Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

2271 - Víst er kú í Keflavík

Einu sinni þótti okkur í skólanum þetta óstjórnlega fyndið: Auðvitað vorum við ekki með beygingarfræðina á hreinu. Rætt var um einkennisstafi bifreiða eins og þeir voru einu sinni.

Rödd 1: „Hver er einkennisstafur bifreiða í Árnessýslu?“

Rödd 2: „X“

Rödd 1: „Alveg rétt. En á Akranesi?“

Rödd 2: „E“

Rödd 1: „Alveg rétt. En í Keflavík?

Rödd 2: „Q“

Rödd 1: „Nei, það er ekki rétt.“

Rödd 2 „Víst er kú í Keflavík.“

Þetta er um AI-box tilraunina. Nánari útskýringu á henni má finna á http://www.yudkowsky.net/singularity/aibox Þarna er rætt um væntanlega yfirtöku tölva á veröldinni. Sú þróun er óhjákvæmileg, eða það er mín skoðun. Allsekki er víst að allir séu sömu skoðunar og það sakar áreiðanlega engan að kynna sér málið á þessum stað. Þetta er sú skoðun sem mest verður deilt um á komandi tímum. Flestir eru að verða hundleiðir á trúmálavafstrinu og xenófóbíunni hjá nútíma fjölmiðlum. Þeir virðast halda að það skipti mestu máli.

Nú er 2015 byrjað og það er ekkert víst að ég verði duglegri við að blogga en undanfarið. Mitt áramótaheit er á þá leið að ég ætla að vona að árið verði sem líkast því sem nýliðið er. Lélegt áramótaheit atarna kynni einhver að segja, en verði um einhverjar framfarir á einhverju sviði að ræða ætla ég að vona að það verði af einhverri betri ástæðu en þeirri að standa við hálfvitalegt áramótaheit. Annars eru þau hjá flestum til þess gerð að brjóta þau.

Þegar ég var næturvörður hjá Mjólkursamsölunni var það öruggasti vorboðinn þegar tjaldaparið mætti á svæðið. Ég ímynda mér kannski bara að það hafi alltaf verið það sama. Ekki þekkti ég þau frá öðrum tjöldum. Að lokum kom bara einn tjaldur og svo enginn. Kannski eru skilnaðir óþekktir meðal fugla. Þau áttu sér hreiður uppá þaki mjólkursamlagsins og einu sinni ætlaði ég að gá að hreiðrinu en þá kom annað þeirra öskureitt á móti mér svo ég hrökklaðist í burtu. Frímann Vilhjálmsson sagði mér að einu sinni hefðu þeir horft uppá það að mávur kom í heimsókn og át alla ungana úr hreiðrinu. Tjaldarnir þorðu ekki að ráðast á hann, en horfðu bara á ósköpin.

Einu sinni leyfði ég Díönu Kristjánsdóttur og Friðbjörgu vinkonu hennar (ætli þær hafi ekki verið svona 8 til 10 ára þá) að króa af andarunga og taka hann upp. Móðirin var að sjálfsögðu í öngum sínum og unginn dauðhræddur, því bara voru tveir slíkir í fylgd með andamömmu og stelpurnar vildu auðvitað fá að fara með hann heim með sér, en ég leyfði þeim það ekki. Að taka barn (unga) frá móður sinni er að mínum dómi næsta stig við morð. A.m.k. ígildi nauðgunar.

Verð að segja að mér finnst gagnrýnin á SDG vera komin út í dálitlar öfgar, þó ég kalli þær ekki beinlínis loftárásir. Hann má varla gera eða segja nokkurn hlut og heldur ekki gera ekki neitt, þá er hann gagnrýndur. Af hverju þarf hann endilega að vera eins og allir aðrir? Vissulega er margt af því sem hann gerir gagnrýnisvert, en það verður enginn stærri af því að velja honum nógu ljót orð í gagnrýninni. Margt af því sem um hann er sagt, má reyndar alveg eins flokka sem grín eins og gagnrýni.

WP 20141227 10 33 27 ProSólarupprás.


2270 - Þykkildisfínt blogg

Einhverra hluta vegna virðist áhugi á blogginu mínu hafa aukist að undanförnu. Kannski er það vegna þess að bloggurum er sífellt að fækka. Það sýnist mér allavega. Vinsældir fésbókarinnar fara stöðugt vaxandi. Annars veit ég hvorki né skil hvernig á þessu stendur. Já, ég trúi aðsóknartölum Moggabloggsins eins og nýju neti. Hugsanlega er það ástæðulaust, en ég get ekki annað.

Mér finnst ég vera í bestu stuði til að blogga snemma á morgnana. Þegar ég segi snemma meina ég svona uppúr fimm eða jafnvel fyrr. Hugsanlega er þetta alveg rétt. Á margan hátt hugsar maður skýrast þegar maður er nývaknaður. Einhverjum kynni að finnast það fullsnemmt að byrja að skrifa um fimmleytið, en það finnst mér ekki. Ég hef tekið eftir því að Jónas Kristjánsson gerir það yfirleitt. Reyndar setur hann þau yfirleitt upp um fimmleytið, segir netskarnið, svo sennilega byrjar hann að skrifa svolítið fyrr. Trúlega er hann samt öskufljótur að því og hann hlýtur að vera í hörkuæfingu.

Hef farið í morgungöngu í ca. klukkutíma að undanförnu. Einhverra hluta vegna er veðrið og færið oft skárra á morgnana en seinni partinn. Umhleypingar hafa óneitanlega verið í veðrinu að undanförnu. Bíð eftir skaplegu og góðu veðri. Það hlýtur að koma hvort sem það verður frost þá eða ekki. Birtutíminn ætti að fara að aukast núna í hænufetum. Babysteps verður maður sjálfur að taka í hálkunni um þessar mundir og eðlilegt að sólin geri það líka.

Ceausescu, Gaddafi og Saddam Hússein voru bölvaðir harðstjórar og allir drepnir og áttu það svo sannarlega skilið. Ceausescu var samt sá eini sem þjóðin sjálf reis að lokum upp gegn og tók af lífi. Það var á jóladag fyrir 25 árum og vissulega er ástæða til að halda uppá það. Rúmeníu hefur samt gengið fremur illa að samsama sig vestrænu lýðræði og margt má enn að hlutum þar finna. Hinir voru drepnir með aðstoð erlendis frá. Bæði Írak og Líbýa er enn í sárum eftir þá atburði sem ollu falli þeirra. Styttra er síðan það gerðist og margt má um það segja.

Útlendingaandúð og innflytjendahatur fer vaxandi í íslensku samfélagi. Kannski er það ekki svo mikið að aukast, en fylgjendur þess eru farnir að láta meira í sér heyra og jafnvel getur það valdið áhyggjum. Því fer samt fjarri að innflytjendur, útlendingar, hælisleitendur og þessháttar fólk sé eitthvert vandamál hér og mesta vandamálið er eflaust hvernig stjórnvöld taka á málum sem þessu tengjast.

Engu erfiðara er að leika á sjónina en önnur skynfæri. Þó fréttir færist úr því að vera í orðum yfir í það að vera myndrænar er ekki þar með sagt að þær batni nokkuð. Þeim fækkar að vísu svolítið sem hafa tæknina sem til þarf á valdi sínu og ef hliðverðirnir hugsa eingöngu um peninga er voðinn vís. Auðvelt er að ljúga með myndum eins og allir vita núorðið.

Siðvæðingin verður að hefjast í sjávarútveginum. Hið nýja Ísland þarf að byrja þar. Meðan fólk horfir uppá það misrétti sem viðgengst í umgjörðinni um sjávarauðlindina er tilgangslaust að vera að velta fyrir sér smáatriðum. Meirihluti þjóðarinnar vill svo sannarlega laga til í þeim ranni, en meðan rifist er um leiðir að því marki að færa auðlegð þjóðarinnar í viðunandi horf græða stórútgerðarmennirnir sem aldrei fyrr. Sannarlega er verið að undirbúa nýtt hrun og kannski verða þeir ívið fleiri sem græða á því en þeir sem græddu á því síðasta. Ekkert bendir til að LÍÚ-auðvaldið hafi lært nokkurn skapaðan hlut.

Er þetta ekki orðið alveg þykkildisfínt blogg hjá mér? Sko, þarna tókst mér að búa til nýtt orð. Ætli orðum í íslensku hafi þá fjölgað úr tvöhundruðogfimmtíuþúsundum í tvöhundruðogfimmtíuþúsundogeitt við þetta?

WP 20141226 10 48 59 ProBeðið eftir storminum.


2269 - Hvergerðingar

Pólitískt séð finnst mér einna athyglisverðast á árinu, að ríkisstjórnin skuli hafa heykst á því að afturkalla ESB umsóknina. Auðvitað er líka athyglisvert að flestar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og meirihlutans á alþingi skuli hafa verið svo hægri sinnaðar sem raun ber vitni, en vitanlega var við því að búast. Oft hefur það verið svo að hægri sinnaðar ríkisstjórnir hafa átt í góðu sambandi við „aðila vinnumarkaðarins“ (ofnotaður orðhengill) en því virðist ekki vera að heilsa núna. Annað sem er athyglisvert er harkan í verkfallsaðgerðum lækna. Þeir eru alls ekki vinstri sinnaðir yfirleitt, hefur mér fundist.

Man mjög vel eftir t.d. Lilla (eða Ingvari) Christiansen, Jóni bensín, Mára Mikk og Kalla Jóhanns þó þeir hafi ekki verið í bekk með mér. Mest var ég auðvitað með þeim Atla Stefáns, Lalla Kristjáns, Jóa á Grund og strákunum hans Skafta ásamt Sigga í Fagrahvammi og Þórhalli Hróðmars. Stundum líka Mumma Bjarna Tomm, Magga Kalla Magg og Kidda Antons. Að sumu leyti fannst mér samt að ég væri nær pöplinum en þeir. Við þorpararnir (sem áttum heima í Hveragerði) sameinuðumst svo í því að líta niður á sveitavarginn þ.e.a.s krakkana úr Ölfusinu sem keyrðir voru í skólann á hverjum degi.

Vitanlega var þetta með pöpulinn – þó ég hugsaði alls ekki þannig þá, að einhverju leyti til komið af því að mér fannst að ósekju vera litið að sumu leyti niður á mig vegna atvinnu pabba míns. Hann var bara réttur og sléttur verkamaður en flestir hinna voru synir manna sem voru eitthvað sérstakt. Að sjálfsögðu ætti ég ekki að vera að nefna nöfn á þennan hátt, en ég er bara svona og kannski verður bloggið vinsælla með því. Auðvitað varð ég hissa í gær á því að lesendur (eða heimsækjendur skv. Moggabloggstalningu) væru orðnir nokkuð á annað hundrað á u.þ. b. tveimur tímum, en ég ætti ekki að vera að miklast af því. Kannski stafar það bara af því að fáir blogga á Nýársdag.

Almennur lokunartími verslana er sjálfsagt mörgum ofarlega í huga einmitt núna. Man vel eftir að sá tími var þannig í gamla daga að opið var til 10 alla laugardaga í desember (eða tvo eða þrjá síðustu þeirra fyrir jól – man ekki hvort) og til 12 á Þorláksmessu og hádegis á aðfangadag. Að öðru leyti minnir mig að opnunartími hafi verið samkvæmt venju. Hún var sú að verslanir voru yfirleitt opnar frá 9 til 6 alla virka daga og 9 til 12 á laugardögum. Lokað á sunnudögum. Ekki held ég að þetta sé þannig núna. Lokað var næstum allsstaðar 2. janúar vegna vörutalningar. Kannski er svo ennþá. Best að spyrja Gúgla samt.

Skrifa yfirleitt aldrei í athugasemdadálka dagblaðanna og kann ekki að twitta (eða tísta eins á víst að segja á því ástkæra og ylhýra). Bloggið og fésbókin nægja mér alveg. Eða hafa a.m.k. gert það hingað til og ég á ekki von á öðru en svo verði líka á þessu nýbyrjaða ári. Já, vel á minnst. Gleðilegt ár!!. Var ég annars búinn að óska lesendum mínum gleðilegs árs. Man það ekki og nenni ekki að gá að því.

Komið við á vinnustofu.WP 20141121 21 29 58 Pro


2268 - Eygló, Sigrún og Vigdís

Gleðileg nýár kæru lesendur og þökk fyrir það gamla. Sumt af því sem hér er skrifað var ég búinn að setja á blað fyrir nokkrum dögum en fannst ekki eiga mikið erindi í áramótapottinn. Nú er ég kominn í stuð, enda komið nýtt ár og allir mínir lesendur enn við góða heilsu og hugsanlega í stuði líka.

Ég er sammála því að Eygló Harðardóttir hafi breyst. Áður fyrr hafði maður einna mesta trú á henni af þingmönnum framsóknar. Eftir að hún varð ráðherra finnst mér henni hafa farið mikið aftur. Um Sigrúnu veit ég ekkert, finnst aldurinn ekki skipta neinu máli. Vonum bara að hún reynist vel sem ráðherra. Vigdís Hauksdóttir hefði eiginlega átt að verða ráðherra og ég veit ekki hvers vegna hún varð það ekki. Sumt af þeirri gagnrýni sem hún hefur orðið fyrir er alls ekki sett fram af sanngirni, en hún er bæði óheppin og einlæg í því sem hún gerir. Flokkshollustan er henni líklega fjötur um fót. En kannski er hún bara svona hægrisinnuð. Framsóknarflokkurinn var það ekki og ef hann á að ná aftur fyrri stærð dugir ekki að leggja á sama hátt lag sitt við þjóðrembu og einangrunarstefu og gert hefur verið. Typpilsinna hefur hann samt alltaf verið og tækifærissinnaður.

Að Eygló Harðar skuli núna treysta sér til að verja ákvörðun Sigmundar Davíðs um að stytta tímabil atvinnuleysisbóta er sennilega það lægsta sem hún hefur komist. Ef hún er spurð útí þetta talar hún bara um eitthvað óviðkomandi málinu, eins og t.d. það að atvinnuleysi sé nú minna en áður. Það kemur málinu bara ekki nokkurn skapaðan hlut við. Fréttamenn láta samt gjarnan sem svo sé því þeir eru hræddir um að hún fari í fýlu annars.

Líklega er ég eini maðurinn sem hef engar sérstakar skoðanir á áramótaskaupi sjónvarpsins enda horfði ég ekki á það nærri allt. Hafði einfaldlega öðru að sinna. Sumt sá ég þó og fannst það hvorki gott né vont. Er jafnhissa á viðbrögðum fólks við því eins og því að fjöldi fólks skuli tilbúinn til að henda stórfé í tilgangslausar og í raun hættulegar sprengingar.

Þó ég hafi étið eins og svín núna um hátíðarnar, þá hef ég ekki bætt neinu verulegu á mig og er fremur ánægður með það. Núna hefst fljótlega aftur íhalds- og aðhaldstímabil og þó snjór sé þá verður haldið áfram gönguferðum og þessháttar von bráðar. Sú er a.m.k. ætlun mín og vonandi gengur hún eftir.

Eftir að vinnan fór er bloggið mín helsta þerapía. Það held ég a.m.k. Tölvan er líka mjög mikilvæg og skákin sömuleiðis. Útiveran er mín helsta hollusta og lengi vel hélt ég að með vinnuleysinu mundi ég fara að sinna félagsmálum meira, en sú hefur ekki orðið raunin. Sjónvarpið og aðra fjölmiðla en netið hef ég að mestu afskrifað og sé ekkert eftir því. Já, það er fremur erfitt að verða gamall og óþarfur. Líkamlegu hrönunina er líka erfitt að sætta sig við. Verst af öllu er að hugsa of mikið um það alltsaman. Að flestu leyti er lífið samt fremur gott við mig og ég hef eiginlega ekki undan neinu að kvarta. Stjórnarfarið snertir mig lítið og ég leiði það að mestu hjá mér.  

IMG 1959Uppstilling.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband