2527 - Vera Illugadóttir

Kannski eru þessar kosningar sem fram fara um næstu helgi minna áhugaverðar en margar aðrar þó mér finnist alls ekki vera svo. Umræðuefnin í kosningaumræðunni eru æði einkennileg. Alls ekki má minnast á ESB eða stjórnarskrá. Ef ekki má ræða um slíkt núna, hvenær þá? Eftir 4 ár? Mér finnst það of langur tími. Allir segjast vilja bæta heilbrigðismál. Samfylking vill fyrirframgreiðslu vaxtabóta uppá 3 milljónir. Framsókn vill að nýr Landsspítali rísi við Vífilsstaði. Bjarni vill stöðugleika, sem er nýtt orð yfir íhaldssemi. Píratar vilja stutt þing. Vinstri grænir vilja ekki neitt nema helst ekki fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna gengur þeim best. Skil þetta ekki. Hugsanlega verða úrslit þessara kosninga markverð. Kosningabaráttan er það ekki.

Las yfir mitt síðasta blogg. Samkvæmt því mætti ætla að ég legði mest uppúr því að ná til sem flestra. Sú er ekki raunin. Af einhverjum ástæðum er þetta blogg ekki sérlega vinsælt. Sjálfum finnst mér þó að ég skrifi bæði vel og af mikilli skynsemi. Aðrir eru bara alls ekki á þeirri skoðun. Við því er ekkert að gera.

Les oft fésbókarinnleggin frá Birni Birgissyni í Grindavík. Sama er að segja um það sem Björn Þorláksson hefur til málanna að leggja. Gæti skrifað hér heilmikið um þá og ef ég mundi síðan setja nafnið þeirra í fyrirsögnina gæti vel hugsast að ég fengi nokkuð marga til að skoða þetta blogg. Björn lætur næstum allt flakka, en er óhóflega upptekinn af sjálfun sér og allskyns hálfmisheppnuðum matartilbúningi. Líður sennilega best þegar hann þarf að svara öllum athugasemdunum. Björn Þorláksson skrifar líka allmikið um sjálfan sig og hrósar líka öðrum. Aðdáun hans á Illuga Jökulssyni get ég þó alls ekki deilt. Er hann þó einn helsti vinstri-páfinn á landinu. Vera dóttir hans er þó greinilega bæði dugleg og framkvæmdasöm. Sagnfræðilegt efni sem hún flytur í Ríkisútvarpinu er bæði vel unnið og skemmtilegt.

Segja má að það ritað efni sem ekki kemst til mín óbrjálað geti sjálfu sér um kennt. Eyði klukkutímum á degi hverjum fyrir framan tölvuna og fletti auk þess Fréttablaðinu oftast nær núorðið. Fréttasjúkur er ég líka eins og fleiri á mínum aldri og læt Sjónvarpsfréttir sjaldan framhjá mér fara nema heimsóknir eða símhringingar tefji mig frá því. Þær tek ég að sjálfsögðu framyfir.

Allar fréttir eru pólitískar. Alltaf má finna pólitískt sjónarhorn á allt sem sagt er eða afmyndað. Orðið afmyndað hugsa ég mér að í þessu tilfelli geti komið bæði í staðinn fyrir ljósmyndað og kvikmyndað. Videómyndskreytingar eru að verða lágmarkskrafa við allar fréttir.

Minnist oft orða Maríós Ólafssonar sem var hljóðmeistari á Stöð 2 í eina tíð. Hann sagði að  í fréttaöflun væri það hljóðið sem skipti mestu máli. Myndir og þess háttar væri fyrst og fremst til skrauts. Þetta væri auðséð á því að ef hljóðið væri skemmt væri fréttin ónýt. Ef aftur á móti myndataka mistækist á einhvern hátt mætti alltaf finna eitthvað annað til að setja yfir hljóðið. Kannski ætti ég að reyna að segja eitthvað álíka gáfulegt um ritaðan texta því hann er það eina sem ég kann.

IMG 3148Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband