Bloggfærslur mánaðarins, september 2014
29.9.2014 | 23:12
2228 - Street view
Sagt er að Rómverjar til forna hafi vitað vel um áhrif blýeitrunar. Samt hafi þeir haldið áfram víðtækri notkun þess. Kannski höfðu þeir ekki þá tækni sem við höfum í dag til að ná til næstum allra á mjög stuttum tíma. Í framtíðinni kann einhver að halda því fram að við fulltrúar hins Vestræna heimsveldis höfum vitað ósköp vel af aukinni eitrun og mengun án þess að aðhafast nokkuð. Hvaða afsökun ætli verði fundin upp fyrir okkur?
Ég veit alveg að ég er stundum með gamlar fréttir, enda er ég gamall og lengi að melta hlutina. Þó fannst mér sú frétt sem ég las áðan á fésbókinni ekki alveg ný. Þar var sagt frá Strít-vjúinu af Íslandi hjá Gúgla og það talið alveg nýtt. Man eftir að hafa séð bílinn þeirra í fyrra og sennilega settu þeir myndirnar sem hann tók á netið í fyrrahaust. Samskonar myndir minnir mig að sé hægt að fá á ja.is eða einhvers staðar. Hraði framfaranna í tæknimálum er orðinn slíkur að það er útilokað fyrir aldraða aumingja eins og mig að fylgjast með því öllu.
Einhvern vegin grunar mig að þær Paris Hilton og Kim Kardashin séu bara frægar fyrir að vera frægar. Ef þannig er komið fyrir einhverjum er þá hægt að kenna blaða- og/eða fréttamönnum um frægðina? Kannski þarf ekki að kenna neinum um. Hver veit nema þetta sé einmitt það sem þær vilja. Sennilega eru fleiri sem eru frægir fyrir þetta þó ég viti ekki af því. Ekki er ég t.d. frægur fyrir eitt að neitt þó mér finnist sjálfum að ég ætti að vera það.
Með því að vera fárveikur og án allrar matarlystar liðna helgi tókst mér að komast niður fyrir 115 kílóin í fyrsta skipti síðan ég (eða réttara sagt ég og konan mín) byrjuðum á nýjum lífsstíl fyrir nokkru. Ekki er þetta samt aðferð sem ég get mælt með. Undarleg tilfinning var það að vakna í nótt (já, um þrjú-leytið) og það fyrsta sem ég fann var að ég var orðinn með öllu hitalaus og alfrískur, þó auðvitað megi alltaf deila um hve frískur maður er í raun og veru því enn er eitthvað eftir af hálsbólgu og stífluðum nefgöngum. En ég er semsagt kominn á fullt í bloggið aftur.
Sé að Harpa Hreins er byrjuð að blogga á eigin vefsvæði. Segir svo að sjálfsögðu frá bloggunum á fésbókinni eins og fleiri. Eina ástæðan fyrir því að ég blogga ennþá hér á Moggablogginu er sú að hér fæ ég góða þjónustu og þarf ekkert fyrir hlutunum að hafa. Í nýjasta bloggi sínu segir hún frá því hve vitlausir þeir eru hjá Læknablaðinu og ég er alveg sammála henni í því að mjög margir virðast enn ekki gera sér grein fyrir því að það sem einu sinni er skrifað á netið, fer ekki svo auðveldlega þaðan aftur.
Bloggar | Breytt 30.9.2014 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2014 | 13:25
2227 - Rabb
Með því að láta fólk klikka á allan fjandann, aðallega krúttlegar barna- og kattamyndir er hægt að láta það halda að það sé þátttakandi í ýmsu. Láta það fletta fram og aftur í allskyns myndasöfnum og one-liners og vera sífellt að breyta öllum fjáranum bara breytinganna vegna og selja svo auglýsendum heimilisföng og símanúmer á uppsprengdu verði til að borga þeim laun sem fyrir breytingunum standa og gera bókstaflega allt til að fjölga notendum sem allra mest, er hægt að reka samfélagsvef. Fésbókin er þar fremst í flokki eins og stendur en verður það kannski ekki lengi. En þó maður finni út hvernig fésbókin starfar öfundar maður hana samt. Hún er ómissandi. Ávanabindandi tímaeyðsla, en allsekki svo vitlaus. Satt að segja hef ég komist að því að það er líf fyrir utan hana. Með miklu átaki er hægt að losa tak hennar á sér. Maður veit samt alltaf að hún er þarna og bíður eftir manni. Lýgur öllum fjandanum að manni og lætur manni finnast maður mun merkilegri en maður í rauninni er. Já, það má margt um fésbókina segja. Leiðinleg er hún samt ekki. Endurnýjar sig í sífellu. Hefur nóg pláss fyrir alla og gerir ekki upp á milli manna.
Einu sinni höfðum við mjög gaman af því að snúa útúr öllu sem vinsælt var. Minnist þess t.d. að við vinsælt lag sungum við alltaf: Í vor kom ég sunnar/ með sólskin í nýra/ og þambaði að leiðinni/ hálfflösku af spíra. Um sætsúpuna köldu sungum við alltaf í fjöldasöngnum í skólanum. Einhver texti var líka svona: Hvað er svo glatt sem góðtemplara fundur/ er gleðin skín á hverri mellubrá./ Eins og á vori er hittast tík og hundur/ og hanga saman kynfærunum á. Eflaust gæti ég rifjað um meira af svona meiningarleysu ef ég legði mig fram. Nenni því samt ekki. Hversvegna er ég þá að tíunda þetta hér. Veit það svosem ekki, en eitthvað verð ég að skrifa.
Á margan hátt er ástandið í Mið-Austurlöndum einn allsherjar rembihnútur. Hatur á Bandaríkjastjórn sameinar þó mörg öfl á svæðinu. Samband Ísraels og Bandaríkjanna hlýtur að vera lykillinn að friði á þessu svæði og hugsanlega heimsfriði. Öfgatrúaðir islamistar sameina margar ríkisstjórnir um þessar mundir í andstöðu við sig, en ekki er víst að það bræðralag standi lengi. Hið svokallaða Alþjóðlega samfélag og Sameinuðu Þjóðirnar hafa lítil áhrif þarna. Besservisserar á Vesturlöndum enn minni og almenningur er alls ekki spurður um sitt álit. Lýðræðishefð er engin og svæðið morar í einræðisherrum. Allir hópar hafa sínar prívatlausnir og skortir algjörlega hæfileikann til að setja sig í spor annarra hópa. Sumir láta eins og söguleg og trúarleg rök séu alveg jafngild þeim praktísku en svo er alls ekki. Það er núna sem verið er að drepa fólk þarna og því verður að linna.
Í grunninn er hægt að segja að um okkur sem eigum afkomendur á lífi sé einkum um tvö hlutverk að ræða. Númer eitt er að aðstoða börnin okkar á allan þann hátt sem okkur er mögulegur í lífinu. Hitt hlutverkið er að stytta okkur sjálfum stundirnar sem mest og auka fremd okkar ef mögulegt er. Einnig að gera þær sem ánægjulegastar. Að sjálfsögðu þó án þess að það bitni á okkar nánustu. Vissulega veit ég að þetta getur oft verið vandasamt og leitt til misskilnings sem í fyrstu virðist furðulegur en þarf alls ekki að vera það. Sjálfur hef ég löngum reynt að láta númer eitt ráða lífi mínu í seinni tíð. Ekki er það þó alltaf einfalt. Hlutirnir eru alls ekki nærri alltaf eins og þeir sýnast. Það sem við fyrstu sýn virðist vera dæmigert fyrir hlutverk númer 2 er það kannski alls ekki o.s.frv.
Hef stundum velt því fyrir mér hvernig dauðadæmdum föngum líði, sem fá að vita væntanlega dauðastund sína. Skyldu þeir ekki bara flýta sér í afneitun og trúa því að það hljóti að vera hægt að redda málunum? Það finnst mér að hljóti að vera. Þ.e.a.s. ef þeir eru bara ekki búnir að gefast upp og sætta sig við að enda lífið. Sumir bíða væntanlega eftir því að losna og gera ráð fyrir konunglegum móttökum hinum megin. Ef maður veltir slíku fyrir sér og setur sjálfan sig í þeirra stöðu hlýtur trúin um handanheiminn að koma í ljós. Er það ekki hún sem er grunnurinn að flestum trúarbrögðum? Það hefur mér fundist. Vil samt ekki efna til einhverskonar heimspekilegra- eða trúarbragðatengdra deilna hér á blogginu. Finn mig líka á flestan hátt vanbúinn til slíks.
Ölfus og Grímsnes. Sogið á milli.
Hér hefur bíll farið um. Sennilega í leyfisleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2014 | 14:18
2226 - Enska
Spyr vigtina að því á hverjum degi hve þungur ég sé. Þetta er gert útaf svokölluðu átaki sem ég er í og felst einkum í því að éta ekki brauð og drekka ógeðsdrykki af ýmsu tagi. Held að ekkert ógeðslegra sé samt í þeim en ýmisskonar grænmeti og gras. Vigtin á hinsvegar mjög erfitt með að ákveða sig með hvort ég sé 118,1 eða 118,5 kíló, léttklæddur mjög. Kemur ýmist með þær tölur eða einhverjar þar á milli sem tillögur. Ég lít a.m.k. ekki á þær sem annað. Ekki getur verið að ég sé mismunandi þungur eftir dögum.
Á eftir förum við væntanlega að Efstalandi, en þar skilst mér að Hörður hennar Ingu ætli að halda uppá áttræðisafmælið sitt. Afmælisgjafir vinsamlega afþakkaðar, en við systkinin ætlum samt að brjóta það. Erum núna búin að fara þangað og það eftirminnilegasta er fyrir mig að Tinna skuli hafa spurt þegar komið var að torfbænum þar sem víkingasalurinn var: Eiga þau heima í þessu grashúsi?, en fyrir aðra er það líklega þegar Gunnlaugur Bjarnason líkti Herði við hobbita.
Ekki veit ég hvar þetta með matarskattinn endar. Sennilega verður hann ekki 12% eins og frumvarpið segir. Ég á nefnilega alveg eins von á því að samið verði um svolítið minna. Þetta var pólitík dagsins en svo er ég að hugsa um að láta hana í friði eins og hvern annan geitung. Hún stingur mann samt óþyrmilega ef maður gætir sín ekki.
Um daginn fórum við hjónin á veitingahús. Ekki er það nú sérstaklega í frásögur færandi. Heldur ekki hvað við pöntuðum. Man það reyndar ekki lengur. Eitt vakti þó athygli mína. Þjónninn talaði ekkert nema ensku og skildi ekki nokkurn skapaðan hlut í íslensku. Bráðum verður það nauðsynlegt að kunna eitthvað fyrir sér í heimsmálunum flestum til að geta farið út í Bónus að versla. Kannski er ég bara svona svartsýnn og hugsanlega verður þetta aldrei þannig, en mér finnst það ansi hart að geta ekki notast við íslenskuna á Íslandi.
Fína orðalagið yfir að hanga á fésbókinni er að skoða samfélagsmiðlana að öðru leyti er enginn munur á þessu tvennu og ég er ekki frá því að þessi tölvusiður sé að breiðast út. Menn eru allan liðlangan daginn í tölvunni ef þeir mögulega geta. Ekki er ég barnanna bestur enda hef ég lítið annað við að vera þessa daganan en að hamast við að léttast. (Sem þó gengur illa.) Það er af sem áður var að gamalt fólk sem núumstundir er helst af öllu kallað ellilífeyrisþegar staulaðist um við staf og óspart var gert grín að því. Nú orðið eru allir því nokkuð góðir því þeir eiga sjálfir eftir að lenda í þessu. Reynt er þó að hafa það sem minnst fyrir og því er gjarnan komið fyrir á sérhæfðar stofnanir.
Ef sektin sem Mjólkusamsölunni er ætlað að greiða á að vera eitthvað í áttina við að vera í samræmi við það, sem hún hefur stolið frá okkur gegnum árin væri nær að hafa hana a.m.k. 370 milljarða, en skitnar 370 milljónir. Erfitt getur reynst að reikna þetta út, en lengi hefur verið stolið af okkur og verður áreiðanlega lengi enn.
Allsstaðar má búast við svona villidýrum.
Ármót Sogsins og Hvítár, Ölfusá til hægri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2014 | 22:12
2225 - Er breska heimsveldið endanlega dáið?
Já, ég hefði átt að geta sagt mér það sjálfur. Skoðanakannanir hafa alltaf rétt fyrir sér. Þó ég hefði gjarnan viljað að Skotland samþykkti sjálfstæðistillöguna þó ekki væri nema til að stríða ríkisstjórnum og þeim sem öllu vilja ráða, þá var svosem ekki við öðru að búast. Þá er hægt að fara að hafa áhuga á einhverju öðru t.d. því hvenær Hanna Birna sér sína sæng uppreidda. Sumir halda að það verði aldrei, en ég held að það gerist 5 mínútum eftir að Bjarni Benediktsson formaður flokksins gefur í skyn að hann styðji hana ekki. Hvenær það gerist get ég aftur á móti ekki sagt til um.
Nú get ég semsagt lesið allar þær bækur sem ég hef sett á kyndilinn minn í símanum. Heimsótti Benna áðan og hann linnti ekki látum fyrr en hann var búinn að redda því. Þegar ég sagðist ekki geta lesið og gengið samtímis skildi hann mig ekki. Mér fannst það þó hryllilega auðskilið. Af hverju ætti ég frekar að vilja lesa í símanum en á Kyndlinum? Jú jú, ég viðurkenni að síminn er talsvert léttari.
Þetta með kílóin er talsvert streð. Veisluhöld eru óvinir megrunarkúra. Það vita allir. Skömmu áður en við héldum til Ölfusborga til veisluhalda náði ég mér niður í 116,4 kíló. Það var eins og við manninn mælt að þegar við komum úr Ölfusborgum var ég orðinn 118,3 kíló. Með samstilltu átaki tókst mér að komast í 118,1 en skömmu seinna var ég kominn í 118,3 kíló aftur (afmælisveislur o.þ.h.) og nú er mér enn og aftur búið að takast að komast niður í 118,1kíló. Ekki veit ég hvar þetta endar. Vonandi ekki úti í móa. Á morgun (sunnudag) er svo ein afmælisveislan enn.
Mary Roach er rithöfundur sem gagn er af að lesa. Fyrir nokkru las ég bók eftir hana sem var um human cadavers semsagt lík og fjölbreytta notkun þeirra. Afar fróðleg bók um efni sem fáir vilja skrifa mikið um. Nú er ég að lesa bók eftir hana sem fjallar um geimferðir. Þetta er auðvitað margþvælt efni, en samt tekst henni að koma með nýja vinkla á það. T.d. segir hún frá tilraun til að láta ókunnugt fólk af ýmsu þjóðerni vera samvistum í mjög langan tíma. Að kakkalakkar kæmust þar inn hafði mér ekki dottið í hug. Heldur ekki að þau þyrftu að fást við lúsafaraldur. Rússnesku karlmennirnir kunnu reyndar gott ráð við því. Þeir einfaldlega rökuðu á sér skallann. Af hverju í ósköpunum gat kvenfólkið það ekki líka?
Í morgun fór ég í langa gönguferð. Fór alla leið niður að Hörpu, héðan úr Kópavoginum, og var rúman klukkutíma á leiðinni. Lúxus að geta svo bara hringt í Áslaugu (það gerði ég við Sólfarið) og látið hana sækja sig á bílnum.
Það virðist vera talsverður órói í framsóknarþingmönnunum. Sennilega líst þeim ekkert á næstu kosningar og treysta Sigmundi Davíð sennilega ekki til þess að finna uppá nýjum blekkingaleik. Varla getur hann unnið tvo kosningasigra útá sömu blekkinguna. Fólk vildi bara trúa þessari uppbelgdu þjóðernisrómantík í honum í síðustu kosningum. Jæja nú er ég byrjaður á minni ímynduðu pólitísku siðvæðingu svo það er líklega best að hætta.
Þetta hlýtur að tákna eitthvað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2014 | 01:31
2224 - Skotland er boðið velkomið í hópinn
Stundum þegar viðtalshöfundar vilja vera extra frumlegir birta þeir bæði spurningarnar og svörin í viðtalinu. Venjulega er þetta samansafn af afskaplega ógáfulegum spurningum og oft eru svörin lítið skárri. Já, ég veit að mér er verulega uppsigað við blaðamenn og það er vegna þess að ég þykist betri en margir þeirra. Samt er það svo að þeim er yfrleitt talsverð vorkunn. Oftast er farið fram á ómanneskjuleg afköst í þeirri vinnu sem þeir fást við og kannski hafa þeir í rauninni ekki sóst eftir þeirri vinnu. Hún bara virtist svo auðveld og þessháttar. Það er einum of ódýrt að segja bara að þeir ættu að fá sér aðra vinnu. Mikið óska ég þess samt oft að fréttir væru svolítið betur skrifaðar.
Ekki er útséð með hvernig Bárðarbunguævintýrið endar. Líklegast er þó að það sem þar er að gerast fjari bara smám saman út. Mér hefur alla tíð fundist sem blaða- og fréttamenn geri fullmikið úr þeir hlutum sem þar eru að eiga sér stað. T.d. er 25 metra sig ekki sérlega mikið þegar sagt er að ísinn ofan á fjallinu sé a.m.k. 800 metra þykkur. Jæja, sleppum því. Enginn hefur enn týnt lífi í þessum hamförum og vonum bara að svo verði áfram.
Einn merkasti stjórnmálaatburður aldarinnar á sér einmitt stað í dag. Þar á ég við þjóðaratkvæðagreiðsluna í Skotlandi. Enn er ég þeirrar skoðunar að Já-sinnar sigri eftirminnilega í þessari orrustu. Held einmitt að fleiri og fleiri sjái að það er ómögulegt að standa gegn þeirri bylgju sem þar er svo sannarlega farin af stað. Það er ekki víst að þetta tækufæri komi nærri strax aftur.
Þetta þýðir að nú verð ég að drífa mig í að koma þessu á Moggabloggið. Þessi spádómur (svo vitlaus sem hann eflaust er) verður algerlega ónýtur ef ég flýti mér ekki að losna við hann. Tjallaskammirnar gætu verð ógeðslega árisular ef ég dreg það. Verst er hve margir búast við því og flestir fréttamenn trúa því að fréttirnar komi af fésbókinni. Þaðan komi fréttirnar og vaka þessvegna yfir þeim eins og grimmar grenlægur að missa ekki af neinu markverðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2014 | 21:02
2223 - Hanna Birna einu sinni enn
Já, bráðum er vika síðan ég bloggaði síðast. Kannski er ég hættur. Þó ekki alveg. Hann sneri undan sér og braus. Einu sinni höfðum við skólafélagarnir mjög gaman af alls kyns útúrsnúningi. Þetta er t.d. úrúrsnúningur á setningunni: Hann sneri sér undan og brosti. Einn er sá rithöfundur sem ég sé að hefur mjög gaman af svona löguðu, en það er Hallgrímur Helgason. Tilbúin orð hjá honum eru legíó og eiga sér einatt upphaf í því öðru sem skrifað er. Það er listin. Verð að láta þetta eina dæmi duga núna, því mér dettur ekkert annað í hug. Bloggskrif eru B-skrif.
Bjarni Ben. treystir á það að allir gleymi Hönnu Birnu og það fari sem fyrst að gjósa í Bárðarbungu. Það getur reyndar dregist í mörg ár. Hanna Birna þyrfti hinsvegar að fara frá sem allra fyrst. Píratar munu flytja vantrauststillögu á endanum. Skil ekki af hverju þeir eru að bíða með það. Ekki batnar málið við geymslu. Eina marktæka skýringin er sú að þeir séu að hugsa um að hætta við, en því trúi ég ekki.
Nú er ég búinn að fá síma sem hægt er að tengja við netið hvenær sem er og mæla auk þess allan fjandann. Fékk hann í afmælisgjöf og auðvitað er hann með myndavél. Skárra væri það nú. Sendir myndirnar beint á tölvuna mína en sennilega væri hægt að láta hann hætta því. Ætla að læra á hann smátt og smátt, en það virðist vera heilmargt hægt að gera við hann. Og öll öppin, maður.
Sé að ég hef áðan sagt að bloggskrif væru B-skrif. Það er alveg rétt. Dagbókarskrif sem skrifuð eru í belg og biðu og ekkert lesin yfir eru þá C-skrif. Þau stunda ég einnig. Ætti kannski ekki alveg að sleppa A-skrifunum. Einu sinni gerði ég svolítið af því að skrifa þannig og hélt jafnvel að ég gæti orðið skáld eða rithöfundur. Læknaðist af því og einbeiti mér núna að bloggskrifum. Kannski það séu mín A-skrif. Eiginlega er það það eina sem ég get. Rabbstílinn Sæmundar kann ég. Í því slær mig enginn út. Svo get ég líka látið suma halda að ég sé sæmilegur ljósmyndari með því að láta alltaf ca. tvær myndir fylgja hverju bloggi. Auðvitað gæti ég það þó ég Moggabloggaði ekki. En það er svo fjári þægilegt og vesenislaust að gera það hér að ég get ekki hætt.
Nú er þetta að verða heil blaðsíða, án þess að ég hafi sagt nokkuð og þessvegna væri kannski bara réttast að senda þetta út í eterinn. Á morgun er víst miðvikudagur og ég ætla að reyna að blogga fyrir eða um næstu helgi.
Skoðanakannanir benda raunverulega til þess að Skotar kjósi sér sjálfstæði á fimmtudaginn kemur. Ýmsu mun það breyta. Aðallinn í London gerði alls ekki ráð fyrir því. Breska stjórnin, ESB og ýmsir aðrir munu lenda í miklum vandræðum. Fjármagnsaðallinn hér á landi mun hinsvegar standa þetta af sér. Gott ef hann verður ekki sterkari á eftir. Það vill nefnilega svo til að hann hatar ESB. Heldur jafnvel að það sé hinn nýji kommúnismi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2014 | 02:20
2222 - Þetta er alveg ágætis númer. Svo á ég víst afmæli ídag
Sagði af sér eftir að hafa sparkað í hund. Já, þetta er fyrirsögn af fésbókinni. Las greinina ekki nákvæmlega. Er fésbókin annars að verða aðallögreglan í landinu? Ég sparkaði ekki í hund. Hvað á þá að gera við mig? Fá þeir kannski að reyna við mig sem voru listrænastir við hundsspörkin. Eða asnaspörkin. Helmingur lífsins og vel það er jafnan helgaður fésbókinni eða álíka miðlum hjá mörgum. Er ekki kominn tími til að tengja sig við lífið? Tölvulíf er ekkert líf. Sem hjálpartæki við skrif af öllu tagi eða myndatökur er tölvan samt ómissandi. Í staðinn fyrir að vera framarlega í tölvunotkun ætti Íslendingum að vera ljósara en öðrum að náttúruöflin er mun sterkari en öll tölvuöfl heimsins samanlögð.
Er nýkominn heim eftir smágönguferð. Það er sannarlega miklifenglegt og ógnvænlegt að sjá bílastrauminn á Kringlumýrarbrautinni um áttaleytið á morgnana, en göngustígarnir eru alveg mannlausir, þó veðrið sé gott og með öllu rigningarlaust. Meðaltalsmannfjöldi í hverjum bíl nær kannski 1,1 vegna þess að 2 til 5 (og jafnvel fleiri) eru gjarnan í rútum og strætisvögnum. Læt svo lokið umfjöllum um bílalandið Ísland.
Einhverntíma sá ég svokallaða skólahreysti í sjónvarpinu. Sýndist endilega að Mjólkursamsalan ætti þetta. Svo er víst ekki. Var að enda við að lesa frétt í Morgunblaðinu um þetta. Það eru víst einhver hjón sem eiga þetta og leggja 38 þúsund króna þátttökugjald á hvern skóla. Minna getur það ekki verið, segja þau. Ég er nú svo vinstri sinnaður í þessu að mér finnst að ef auglýsendur og Sjónvarpið geta ekki fjármagnað þetta vandræðalaust og greitt ríflegan styrk uppí ferðakostnað þá sé þessu sjálfhætt. Vitanlega mun það valda unglingunum miklum vonbrigðum ef hætt verður við þetta. Hver og einn skóli getur auðvitað haldið sitt skólahreystismót og ekki er beinlínis hægt að kenna skólunum eða sjónvarpinu um að svona sé nú komið. Auglýsendurnir eru samt kolsvartir á tungunni og vitanlega er þetta þeim að kenna. Sem hægast gætu þeir lagt fleiri millljónir eða jafnvel milljarða í þetta verkefni, svo góð auglýsing er það.
Herfilegasta leyndarmál allra tíma er hvenær Simmi tekur sér frí. Kannski er hann svona hræddur um að einhver vilji drepa sig að hann vill ekki láta fréttast hvar hann er. Eitthvað er það.
Ég gæti náttúrlega sagt ykkur frá eiturslöngunni í Los Angeles sem slapp úr gæslu og beit hund, en RUV-ið er búið að stela glæpnum frá mér. Það var sagt frá þessu núna rétt áðan þar. Sennilega verður svo spurt að nafni hundsins í næsta spurningaþætti.
Athugið að þessi viðbót er sett við bloggið eftir næstum viku. Nú er ég búinn að vera í viku í Ölfusborgum og er alveg endurnærður. Ætlar hann adrei að þagna, karlfjandinn? Var einhverntíma sagt. Kannski var það ekki sagt um mig, en þessi orð eiga svosem agætilega við um mig.
Ef Hönnu Birnu langaar að lafa sem alls óvirkur innanríkisráðherra þá stendur henni það víst til boða. Simmi og Bjarni ætla að taka allar ákvarðanir fyrir hana og svo gæti hún lent í einhverju ríkisstjórnarhrókeringum seinna í haust eða um jólin ef hún verður lifandi þá.
Hef ekki hugmynd um hvað þetta er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2014 | 23:11
2221 - DV og Bárðarbunga. (Eru allir búnir að gleyma Hönnu Birnu?)
Mér finnst netið vera orðið svo illvígt, að ég þori varla að blogga. Einhver sem ekki kann að meta það sem ég skrifa og er hugsanlega á móti því, gæti lesið þetta og ákveðið að gera mér einhvern óskunda, jafnvel senda mér toxoplasma eða ebólu í pósti. Nei, í alvöru talað menn eru ótrúlega uppátektarsamir. Öruggast er að skrifa ekkert um pólitík og alls ekki heimspólitík. Langbest náttúrlega að skrifa ekki neitt og helst að segja ekkert heldur.
Ég á samt dálítið bágt með að fara eftir þessu. Er orðinn svo vanur að blogga fjandann ráðalausan að ég get eiginlega ekki hætt. Eldgosið fyrir norðan Vatnajökul fer ekki einu sinni eftir því sem mér finnst. Minnir að ég hafi verið búinn að spá því að lítið sem ekkert yrði úr því. Alveg er það ótrúlegt hvað menn geta rifist mikið útaf DV. Auðvitað eru þeir sem verða fyrir barðinu á því á móti blaðinu. Skárra væri það nú. Auk þess vandar það sig ekki nærri alltaf nægilega mikið. Hugsanlega má kenna ritstjóranum um sumt af því. Blaðamennirnir eru nánast stikkfrí, sýnist mér. Ég fer samt ekki ofan af því að blað af þessu tagi er nauðsynlegt. Viðskiptalífið hefur nánast kverkatak á þjóðlífinu öllu. Ég man vel eftir því að á hrunskeiðinu fór hrollur um mig í hvert sinn sem Björgúlfur eða aðrir úlfar auglýstu styrki til menningar og íþróttamálefna.
Það var í maí árið 1997 sem Garry Kasparov tapaði fyrir IBM-tölvunni djúpbláu í skákeinvígi. Síðan hafa skákmenn verið svolítið með böggum hildar, þó þeir hafi náttúrulega ekki hætt að tefla. Þeir hugga sig við það að bílar fari hraðar en bestu hlauparar. Það er þó ekki fyllilega sambærilegt því skákin átti að vera sú íþrótt (eða listgrein) sem tölvurnar eða önnur ólífræn efni tækju síðast yfir. Um þennan atburð hafa verið skrifaðar margar bækur og sýnist sitt hverjum. Sumum finnst að Kasparov hefði aldrei átt að samþykkja þetta einvígi. Hver hefur heyrt um heimsmeistara í spretthlaupi sem atti kappi við bíl?
Núorðið er það viðurkennt að tölvur (eða tölvuforrit) eru snjallari en menn í skák. Skákmenn eru jafnvel grunaðir um að notfæra sér síma eða smátölvur til að auka getu sína. Í framtíðinni verða skákmenn áreiðanlega að una því að fara í gegnum ítarlega líkamsskoðun áður en þeir geta sest að tafli. A.m.k. mun þetta verða svo í afdrifaríkum réttindaskákum.
Gaman væri að einhver fróður maður gerði grein fyrir því hver staðan er varðandi tölvuskák í dag. Ekki hef ég mikla hugmynd um það. Hygg þó að þeim fari hraðar fram en Carlsen og Caruana.
Sennilega er múslimahræðslan að ná hámarki hér á Vesturlöndum núna. Hef svolitla samúð með þeirri skoðun að Bandaríkjastjórn (og jafnvel fleiri ríkisstjórnir) ali á henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2014 | 08:49
2220 - Fjölmiðlafár
Bjarni Benediktsson, hélt embætti sínu sem formaður Sjálfstæðisflokksins með því að grenja svolítið. Hanna Birna sótti vissulega að honum eftir áeggjan Davíðs Oddssonar og hélt að sagan mundi endurtaka sig með því að hún kæmi eins og riddari á hvítum hesti (Lady Godiva) og bjargaði flokknum. Þetta hafði hún ekki reiknað rétt og tilraunin mistókst. Kannski hafði líka grenjið í Bjarna tilreiknuð áhrif. Nú er flokkurinn í ca. 25% fylgi og kannski fer hann ennþá neðar ef Hanna Birna heldur áfram að hanga eins og hundur á roði á þessu ráðherraembætti sem henni var trúað fyrir. Svo er Simmi farinn að ókyrrast. Hann ætlaðist til þess að framsókn fengi jafnmarga ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn. Og telur sig hafa beðið nógu lengi. Með því jaðarflokksfylgi sem Harðsnúna Hanna er nú búin að koma Sjálfstæðisflokknum í, getur hann e.t.v. ekki staðið með sannfærandi hætti gegn kröfu Sigmundar um jafnmarga ráðherra.
DV-málið sem núna er hvað háværast í fjölmiðlaheiminum gæti verið merkilegast slíkra mála síðan Helgarpósturinn fór á hausinn. Það er satt að segja hryllileg tilhugsun að enginn fjölmiðill sé andvígur núverandi stjórnvöldum. Jú, RUV-ið burðast svosem við að halda uppi einhverri stjórnarandstöðu og Kastljósið er alls ekki vonlaust. En hvenær sem er gætu stjórnvöld stungið upp í þessa miðla. Frjálsir eru þeir alls ekki.
En Fréttablaðið og allir netmiðlarnir, kynni einhver að spyrja. Mín skoðun er sú að 365-veldið sé að herða tökin á Fréttablaðinu og netmiðlarnir eru allir svo smáir og takmarkaðir að þeir valda varla hlutverkinu. Ef þaggað verður niður í DV og það hættir að koma út má búast við hverju sem er. Auðvitað er það ekki Reynir Traustason sem skiptir höfuðmáli hér eða einhverjir útgerðarmenn sem hugsanlega hafa lánað einhverjum fáeinar milljónir, heldur rannsóknarblaðamennska á Íslandi eins og hún leggur sig. Vitanlega er mörgum illa við DV, skárra væri það nú. Mörgum hafa þeir velgt undir uggum og svo eru þeir svo sjálfmiðaðir að með fádæmum er.
Nú ætla ég að reyna að hætta þessu pólitíska japli og snúa mér að einhverju merkilegra. En hvað er merkilegra? Ekki veit ég það. Og kannski enginn. Vel er hægt að halda því fram að öll mál geti verið pólitísk. Svo er líka hægt að gera margt án þess að láta pólitíkina flækjast fyrir sér. Sem betur fer höfum við Íslendingar kynnst mörgu og þó margt virðist í hættu hér um þessar mundir er heimsfriðurinn það kannski ekki. Og þó. Ástandið í Úkraínu er engu líkt, nema þá helst valdatöku Hitlers á síðustu öld. Pútín er trúandi til alls. Vel má búast við að atburðir gerist hratt á þessari gervihnattaöld .
Jæja, það er víst kominn tími til að skella þessu inn á bloggið mitt áður en það úreldist of mikið. Nú er þriðjudagsmorgunn og rigning eins og venjulega. Samt er ég búinn að fara út og labba smávegis um. Engar fréttir hef ég haft að gosinu. Vona bara að því líði vel og það haldi áfram að vera þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)