2524 - Kosningar eru leiðinlegar

Nú er ég að nálgast það sem einu sinni var. Það er að ég bloggi daglega. Samt er ég á því að  kosningar séu leiðinlegar, en samt sem áður spennandi og nauðsynlegar. Skil ekki þá sem ekki nenna á kjörstað. Vona að ég verði aldrei svo gamall og hrumur að ég nenni ekki að taka þátt í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Að vísu er það síðarnefnda svo sjaldgæft eftir að Ólafur hætti að maður er næstum hættur að reikna með slíku. Held samt að Guðni Th. sé alls ekki slæmur hvað það snertir, enda kaus ég hann og hef ætíð kosið sigurvegara í forsetakosningum. Sá fyrsti sem ég kaus var Kristján Eldjárn. Alþingiskosningar eru alltönnur Ella og þar hefur mér reynst ágætlega, fyrir samviskuna a.m.k., að breyta alloft til. Núna er ég samt að hugsa um að kjósa Píratana eins og síðast.

Sumir virðast halda að Píratar standi fyrir að setja lög um þjófnað á höfundarrétti en það er mikill misskilningur. Einn helsti kostur þeirra, sem ég sé, er að þeir tilheyra ekki á neinn hátt fjórflokknum og vilja opnara og lýðræðislegra þjóðfélag. Nafnið er samt svolítið misheppnað ef tilgangurinn er bara sá að ganga í augun á íslenskum kjósendum. Held samt að þar sé um alþjóðlega nafngift að ræða.

Fyrst þegar ég sá skammstöfunina HHG á alþingisvefnum hélt ég að Hannes Hólmsteinn væri kominn þangað. Svo var þó ekki og satt að segja er Helgi Hrafn Gunnarsson sá þingmaður sem einna mest hefur imponerað mig. Svipað má reyndar segja um Óttar Proppé. Hann er þó því miður í vitlausum flokki. Björt framtíð er samt ekki svo vitlaus flokkur og kemur sennilega manni eða mönnum að í komandi kosningum.

En fjölyrðum ekki meira um þetta. Ég er alfarið á móti allri pólitík, þó ég skrifi varla um annað. Margt annað vekur áhuga minn, en fésbókin þykir mér helst til flókin og illskiljanleg. Vil ekki leggja það á mig að læra vel á hana. Blaðamennska virðist samt snúast mest um að finna ýmsa hluti á fésbók, twitter eða snapchat. Á henni og allri fjölmiðlum hef ég samt svolítinn áhuga frá gamalli tíð.

„Frelsi, jafnrétti, bræðralag.“ Sögðu byltingarsinnarnir í Frakklandi um árið. Nú er það ekki nógu gott. „Jafnrétti, frelsi, systkinalag,“ stendur á skilti sem var á mynd á forsíðu í Fréttablaði dagsins. Líklega á það að þýða það sama. Sammála um að tungumálið íslenska er óttalega karl-lægt eins og fleiri tungumál. En á að byrja á að breyta þeim? Kannski. Einn karlkyns feministi sagði frá því í bloggi fyrir margt löngu að hann væri tekinn uppá því að pissa sitjandi og það væri miklu betra. Svo langt er ég ekki kominn, en viðurkenni að einhversstaðar þarf að byrja. Í mínu ungdæmi héldu margir að nóg væri að breyta lögunum, en svo reyndist ekki vera. Karlmenn ætla ekki að sleppa sínum forréttindum fyrr en í fulla hnefana. Mega kynin annars ekki vera svolítið mismunandi?

IMG 3195Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband