2280 - Um fésbókina o.fl. einu sinni enn

Mér finnst það nokkuð seint að þyrla um pólitísku moldviðri núna útaf bönkunum sem lánardrottnar þeirra fengu. Víglundur Þorsteinsson og fleiri halda því samt fram. Nær væri að kæra þetta til dómstóla. Fyrrverandi ríkisstjórn hefur samt ekki með öllu hreinan skjöld í þessu máli. Hugsanlegt er að afslátturinn hafi verið meiri en nauðsynlegt var. Um það er þó erfitt að fullyrða svona löngu eftirá. Kerfið allt hefði vel getað farið alveg á hliðina, ef ekki hefði verið reynt að bjarga því. Auðvelt er að koma eftirá og segja að gera hefði átt hlutina allt öðru vísi.

Núverandi ríkisstjórn hefur gert margt vel. Því er ekki að neita að ýmislegt í þjóðlífinu hefur farið betur en búast mátti við. Hverju það er að þakka er endalaust hægt að deila um. Að mörgu má þó enn finna. Og það er svikalaust gert af andstæðingum núverandi ríkisstjórnar. Ástæðulaust er samt að ætla að stuðningsmenn hennar hugsi bara um að klekkja á almenningi. Svo er einfaldlega ekki. Stjórnmáladeilur geta verið illvígar. Ástæðulaust er þó að láta þær kljúfa fjölskyldur. Vissulega er miklu fleira sem sameinar okkur Íslendinga en það sem sundrar. Óþarfi er að saka pólitíska andstæðinga sína um landráð og allt það versta sem hægt er að hugsa sér.

Eiginlega er þetta alveg nóg í bili af pólitík. Eða það finnst mér. Lífið er svo margt annað þó hún sé mikilvæg í margra augum. Veðrið er t.d. afleitt núna um þessar mundir. Sífelldir umhleypingar. Og myrkrið meira en þörf er á. Er ekki viss um að veðrið sé svo miklu betra í Noregi og Danmörku. Kostirnir við að búa á Íslandi eru umtalsverðir.

Því sem deilt er á fésbókinni er stundum óskiljanlegt með öllu, því blessuð bókin sníður í burtu (a.m.k. stundum) fyrirsagnir og tilvitnanir. Mér finnst oft sem óskiljanleiki facebook sé slíkur að flest sem þar er sagt sé hið mesta rugl. Samt get ég ekki hætt að fara þangað. Margir hafa reynt að fara í fésbókarbindindi, en það tekst yfirleitt ekki vel. Kannski er bloggið bara fyrir gamalmenni og fésbókin fyrir þá sem eru svolítið yngri. (Eða vilja sýnast það.) Kannski twitterinn henti þeim sem eru enn yngri en fésbóklingarnir og svo eru unglingarnir víst með eitthvað allt annað. Grun hef ég um að sumir læki allt sem þeir sjá, a.m.k. eru vinsældir víða mældar í lækum og youtube-skoðunum, eftir því sem haldið er fram.

WP 20150102 12 17 22 ProÍ Fossvogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband