilja ekki neitt nema helst ekki fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna gengur þeim best. Skil þetta ekki. Hugsanlega verða úrslit þessara kosninga markverð. Kosningabaráttan er það ekki.

Las yfir mitt síðasta blogg. Samkvæmt því mætti ætla að ég legði mest uppúr því að ná til sem flestra. Sú er ekki raunin. Af einhverjum ástæðum er þetta blogg ekki sérlega vinsælt. Sjálfum finnst mér þó að ég skrifi bæði vel og af mikilli skynsemi. Aðrir eru bara alls ekki á þeirri skoðun. Við því er ekkert að gera.

Les oft fésbókarinnleggin frá Birni Birgissyni í Grindavík. Sama er að segja um það sem Björn Þorláksson hefur til málanna að leggja. Gæti skrifað hér heilmikið um þá og ef ég mundi síðan setja nafnið þeirra í fyrirsögnina gæti vel hugsast að ég fengi nokkuð marga til að skoða þetta blogg. Björn lætur næstum allt flakka, en er óhóflega upptekinn af sjálfun sér og allskyns hálfmisheppnuðum matartilbúningi. Líður sennilega best þegar hann þarf að svara öllum athugasemdunum. Björn Þorláksson skrifar líka allmikið um sjálfan sig og hrósar líka öðrum. Aðdáun hans á Illuga Jökulssyni get ég þó alls ekki deilt. Er hann þó einn helsti vinstri-páfinn á landinu. Vera dóttir hans er þó greinilega bæði dugleg og framkvæmdasöm. Sagnfræðilegt efni sem hún flytur í Ríkisútvarpinu er bæði vel unnið og skemmtilegt.

Segja má að það ritað efni sem ekki kemst til mín óbrjálað geti sjálfu sér um kennt. Eyði klukkutímum á degi hverjum fyrir framan tölvuna og fletti auk þess Fréttablaðinu oftast nær núorðið. Fréttasjúkur er ég líka eins og fleiri á mínum aldri og læt Sjónvarpsfréttir sjaldan framhjá mér fara nema heimsóknir eða símhringingar tefji mig frá því. Þær tek ég að sjálfsögðu framyfir.

Allar fréttir eru pólitískar. Alltaf má finna pólitískt sjónarhorn á allt sem sagt er eða afmyndað. Orðið afmyndað hugsa ég mér að í þessu tilfelli geti komið bæði í staðinn fyrir ljósmyndað og kvikmyndað. Videómyndskreytingar eru að verða lágmarkskrafa við allar fréttir.

Minnist oft orða Maríós Ólafssonar sem var hljóðmeistari á Stöð 2 í eina tíð. Hann sagði að  í fréttaöflun væri það hljóðið sem skipti mestu máli. Myndir og þess háttar væri fyrst og fremst til skrauts. Þetta væri auðséð á því að ef hljóðið væri skemmt væri fréttin ónýt. Ef aftur á móti myndataka mistækist á einhvern hátt mætti alltaf finna eitthvað annað til að setja yfir hljóðið. Kannski ætti ég að reyna að segja eitthvað álíka gáfulegt um ritaðan texta því hann er það eina sem ég kann.

IMG 3148Einhver mynd.


2526 - Ísland og Bandaríkin

Því fer víðsfjarri að ég læki allt á fésbókinni sem ég les þó. Les eða skoða ekki einu sinni allar tilkynningarnar sem ég fæ þar. Finnst óþarfi að séra minningar. Fer alltaf nokkrum sinnum á degi hverjum inná fésbókina. Þar er oft margt að finna, en óttalegur tímaþjófur er þetta.

Á svolítið erfitt með að ákveða hvort ég hef meiri áhuga á íslensku kosningunum eða þeim bandarísku. Þær íslensku eru þó mun tvísýnni. Þessir spádómar um þingsæti og mögulegar ríkisstjórnir eru að engu hafandi. Ráðandi öfl hafa af einhverjum ástæðum ákveðið að hafa þingkosningar svo flóknar að engin leið sé að botna í neinu. Þjóðaratkvæðagreiðslur má alls ekki hafa, því þá er allt hið mikla starf við kjördæmaskiptingu og jöfnuð milli flokka (fjórflokka) unnið fyrir gýg. Alþingi starfar svo eftir reglum sem kannski hafa verið ágætar fyrir 100 árum en eru ónothæfar með öllu nú.

Á vissan hátt er hægt að segja að kosningarnar nú snúist um „endurræsingu vs stöðugleika“. Sá stöðugleiki sem blasir við í heilbrigðismálum og á fjölmörgum öðrum sviðum hugnast mér ekki. Tölvan er það heimilistæki sem ég hef oftast mest samskipti við. Ef eitthvað bjátar á þar er endurræsing venjulega það fyrsta sem mér dettur í hug. Venjulega fylgir því lítil áhætta. Kannski er því líkt farið með þjóðfélagið. Endurræsingin sem framkvæmd var hér á landi í kjölfar Hrunsins virðist hafa tekist bærilega.

Árangur Trumps í Bandaríkjunum er að ég held einkum tilkominn vegna andstöðu hans við ríkjandi stjórnmála- og fjármálaöfl. Skiljanlegt er að Bandaríkjamenn vilji fremur lúta „kerfinu“ í 4 til 8 ár í viðbót, en að setja allt sitt í hendurnar á einum dyntóttum manni. Sumt af því sem hann hefur haldið fram er líka fráleitt með öllu.

Læt ég svo kosningahugleiðingum lokið og reyni að snúa mér að einhverju öðru.

Horfði á þáttinn hjá Agli Helga í gær. Ég get ekki að því gert að mér finnst hann vera á réttri hillu þar. Les reyndar oft bloggið hans líka og finnst honum stundum takast vel upp þar. Í Kiljunni nýtur hann sín samt best. Þó hann byrji venjulega á einhverjum bókmenntapáfum sem oftast eru alveg að míga á sig af hrifningu yfir einhverjum misheppnuðum og illskiljanlegum bókum sem þeir hafa fengið til yfirlestrar má hann eiga það að öðrum hliðum bókmenntanna sinnir hann líka. Að vaða svona úr einu í annað líkar mér vel. Furðulegt hvað hann er fundvís á merkilega hluti.

Sagnfræði sú bandaríska sem við fáum að heyra um þessar mundir í þáttunum sem kallaðir eru að mig minnir „The seventies“, er alveg ágæt að mínum dómi. Sú upprifjun á Watergate-heykslinu og Viet Nam stríðinu sem ég hef séð er að mörgu leyti alveg ágæt. Ekkert er reynt að fegra og það myndefni sem sýnt er virðist ágætlega valið. Sá tími sem valinn er til sýninga á þessu efni hentar mér ágætlega. Enn er ég samt ofurseldur valdi þeirra dagskrárstjóra sem ráða tímasetningu efnis og horfi afar sjaldan á kvikmyndir þar.

Eins og flest önnur skrif þá eru bloggskrif komin að verulegu leyti undir æfingu. Miðað við að þetta blogg er númer 2526, ætti ég að vera kominn í talsverða æfingu. Kunnátta er ekki sjálfsögð hjá þeim sem mikla æfingu hafa en án þess að hafa hana er ekki hægt að komast langt.

IMG 3149Einhver mynd


2525 - Einhver fyrirsögn

Að mínum dómi verða það tvær fylkingar sem takast á í komandi kosningum. Þeir sem skipuðu stjórn og stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili. Viðreisn er vandamálið. Ég hugsa að hún muni fremur halla sér að núverandi stjórnarflokkum ef hún kemst í oddaaðstöðu, sem vel gæti hugsast. Spádómar um skiptingu þingsæta eru mun ónákvæmari en spárnar um heildarúrslit. Þar eru vafaatriðin miklu fleiri, þátttakendur mun færri og skiptingin getur farið eftir furðulegustu atriðum. Á margan hátt má segja að það sé framför að vita nokkurn vegin fyrirfram hverskonar stjórn muni taka við að loknum kosningum.

Fréttblaðið í dag birtir okkur þau válegu tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn verði líklega stærstur eftir komandi kosningar. Fari mikið af atkvæðum litlu flokkanna til ónýtis kann það að verða til þess að svipað ríkisstjórnarmynstur blasi við eftir þessar kosningar og er núna. Það finnst mér benda til þess að þrátt fyrir allt hafi Vinstri grænum ekki tekist að þvo af sér kommúnistastimpilinn.

Heimspeki Sjálfstæðisflokksins finnst mér einkum hafa snúist um þetta: Vinstri sinni = kommúnisti. Því er ekki að neita að hreinar kommúnistastjórnir hafa víða mistekist. Nægir þar að minnast á Sovétríkin. Eftir því sem kapítalisminn er hreinni gengur ríkisstjórnum hér í Vestrinu a.m.k. betur að lynda við stórfyrirtækin. Það má sjá t.d. á Bandaríkjunum og ESB. En eigum við að leyfa stóru alþjóðlegu fyrirtækjunum að ráða því sem þau vilja? Þessar pólitísku hugleiðingar eru hugsanlega lítils virði en á einhverjum grundvelli hlýtur fólk að taka ákvarðanir um hvað það ætlar að kjósa. Janvel er ekki fráleitt að halda að loforðaflaumurinn og auglýsingarnar hafi einhver áhrif.

Þegar við lærðum þýsku (með setu þá) á Bifröst í eldgamla daga var okkur sagt af einhverjum sem þóttist vera þýskufróður að glósan: „Der Tau viel stark“ þýddi „döggfallið er mikið“.  Þetta vorum við samt fljótir að þýða með „Táfýlan er sterk“. Uppáhalds glósan okkar var að mig minnir „Sehr shön Bemerkung, nicht war? Af einhverjum undarlegum ástæðum lærði ég (annað hvort á Bifröst eða annarsstaðar) eftirfarandi vísu:

Ich weiss nicht was soll er bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Marchen von alten Zeiten
Es kommt mir aus dem sinn.

Þetta held ég að sé eftir Heinrich Heine og gott ef Jónas Hallgrímsson þýddi þetta ekki snilldarlega.

Eitt sinn var ég staddur í stórmarkaði í Vestur-Þýskalandi sem þá var. Þar voru náttúrulega skilti útum allt sem á stóð: Rauchen verboten og Hunde verboten. Erfitt var að fá enskumælandi afgreiðslumann svo ég varð með minni takmörkuðu þýskukunnáttu að koma afgreiðslufólkinu sem þarna var í skilning um að ég þyrfi að geta talað ensku.

Nú er um að gera að skrifa sem allra mest án þess að minnast á kosningar, enda hljóta allir að vera orðnir leiðir á loforðaflaumnum. Fór í morgun og lét setja nagladekk undir bílinn. Haustrigningarnar virðast hafnar.

Mér skilst að bæði geti verið til fullorðins bækur og unglingabækur. En hver er munurinn? Ef unglingar skilja ekki bókina er það þá ekki bara af því að hún sé óskiljanleg? Skrifa kannski meira um þetta seinna.

IMG 3153Einhver mynd.


2524 - Kosningar eru leiðinlegar

Nú er ég að nálgast það sem einu sinni var. Það er að ég bloggi daglega. Samt er ég á því að  kosningar séu leiðinlegar, en samt sem áður spennandi og nauðsynlegar. Skil ekki þá sem ekki nenna á kjörstað. Vona að ég verði aldrei svo gamall og hrumur að ég nenni ekki að taka þátt í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Að vísu er það síðarnefnda svo sjaldgæft eftir að Ólafur hætti að maður er næstum hættur að reikna með slíku. Held samt að Guðni Th. sé alls ekki slæmur hvað það snertir, enda kaus ég hann og hef ætíð kosið sigurvegara í forsetakosningum. Sá fyrsti sem ég kaus var Kristján Eldjárn. Alþingiskosningar eru alltönnur Ella og þar hefur mér reynst ágætlega, fyrir samviskuna a.m.k., að breyta alloft til. Núna er ég samt að hugsa um að kjósa Píratana eins og síðast.

Sumir virðast halda að Píratar standi fyrir að setja lög um þjófnað á höfundarrétti en það er mikill misskilningur. Einn helsti kostur þeirra, sem ég sé, er að þeir tilheyra ekki á neinn hátt fjórflokknum og vilja opnara og lýðræðislegra þjóðfélag. Nafnið er samt svolítið misheppnað ef tilgangurinn er bara sá að ganga í augun á íslenskum kjósendum. Held samt að þar sé um alþjóðlega nafngift að ræða.

Fyrst þegar ég sá skammstöfunina HHG á alþingisvefnum hélt ég að Hannes Hólmsteinn væri kominn þangað. Svo var þó ekki og satt að segja er Helgi Hrafn Gunnarsson sá þingmaður sem einna mest hefur imponerað mig. Svipað má reyndar segja um Óttar Proppé. Hann er þó því miður í vitlausum flokki. Björt framtíð er samt ekki svo vitlaus flokkur og kemur sennilega manni eða mönnum að í komandi kosningum.

En fjölyrðum ekki meira um þetta. Ég er alfarið á móti allri pólitík, þó ég skrifi varla um annað. Margt annað vekur áhuga minn, en fésbókin þykir mér helst til flókin og illskiljanleg. Vil ekki leggja það á mig að læra vel á hana. Blaðamennska virðist samt snúast mest um að finna ýmsa hluti á fésbók, twitter eða snapchat. Á henni og allri fjölmiðlum hef ég samt svolítinn áhuga frá gamalli tíð.

„Frelsi, jafnrétti, bræðralag.“ Sögðu byltingarsinnarnir í Frakklandi um árið. Nú er það ekki nógu gott. „Jafnrétti, frelsi, systkinalag,“ stendur á skilti sem var á mynd á forsíðu í Fréttablaði dagsins. Líklega á það að þýða það sama. Sammála um að tungumálið íslenska er óttalega karl-lægt eins og fleiri tungumál. En á að byrja á að breyta þeim? Kannski. Einn karlkyns feministi sagði frá því í bloggi fyrir margt löngu að hann væri tekinn uppá því að pissa sitjandi og það væri miklu betra. Svo langt er ég ekki kominn, en viðurkenni að einhversstaðar þarf að byrja. Í mínu ungdæmi héldu margir að nóg væri að breyta lögunum, en svo reyndist ekki vera. Karlmenn ætla ekki að sleppa sínum forréttindum fyrr en í fulla hnefana. Mega kynin annars ekki vera svolítið mismunandi?

IMG 3195Einhver mynd.


2523 - Túristavaðallinn

Þessar blessaðar ríkisstjórnarmyndir eru að verða dálítið þreyttar. Enn er setið við gömlu hurðina. Greinilegt er líka að karlrembur raða ráðherrunum niður. Ævinlega eru konurnar hafðar fremst á myndinni. Það er til þess að karlar geti horft á lappirnar á kvenfólkinu. Þær þurfa nefnilega að hugsa um klæðaburðinn auk annars, en karlpeningurinn er alltaf eins klæddur eða a.m.k. oftast.

Kannski verður það stærsta frétt ársins þegar frá líður að Bob Dylan skuli hafa fengið bókmenntaverðlaun Nobels. Einhverjir hneyksluðust þegar Winston Churchill fékk þau um árið og kannski hneykslast þeir eða einhverjir á páfastóli bókmenntanna enn meira yfir þessu. Dylan hefur hingað til ekki verið ákaflega hrifinn af snobbi og prjáli og vel mætti það minnka aðeins hjá Svíakóngi eins og annars staðar.

Úrslit komandi kosninga eru mörgum mjög ofarlega í huga þessa dagana. Er það mjög að vonum. Sú ríkisstjórn sem nú situr mun áreiðanlega falla. Ríkisstjórnarmyndun gæti orðið erfið. Ólíklegt er að hrein vinstri stjórn verði mynduð eins og áður var (2009 – 2013). Sjálfum finnst mér að vinda þurfi bráðan bug að því að koma ýmsum stjórnarskrárlagfæringum að. Nógu örðugt er að fást við ýmislegt annað, svo líklegt er að það dragist eins og venjulega.

Allir vilja meiri peninga og margt þarf að laga. Núverandi ríkisstjórn hefur gert sumt vel og auk þess verið fremur heppin. Búast má þó við að margt fari aflaga á næstunni og forgangsmál flokkanna eru mjög mismunandi. Líklegt og jafnframt vonandi er að komandi ríkisstjórn stefni fremur í átt til Evrópsks veruleika en þess Bandaríska eins og verið hefur. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla verður um áframhald ESB-samninga er líklegt að slíkir samningar verði felldir. Ekkert liggur á um inngöngu, ef ESB verður sæmilega rólegt meðan við tökum almennilega til í fjármálalífi landsins. Aldrei verður þó gert svo öllum líki.

Var í gær staddur á Skólavörðustíg vegna sýningar Litku og fékk mér súpu, fyrst Súpudagurinn var haldinn einmitt á þessum degi. Allur sá mannfjöldi sem þar var samankominn kom mér svolítið á óvart. Lundabúðirnar einnig. Segja má að yfirbragð miðbæjarins sé gjörbreytt eftir að ferðamönum fjölgaði svona mikið. Ísland er greinilega „in“ eins og sagt er. Akranes er þó blessunarlega að mestu laust við túristavaðalinn, ennþá a.m.k.

DV ryðst jafnan inn á fésbókarsíðuna mína. Kannski stafar það af einhverskonar athugunarleysi eða meinleysi af minni hálfu. Oftast þykir mér þær fyrisagnir sem ég sé á þann hátt ekki sérlega merkilegar. Stundum kíki ég samt á greinarnar sem þeim fylgja. Ein fyrirsögn vakti þó sérstaka athygli mína. Hún var svona: „Hvert fer fitan þegar við léttumst?“ Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvæg spurning. Oft hafa verið skrifaðar bækur um minna brennandi spurningar. Ég gat ekki annað en lesið þetta. 80% öndum við frá okkur og 20% breytast í vatn. Segir í þessu merka blaði. Hvort pissum við þessum 20 prósentum eða skyldu þau breytast í svita. Það er spurningin. Og er þetta virkilega svona einfalt.

IMG 3196Einhver mynd.


2522 - Er krónan ónýt eða ekki?

Segja má að flokkarnir sem bjóða fram í komandi alþingiskosningum séu bæði í fyrstu og annarri deild ef litið er á skoðanakannanir. Fjórflokkurinn gamli og slitni er í 1. deild allur nema Samfylkingin.  Sá flokkur er sennilega á leiðinni út. Aftur á móti eru Píratar líklega að koma í staðinn. Hin framboðin sýnist mér að séu öll í annarri og jafnvel sum í þriðju deild. Einhverjir þurfa jafnvel að keppa utandeildar í næstu kosningum. Sumir eru að spá Framsókn falli en það held ég að sé óskhyggja. Einhver litlu framboðanna koma sennilega manni eða mönnum að. Öruggt er að enginn flokkur fær meirihluta. Spurningin er því hvort næsta ríkisstjórn verði tveggja, þriggja eða jafnvel fjögurra flokka stjórn. Framboðin eru vel á annan tuginn sýnist mér, svo hugsanlegt er jafnvel að fleiri en 4 flokkar taki þátt í næstu ríkisstjórn.

Annars eru þessar blessuðu kosningar að valda því að afar lítið er af bitastæðu efni í fjölmiðlunum þessa dagana. Ef einhverjum dettur eitthvað snjallt í hug er best að þegja um það þangað til í næsta mánuði.

Man vel eftir því, að þegar Obama var fyrst kjörinn forseti, var það eitthvað í fréttum. Ég sagði þá meðal annars við  húsvörðinn hjá MS (Já, Mjólkursamsölunni) að frammistaða Obamas, minnti mig að sumu leyti á John F. Kennedy, sem hafði það helst á móti sér, þegar hann var kjörinn, að hann væri katólskur. Húsvörðurinn fussaði þá mikið, enda höfðaði Obama einkum til unga fólksins. Einn af þeim leiðtogum þeirra, sem héldu því þá fram, eins og eftirminnilegt er, að hann yrði að sýna fæðingarvottorð sitt til að sanna að hann væri ekki fæddur utan Bandaríkjanna var einmitt sá sami Donald Trump, sem núna sækist eftir því að verða forseti Bandaríkjanna. Af mörgum ástæðum eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum meira í fréttum að þessu sinni en oftast áður, enda er þetta í fyrsta sinn sem kona er frambjóðandi annars af stóru flokkunum þar.

Hvernig í ósköpunum ætli standi á því að ég get varla um annað skrifað en stjórnmál. Auðvitað hef ég áhuga á þeim. Þau er samt óttalega leiðinleg í grunninn. Samt þarf maður helst að fylgjast svolítið með þeim því óneitanlega eru þau um margt athyglisverð. Á sínum tíma féllst ég á að styðja Bjarna systurson minn í prófkjörsslag við Hjálmar einhvern Árnason og er síðan að ég held skráður í Framsóknarflokkinn og fæ ennþá tölvupóst öðru hvoru og allra mest í aðdraganda kosninga. Þann flokk hef ég þó ekki kosið a.m.k. síðastliðin 50 ár eða svo. Fékk meira að segja eitt sinn tilboð um að sitja eitthvert þing þeirra. Slík voru vandræðin.

Eiginlega er stefna allra flokka í komandi kosningum alveg eins. Allir vilja eyða peningum, aðeins í svolítið breytilega hluti og eftir mismunandi aðferðum. Aðalmarkmiðið er að rugla fólk sem mest í ríminu. Það sem skilur á milli er krónan. Sumir segja að hún sé allra meina bót. Aðrir að hún sé upphaf alls ills. Ég er á móti krónunni. Jafnvel litlir og vesælir spákaupmenn geta farið með hana eins og þeim sýnist ef markaðurinn svokallaði stjórnar alfarið gengisskráningunni. Þessvegna verðum við að hafa hana á bakvið gjaldeyrishöft. Það sem er gott við hana er að hægt er að hækka og lækka verðlag og laun án þess að mikið verði vart við það, nema að krónan hríðfellur í verði og verðbólga vex. Stjórnvöld geta með gengisskráningu stjórnað því sem þau vilja. Þ.e.a.s. kaupgjaldi og verðlagi. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða. Gjaldeyrishöftin eru ekkert að fara og engir fjársterkir erlendir aðilar vilja festa fé sitt bakvið þau, nema með allskyns undantekningum og sérreglum.  

IMG 3197Einhver mynd.


2521 - Kosningarnar nálgast

Auðvitað er ég nokkuð viss um að Hillary Clinton muni sigra í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, en ég held hinsvegar að það anti-government sentiment eða sú óbeit á hefðbundnum stjórnmálum sem vart hefur orðið þar og víðar, t.d. hér á landi eigi eftir að skipta miklu máli í framtíðinni. Þrátt fyrir allt sýnist mér þó að þróunin stefni í þá átt að Bandaríkin muni halda áfram að sveigjast til vinstri og Evrópa til hægri. Að sumu leyti er ég að sjálfsögðu fastur í gamla kaldastríðshugsunarhættinum um tesuna og antitesuna eða kommúnisma og kapítalisma.

Þetta er að sjálfsögðu alveg á skjön við það sem sjá má og búast við í kosningum þeim sem verða hér á landi og í Bandaríkjunum fljótlega, en mér finnst engu að síður að þannig muni mál þróast á næstu árum og áratugum.

„The militant right“, í Bandaríkjunum mun valda því að sjónarmið sem hingað til hafa verið kennd fremur við Evrópu munu smám saman verða meira áberandi þar, svo öfugsnúið sem það er. Hins vegar er því ekki að leyna að andúð á hælisleitendum og flóttafólki virðist fara vaxandi í Evrópu.

Hér á landi bendir margt til þess að hinir hefðbundnu flokkar (nema Samfylkingin) muni halda sínu að mestu leyti. Þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki neinn 40% flokkur lengur og Framsókn 10% flokkur einsog að undanförnu. Helst má búast við því að Vinstri grænir (Kommúnistarnir) bæti við sig. Ekki er líklegt að Viðreisn skilji sig mikið frá Sjálfstæðisflokknum nema hvað snertir Evrópusambandsaðild. Píratar eru svolítið sér á parti.

Blóðbaðið í Aleppo og víðar má segja að stafi af því að við (vestrænir bankar, ríkisstjórnir og auðfélög) höfum stolið frá þeim, sem þar hírast, öllu sem stelanlegt er. Sama má auðvitað segja um gjörvallan þriðja heiminn svo kallaða. Að ætlast til að þau ríki sem við (ehemm) höfum arðrænt öldum saman fari í einu og öllu eftir þeim reglum sem sjálfsagðar virðast núna er reglulega óforskammað. Eftir að við höfum svotil eyðilagt veröldina viljum við sitja ein að auðlegðinni og halda þeim sem fátækari eru á sínum stað. Vitanlega eru til undantekninar á þessu og almenningur vill vera og er sennilega bæði góður og gjafmildur. Þeir sem nú vilja mæta hörmungum heimsins með góðvilja einum eru af þeim sem aðra heimspeki aðhyllast álitnir fávísir og auðtrúa, en munu samt sigra á endanum.

Stjórnmálaheimspeki af þessu tagi er mér töm. Þ.e.a.s. þegar ég tala við sjálfan mig. Mér finnst oft að annað fólk sé alls ekki á sömu bylgulengd og ég. Þessar afmörkuðu skoðanir sem oftast snúast um peninga og annað fólk, henta mér alls ekki. Fyrir mér er það langtíma þróun sem skiptir mestu máli. Hvort sú þróun er í átt til kapítalisma eða kommúnisma (vantar skiljanlegri isma.) finnst mér skipta mestu máli í stjórnmálum. Skil afar vel þá sem haldnir eru antipata á öllum stjórnmálum og trivial sannleika.

Urgara surgara urra rum.
Illt er vera í Flóanum.
Þambara vambara þeysings klið.
Þó er enn verra Ölfusið.

Þetta er mér sagt að Æri-Tobbi hafi kveðið. Get ekki að því gert að þetta þykir mér öndvegis skáldskapur. Kannski var það útaf þessu sem Hvergerðingar vildu á sinni tíð losna frá Ölfusinu. Nú er hinsvegar sameining í tísku og stjórnarfarslega er Árborg sennilega yfirborg þessa svæðis. Einu sinni var rígurinn á milli Hveragerðis og Selfoss samt næstum áþreifanlegur.

Einhver mynd.IMG 3134


2520 - Útskýring - Hrútskýring

Kemur fyrir að ég stúdera afmælin á fésbókinni. Undarlegt hvað allir sem ég þekki eru að eldast mikið. Þekki orðið fáa undir fimmtugu. Hvernig ætli standi á því?

Útskýring, hrútskýring. Undanfarið hefur borið á tilraunum til að gera hrútskýringu að feminísku orði. Það finnst mér ekki rétt. Þegar ég heyrði fyrst talað um Jóhannes útskýrara þótti mér það fyndið. Þykir það jafnvel enn. Hrútskýring finnst mér aftur á móti eiga að vera hrútleiðinleg og langdregin útskýring á sjálfsögðum hlut. „Þetta er nú meiri hrútskýringin“. En af hverju skyldi vera talað um að eitthvað sé hrútleiðinlegt. Hrútar eru ekkert leiðinlegir. Annars er vinsælt og þekkt að nota húsdýranöfn sem áhersluauka.

Nú er 18. október og farið að birta. Nýkominn úr morgungöngunni sem þó er ekki alveg daglegur viðburður hjá mér, en næstum því. Aðalspurningin á þessum árstíma er hvort maður á að bíða eftir birtingunni eða ekki. Hef fremur beðið eftir henni að undanförnu, en ekki núna samt.

Á margan hátt gerir fundarboð píratanna kosningabaráttuna ólíka því sem verið hefur. Flokkarnir eiga í mestu vandræðum með að ákveða hvernig svara skuli þessu boði. Þeir sem helst ekki vilja þekkjast það eiga líka í svolitlum vandræðum með að finna réttu afsakanirnar. Auðvitað er einfaldast að segja bara að þeir vildu frekar að þetta yrði gert öðruvísi og sennilega gera flestir það. Forystumenn Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna (kvenkyns allir held ég) minnir mig að hafi verið búnir að lýsa því yfir að þeir mundu ekki vilja starfa með Sjálfstæðisflokknum á næsta kjörtímabili. Ef hægt væri að láta kosningabaráttuna einkum snúast um það hver vilji starfa með hverjum væri sennilega mikið unnið. Að líkindum er það aðalmarkmið Pírata. Auk þess eru þeir víst að tapa fylgi núna. Loforðarulla flokkanna er hvort eð er einskis virði.

Þó hringt hafi verið í mig frá Fréttablaðinu í gærkvöldi útaf einhverri skoðanakönnun sem ég nennti ekki að svara er ég nokkurnvegin búinn að ákveða hvað ég muni kjósa. Líklega verða Píratarnir fyrir valinu eins og minnir að ég hafi verið búinn að segja fyrr. Skoðanakannanir benda til þess að Píratar og Sjálfstæðisflokkur verði ráðandi öfl að kosningunum loknum og líklegt er að Vinstri grænir séu á einhverri siglingu. Annars virðist mér óráðið með öllu hverskonar stjórn við fáum eftir kosningar.

Annars eru það kosningarnar í Bandaríkjunum sem vekja hjá mér mestan áhuga. Trump heldur því fram núna að mikið sé um kosningasvindl þar. Þessu er ég allsekki sammála. Auðvitað er eitthvað um svindl í svona stóru landi (mörgum löndum), en ég efast um að það hafi nokkurntíma haft mikil áhrif. Að vísu finnst mér það ljóður á þeirra ráði að nauðsynlegt sé að skrá sig fyrirfram til að geta tekið þátt í kosningum. En ég hef alveg fyrirgefið það vegna þess að þeir hafa ekki þjóðskrá eins og við og geta þessvegna ekki útbúið kjörskrár á sama hátt. Þeir sem ekki vilja taka þátt í þjóðfélaginu eiga ekki að fá að kjósa. Að dauðsföll séu ekki tilkynnt, held á að sé svo sjaldgæft að hægt sé að horfa framhjá því.

Síðasta kappræðan milli forsetaframbjóðendanna verður í kvöld (miðvikudag) og sennilega er það síðasta tækifærið sem Trump fær. Mikill fjöldi áhorfenda á þær tvær kappræður sem búnar eru hefur komið mönnum á óvart og segja má að þessar forsetakosningar séu mikilvægar. Greinilegt er að ekki er hægt að ná til nærri allra með öðru en sameinuðu sjónvarpi og þessvegna geta þær haft talsverð áhrif.

Sennilega er það fyrsta alvöru haustrigningin sem er að gera okkur lífið leitt akkúrat núna. Samt er hitinn ágætur og eiginlega engin þörf að kvarta undan veðrinu.

IMG 3208Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband