2277 - Að festast í fésbókinni

Er að lesa bók eftir Halldóru Thoroddsen. Hún er ágæt og heitir „90 sýni úr minni mínu“. Eitt orð notaði hún sem ég man að mamma notaði oft, en ég heyri afar sjaldan núorðið. Það var orðið „glænepjulegur“. Af einhverjum ástæðum eru frásagnir úr bókinni mér miseftirminnilegar. Ein er þegar hún keyrði aftan á bílinn hans pabba síns og hann kom sallarólegur útúr honum og sagði: „Var þetta nú ekki óþarfi Dóra mín?“ Og „skammastu þín ekkert fyrir það Sigurður Thoroddsen að láta loga á heilli ljósaperu fyrir þig einan?“

Mikið er talað um misskiptingu auðs þessa dagana. Hana er hægt að reikna á ótal vegu og ég hef grun um að fremur sé talað þar um einkaeign en sameiginlega. Mestu máli finnst mér skipta hvort ástandið að þessu leyti (miðað við samskonar útreikninga) breytist mikið og á hvern veginn þá. Hef á tilfinningunni að hér á Vesturlöndum a.m.k. safnist auðurinn á sífellt færri hendur. Því eru þó takmörk sett hve lengi slík þróun getur staðið og rétt er að standa sem fastast gegn slíku. Sagan segir okkur þó að það öfuga við einhverja misskiptingu er illframkvæmanlegt.

Jens Guð fjölyrðir nokkuð um skipulagsslys og birtir myndir af slíku. Gatnakerfið hér í gamla Kópavogi er þesskonar slys en ratar samt ekki á myndirnar hjá Jens. Einhvers staðar hef ég heyrt að til standi að flytja þá hugmynd út. Kannski væri hægt að telja einhverjum trú um að voða sniðugt væri að hafa göturnar svona. Háhýsin í Skuggahverfinu eru hugsanlega annað slys af svipuðum toga. Maður sem bjó þar einu sinni sagði mér að vindurinn ýlfraði oft svo hátt þar að enginn friður væri.

Jónas Kristjánsson talar um eitraða lífeyrissjóði og að sumu leyti hefur hann alveg rétt fyrir sér þar. Laun þurfa þó ekkert að vera sérstaklega há til þess að borgi sig sæmilega að greiða í þá, þó ríkið hirði óbeint stærstan hluta þeirra greiðslna. Snilld auðliðsins felst í því að telja nógu mörgum trú um að skárra sé að vera þræll kerfisins en að fara alveg í hundana.

Ofhitnun Jarðar er áreiðanlega staðreynd. Að hún sé af mannavöldum er afar líklegt og afkomendur okkar munu gjalda þess í framtíðinni. Þó er hægt að hugga sig við það að yfirleitt finnast leiðir útúr þeim ógöngum sem mannkynið lendir í. Mannfall í stríðum fer jafnvel minnkandi.

Ef maður léti eftir sér að skoða alla þá linka sem aðrir telja athyglisverða á fésbókinni, gerði maður lítið annað. Auðvitað getur verið að ég eigi of marga fésbókarvini og að þeir finni alltaf eitthvað athyglisvert. Þá eru þeir sennilega of margir, eða hvað?
Að festast í fésbókinni
furðar mig ekki neitt.
Ýmsir þar lokast inni
og allt verður soldið feitt.

WP 20150101 14 48 52 ProBónus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband