Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
30.5.2014 | 00:29
2177 - Vitaskuld
Baggalútur talar um mannætumúslima og vissulega er það ein leið til að skrifa sig frá þessum ósköpum að gera bara grín að öllu saman. Gallinn er sá að kosningar eru dauðans alvara. Auðvitað eru það samt margir sem vilja standa fyrir utan og ofan við þetta allt saman. Leyfa þeim sem þykjast vera voða gáfaðir að heimska sig sem mest. Gamalmennum eins og mér gerir það samt ekkert til. Gáfurnar eru löngu hættar að aukast. Þeir sem fjálglegast skrifa um komandi kosningar er samt sumum hverjum a.m.k. vorkunn því þeir virðast halda, að því fleiri stóryrðum og blótsyrðum sem þeim tekst að tvinna saman, þeim mun betri verði þeirra samsetningur. Með slíku háttalagi nálgast þeir bara sífellt þann stimpil sem áhrifaríkastur er og verstur um þessar mundir. Þ.e. þeir eiga það á hættu að verða kallaðir virkir í athugasemdum.
Þar tekst fésbókinni best upp sem minnst alvara fylgir skrifunum. Þetta hefur mér lengi verið ljóst. Þessvegna er mér svona uppsigað við hana. Ég er nefnilega alltaf svo alvarlegur. Sumir mundu vilja segja fúll, eða jafnvel Fúll á móti, en halda kannski að ég verði ennþá fúlari (fúlli) við það. Konan mín er að búa sig undir að hafa málverkasýningu í vitanum á Akranesi í júní næstkomandi. Um það má margt segja. Hálfvitalegt er það ekki. Enda er þetta heilviti. Vitaskuld væri vitlegra að hafa hana ekki í vita. Baggalútsmenn gætu jafnvel búið til einhvern fyndinn texta um þetta. Það get ég ekki. Því ég er svo ófyndinn og alvarlegur.
Af einhverjum undarlegum ástæðum las ég í morgun úr dagbók Björns Bjarnasonar eitthvað sem hann hafði sett á netið. Þar sá ég eftirfarandi:
Önnur hvít tófa sást hér í nágrenninu snemma í morgun og kunnugir segja að tófur sjáist víða þar sem þær hafi ekki verið áður. Það er greinilega nauðsynlegt að grípa til harðra gagnaðgerða. Að minnsta kosti eitt höfuðlaust lamb hefur fundist.
Mér finnst þetta undarlegt orðalag og sýna vel hve nauðsynlegt það er að gæta að hugsunarhætti mögulegs lesanda. Auðvitað hefur Björn ekki ruglast á hvítri tófu og höfuðlausu lambi. Það er samt örugglega það sem einhverjum hefur dottið í hug. (Varla er ég alveg einstakur.) Björn gerir ráð fyrir því að allir hugsanlegir lesendur reikni með að tófan hafi bitið hausinn af lambinu. Það er þó ekkert víst. Kannski er þetta bara lævíslegur andtófuáróður.
Kosningarnar um næstu helgi gætu orðið svolítið áhugaverðar. Kannski má þakka framsóknarmönnum það. Sennilega verða þær þó hundleiðinlegar. Það er að segja svona almennt. Eins og vant er geta þó líklega allir fundið eitthvað jákvætt í sambandi við þær til að gleðjast yfir. Kannski verður samt minnst ástæða fyrir þá til að gleðjast sem eru það jákvæðir í okkar garð að vilja flytjast hingað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2014 | 00:13
2176 - Drónar
Um daginn sá ég það tekið sem dæmi um nasískar rætur Útlendingastofnunar Íslands að Agnar Kofoed-Hansen hefði farið til Þýskalands nasismans skömmu fyrir heimssyrjöldina síðari og gefið var í skyn að hann hafi átt einhvern þátt í stofnun útlendingastofnunar, sem ég held að hafi verið stofnuð árið 2002.
Man ekki hver það var sem skrifaði bók sem heitir Lögreglustjóri á stríðstímum, eða eitthvað þessháttar. Þessa bók las ég skömmu eftir að hún kom út. Hún er um Agnar og ég held að það sé alveg rétt að hann hafi að undirlagi Hermann Jónassonar, þáverandi forsætisráðherra, farið á einhverskonar námskeið til Þýskalands skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari. En Agnar lét af störfum árið 1947 og lést árið 1982. (Fæddur 1908, ef ég man rétt.)
Þessvegna finnst mér það óneitanlega nokkuð langt seilst ef kenna á honum um hvernig útlendingastofnun starfar í dag. Reyndar finnst mér hún ekki starfa með neinum glæsibrag, en það er önnur saga.
Drónar. Hvað eru drónar? Að mínum skilningi eru það hverslags flygildi sem gerð eru af manna höndum og geta flogið flugmannslaus. Það sem hingað til hefur verið kallað fjarstýrðar flugvélar er kannski réttara að kalla dróna. Drónar eru ekki bara hernaðartæki þó einna mest fari fyrir þeim á þeim vettvangi. Þar er einfaldlega um stórar og miklar flugvélar að ræða sem geta bæði flogið langar leiðir og tekið með sér fjölda af mannskæðum sprengjum. Þó slíkir drónar sé einkum hannaðir til að drepa er vel hægt að ímynda sér friðsamlega notkun dróna. Gera má ráð fyrir að áður en mjög langt um líður verði drónar algegnir til hvers kyns vöruflutninga.
Amazon, Google og fleiri stórfyrirtæki ætla bráðlega að fara að dreifa vörum sínum með drónum. Sem betur fer verður það víst einkum í Bandaríkjunum og við getum væntanlega fylgst með því hvernig það gengur. Drónar geta kannski rekist á flugvélar eða hver á annan. Hvað veit ég.
Myndavéladrónar eru að verða algengir. Þeir geta komist á staði sem engir aðrir komast á. Man ekki betur en ég hafi séð einskonar dróna á síðasta mótmælafundi sem ég mætti á á Austurvelli. Líklega hefur ætlunin verið að geta talið fundargesti sem nákvæmlegast. Myndavéladrónar eru gjarnan með fjórar skrúfur eins og þyrlur umhverfis myndavélina. Með því að hafa tvo slíka spaða næstum því saman og láta þá snúast í sitt hvora áttina held ég að koma megi í veg fyrir að flygildið snúist mikið sjálft.
Ég reyni eins og ég get að forðast að ræða um kosningarnar um næstu helgi, en það er erfitt. Öll mál er hægt að gera pólitísk. Undarlegt þykir mér hve margir missa sig þessa dagana og gerast miklu stórorðari en tilefni er til. Þegar trúmál og pólitík blandast saman er ávallt hætt á þessu. Það er svo margt skrifað um þessar kosningar að vel ætti að vera hægt að komast hjá því að láta ljós sitt skína um það málefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2014 | 14:50
2175 - Mýs geta bitið líka
Ég er þeirrar skoðunar að rasista-spilinu hafi verið spilað út viljandi af forystu framsóknarflokksins. Kannski hefur ekki átt að gera það nákvæmlega eins og reyndin varð og kannski var tímasetningin röng. Líka er vel hugsanlegt að þetta hafi verið nákvæmlega útreiknaður tími. Ein vika er langur tími í pólitík.
Hluta af þessu dreifði ég á fésbókarveggnum mínum. Fésbókin er reyndar alltaf að valda mér meiri og meiri furðu. Reyni oft að fjölga þeim eða fækka sem ég fæ tilkynningar frá. Erfitt er samt að stjórna þessu og hæfilegur fjöldi er breytilegur. Vil þó endilega fá hæfilegt magn af tilkynningum. Fullmikið verður það stundum.
Kosningar nálgast og þá verða oft bæði bloggin og ýmislegt annað ólesandi. Eiginlega er mjög skiljanlegt að fólk forðist þann hanaslag. Þó er þetta langmikilvægasta málefnið sem hægt er að fjalla um og í raun og vera hafa allir áhuga á pólitískum málum hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki. Öll mál geta líka sem best verið pólitísk, kæri menn sig um það. Oft er þó hægt að ná samkomulagi ef það er mönnum nógu ofarlega í huga.
Ein aðalfrétt síðustu viku sem áreiðanlega hefur ekki farið framhjá neinum fjallaði um það að rotta hefði bitið dreng. Hinni æslegu viðureign milli þeirra var fjálglega lýst í flestum miðlum. Allt sem er óvenjulegt verður að frétt. Þetta er runnið mér í merg og blóð. Þetta er svipað og þegar Karl Garðarsson, sem þá var fréttamaður, hljóp upp á milli handa og fóta þegar hann sá minkayrðling. En því minntist ég á þetta hér að heima í Hveragerði eltumst við eitt sinn við mús og tókst að króa hana af. Systir mín vildi vera góð við músarskinnið og klappa henni en þá beit hún hana. Það með féll hún í ónáð og kallað var á köttinn.
Mér finnst ekki rétt að láta baráttuna fyrir kosningarnar um næstu helgi snúast bara um trúarbrögð og innflytjendur. Einhverjir vilja það helst og slá um sig með tölum af öllu tagi og einstökum atburðum. Mér leiðast tölur. Með þeim má sanna allan fjandann. Fyrst og fremst þó það sem greinarhöfundur vill sanna. Eftirtektarverðast varðandi innflyjendur finnst mér þó að í hugum margra eru einkenni þau sem best eru þegar rætt er um Íslendinga í Vesturheimi allt í einu orðin þau verstu þegar rætt er um múslima á Norðurlöndum. Skil þetta ekki.
Gróskumikil tré.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2014 | 13:21
2174 - Kosningar
Já, mér datt það í hug. Ekki var ég fyrr búinn að setja síðasta bloggið mitt upp á Moggabloggið sjálft en ég sá frétt um það að Menntaskólinn Hraðbraut væri kominn af stað aftur og það undir stjórn sama manns. Hafi menn efast um að núverandi ríkisstjórn væri önnum kafin við að efna í næsta Hrun, þá þarf þess ekki lengur. Með Menntaskólanum Hraðbraut var á ýmsan hátt toppnum náð í einkavinavæðingunni og undirbúningi síðasta Hruns. Um þetta er óþarfi fyrir mig að fjölyrða. Nóg er að lesa mbl.is greinina. Að vísu segir í henni að menntamálaráðherra hafi ekki viljað styrkja framtakið alveg strax, en sé hlynntur því samt. Peningarnir koma eflaust fljótlega og þá frá ríkinu. Óþarfi að efast um slíkt.
Sennilega er helsti gallinn við þessa bloggsótt mína hvað ég blogga óreglulega. Ég var að líta á bloggið mitt áðan og sá að ég hef, eftir dagatalinu að dæma, bloggað flesta daga í maí, en þó ekki alla og aldrei á laugardögum. Kannski ég prófi það.
Er fólk fífl? Það finnst mér vera pólitískasta spurning sem ég veit um. Hroki er það sem setur allt á annan endann. Það að vera sannfærður um að sín eigin skoðun hljóti að vera sú eina rétta er það sem fer verst með friðinn, jafnvel heimsfriðinn. Að vera alltaf tilbúinn til að semja um allt mögulegt er líka stórhættulegt. Þó held ég að það fyrra sé verra. En það er bara mín skoðun. Hroka má nefna mörgum nöfnum. Allir eru uppfullir af einhverskonar hroka. Ég þykist til dæmis vera snjallari en margir aðrir við að koma hugsunum mínum í orð í rituðu máli. Auðvitað er það hroki. Undanlátssemi getur líka verið hættuleg. Ef maður álítur ekki sjálfur að maður sé betri en aðrir, af hverju ættu aðrir þá að gera það? Í þessu hætti ég mér ekki lengra að sinni.
Nú þykir mér vera óhætt að gera ráð fyrir að skoðanakannanir sýni nokkuð vel líkleg úrslit í sveitarstjórnarkosningunum eftir viku. Greinilegt er að ríkisstjórnarflokkarnir gjalda talsvert afhroð. Hvort það er einsog við mátti búast verður eflaust rifist um. Samfylkingin minnkar í heildina talsvert einnig. Einu flokkarnir sem virðast ætla að græða verulega eru Píratar og Björt Framtíð. Í heildina finnst mér að vinstri sjónarmið vinni talsvert á. Það sem er mest spennandi varðandi kosningarnar í heild finnst mér vera hvort kjörsókn aukist eða minnki. Undanfarið hefur hún farið minnkandi en mér finnst stjórnmálaáhugi almennings samt fara vaxandi.
Sjálfur geri ég ráð fyrir að kjósa Pírata einsog í alþingiskosningunum í fyrra. Þar hefur langloka Margrétar Tryggvadóttur um Píratana hér í Kópavogi ekki úrslitaáhrif. Nýir flokkar lenda ævinlega í einhverjum hremmingum. Ekki er að sjá að Dögun sé neinsstaðar að gera það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2014 | 23:26
2173 - Eiríkur Jónsson skrifaði einu sinni bók um Davíð Oddsson
Þó maður sé gamall þá er svo margt sem maður getur alveg gert og ætti eiginlega að gera. Nenni því samt ómögulega. Það er svo rosalega þægilegt að sitja bara fyrir framan tölvuna og láta hana mata sig. Gera í mesta lagi það sem manni dettur í hug. Fyrir þetta fær maður ellilaun (sem eru að vísu skorin við nögl. (Gott ef ekki margar neglur.).). Sko, nú veitti mér ekki af tveimur svigum, en kannski var ég fullörlátur á punktana. Hvað var ég aftur að tala um? Já, eftirlaunin og það kraðak allt saman. Ekki er ákaflega skemmtilegt að stúdera þann samsetning. En ef menn eru ekki nánast sérfræðingar í þeim málum mega þeir svo sannarlega búast við að svindlað verði á sér.
Hvað pólitík snertir þá er ég undrandi á niðurlægingu sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Doddson og Palli vilja meina að ESB skipti höfuðmáli þar. Svo getur ómögulega verið. Að láta ESB, flugvöllinn og þess háttar skipta mestu máli á sér enga stoð í veruleikanum. Það er verið að kjósa um alltannað. Ef sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná sér að einhverju leyti í höfuðborginni er að verða aðkallandi fyrir hann að losna við ritstjórann í Hádegismóum. En líklega verður bara Bjarna Ben fórnað. Ef flokkurinn fær ekki nema þrjá fulltrúa eða færri kjörna í Reykjavík má búast við hverju sem er úr Valhöll.
Ég hef bara eina fésbókarsíðu og finnst það kappnóg. Sumir hafa margar síður þar og eiginlega er fésbókarræfillinn, þó þarfur sé til margra hluta, orðinn svo flókinn að erfitt er að skilja hann fyrir fólk á mínum aldri. Líka hef ég bara eina síðu á Moggablogginu og svo íhaldssamur er ég, að þó Doddson yrði ritstjóri þar þá hætti ég ekki. Er ég þó svo vinstrisinnaður að til vandræða horfir. Styð jafnvel inngöngu í ESB og er þá langt til jafnað. Upphaflega hélt ég þó að það benti til íhaldssamrar afstöðu, en svo fór rembingurinn að hafa aukin áhrif og allt breyttist.
Það er alltaf svolítið gaman að fésbókarblaðinu hans Eiríks Jónssonar. (Var hann ekki rekinn af Fréttablaðinu?) Ekki eru allar fréttir þar stórmerkilegar, en samt er oft fróðlegt að fylgjast með honum. Ef einhver kjaftasagan hans verður svo seinna meir að frétt á alvörufjölmiðli þá verður það sjálfstæð frétt hjá Eiríki. O.s.frv og o.s.frv. Bíð bara eftir að hann fari að skrifa um Ásgautsstaðamálið!!
Þegar ég tók við sem útibússtjóri að Vegamótum á Snæfellsnesi árið 1970 komst ég fljótlega að því að fyrirrennari minn hafði krafist þess af afgreiðslustúlkunum í veitingahúsinu að þær væru í nylonsokkum eða sokkabuxum við einkennissloppana sem þeim var gert að klæðast. Ég breytti þessu og sagðist ekki skipta mér á nokkurn hátt af því hverju þær klæddust undir sloppunum, en í þeim yrðu þær að vera, því það væri eina leiðin til að þekkja þær frá viðskiptavinunum. Þær fóru allar með það sama, minnir mig, að vera í síðbuxum innanundir sloppunum. Datt þetta í hug áðan, þegar ég las einhverja vitleysu um Gunnar í Krossinum og stutt eða síð pils.
Nú er klukkan farin að ganga tólf og af því að ég veit að margir vaka fram yfir miðnætti þá er ég að hugsa um að setja nýjustu skrifin mín á Moggabloggið per samstundis þó ég sé ekki búinn að melta það eins og kannski væri réttast. Og svo á ég eftir að semja fyrirsögnina. Geri það alltaf síðast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2014 | 09:53
2172 - 10. maí
Kynslóðirnar koma og fara
kynstur lítil erum við.
Tuldri hinna seint þær svara,
svona reynist almættið.
Ekki get ég mikið að því gert þó einhver vísukorn læðist að mér í morgunsárið. Þessi er síðan í morgun og ég hef svosem engu við hana að bæta. Svona er þetta bara.
Um daginn var ég á einskonar fundi hjá Þórhalli Hróðmars í Hveragerði. Þar slöngvaði Siggi Hermanns fram skoðun sem aðrir fundarmenn höfðu ekki velt mikið fyrir sér:
SH: Eiginlega ættum við ekki að hafa 17. júní fyrir þjóðhátíðardag heldur 10. maí.
(AF = Aðrir fundarmenn.) ??
SH: Já, það er langtum merkilegri dagur.
AF: Af hverju segirðu það?
SH: Þann dag var okkur Íslendingum hent inn í framtíðina úr miðaldamyrkrinu sem hafði umlukið okkur í margar aldir.
AF: Ha.
SH: Já, ég er að tala um 10. maí 1940.
AF: Já, einmitt. Það var þá sem Ísland var hernumið af breska hernum.
SH: Það má segja að allt hafi breyst þann dag. Við hættum að vera einangraðir og smáir og fórum allt í einu að skipta máli. Það eru áreiðanlega fáar þjóðir sem geta bent á jafn gagngera breytingu á þjóðlífinu á ákveðnum degi.
Við ræddum þetta ekki mikið, en auðvitað er ekki hægt annað en samsinna þessu. A.m.k. að vissu marki. Ekki er nokkur leið að neita því að 10. maí 1940 sé dagsetning sem skipti okkur Íslendinga verulega miklu máli. Allar aðrar dagsetningar blikna í samanburðinum. Fæðingardagar skipta í rauninni almenning engu máli. Bara þann sem fyrir því verður að fæðast þann dag og í hæsta lagi foreldra hans og systkini.
Samt sem áður er það svo að núna í sumar, þann 17. júní verða liðin 70 ár frá því að við Íslendingar stofnuðum lýðveldi á Þingvöllum. Þann rigningardag hættum við Íslendingar að vera uppá Dani komnir og bundum trúss okkar við hinn mikla sigurvegara úr heimsstyrjöldinni síðari. Svo yfirgaf hann okkur og allt fór í hund og kött. En það er önnur saga.
Millistéttarvælið hans Sigurðar Hólm hefur sannarlega vakið athygli. Ég sá þessa grein seint í gærkvöldi og það fórst alveg fyrir hjá mér að setja fésbókarlæk á hana þó hún hafi vissulega átt það skilið. Annars eru fésbókarlækin alveg sér kapítuli og framsóknarflokkurinn auðvitað líka. Allt bendir til að honum (flokknum altsvo) verði alveg úthýst hér í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Flugvöllur eða ekki flugvöllur á ekki að skipta máli þar. Ef hann á að skipta höfuðmáli í lífi og dauða flokks þá eru alþingiskosningar réttari vettvangur.
Já, það er erfitt að hemja sig, þegar skrifæðið rennur á mann. Minnir að ég hafi sett eitthvað upp á bloggið mitt seint í gærkvöldi. Í morgun vaknaði ég svo frekar snemma og það var eins og við manninn mælt, ég þurfti endilega að skrifa eitthvað og til þess að losna við það úr systeminu er ég að hugsa um að setja það strax upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2014 | 00:19
2171 - Það er þetta með Árborg
Sennilega blogga ég alltof mikið og alltof oft. Get bara ekki að mér gert. Verstur er ég yfirleitt á morgnana. Og ég á áberandi erfitt með að stroka út. Ef ég hef einhverntíma skrifað eitthvað sem mér finnst í lagi að láta flakka á ég oftast mjög erfitt með að senda það ekki frá mér. Auðvitað er þetta bæði kostur og ókostur. Vandmeðfarinn jafnvel. Reyni samt að gera mitt besta. Það sem mér finnst einna mesti kosturinn við þessi skrif mín er hve fjölbreytt þau eru. Kannski eru þau of fjölbreytt og ósamstæð fyrir þann sem les, en ég geri þetta nú fyrst og fremst fyrir sjálfan mig hvort eð er, svo það skiptir litlu máli. Jæja, nú ætla ég að reyna að láta sjálfskoðuninni (-hælninni) lokið að þessu sinni.
Já, það er vandlifað á Selfossi. Kvenfólkið þar (a.m.k. sumt) virðist þannig innréttað að ekki megi horfa á það, nema kannski á einhvern vissan hátt. Að þessari niðurstöðu komst ég (alveg hjálparlaust) eftir að hafa lesið enn eina æsifregnina í DV-inu. Þar með er ég langt kominn með að tilheyra þeim þjóðfélagshópi sem kallaður er virkur í athugasemdum. Passaði mig samt á að gera ekki athugasemd við fréttina. Læt þessa blogg-grein duga.
Merkilegt hvað mér finnst landslags ljósmyndir alltaf lélegar ef aðrir en ég hafa tekið þær. Skyldi það vera vegna þess að mínum myndum fylgja alltaf einhverjar minningar? Kannski hafa þær bara áhrif á mig. Er líka alveg hissa á hve margir virðast hrifnir af myndum sem augljóslega eru búnar til í fótósjopp-forritum. Samt er það svo, að alls ekki er sama hvernig myndir eru kroppaðar (skornar til) eða litunum breytt. Hver skyldi annars horfa á allar þær símamyndir og vídeó sem verða til þessa dagana?
Í pólitíkinni er það merkilegast að ekkert bólar á svokallaðri reiknivél ennþá. Fólk átti semsagt fyrirhafnarlítið að geta reiknað út hlut sinn í leiðréttingunni svokölluðu. (Herfanginu frá hrægömmunum.) Minnir endilega að hún hafi átt að geta komið strax. Nú virðist öruggara að hún komi ekki fyrr en í haust. Óþarfi er að trufla fólk við svo ópólitískan gjörning sem atkvæðagreiðslu í sveitarstjórnarkosningum er. Auk þess getur verið að hrægammarnir verði eitthvað óánægðir með upphæðina.
Kaldastríðsþjóðremba ESB-andstæðinga núna er næstum alveg eins og kommaáróðurinn gegn ameríska hernum og veru hans í landinu á sínum tíma. Auðvitað töpuðu gegnherílandarnir á endanum en þó var því máli aldrei leyft að fara í þjóðaratkvæði á neinn hátt. Helst átti ekki að minnast á svo heitt mál í kosningaundirbúningi.
Það eina góða sem um Sigmund Davíð má segja er hann virðist alls ekki hafa mótaðar hugmyndir eða skoðanir í ESB-málum. Bjarni Ben. er nú einfaldlega einslags laumukommi í því máli vegna þess að hann er í hjarta sínu fylgjandi aðild að ESB. Hann stendur þó ekki nærri nógu mikið uppi í hárinu á frekjunni SDG að öðru leyti.
Nú er Ásgautsstaðamálið loksins komið í dévaffið. Auðvitað gerðist það nokkurnvegin jafnskjótt og ég hætti að blogga um það. Spá mín er sú að það sofni þar hægt og rólega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2014 | 09:29
2170 - Lengi tekur sjórinn við
Margt bendir til þess að ESB-málið sé það sem mestu máli skiptir í kosningabaráttunni. Ekki bara núna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, heldur alla tíð. Óskiljanlegt er að núverandi ríkisstjórn skuli ekki hafa sett það mál á oddinn strax. Líklega verður það með tímanum hennar banabiti. Andstæðingar aðildar voru langt komnir með að telja fólki trú um að samningaviðræðurnar væru með öllu tilgangslausar. Fyrirséð væri hvernig þeim mundi ljúka og ekki væri hægt að fá að kíkja í neinn pakka. Einhverra hluta vegna hefur fólk ekki meðtekið þessi sannindi. Kannski er þetta ekki hundrað prósent rétt. Það er kannski hægt að fá að kíkja í einhvern pakka og hrista svo hausinn. Ýmislegt bendir til að það sé einmitt það sem þjóðin vill. Sjálfir Norðmenn gáfu það fordæmi.
Kosningalega séð virðist þetta vor ætla að verða spennandi mjög. Hér á Íslandi verða sveitarstjórnarkosningar í lok maí. Yfirvofandi eru einnig að því er mér skilst Evrópuþingskosningar og þeir öfgaflokkar sem á móti aðild eru ætla sér stóra hluti. Auðvelt er að gagnrýna svo stórt battery sem Evrópusambandið er og kostir þess eru alls ekki augljósir. Kosningar eiga einnig að fara fram í Úkraínu 25. maí og kostir EU eru þar kannski ljósari þeim sem fjærst standa öfgaflokkum hverskonar, en öðrum.
Þó alþingi sé lokið er tvennt sem hugsanlega stendur útaf. Í fyrsta lagi er ekki útséð um það hvort uppboð á húsum einkaaðila hefjist aftur þann 1. september n.k.. Í gildi held ég að séu lög sem fresta slíkum látum, ef menn telja sig eiga að njóta góðs af heimsmeti SDG. Í öðru lagi held ég að sú ríkisstjórn sem nú situr láti sér hugsanlega til hugar koma að setja einhverskonar bráðabirgðalög til að binda formlegan enda á aðildarviðræðurnar við ESB. Geri þeir það verður allt vitlaust hér og ómögulegt er að spá um hvað gerast kann.
Steypibað er freyðibað andskotans.
Kerlaug er næstum það sama og heitur pottur.
Auðvitað má draga samræðurnar og augnakonfektið frá.
Samræðurnar eru oft ósköp andlausar.
Augnakonfektið miklu síður.
Vatn er okkur mannfólkinu mun eðlilegra en loftið.
Auðvitað dreifist mengun öðruvísi í vatni.
Allskyns gruggi og ryki erum við ofurseld á jörðu niðri.
Sumt af því leysist upp í vatni.
Sumt sjáum við alls ekki.
Allt fer það samt ofan í okkur, ef því sýnist.
Nú er bara um að gera að njóta sumarsins.
Kannski verður það stutt, eins og í fyrra.
Kannski verður það svo gott að utanferðir borga sig ekki.
Með öllu því veseni sem þeim fylgir.
Það er jafnvel hugsanlegt að ekki hafi allir efni á þeim.
Óraunhæft er þó að bíða.
Eldri kynslóðin skilur ekki fyrirganginn í þeirri yngri.
Þau gömlu á grafarbakkanum ættu þó að flýta sér.
Heimurinn er sífellt að batna.
Fréttir af vesöld hans eru þó stöðugar. Og verða það.
Vinstra sinnað fólk skrifar meira og miklu betur, en hægra sinnað. Öfgasinnar skrifa oft mest og best, en vilja samt ekki viðurkenna að þeir séu öfgasinnar. Sumt fólk les bara en skrifar ekki. Enn aðrir gera hvorugt. Skoða í mesta lagi myndir. Spurning spurninganna er hvort fólk sé fávitar. Eða að minnsta kosti í stjórnmálalegum skilningi. Ef SDG tekst að selja þessa hugmynd sína um forsendubrest og leiðréttingu og ná viðunandi árangri í komandi sveitarstjórnarkosningum, er enginn vafi á því að hann er snjall stjórnmálamaður. Líklega Davíð Oddsson endurborinn. Hann (Davíð) er reyndar farinn að skaða þann flokk sem hann einu sinni leiddi og gat fengið til að tína brauðmola úr lófa sínum. Sama gerði Hriflu-Jónas á sínum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2014 | 07:41
2169 - Ég vaknaði bara svona snemma
Ég vaknaði bara svona snemma þó sunnudagur sé. Sé að ég hef verið búinn að pikka eitthvað á tölvuna áður en ég fór að sofa í gærkvöldi. Get ekkert gert að því. (Tvöföld merking.) Best að láta það flakka áður en ég fer eitthvað að breyta því og ímynda mér að ég sé að bæta það.
Hrunið sem hér varð árið 2008 fór alveg bölvanlega með okkur. Alþingi, aldrei slíku vant, skipaði rannsóknarnefnd sem skilaði í fyllingu tímans skýrslu um málið sem öllum kom saman um að væri mjög góð. Í framhaldi af því var ákveðið að hafa hana að engu. Siðan hefur allt gengið á afturfótunum og það alþingi sem nú situr er síst betra en þau fyrri. 63 vitleysingar sem hver og eitt trúir því að sitt sjónarmið sé það eina rétta. Eiginlega er það bölvun okkar Íslendinga að þetta svokallaða alþingi skuli ráða svona miklu. Ný stjórnarskrá sem leiðréttir stærstu vitleysurnar í þeirri gömlu kemst örugglega aldrei á. Einveldi eða ég tala nú ekki um raunverulegt lýðræði væri sennilega miklu betra fyrir okkur, en þessi óskapnaður sem kallaður er þingbundið lýðræði. Forsetaræfillinn gerir bara illt verra, en bjargar þó alþingi frá stærstu vitleysunum.
Í fréttum þessa dagana er mikið tala um leynigögn úr Landsbanka Íslands. Fyrst þegar ég sá þetta sýndist mér að talað væri um leynigöng og síðan hef ég hvað eftir annað orðið fyrir þessu og velt því mikið fyrir mér hvert þessi leynigöng lægju. Þegar ég hef byrjað á þessum greinum og ég séð að um er að ræða gögn en ekki göng þá hefur áhugi minn dofnað. Allskonar gögn sem sanna hitt og þetta eru orðin svo algeng að maður tekur ekki eftir þeim og hefur lítinn áhuga. Leynigöng aftur á móti minna mann á sögurnar eftir Enid Blyton sem maður las í bernsku. Þar var allt fullt af leynigöngum en minna af gögnum.
Talað er um að sumu ungu fólki gangi afar illa að fóta sig í tilverunni. Þetta fólk bíður bara eftir því að komast á örorkubætur og vill ekki gera nokkurn skapaðan hlut. Vandamálin hrannast upp. Er ekki bara auðveldara að breyta svolítið tilverunni, en að breyta þessu fólki. Mér finnst öll, eða næstum öll, orkan fara í að breyta fólkinu og fá það til að samlagast tilverunni. Mér finnst tilveran einmitt stórgölluð. En þetta er flókið mál og allsekki hægt að leysa það í fljótheitum. Tölvur og net koma talsvert við sögu. Þegar fólk er farið að nota tölvuleiki og nethangs til þess eins að drepa tímann er kominn tími til að spyrna við fótum. Vinnuþrælkun fullorðna fólksins er mikil. Uppeldi barna er ábótavant. Þau fá gjarna sitt eigið herbergi svona sjö til átta ára og eftir það er foreldrunum að mestu sama um þau. Þar geta þau hangið í tölvunni endalaust, en skólanum og náminu sinna þau lítt. Svo er ætlast til að þau fari allt í einu að vinna. Í unglingavinnunni er þeim kennt að slæpast, eins og það sé einhver dyggð. Á vinnumarkaðnum ætlast þau til að öll vinna sé skemmtileg
Vertu drífandi.
Farðu snemma á fætur.
Farðu í bað fyrir allar aldir.
Sparkaðu í einhvern sem þarf að komast á fætur.
Passaðu bara að kreppa tærnar.
Farðu út með ruslið og sleiktu sólskinið um leið.
Gættu þess samt að brenna ekki á tungunni.
Gáðu hvort þú hefur gleymt að læsa bílnum.
Ef veðrið er gott má jafnvel sleppa sokkunum.
Bakkaðu ekki á köttinn.
Hafðu hátt í vinnunni, svo allir haldi að þú sért forsetinn.
Pússaðu símann upp úr lýsóli.
Fáðu þér hádegismat og farðu svo á fund.
Alveg sama hvaða helvítis fund.
En umfram allt að vera bara drífandi.
Undarlegt þetta með ljóðin.
Stundum þarf að lesa þau oft.
Til að fá sömu tilfinningu fyrir orðunum.
Og höfundurinn heldur að eigi að fá.
Auðvitað kann það að vera misskilningur.
Jafnvel rangur misskilningur.
En séu þau lesin nægilega oft.
Fær lesandinn svo mikinn leiða á þeim.
Að hann þykist fá þessa útjöskuðu tilfinningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2014 | 08:50
2168 - Bjarni Harðarson
Ég man vel þá tíð að talið var að orkuvandamál heimsins væru að mestu leyst nema til kæmi ódýr lausn á vandamálum kjarnasamruna. Orku þessa áttu kjarnorkuver, sem orðin voru fremur ódýr í framleiðslu, að framleiða. Vandamálin sem tengdust þeim kjarnorkuverum sem í notkun voru reyndust samt svo mikil að víðast hvar er reynt að hætta að nota þau núorðið. Fyrir vikið er öll raforkuframleiðsla dýrari en annars hefði verið. Nútildags er helst horft til vindorkunnar þó mörg vandamál sé þar við að eiga. Ekki er þar eingöngu átt við sjónræna mengun sem þó er ærin, heldur fylgja mörg önnur sem þó er hægt að vonast til að verði auðveldari viðfangs en þau sem kjarorkunni fylgdu. T.d. var á sínum tíma, þegar álverið við Straumsvík var reist, gert ráð fyrir að innan skamms yrði raforka framleidd með kjarnorku mun ódýrari en sú orka sem það álver notar. Sólarorka verður einnig með tímanum hugsanlega ódýr kostur.
Allar götur síðan Bjarni systursonur minn Harðarson felldi svo eftirminnilega Hjálmar Árnason í prófkjöri hjá Framsóknarflokknum í byrjun þessarar aldar hef ég víst verið skráður á einhvern lista hjá Framsóknarflokknum. Þó ég tæki Bjarna frænda minn framyfir Hjálmar þennan var ég ekki svo vitlaus að kjósa Framsóknarflokkinn í kosningunum sem á eftir fóru. Og heldur ekki síðar. Þó verð ég að viðurkenna að einhverntíma skömmu eftir miðja síðustu öld varð mér það á að kjósa flokksnefnu þessa. Bjarni komst á þing þó vera hans þar hafi orðið nokkuð snautleg og stutt. Síðar gekk hann úr flokknum og skyldi engan undra. Kannski er ekkert eftirsóknarvert að vera þingmaður. Fyrst í stað reyndi flokkurinn að rukka mig um félagsgjöld, en það gekk illa og nú angrar þessi listavera mín mig ekki nema öðru hvoru þegar ég fæ óumbeðin og illa þokkuð SMS í símann minn.
Því segi ég þetta að mér blöskrar mjög háttalag framsókarmanna og þöggunartilraunir þeirra fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í lok þessa mánaðar. Þeir eru mun verri en sjálfstæðismenn og er þá langt til jafnað. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru báðir að breytast nokkuð um þessar mundir. Báðir eru þeir smám saman að þokast til hægri og óðum að minnka. Af því mér leiðist svo öll pólitík er ég að hugsa um að skrifa ekki meira um hana í þetta blogg.
Af hverju skyldu næstum allir ávallt vilja sýnast mun merkilegri og gáfaðri en þeir eru í raun og veru? Kannski eru konur lausari við þetta en karlmenn. Veit það ekki. Veit heldur ekki af hverju þetta er. En svona er þetta. Um það efast ég ekki.
Af hverju skyldu svona margir álíta íþróttir og hvers kyns boltaspark og hendingar vera næstum merkilegasti hlutur í heimi? Óskiljanlegt, vægast sagt. Um þetta geta bestu menn bollalagt fram og aftur því sem næst endalaust.
Hvernig skyldi mönnum eins og Jónasi Kristjánssyni, sem hafa allt og alla á hornum sér í bloggi sínu, líða svona prívat og persónulega. Jú, stöku sinnum fær hann sæmilegt að éta og skrifar jafnvel um það. Annars finnst mér stórgaman að lesa það sem hann skrifar þó það sé mestan part póltískt gall. Það er óþarfi að efast um þekkingu hans á mönnum og málefnum og sennilega líður mönnum eins og honum alveg ágætlega í einkalífinu. Honum finnst meira að segja matur stundum ódýr sem mér mundi finnast rándýr.
Hin hliðin á peningnum er síðan Jens Guð. Hann gerir grín að öllu. Hefur samt ákveðnar skoðanir og er tilbúinn til að svara öllu, sama hvaða vitleysa það er. Flækist mikið um netið og er naskur á að finna forvitnilegar myndir og myndskeið. Verst að maður hefur stundum séð það áður. Eiginlega eru það mestmegnis sömu myndirnar sem ganga í hringi á netinu. Nema þá helst kötturinn sem réðist á hundinn. Slíka mynd hef ég ekki séð áður enda er hún komin í fréttir.
Ásthildur á Ísafirði er líka eftirminnileg. Alltaf elskuleg við alla. Skammar þó þá sem láta í ljós pólitískar skoðanir sem henni líkar ekki. Afar dugleg við ljósmyndatökur og birtingar þeirra. Skrifar mjög persónulega. Ef Moggabloggsmenn selja henni netpláss fyrir allar þessar myndir eru þeir einfaldlega peningagráðugir gullgrafarar.
Já þetta eru palladómar. Ekki Palla-dómar. Þó Páll Vilhjálmsson sé vinsæll bloggari þá leiðist mér hann og er því feginn því að ESB-andstæðingar virðast hafa gert hann að sínum einkabloggara.
Þetta blogg er orðið alltof langt svo það er sennilega best að ég flýti mér að senda það út í eterinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)