Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

2519 - Enn um stjórnmál o.fl.

„Að grípa Guð í fótinn“, er að verða fyrir óvæntu happi. Áður fyrr var góðviðri það sem stundum gerir á Þorláksmessu á vetri eða næstu daga á undan kallað „fátækraþerrir“, því þá gátu þeir sem verulega fátækir voru a.m.k. verið í hreinum fötum á jólunum. Uppá engelsku var stundum talað um „Indian summer“ í svipaðri merkingu. Þetta með að grípa Guð í fótinn hefur mér alltaf þótt merkilegt spakmæli og bera vott um undarlegan hugsunarhátt. En hvað vitum við um réttan og sanngjarnan hugsunarhátt þess fólks sem víðsfjarri okkur er í tíma og rúmi?

Kosningar þær sem verða væntanlega hér í lok þessa mánaðar, gætu orðið mjög svo markverðar. Eru annars ekki allar kosningar það? Útilokað er að halda því fram að núna höfum við ekki jafnað okkur að fullu á Hruninu og þessvegna ætti að vera talsvert að marka þau kosningaúrslit sem við fáum í fangið snemma dags á sunnudaginn 30. október næstkomandi. Semsagt erfiðara að ljúga okkur full.

Mér finnst erfitt að taka afstöðu í íslenskum stjórnmálum án þess að hugsa jafnframt um stjórnmál heimsins. Mér finnst ekki hægt að gera ráð fyrir því að hugsunarháttur andstæðinganna, hvort sem um er að ræða skiptingu heimsins eða þær agnarlitlu (í heimssögulegu samhengi) væringar sem eiga sér stað hér heima, sé illur í sjálfu sér. Hann getur verið byggður á misskilningi og ýmsu öðru en illur er hann ekki. Stundum getur verið um það að ræða að of mikil áhersla sé lögð á persónulegan eða flokkslegan hagnað en illan hug í stjórnmálum kannast ég ekki við.

Þó flest af því sem Donald Trump heldur fram sé andstætt þeim hugmyndum sem ég hef get ég ekki annað en samsinnt mörgum þeirra „anti-establishment“ sjónarmiðum sem hann heldur fram. Ég get ekki varist þeirri hugsum að viðurkenndur hugsunarháttur hér á vesturlöndum sé of hallur undir peningaöfl og valdablokkir. Að gagnrýnin á hann skuli koma frá hægri er vonandi alger tilviljun og er einnig verulega andstætt mínum hugmyndum. Þessvegna hefði mér hugnast betur á margan hátt að Bernie Sanders hefði unnið Hillary Clinton í forkosningum demókrata. Aftur á móti held ég að með því hefðu sigurlíkur Trumps aukist verulega. Hugsanlega er sú skoðun mín á ófullkomleika Bandarísks almennings og kosningafyrirkomulaginu þar í landi misskilningur hinn mesti.

Veit ósköp vel að margir hafa haldið þessu sama fram (varðandi Trump og Sanders), en mér finnst oft vanta útskýringar með því. Auðvitað get ég ekki útskýrt þetta mál nema eftir mínum hugmyndum og hvaðan eru þær komnar? Ekkert verður til úr engu. Þessar skoðanir mínar hljóta að hafa orðið til við að fylgjast með fjölmiðlun í gegnum árin. Sú breyting sem nú er að verða á allri fjölmiðlun er einkum sú að allir (jafnvel ég) geta látið ljós sitt skína í einhverri mynd.

IMG 3288Einhver mynd.


2518 - Enn um tíkina miklu

Á ísa köldu landi (öðru nafni Íslandi) erum við bólusett ( í óeiginlegri merkingu) gegn öllum alvarlegum skorti, svosem eins og hungri og klæðleysi. En gegn leiðindum og eignaleysi er engin bólusetning til. Helst að það sé kommúnisminn, en hann hefur sýnt sig að vera misskilningur hinn mesti. Þá er um að ræða hrærigraut af kommúnisma og kapítalisma og hann hefur reynst einna best. Verst hvað hann er til í mörgum útgáfum. Ekki veit ég hvaða útgáfa hentar okkur best. Skandinavíska útgáfan virðist á margan hátt hafa tekist vel, en kannski er aðdáun mín á þeirri útgáfu mest tilkomin vegna þess að ég þekki hana betur en flestar aðrar. Af einhverjum ástæðum virðist Evrópa (a.m.k. Vestur-Evrópa) vera meira fyrir bólusetningar af þessu tagi en Bandaríki Norður-Ameríku. Þó er ég ekki frá því að þau stefni þangað nú í seinni tíð.

Ævinlega þegar pólitíkusar hér á Íslandi ræða um og taka ákvarðanir um kjördæmaskipun, atkvæðajöfnun og þessháttar eru það hagsmundir flokkanna sem ráða mestu. Kannski er það alltaf svo. Í öðrum efnum er því þó leynt betur.

Kannski er með einhverjum rétti hægt að kalla þessa (bólusetningar) stefnu vinstri og hægri. Á ýmsum öðrum sviðum er ekki að sjá að þessar viðmiðanir hafi mikla merkingu. Ég vil álíta að það sé vegna þess að sú staðreynd er meira og minna viðurkennd að heppilegast sé að blanda kommúnisma og kapítalisma saman, en auðvitað er það hægt á marga vegu. Ég neita því ekki að á margan hátt finnst mér kapítalisminn vera fulláberandi í Bandaríkjunum og e.t.v. er kommúnisminn of áberandi á Norðurlöndum. Þó finnst mér það ekki. En það kann að vera vegna þess að ég hef alist upp við hann og vanist honum á flestan hátt.

Eins er það eiginlega með hefðbundnar bólusetningar gegn sjúkdómum. Þar virðist mér Norðurlönd og Evrópa standa Bandaríkjunum framar. Sumstaðar er því meira að segja haldið fram að bólusetningar séu hættulegar. Ekki hefur þó tekist að færa neinar sönnur á því þó mikið hafi verið reynt. Með bólusetningum hefur tekist að útrýma sumum lífshættulegum sjúkdómum. Fylgismenn hinna hættulegu bólusetninga vilja samt ekki heyra neitt slíkt.

Svo er að sjá að bæði Bandaríkjaforsetar og karlar sem sækjast eftir slíkri vegsemd, álíti sjálfir að þeir þurfi helst að vera heilmiklir kvennabósar. Þó ekki væri vegna annars en þess get ég ekki annað en endurtekið spá mína frá því fyrir nokkrum dögum. Ég á von á því að Hillary Clinton sigri í Bandarísku forsetakosningunum með miklum yfirburðum. Hugsanlega með meiri yfirburðum en þekkst hafa. Feitu kettirnir sem mest hafa gefið í kosningasjóði Repúblikanaflokksins eru nú að hamast við að afneita Trump og sjá mikið eftir að hafa valið hann sem forsetaefni. Hætt er við að sá flokkur tapi miklu ef Trump tapar illa.

Ekki virðist fara ýkja mikið fyrir þessari hræðilegu rigningu sem Veðurstofan boðaði. Kannski á hún bara eftir að koma. Blautt um er þó búið að vera í dag (fimmtudag).

IMG 3305Einhver mynd.


2517 - Pólitískar vísur o.fl.

Ég get alveg trúað Bandaríkjamönnum til að kjósa Hillary Clinton yfir sig. Alveg eins og þeir kusu Richard Nixon yfir sig á sínum tíma. Hins vegar á ég bágt með að skilja Íslendinga ef þeir kjósa Bjarna Benediktsson yfir sig aftur. Þó lítur Ice-Hot alls ekki illa út. Öfugt við Donald Trump, sem er alveg einsog fáviti í útliti. En....

Útlitið er innrætinu skárra,
samt einskis nýtt.

Eiginlega gæti þetta verið vísa sem byrjaði t.d. svona:

Donald nýtur hylli fremur fárra
finnst það skítt.

Áðan var ég á morgunrölti mínu og þá kom mér hug eftirfarandi vísa:

Úti vindur æstur hvín
ægilegt er rokið.
Nú held ég bráðum heim til mín
nú hef ég verki lokið.

Þessi vísa er sennilega ekki eftir mig. En varðandi fyrri vísuna er ég ekki í neinum vafa. Hún er áreiðanlega eftir mig sjálfan. Held að ég hafi ort hana fyrir löngu (ekki fiskinn samt) og þá um einhvern annan.

Kosningar þær sem framundan eru virðast ætla að verða allflóknar. Úrslitin réttara sagt. Líklegt er að keimlík stjórn verði hér áfram. Ekki er að sjá annað en Viðreisn sé bara útibú frá Sjálfstæðisflokknum og er þá illa farið með andstöðuna við ríkjandi stjórnarfar. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn geta e.t.v. myndað stjórn að kosningum loknum. Kannski verður það aðalbaráttumálið í væntanlegum kosningum að koma í veg fyrir það.

Súldin er alltumlykjandi. Því fékk ég á að kenna á mogunröltinu mínu áðan. Var satt að segja alveg rennblautur. En enginn er verri þó hann vökni og ekki var mér kalt. Engar myndir gat ég tekið fyrir rigningunni en það er bættur skaðinn. Ég er steinhættur að setja annað en gamlar myndir á Moggbloggssíðuna mína, því þar þarf maður að borga fyrir þau forréttindi að fá að birta slíkt, eða birta ekki. Á fésbókinni er allt ókeypis og er það eins gott. Ég er á móti því að borga fyrir þar sem hægt er að fá ókeypis annarsstaðar. T.d. er óhætt frá mínu sjónarmiði að segja að Fréttablaðið hafi drepið önnur blöð. Apropos Fréttablaðið. Kannski það sé í þann veginn að hætta að berast hingað. Kom ekki s.l föstudag og heldur ekki í morgun. En mér er svosem sama. Alveg gat ég komist af án þess þangað til ég flutti hingað á Akranes.

IMG 3351Einhver mynd.


2516 - Bankar

Bankahelvítin búa til peninga. En hvernig fara þeir að því? Kynni einhver að spyrja. Því er til að svara að ef þú leggur inn í banka eina milljón króna, þá getur bankinn lánað svona tíu milljónir. Það eru einfaldlega til töflur yfir hve mikið af innistandandi peningum stendur undir miklu af lánum. Auðvitað er einhver kostnaður fólginn í því að vera með fjölda fólks á launum, en hann má einfaldlega dekka með vaxtamun. Svo eru bankarnir tryggðir í bak og fyrir gagnvart allskyns áhlaupum.

Stundum eru bankar seldir (eða gefnir). Það er þó mjög sjaldgæft. Yfirleitt má reikna með að þeir séu a.m.k. tífalt verðmeiri en látið er í veðri vaka. Ef ég ætti nóg af peningum mundi ég að sjálfsögðu vilja nota þá til að kaupa þá peningavél sem bankar venjulega eru.

Vitanlega á ég ekki nægilega mikla peninga til þess. Samt þurfa þeir peningar sem bankinn er fær um að búa til ekki endilega að fara í vasa þeirra ríku, eins og þeir gera óneitanlega hér á Íslandi núna. Vel er hægt að hugsa sér að þeir peningar fari í þjóðþrifafyrirtæki eða innviði þess þjóðfélags sem býr þá til.

Horfði á fótboltann í gær. Neita því ekki að ég var farinn að búast við tapi hjá íslensku strákunum. Það hefði reyndar verið grimmilega ósanngjarnt. Þess vegna gladdist ég mjög þegar Alfreði Finnbogasyni tókst að skalla knöttinn í markið þegar leiknum var alveg að ljúka. Að Ísland skyldi síðan ná að sigra var mjög óvænt og satt að segja skil ég vel gremju vesalings Finnanna yfir því að fá á sig tvö mörk alveg í lok leiksins og annað þeirra meira að segja vafasamt. En svona er fótboltinn. Stundum er stutt á milli hláturs og gráts.

Ekki fer hjá því að kosningarnar um næstu mánaðmót verða gífurlega og jafnvel óvenjulega spennandi. Mér finnst Píratar hafa farið svolítið halloka núna síðustu dagana og að mestu að ósekju. Ekki treysti ég mér til að spá um hvernig næsta ríkisstjórn verður hér á Íslandi, en ég treysti mér vel til að spá um kosningarnar í Bandaríkjunum. Þar held ég að Hillary Clinton sigri með miklum yfirburðum.

Þó við eigum eftir að taka upp svolítið af kartöflum ennþá, hef ég engar sérstakar áhyggjur af því. Veðrið er að vísu orðið svolítið haustlegt, en samt er ekki svo kalt að ég haldi að karöfluupptakan verði sérstakt vandamál. Vonandi er langt ennþá í veruleg frost.

Nú er ég sennilega og vonandi búinn að blogga nóg. Kannski ég setji þetta bara upp. Annars er það alltaf vandamál hve löng bloggin eiga að vera. Og svo dettur mér jafnan í hug eitthvað krassandi til að skrifa um þegar ég hef nýlokið við að setja upp blogg. Að sumu leyti er jákvæðast að hafa þau sem styst. Þó mega þau ekki vera of stutt. Veit ekki eftir allar þessar tilraunir (ehemm) hve löng þau eiga að vera.

IMG 3394Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband