2176 - Drónar

Um daginn sá ég það tekið sem dæmi um nasískar rætur Útlendingastofnunar Íslands að Agnar Kofoed-Hansen hefði farið til Þýskalands nasismans skömmu fyrir heimssyrjöldina síðari og gefið var í skyn að hann hafi átt einhvern þátt í stofnun útlendingastofnunar, sem ég held að hafi verið stofnuð árið 2002.

Man ekki hver það var sem skrifaði bók sem heitir „Lögreglustjóri á stríðstímum“, eða eitthvað þessháttar. Þessa bók las ég skömmu eftir að hún kom út. Hún er um Agnar og ég held að það sé alveg rétt að hann hafi að undirlagi Hermann Jónassonar, þáverandi forsætisráðherra, farið á einhverskonar námskeið til Þýskalands skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari. En Agnar lét af störfum árið 1947 og lést árið 1982. (Fæddur 1908, ef ég man rétt.)

Þessvegna finnst mér það óneitanlega nokkuð langt seilst ef kenna á honum um hvernig útlendingastofnun starfar í dag. Reyndar finnst mér hún ekki starfa með neinum glæsibrag, en það er önnur saga.

Drónar. Hvað eru drónar? Að mínum skilningi eru það hverslags flygildi sem gerð eru af manna höndum og geta flogið flugmannslaus. Það sem hingað til hefur verið kallað fjarstýrðar flugvélar er kannski réttara að kalla dróna. Drónar eru ekki bara hernaðartæki þó einna mest fari fyrir þeim á þeim vettvangi. Þar er einfaldlega um stórar og miklar flugvélar að ræða sem geta bæði flogið langar leiðir og tekið með sér fjölda af mannskæðum sprengjum. Þó slíkir drónar sé einkum hannaðir til að drepa er vel hægt að ímynda sér friðsamlega notkun dróna. Gera má ráð fyrir að áður en mjög langt um líður verði drónar algegnir til hvers kyns vöruflutninga.

Amazon, Google og fleiri stórfyrirtæki ætla bráðlega að fara að dreifa vörum sínum með drónum. Sem betur fer verður það víst einkum í Bandaríkjunum og við getum væntanlega fylgst með því hvernig það gengur. Drónar geta kannski rekist á flugvélar eða hver á annan. Hvað veit ég.

Myndavéladrónar eru að verða algengir. Þeir geta komist á staði sem engir aðrir komast á. Man ekki betur en ég hafi séð einskonar dróna á síðasta mótmælafundi sem ég mætti á á Austurvelli. Líklega hefur ætlunin verið að geta talið fundargesti sem nákvæmlegast. Myndavéladrónar eru gjarnan með fjórar skrúfur eins og þyrlur umhverfis myndavélina. Með því að hafa tvo slíka spaða næstum því saman og láta þá snúast í sitt hvora áttina held ég að koma megi í veg fyrir að flygildið snúist mikið sjálft.

Ég reyni eins og ég get að forðast að ræða um kosningarnar um næstu helgi, en það er erfitt. Öll mál er hægt að gera pólitísk. Undarlegt þykir mér hve margir missa sig þessa dagana og gerast miklu stórorðari en tilefni er til. Þegar trúmál og pólitík blandast saman er ávallt hætt á þessu. Það er svo margt skrifað um þessar kosningar að vel ætti að vera hægt að komast hjá því að láta ljós sitt skína um það málefni.

IMG 0576Stórvaxin jólatré.

IMG 0578Á harðakani.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, skólabróðir. Lögreglustjóri á stríðsárunum var eitt bindi af þremur, sem var um ævi AK-H. Jóhannes Helgi skráði. Agnar var í liðsforingjaskóla í Danmörku að tilhlutan föður síns, lærði þar að fljúga og fór í viðbótarnám til Þýskalands. Þegar svo Hermann skipaði hann lögreglustjóra, sendi hann Agnar til Þýskalands til að kynna sér lögreglumál þar, sem og til Danmerkur. Hernámsliðið breska hafði illan bifur á Agnari vegna tengsla hans við Þýskaland, en leyniþjónusta þeirra hafði að sjálfsögðu allar upplýsingar um allt slíkt hjá íslendingum. Aldrei tókst þó, hvorki af íslenskum né erlendum aðilum, að sanna neitt saknæmt á Agnar. Hann þótti röggsamur lögreglustjóri og var mjög dáður af undirmönnum sínum. Þekkti nokkra sem störfuðu undir hans stjórn. Ég kynntist honum aldrei neitt, sá hann tvisvar eða þrisvar og veit í sjálfu sér ekkert um manninn annað en af afspurn.

Ellismellur 28.5.2014 kl. 06:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband