2223 - Hanna Birna einu sinni enn

Já, bráðum er vika síðan ég bloggaði síðast. Kannski er ég hættur. Þó ekki alveg. Hann sneri undan sér og braus. Einu sinni höfðum við skólafélagarnir mjög gaman af alls kyns útúrsnúningi. Þetta er t.d. úrúrsnúningur á setningunni: “Hann sneri sér undan og brosti.“ Einn er sá rithöfundur sem ég sé að hefur mjög gaman af svona löguðu, en það er Hallgrímur Helgason. Tilbúin orð hjá honum eru legíó og eiga sér einatt upphaf í því öðru sem skrifað er. Það er listin. Verð að láta þetta eina dæmi duga núna, því mér dettur ekkert annað í hug. Bloggskrif eru B-skrif.

Bjarni Ben. treystir á það að allir gleymi Hönnu Birnu og það fari sem fyrst að gjósa í Bárðarbungu. Það getur reyndar dregist í mörg ár. Hanna Birna þyrfti hinsvegar að fara frá sem allra fyrst. Píratar munu flytja vantrauststillögu á endanum. Skil ekki af hverju þeir eru að bíða með það. Ekki batnar málið við geymslu. Eina marktæka skýringin er sú að þeir séu að hugsa um að hætta við, en því trúi ég ekki.

Nú er ég búinn að fá síma sem hægt er að tengja við netið hvenær sem er og mæla auk þess allan fjandann. Fékk hann í afmælisgjöf og auðvitað er hann með myndavél. Skárra væri það nú. Sendir myndirnar beint á tölvuna mína en sennilega væri hægt að láta hann hætta því. Ætla að læra á hann smátt og smátt, en það virðist vera heilmargt hægt að gera við hann. Og öll öppin, maður.

Sé að ég hef áðan sagt að bloggskrif væru B-skrif. Það er alveg rétt. Dagbókarskrif sem skrifuð eru í belg og biðu og ekkert lesin yfir eru þá C-skrif. Þau stunda ég einnig. Ætti kannski ekki alveg að sleppa A-skrifunum. Einu sinni gerði ég svolítið af því að skrifa þannig og hélt jafnvel að ég gæti orðið skáld eða rithöfundur. Læknaðist af því og einbeiti mér núna að bloggskrifum. Kannski það séu mín A-skrif. Eiginlega er það það eina sem ég get. Rabbstílinn Sæmundar kann ég. Í því slær mig enginn út. Svo get ég líka látið suma halda að ég sé sæmilegur ljósmyndari með því að láta alltaf ca. tvær myndir fylgja hverju bloggi. Auðvitað gæti ég það þó ég Moggabloggaði ekki. En það er svo fjári þægilegt og vesenislaust að gera það hér að ég get ekki hætt.

Nú er þetta að verða heil blaðsíða, án þess að ég hafi sagt nokkuð og þessvegna væri kannski bara réttast að senda þetta út í eterinn. Á morgun er víst miðvikudagur og ég ætla að reyna að blogga fyrir eða um næstu helgi.

Skoðanakannanir benda raunverulega til þess að Skotar kjósi sér sjálfstæði á fimmtudaginn kemur. Ýmsu mun það breyta. Aðallinn í London gerði alls ekki ráð fyrir því. Breska stjórnin, ESB og ýmsir aðrir munu lenda í miklum vandræðum. Fjármagnsaðallinn hér á landi mun hinsvegar standa þetta af sér. Gott ef hann verður ekki sterkari á eftir. Það vill nefnilega svo til að hann hatar ESB. Heldur jafnvel að það sé hinn nýji kommúnismi.

IMG 1617Blóm.

IMG 1608Steinn og háskóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert frábær.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.9.2014 kl. 00:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ásthildur.

Sæmundur Bjarnason, 17.9.2014 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband