2226 - Enska

Spyr vigtina að því á hverjum degi hve þungur ég sé. Þetta er gert útaf svokölluðu átaki sem ég er í og felst einkum í því að éta ekki brauð og drekka ógeðsdrykki af ýmsu tagi. Held að ekkert ógeðslegra sé samt í þeim en ýmisskonar grænmeti og gras. Vigtin á hinsvegar mjög erfitt með að ákveða sig með hvort ég sé 118,1 eða 118,5 kíló, léttklæddur mjög. Kemur ýmist með þær tölur eða einhverjar þar á milli sem tillögur. Ég lít a.m.k. ekki á þær sem annað. Ekki getur verið að ég sé mismunandi þungur eftir dögum.

Á eftir förum við væntanlega að Efstalandi, en þar skilst mér að Hörður hennar Ingu ætli að halda uppá áttræðisafmælið sitt. Afmælisgjafir vinsamlega afþakkaðar, en við systkinin ætlum samt að brjóta það. Erum núna búin að fara þangað og það eftirminnilegasta er fyrir mig að Tinna skuli hafa spurt þegar komið var að torfbænum þar sem víkingasalurinn var: „Eiga þau heima í þessu grashúsi?“, en fyrir aðra er það líklega þegar Gunnlaugur Bjarnason líkti Herði við hobbita.

Ekki veit ég hvar þetta með matarskattinn endar. Sennilega verður hann ekki 12% eins og frumvarpið segir. Ég á nefnilega alveg eins von á því að samið verði um svolítið minna. Þetta var pólitík dagsins en svo er ég að hugsa um að láta hana í friði eins og hvern annan geitung. Hún stingur mann samt óþyrmilega ef maður gætir sín ekki.

Um daginn fórum við hjónin á veitingahús. Ekki er það nú sérstaklega í frásögur færandi. Heldur ekki hvað við pöntuðum. Man það reyndar ekki lengur. Eitt vakti þó athygli mína. Þjónninn talaði ekkert nema ensku og skildi ekki nokkurn skapaðan hlut í íslensku. Bráðum verður það nauðsynlegt að kunna eitthvað fyrir sér í heimsmálunum flestum til að geta farið út í Bónus að versla. Kannski er ég bara svona svartsýnn og hugsanlega verður þetta aldrei þannig, en mér finnst það ansi hart að geta ekki notast við íslenskuna á Íslandi.

Fína orðalagið yfir að hanga á fésbókinni er að „skoða samfélagsmiðlana“ að öðru leyti er enginn munur á þessu tvennu og ég er ekki frá því að þessi tölvusiður sé að breiðast út. Menn eru allan liðlangan daginn „í tölvunni“ ef þeir mögulega geta. Ekki er ég barnanna bestur enda hef ég lítið annað við að vera þessa daganan en að hamast við að léttast. (Sem þó gengur illa.) Það er af sem áður var að gamalt fólk sem núumstundir er helst af öllu kallað „ellilífeyrisþegar“ staulaðist um við staf og óspart var gert grín að því. Nú orðið eru allir því nokkuð góðir því þeir eiga sjálfir eftir að lenda í þessu. Reynt er þó að hafa það sem minnst fyrir og því er gjarnan komið fyrir á sérhæfðar stofnanir.

Ef sektin sem Mjólkusamsölunni er ætlað að greiða á að vera eitthvað í áttina við að vera í samræmi við það, sem hún hefur stolið frá okkur gegnum árin væri nær að hafa hana a.m.k. 370 milljarða, en skitnar 370 milljónir. Erfitt getur reynst að reikna þetta út, en lengi hefur verið stolið af okkur og verður áreiðanlega lengi enn.

IMG 1634Allsstaðar má búast við svona villidýrum.

IMG 1652Ármót Sogsins og Hvítár, Ölfusá til hægri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband