2276 - Eru slys fyndin?

Nú á tímum videómynda af öllum fjandanum þykir þeim sem horfa sér til óbóta á Youtube, fyndnar fjölskyldumyndir og annað þessháttar það eflaust. Þeim sem lenda í slysum og aðstandendum þeirra finnst það þó áreiðanlega ekki. Flugslysið á Akureyri þykir óheyrilega fyndið hjá sumum. Sama er um önnur slys að segja og allskonar hrekki. Hrekkirnir geta reyndar verið meinfyndnir, en eru það allsekki alltaf. Ef áhorfendur sjá bara einhvern brandara útúr svonalöguðu, en geta ekki með neinu móti sett sig í spor þeirra sem fyrir því verða, er til lítils að birta það. Þýðingarlaust er sennilega líka að berjast á móti því. Samhengið skiptir öllu. Ófarir annarra eru í eðli sínu enginn brandari.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að um 20 prósent Íslendinga væru rasistar.  Mér finnst það engu máli skipta. Það sem mér finnst skipta máli er hvaða áhrif svona lagað, ef satt er, hefur á kosningahegðun almennings. Óhugnanlega margir láta hræra í skoðunum sínum með innihaldslitlum loforðum. Það er ljóst að öfgar af öllu tagi bæði til vinstri og hægri á hinu pólitíska litrófi fara vaxandi. Smáflokkum fjölgar á þingi. Gott ef það er ekki helsti gallinn á lýðræðinu. Auðvitað er ég samt ekki að mæla fjórflokknum bót og samtrygginu þeirra sem honum vilja tilheyra. Miðjumoðið er skást. Öfgunum þarf að berjast gegn.

Utanríkisráðherra segir að fyrrverandi ríkisstjórn hafi mistekist að koma ESB-umsókninni í höfn en samt haft til þess heilt kjörtímabil. Skyldi honum nokkuð mistakast á heilu kjörtímabili að koma uppsögninni í gegn. Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni um það að með uppsögn væri eingöngu um töf og skemmdarverk að ræða. Meira að segja Bjarni Ben. lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það sem Gunnar Bragi segir nú að sé óframkvæmanlegt.

Andskotans bakkflaut er þetta allt í kringum mann alla daga. Það endar með því að allir hætta að taka mark á þessu, eins og þetta er nú sniðug uppfinning. Sama er að segja um þjófavörnina á bílum. Oftast er hún til bölvunar, en kannski hefur hún fælingarmátt.

Mogginn (mbl.is) þykist nú fá fleiri klikk en bæði dv.is og visir.is. Þýðir þetta að Mogginn sé klikkaðri en hin blöðin? Kannski. Mér finnst þetta ekki skipta neinu meginmáli. Fátt er jafn hverfult og klikkin. Sumir fésbókarar virðast klikka á allt sem hægt er að mýslast á. Kannski ætti ég að segja puttast á. Þumalputtakynslóðina kalla sumir þá kynslóð, sem nú er að vaxa úr grasi. Það hlýtur að vera með hliðsjón af símunum. Ætli næsta kynslóð verði ekki bendifingurskynslóðin, eða bara pot-kynslóðin.

Ég hef gaman af skák og biðst ekkert afsökunar á því. Samt get ég fremur lítið í þeirri göfugu íþrótt, en kíki samt stundum á „Skákhornið“. Nú bregður svo við að Gúgli kannast lítt við slíkt horn og segir bara:  „Lýsing á þessum niðurstöðum er ekki tiltæk vegna robots.txt á síðunni“. Að vísu komst ég á síðuna með öðrum ráðum, þó Gúgli hafi verið eitthvað á móti mér, en þetta er að mörgu leyti ekki nógu gott. Kannski er Gúgli frændi bara í því þessa dagana að stríða mönnum. Þetta er ein tilkynningin sem ég fékk þaðan alveg nýlega:

You’ve gone incognito

Pages you view in incognito tabs won’t stick around in your browser’s history, cookie store, or search history after you’ve closed all of your incognito tabs. Any files you download or bookmarks you create will be kept. Learn more about incognito browsing

Going incognito doesn’t hide your browsing from your employer, your internet service provider, or the websites you visit.

 

WP 20150101 14 35 03 ProTré og runnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband