Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
13.5.2014 | 13:28
2167 - Rétturinn til að gleymast
Hvað einkennir mitt blogg öðru fremur. Jú, Moggaguðirnir slysuðust til að gera mig að stórhaus á sínum tíma. Ekki veit ég af hverju, en það hefur hjálpað mér á langri leið að vera í einskonar úrvalsflokki meðal Moggabloggara. Eftir hvaða reglum mín blogg birtast á forsíðu þessarar frægu (sem einu sinni var) bloggsíðu veit ég ekki, en það hjálpaði mér a.m.k. í byrjun.
Ætli ég fái ekki oftast svona 1-2 hundruð heimsóknir þegar mér þóknast að skrifa. Einu sinni skrifaði ég á hverjum einasta degi, en er alveg hættur því núna. Blogga samt mjög oft (að því er mér sjálfum finnst) en gæti þess að hafa bloggin ekki mjög löng í hvert sinn. Þetta er bara einhver grundvallarskilningur hjá mér því ég á sjálfur oftast erfitt með að einbeita mér lengi. Löng blogg eða langar spekúlasjónir um sama efni á ég oft í erfiðleikum með að klára.
Eitt eða tvö einkenni eru líka á bloggi mínu, fyrir utan hvernig ég vel bloggefni. Annað eru númerin. Ég er núna að skrifa blogg númer 2167 og held að ég hafi lítið sem ekkert ruglast í þeirri númeringu. Svo veð ég líka úr einu í annað með efnisval og sumum finnst ég hafa húmor þó mér finnist ég alltaf vera neikvæður og svartsýnn í bloggskrifum mínum.
Blessuð pólitíkin og spádómar í þá veru finnst mér afar skemmtilegt umræðuefni og get yfirleitt ekki látið hjá líða að úttala mig um hana. Margt í sambandi við stjórnmálin er samt hundleiðinlegt. Úrslitin þar geta þó oft verið mjög athyglisverð og auðvitað skipta þau máli. Hef samt aldrei getað skilið þá sem skrifa eða hugsa eingöngu um pólitík og fréttir.
Fésbókin er svo eitt umræðuefnið enn. Þangað fer ég venjulega oft á dag og læt stundum ljós mitt skína. Sumar athugsemdir er ómögulegt að bíða með og sjálfsagt að setja þar. Endurtaka má þær svo í blogginu og ég held að það fæli ekki frá. Ef manni verður það t.d. á að setja saman vísu þá er ágætt að setja hana þar. Sá kveðskapur á yfirleitt ekki mikið erindi í blogg. Goggunarröðin á greinum er þannig hjá mér. 1. Forystugreinar 2. Blaðagreinar aðrar. 3. Blogg 4. Fésbókarfærslur. Auðvitað eru forystugreinar sjaldnast lesnar. Fjalla samt yfirleitt um áhugaverð efni. Afleggjari af þeim eru svo Reykjavíkurbréfin í Mogganum, en þau les ég aldrei. Staksteina og þessháttar önugheit ekki heldur. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum en ef áhugaverðar greinar birtast þar lenda þær fyrr eða síðar á netinu og þar get ég að sjálfsögðu séð þær. Blogg eru afar misjöfn. Mörg les ég nánast daglega. T.d. eru Egill Helgason, Jónas Kristjánsson , Jens Guð og Ómar Ragnarsson oft athyglisverðir. Sömuleiðis sum vefrit. T.d. lít ég oft á Eyjuna og Kjarnann. Fésbókin er svo í mínum huga hratið. Stundum er samt að finna þar áhugavert efni, en það er fremur sjaldgæft.
Frá því var sagt í fréttum áðan að einhver Spánverji hafi unnið mál gegn Google þar sem hann fór fram á að ekki yrðu birtar upplýsingar um sig, sem hann var á móti að birtust þar. Þessi dómur gæti hugsanlega snert fyrirtæki sem eru á móti því að neikvæðar upplýsingar birtist um þau. Annars veit ég fremur lítið um þetta mál og geri ráð fyrir að fjallað verði talsvert um það á næstunni.
Einnig var sagt frá því í RUV-fréttum áðan að sennilega væri fundið á hafsbotni það skip sem Kristófer Kólumbus sigldi forðum á til Ameríku. Amerikanar eru svo skrítnir að þeir halda því margir ennþá fram að hann hafi fundið Ameríku. Um það má margt segja en verður ekki gert hér. Samt er þetta mál nokkuð merkilegt.
Læt ég svo lokið þessu bloggi og minnist ekkert á Ásgautsstaðamálið, enda skilst mér að fundað verði um það í dag og hugsanlega verði nýjar aðferðir reyndar við það á næstunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2014 | 15:42
2166 - Hundalógik
Án þess að vita nokkuð hverning á því stendur finnst mér ég verða vinstrisinnaðri með hverjum deginum. Áður fyrr höfðaði hægri sinnaðri helmingur kjósenda betur til mín með áherslu sína á frelsi.
Frelsi frá því að þurfa að kaupa sér mat í kjörbúðum kúgarans?
Hvern fjandann varðar hann um líðan þrælanna? Ef hann fær verkið gert á útreiknuðu verði getur hann verið ánægður.
En er hann það?
Óekkí. Mikill vill meira og ef gróðinn safnast á eina hendi eða mjög fáar vill hann alltaf fá miklu meira. Þannig er bara mannlegt eðli.
Er mögulegt að breyta því?
Já, pólitíkin er að hamast við það. Hægri og vinstri eru úrelt hugtök.
Ráða þá peningar öllu?
Nei, ekki endilega. Sú stórkostlega breyting á sér einmitt stað um þessar mundir að allir geta alltaf haft samband við alla hvenær sem er.
Er það til nokkurs?
Já, ef þú hefur skoðun á einhverju, eru áreiðanlega fleiri sama sinnis. Vandinn er bara að finna þá.
Og þegar ég er búinn að finna þá. Hvað geri ég þá?
Það er nú einmitt flísin sem við rís. Næsta bylting ræður áreiðanlega bót á því.
Á ég þá bara að bíða eftin henni?
Já, er nokkuð annað að gera?
Svona er hægt að halda endalaust áfram. Ef maður byrjar á endunum á franskbrauðinu þá getur maður étið franskbrauð endalaust.
En er nokkuð gagn í því?
Já, þá getur maður lifað endalaust ef maður fær ekki einhverja veiki.
En til hvers er að lifa endalaust, ef maður á allan tímann að gera eitthvað sem manni hundleiðist?
Það geta nú ekki allir skemmt sér endalaust?
Af hverju ekki?
Þá er það ekki lengur skemmtun, það er hundleiðinlegt.
Er hundleiðinlegt að skemmta sér? Það hef ég aldrei heyrt áður.
Einhverntíma verður allt fyrst.
Já, ekki geturðu hent snjóboltanum áður en þú hnoðar hann.
Ha.
Ég sagði nú bara svona. Eiginlega var ég að reyna að búa til spakmæli.
Nú, svoleiðis já.
En setjum nú svo að einhver finni aðferð til þess að kaupa ekki lengur sitt fransbrauð hjá varðhundum valdsins, koma þá bara ekki einhverjar aðrar afætur í staðinn?
Kannski.
Og hvað eiga þrælarnir að gera þá?
Bíða eftir næstu byltingu.
Sem kannski kemur aldrei.
Jú, jú. Hún kemur einhverntíma.
Já, löngu eftir að við verðum dauðir úr hor eða ófeiti.
Það er nú samt betra en að hún komi allsekki.
Kannski. En þá verðum við undir grænni torfu og sameinaðir alheimsandanum.
Já, en ég trúi því bara ekki neitt.
Nú, eigum við þá að leysa trúmálin líka?
Nei, eigum við ekki bara að láta það ógert.
Í Kópavogi, eins og í öðrum úthverfum, tíðkast ekki að hafa gangstéttar beggja vegna götu.
Þetta er í Auðbrekku þar sem hún kemur á Nýbýlaveginn.
Skyldi einhver vilja leggja þarna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2014 | 13:05
2165 - Kópavogsdagar
Vera kann að einhverjum þyki myndirnar mínar betri en skrifin. (Mér finnst það stundum.) Benda má þeim á að hægt er að skoða (flestar) myndirnar með því að velja albúm og síðan velja ýmislegt búið að birta. Eða eitthvað þess háttar. Kannski er mér að fara fram í myndatökum. A.m.k. er ég farinn að birta tvær með hverju bloggi. Gleymdi því að vísu um daginn.
Mér skilst að pollapönkarar hafi sungið á Evróvision um að flæma fordóma í burtu. Kannski hefur þeim orðið eitthvað ágengt. Sagt er að stytta af litla svarta Sambó sem á að hafa verið flaggað mikið á kaffihúsi einu í Reykjavík hafi verið tekin í burtu. Ekki veit ég samt neinar sönnur á því eða að þessi mál tengist á nokkurn hátt.
Hugsanlega er Pútín ekki nærri eins slæmur og margir vilja vera láta. Því hefur verið haldið fram að Rússar þurfi sterkan og áhrifamikinn leiðtoga. Vissulega er Pútín óþægilega hægri sinnaður og mikill öfgamaður. A.m.k. finnst vinstri mönnum það. Kannski er það rétt. Að sumu leyti virðist Pútín vera Hitler endurborinn. Samt held ég að við verðum að treysta honum. Ég er ennþá þeirrar skoðunar að ef kosningarnar í Úkraínu 25. maí takast sæmilega sé ennþá von til að komast megi hjá borgarastyrjöld þar. Pútín er hugsanlega sama sinnis og álítur kannski heppilegast fyrir Rússa að sætta sig við það. Hann er þó eini þjóðarleiðtoginn sem virðist tilbúinn til að fara í stríð.
Ef ég er lélegur spámaður fyrir íslensk stjórnmál er engin ástæða til að ætla að ég sé skárri hvað heimspólitík snertir, svo kannski er best að taka framrituðu með mikilli varúð.
Skelfing er Íslensk Erfðagreining umdeilt fyrirtæki. Sumir virðast undir eins taka upp deilupennann sinn ef þeir heyra minnst á það. Held reyndar að þetta sé ekkert nema nafnið því fyrirtækið er farið á hausinn að ég held. Hef ekkert bréf fengið um málið og er þar af leiðandi ekki í náðinni svo ég veit ekkert hvernig átti að framkvæma þessa munnvatnstilraun. Hefði sennilega lent í vanda ef ég hefði fengið slíkt. Mér finnst Kári alltaf nokkuð sannfærandi, þó hefur margt verið undarlegt við rekstur fyrirtækisins á liðnum árum.
Spilling er mikil á Íslandi. Lekamálið er örugg vísbening um það. Það endar alveg áreiðanlega Hönnu Birnu í hag. Annars væri hún afar lélegur lögreglumálaráðherra. Ef mönnum tekst að komast í áhrifastöðu hér á landi er það mikill klaufaskapur að nýta sér það ekki. Auðvitað eru menn samt misjafnlega lunknir við það.
Greinilega er sumarið komið. Ef veðurguðirnir tækju uppá því að gera hret núna er ég hræddur um að einhverjir mundu missa sig. Gróður er kominn vel af stað og ekkert fær stöðvað framrás sólarinnar. Ég er búinn að uplóda slatta af myndum og núna er bara um að gera að standa sig í að blogga. Opið hús er núna um helgina hjá listamönnum með vinnustofur í Auðbrekku, bæði í Norm-X húsinu og annars staðar. Þar er boðið uppá léttar veitingar og glaðst yfir öllum sem láta sjá sig. Um að gera að drífa sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2014 | 08:28
2164 - Munnvatn o.fl.
Minnir að ég hafi sagt það í síðasta bloggi mínu að Hanna Birna Kristjánsdóttir innarríkisráðherra mundi segja af sér eða fórna einhverjum af aðstoðarmönnum sínum. Nú sýnist mér líklegast að endirinn verði sá að einhver blaðamaður eða fréttastjóri á Morgunblaðinu taki að sér hlutverk litla Landsímamannsins í þessu máli. Verði semsagt gert að taka pokann sinn frekar en að segja nokkuð. Jafnvel er líklegt að Hönnu Birnu verði sparkað uppá við.
Lögreglan reynir sjálfsagt að gera sitt besta í þessu máli, en á eflaust erfitt með að beita sér. Mér virðist samt trúverðugleiki ráðuneyta ætla að minnka mikið. Engin ástæða er til að ætla að önnur ráðuneyti beiti ekki svipuðum meðölum. Það er heldur engin ástæða til að ætla að fyrri ríkisstjórnir hafi ekki hagað sér líkt. Spilling á Íslandi er mikil, hvað sem einhverjar stofnanir segja, sem rannsaka ákveðnar tegundir hennar.
Ekki fylgist ég mikið með Ensku knattspyrnunni. Pulis var arftaki Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke og kom þeim í úrvalsdeildina minnir mig. Stokarar ráku hann og ég held endilega að hann sé stjóri hjá Crystal Palace núna og gott ef þeir voru ekki í fallhættu þegar hann tók við þeim. Það lið (Crystal Palace) stal sennilega Englandsmeistaratitlinum frá Liverpool um daginn og gott ef þeir hafa ekki afhent Manchester City hann. En ég tek það fram að ég er ekki áhugamaður um knattspyrnu.
Mér finnst það ljótur leikur hjá Íslenskri Getspá að reyna að fá fólk til að kaupa lottómiða með því að gera sem mest úr því þegar svo hittist á að hár vinningur kemur á góðan stað. Slíkt gerist ekki oft og þeir sem hafa efni á að kaupa sér reglulega lottómiða er oftast nær sæmilega stætt fólk. Að gefa annað í skyn er óraunverulegt mjög. Auk þess eru vinningslíkur í lottóinu fremur litlar og þeir sem miða kaupa þar eru einkum að því til að fá spennuna sem því fylgir og hinsvegar að styrkja þá sem góðs njóta af gróðanum.
Og svo vill Kári fá munnvatnssýnishorn frá næstum öllum. Ekkert bréf slíku viðvíkjandi hef ég samt fengið. Það hefði í mínu tilfelli sett mig í svolítinn vanda. Upplýsingar af þessu tagi er svo auðvelt að misnota. Hvað sem einhverjar nefndir segja. Goodwillið sem Íslensk Erfðagreining naut einu sinni á Íslandi á ekki lengur við. Það fyrirtæki er fyrir löngu komið í eigu annarra.
Undanfarið hafa nokkrar frátafir orðið hjá mér við bloggskrif og stafar það af ýmsum ástæðum. Er heldur ekki viss um að blogg séu mikið lesin þessa dagana fyrir vorhug fólks. Verið getur að Ásgautsstaðamálið sé á leiðinni í nýjan farveg og ekki vil ég trufla þann gang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2014 | 08:57
2163 - Hanna Birna
Þeir sem éta alltaf sem allra hollastan mat og fara með margar heilbrigðismöntrur í huganum áður en þeir láta nokkuð inn fyrir sínar óbótoxuðu varir reikna kannski með því að lifa lengur en pöpullinn sjálfur sem dregur fram lífið, horfir á heimskulegan fóltbolta og étur ruslfæði ómælt, jafnvel um leið. Áhyggjufólkið verður samt alltaf færra en þeir sem á fótboltann horfa og kannski ræður ruslfæðið þar ekki úrslitum. Pöpullinn og þeir sem þar fyrir neðan eru, hafa nefnilega engin efni á heilsufæðinu.
Semsagt ólundin og eltingaleikurinn við náttúruna á að bjarga öllu. En þetta er bara of seint í rassinn gripið. Það er örlítill minnihluti forréttindafólksins sem getur látið svona, aðrir verða bara að éta það sem til fellur og ódýrast er, til að halda lífi og svo fjölgar þeim miklu hraðar en náttúrufólkinu.
Ofan á allt er reynt að hræða þetta fólk með þvi að allt sé að fara til fjandans með heimshlýnun, svo rosalegri að annað eins hafi aldrei sést. Pöpullinn treður sig bara út með frönskum og vonar að ísöldunum fækki þá og stríðunum. (Enginn nennir að berjast í 50 stiga hita, eða hvað?)
Nei, ætli það sé ekki bara best að hafa það eins og vant er og sjá hvort vísindamönnunum tekst ekki að finna ráð við þessum vanda eins og öðrum. Þeir eru vanir því og það er alveg hellingur sem á eftir að finna upp.
Nýi flokkurinn virðist bara hafa skráð urlið: vidreisnin.is en ekki vidreisn.is. Það finnst mér lélegt. Annars er þarna lítið að sjá. Kannski meira fyrir þá sem skrá sig, veit það ekki. Einhvernvegin verður samt að byrja.
Ég komst í eitthvert deilingarstuð á fésbókinni í gær. Deildi m.a. rollumynd frá Kalla Jóhanns og fékk heilmargar athugsemdir við þá mynd. Hlustaði auk þess á þátt Gísla Marteins að miklu leyti (þó ekki í rauntíma) og ég verð að segja að mér þótti Guðni Ágústsson komast mjög illa frá honum. Á löngum köflum vildi hann helst ráða því alveg hvað væri rætt um og Gísli Marteinn lét hann komast upp með það. Bæði hann sjálfur og Gísli virtust helst halda að hann væri einhvers konar skemmtikraftur þarna. Hallgrímur og Rakel reyndu að taka þetta alvarlega. Kári Stefánsson var eins hátíðlegur og uppþembdur og hann er vanur. Hlustaði að vísu ekki á allt sem hann hafði að segja. Viðtalið við oddvita framsóknar í Reykjavík (sem segist reyndar búa í Kópavogi) færði mér heim sanninn um að framsóknarmenn ná líklega ekki inn manni þar.
Hallgrímur Helgason er ansi beittur í stjórnarandstöðu sinni og frammarar og sjallar hafa ekki hugmynd um hvernig þeir eigi að taka á honum. Kæmi ekki á óvart þó núverandi ríkisstjórn ræki upp á sker. Bara að það valdi ekki miklu tjóni.
Bæjarstjórnarkosningarnar sem áreiðanlega verða í lok maí eru ekki þær kosningar sem vert er að fylgjast með. Þær kosningar sem beðið er eftir eru þær í Úkraínu. Og þær eiga að verða 25. maí. Hvort svo verður er alls ekki víst. Ef af þeim verður og þær verða sæmilega viðurkenndar þá er hugsanlegt að komast megi hjá borgarastyrjöld þar, annars varla.
Auðvitað er ég sammála því að Hanna Birna hlýtur að víkja eða einhver af hennar nánustu samstarfsmönnum. Það er ólíklegt að hún hafi lekið minnisblaðinu sjálf. Ekki er hægt að sanna að hún hafi vitað af því fyrirfram. Einhver af hennar nánustu samstarfsmönnum gerði það samt. Ef henni tekst ekki að fá fram játningu ber henni að sjálfsögðu að víkja sjálfri vegna ábyrgðar sinnar á því sem ráðuneytið gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2014 | 22:50
2162 - Strætó og ýmislegt fleira
Að hafa lítinn áhuga á boltaleikjum er mikil guðsblessun. Það er engin hætta á að áhugavert efni slæðist í sjónvarpið ef boltaleikir eru þar allt kvöldið. Mér virðist mestur áhugi hjá þeim sem þar ráða ríkjum (eða ríða rækjum) vera á bandarískum hasarmyndaflokkum en á þeim hef ég líka lítinn áhuga. Annars hef ég heldur lítinn áhuga á sjónvarpi yfirleitt, nema þá helst fréttum.
Las einhversstaðar að fargjaldið með strætó sé núna 350 krónur. Gott að vita það. Það er langt síðan ég hef ferðast með strætó. Enn eru vagnstjórarnir ekki búnir að læra að gefa til baka. Annars held ég að hægt sé að ferðast með strætó á Höfn í Hornafirði og á Egilsstaði. Þó ekki fyrir 350 krónur. Aðalmunurinn hjá Landleiðum og SVR í gamla daga var að vagnstjórarnir hjá Landleiðum gátu gefið til baka en ekki hjá SVR.
Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili ef ríkisstjórnin fær nokkru ráðið um það. Man annars nokkur eftir nýju stjórnarskránni? Það er alveg hætt að tala um hana. Þingmannsvæflurnar eru uppteknar við annað. Fer öll orkan í að skipuleggja málþóf og þessháttar nauðsynjamál?
Ætla mætti að a.m.k. sumir fésbókarnotendur séu mjög ginnkeyptir fyrir allskonar happdrættum og þess háttar. Allskyns tilboðum rignir yfir mig, en ég nenni yfirleitt lítið að sinna slíku, enda eru sumir vinninganna þannig að ég mundi allsekki kæra mig um þá. Ég álít þetta oftast nær lítt dulbúnar auglýsingar og umber þetta með mikilli þolinmæði því fésbókin hefur þrátt fyrir allt fjölmarga kosti.
Steini Briem hefur gaman af að yrkja og fer fram í því. Er líka góður gúglari. Nennir samt ekki að hafa sitt eigið blogg. Man alltaf eftir að Gísli Ásgeirsson fældi hann frá mér, með því að gagnrýna kveðskap hans. Að flestu eða öllu leyti var kostur að hafa hann því athugasemdir hans voru eldskarpar oftast nær. Kannski fullmargar en nú eru þær næstum engar (þökk sé fésbókarræflinum) og Steini farinn að gera sér dælt við Ómar Ragnarsson. Engin furða því hann er ólíkt vinsælli en ég og vísurnar fá enn meiri dreifingu með því. Þetta var palladómur.
Nú þegar lesefni allt er orðið næstum ótakmarkað og ókeypis fer lestrarkunnáttu mjög aftur, eftir því sem fréttir herma. Undarlegur andskoti. Ég, sem hef lesið og lesið alla mína hunds og kattartíð, hef líklega ekki grætt nokkurn skapaðan hlut á því. Skrifin færa mér heldur ekki grænan túskilding. Að hugsa hægt og móta hugsunina jafnóðum í orð er nokkuð sem ég hef vanið mig á í ellinni.
Fékk í dag hið margumtalaða afmælisblað frá Landssambandi eldri borgara. Fyrtist ekki vitund við það, en ekki býst ég við að lesa það samstundis. Sumar greinarnar kunna samt að vera áhugaverðar. Blaðsíðurnar eru a.m.k. nokkuð margar og auglýsingar fáar sýnist mér.
Ásgautsstaðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2014 | 00:05
2161 - Íslandið litla
Verulegur fjöldi kjósenda virðist halda að ESB-málið, eða flugvallarmálið sé það sem borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík snúist um. Mín skoðun er samt sú að þessar kosningar snúist um allt annað. Fyrst og fremst um borgar- og bæjarmálefni en auk þess um ríkisstjórnina. Guðni Ágústsson hefði getað látið kosningarnar snúast svolítið um ESB, flugvöllinn og sjálfan sig. Hann kaus að gera það ekki. Þarmeð hefði framsóknarflokkurinn haft möguleika á borgarfulltrúasæti. Slíkt er borin von núna. Einkum ef meðferðin á konunni í öðru sæti á listanum er höfð í huga (sjá kvennablaðið)
Það raunalegasta við núverandi ríkisstjórn er óraunsæið í utanríkismálum. Að Simmi og Co. skuli halda að með því að hampa þeim ríkustu séu meiri líkur en ella á því að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar er næstum hægt að fallast á með þeim. En aðdáun þeirra á rússum og kínverjum sem Ólafur Ragnar hefur innprentað þeim er kolröng. Mannréttindi eru fyrirlitin þar og engin leið að sætta sig við sumt í hugsunarhætti ráðamanna á þeim slóðum.
Hefðu útrásarvíkingarnir vitað nákvæmlega hvenær þeir áttu að hætta og ef þeir hefðu getað það, hefði útrásin hugsanlega orðið okkur til góðs eins og heimsstyrjöldin. Að mörgu leyti var þetta síðast sénsinn. Í næstu umferð bankakreppunnar verður kalda stríðið með sínum mikilvægu áhrifasvæðum komið til framkvæmda. Það skuggalegasta sem núverandi ríkisstjórn gerir er að rembast við að reyna að færa okkur inn á áhrifasvæði rússa og kínverja. Þar eigum við ekki heima. Hugsunarháttur okkar er allur vestrænn og þar eigum við að halda okkur. Þjóðremba okkar var umborin vegna legu landsins. Ekki er víst að hún verði það á sama hátt framvegis.
Bandaríkin vilja okkur ekki, en ESB vill. Framtíð okkar er fólgin í því að vera í liði með vesturveldunum. Engin leið er að vita fyrirfram hve miklu þarf að henda í ESB-tryggingarhítina svo hún komi að einhverju gagni. Á sama hátt og um miðja síðstu öld var sjálfstæði smáríka í tísku eru það ríkjaheildirnar sem blíva núna.
Aðalástæðan fyrir því að mér líkar svona vel að tefla bréfskákir á netinu er að mér er orðið fjandans sama hvernig mér gengur. Framanaf var einhver metnaður að þvælast fyrir mér en hann er alveg farinn núna og mér er nokkuð sama hvernig skákirnar fara. Venjulega tefli ég svona 20 til 40 skákir í einu á svona 2 til 3 stöðum. Stundum tapa ég mörgum í röð vegna þess að ég er upptekinn við annað. Venjulega hef ég umhugsunartímann svona þrjá daga, en er nýlega tekinn uppá því að hafa þá 5 til öryggis. Svo tefli ég þetta eins og hverja aðra hraðskák nema hvað klukkan er ekkert að reka á eftir mér, enda hugsa ég mun hægar en ég gerði. Stundum tefli ég læf og þá hef ég yfirleitt 15 mínútna umhugsunartíma. Finnst það svara ágætlega til 5 mínútnanna sem maður var vanastur áður fyrr.
Já, og svo á ég alveg eftir að minnast á Ásgautsstaði. Geri það semsagt hérmeð. Að auki er víst komið sumar svo ég verð sennilega að fara að birta tvær myndir með hverju bloggi svo ég nái sjálfum mér einhverntíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)