2227 - Rabb

Með því að láta fólk klikka á allan fjandann, aðallega krúttlegar barna- og kattamyndir er hægt að láta það halda að það sé þátttakandi í ýmsu. Láta það fletta fram og aftur í allskyns myndasöfnum og one-liners og vera sífellt að breyta öllum fjáranum bara breytinganna vegna  og selja svo auglýsendum heimilisföng og símanúmer á uppsprengdu verði til að borga þeim laun sem fyrir breytingunum standa og gera bókstaflega allt til að fjölga notendum sem allra mest, er hægt að reka samfélagsvef. Fésbókin er þar fremst í flokki eins og stendur en verður það kannski ekki lengi. En þó maður finni út hvernig fésbókin starfar öfundar maður hana samt. Hún er ómissandi. Ávanabindandi tímaeyðsla, en allsekki svo vitlaus. Satt að segja hef ég komist að því að það er líf fyrir utan hana. Með miklu átaki er hægt að losa tak hennar á sér. Maður veit samt alltaf að hún er þarna og bíður eftir manni. Lýgur öllum fjandanum að manni og lætur manni finnast maður mun merkilegri en maður í rauninni er. Já, það má margt um fésbókina segja. Leiðinleg er hún samt ekki. Endurnýjar sig í sífellu. Hefur nóg pláss fyrir alla og gerir ekki upp á milli manna.

Einu sinni höfðum við mjög gaman af því að snúa útúr öllu sem vinsælt var. Minnist þess t.d. að við vinsælt lag sungum við alltaf: „Í vor kom ég sunnar/ með sólskin í nýra/ og þambaði að leiðinni/ hálfflösku af spíra“. Um sætsúpuna köldu sungum við alltaf í fjöldasöngnum í skólanum. Einhver texti var líka svona: Hvað er svo glatt sem góðtemplara fundur/ er gleðin skín á hverri mellubrá./ Eins og á vori er hittast tík og hundur/ og hanga saman kynfærunum á. Eflaust gæti ég rifjað um meira af svona meiningarleysu ef ég legði mig fram. Nenni því samt ekki. Hversvegna er ég þá að tíunda þetta hér. Veit það svosem ekki, en eitthvað verð ég að skrifa.

Á margan hátt er ástandið í Mið-Austurlöndum einn allsherjar rembihnútur. Hatur á Bandaríkjastjórn sameinar þó mörg öfl á svæðinu. Samband Ísraels og Bandaríkjanna hlýtur að vera lykillinn að friði á þessu svæði og hugsanlega heimsfriði. Öfgatrúaðir islamistar sameina margar ríkisstjórnir um þessar mundir í andstöðu við sig, en ekki er víst að það bræðralag standi lengi. Hið svokallaða Alþjóðlega samfélag og Sameinuðu Þjóðirnar hafa lítil áhrif þarna. Besservisserar á Vesturlöndum enn minni og almenningur er alls ekki spurður um sitt álit. Lýðræðishefð er engin og svæðið morar í einræðisherrum. Allir hópar hafa sínar prívatlausnir og skortir algjörlega hæfileikann til að setja sig í spor annarra hópa. Sumir láta eins og söguleg og trúarleg rök séu alveg jafngild þeim praktísku en svo er alls ekki. Það er núna sem verið er að drepa fólk þarna og því verður að linna.

Í grunninn er hægt að segja að um okkur sem eigum afkomendur á lífi sé einkum um tvö hlutverk að ræða. Númer eitt er að aðstoða börnin okkar á allan þann hátt sem okkur er mögulegur í lífinu. Hitt hlutverkið er að stytta okkur sjálfum stundirnar sem mest og auka fremd okkar ef mögulegt er. Einnig að gera þær sem ánægjulegastar. Að sjálfsögðu þó án þess að það bitni á okkar nánustu. Vissulega veit ég að þetta getur oft verið vandasamt og leitt til misskilnings sem í fyrstu virðist furðulegur en þarf alls ekki að vera það. Sjálfur hef ég löngum reynt að láta númer eitt ráða lífi mínu í seinni tíð. Ekki er það þó alltaf einfalt. Hlutirnir eru alls ekki nærri alltaf eins og þeir sýnast. Það sem við fyrstu sýn virðist vera dæmigert fyrir hlutverk númer 2 er það kannski alls ekki o.s.frv.

Hef stundum velt því fyrir mér hvernig dauðadæmdum föngum líði, sem fá að vita væntanlega dauðastund sína. Skyldu þeir ekki bara flýta sér í afneitun og trúa því að það hljóti að vera hægt að redda málunum? Það finnst mér að hljóti að vera. Þ.e.a.s. ef þeir eru bara ekki búnir að gefast upp og sætta sig við að enda lífið. Sumir bíða væntanlega eftir því að losna og gera ráð fyrir konunglegum móttökum hinum megin. Ef maður veltir slíku fyrir sér og setur sjálfan sig í þeirra stöðu hlýtur trúin um handanheiminn að koma í ljós. Er það ekki hún sem er grunnurinn að flestum trúarbrögðum? Það hefur mér fundist. Vil samt ekki efna til einhverskonar heimspekilegra- eða trúarbragðatengdra deilna hér á blogginu. Finn mig líka á flestan hátt vanbúinn til slíks.

IMG 1654Ölfus og Grímsnes. Sogið á milli.

IMG 1655Hér hefur bíll farið um. Sennilega í leyfisleysi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband