Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014
27.2.2014 | 09:14
2129 - Kaninn er farinn
Bandaríkjamenn gáfust upp á okkur fyrir rest. Þegar svo var komið lá beinast við að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Evrópusambandinu. Um það er nú tekist á. Reynt er að halla þjóðinni í áttina að Rússlandi og Kína. Ágætlega gekk daður okkar við Sovétríkin forðum. Um það eru rússneskir bílar og fleira til vitnis. Okkur Íslendingum gengur ekki vel þegar við eigum að gera allt uppá eigin spýtur. Við erum einfaldlega alltof fá. Stórveldi verður Ísland seint. Við ættum þó að geta haldið uppi svipuðum lífskjörum og eru í kringum okkur. Vöknuðum að vísu ekki til vitundar um mátt okkar fyrr en á síðustu öld, eftir margar aldir af niðurlægingu sem í tísku er að kenna Dönum um. Jæja, sleppum því. Ef rétt er á spilunum haldið er ekkert sem mælir á móti því að við getum plumað okkur sæmilega í samfélagi stórþjóða.
Í dag er fjórði í mótmælum. Var að fá fundarboð um að hefjast eigi handa klukkan fimm í dag. Það finnst mér dálítið seint. Nú hefði verið tækifæri til að taka daginn snemma. Kannski einhverjir ætli að fylgjast með Austurvallar-leikritinu í sjónvarpinu. Auðvitað er það afsakanlegt.
Ég neita því ekki að stundum þegar mér tekst sæmilega upp (að því er mér sjálfum finnst) þá kíki ég gjarnan á vinsældalistann hjá Moggablogginu. Ætli ég hafi ekki komist í svona 18. sæti eða svo þar þegar best lætur. Einu sinni var ég mjög ánægður með að vera í svona 100. til 150. sæti þar, en nú er ég venjulega í þrítugasta til sextugasta sæti eða svo. Auðvitað er það mest vegna þess að vinsældir Moggabloggsins hafa dvínað verulega. Ég vil þó aðallega þakka það frábærum skrifum mínum. Hugsanlega eru þau samt ekkert frábær. Aðrir verða að meta það. Kannski Moggabloggið nái sér eitthvað á strik aftur. Þjónustan þar er góð. Hvað sem hver segir. Ég er satt að segja mjög ánægður með að einhverjir skuli hafa það nánast fyrir reglu að lesa bloggið mitt. Vanda mig meira fyrir vikið.
Minn styrkleiki sem bloggari er fólginn í því að skrifa um allan fjárann. Stjórnmálin eiga þó til að verða alltof fyrirferðarmikil hjá mér. Þó ég hafi gaman af að skrifa um stjórnmál leiðist mér óskaplega að leggja tölur á minnið eða leita að þeim í því sambandi. Oft eru þessar blessaðar tölur líka ákaflega blekkjandi og oftast sérvaldar til þess að ríma sæmilega við það sem viðkomandi hefur að segja að öðru leyti.
Svolítið leiðist mér hve þær stöllurnar Lára Hanna Einarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir skrifa oft á fésbókarvegginn sinn. Ég fæ nefnilega alltaf tilkynningar um það. Ég vil samt ekki missa af því sem þær segja, svo það er tilgangslaust að segja mér að hætta bara að vera áskrifandi að veggjunum þeirra. Annars er ég óttalega ruglaður á öllu sem fram fer á fésbókinni. Mér er sagt að hún sé svo gamaldags að réttast væri að hætta alveg þar. Það get ég samt ekki því ég fer alltaf þangað oft á dag og skil hann samt ekki. Ef eitthvað bjátar á með skilninginn þá fer ég bara útúr bókarræflinum og svo inn aftur ef mér finnst taka því.
Sumir aðrir (ég nefni engin nöfn) eru sískrifandi á vegginn sinn og fæla mig frá sér með því. Annars er ég sennilega ekki dæmigerður fésbókarnotandi. Hver er það eiginlega? Hugsa að það sé litlu betra en að vera virkur í athugasemdum. Já, ég er steinhættur að skrifa í netblöð útaf þessu uppnefni. Það er spurning hvort það er nokkuð kúl lengur að vera fésbókarnotandi. Þegar skyrið varð að skyr.is þá steinhætti þetta .is að vera kúl.
Auk þess legg ég til að allar byggingar á Ásgautsstaðalandi verði jafnaðar við jörðu. (Ekki.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2014 | 09:21
2128 - Austurvöllur í björtu
og fallegu veðri. Sótsvart og fyrirferðarmikið alþingishúsið spillir samt svolítið þessari rómantísku mynd. Samt eru flestir þangað komnir til að einblína á það. Kakósölukonan slappar af á gamla eldhúskollinum sínum, því fáum er svo kalt að þeir vilji kaupa kakóbolla á fimmhundruðkall. Stórt svæði framan við húsið er afgirt með lögregluhindrunum úr málmi.
Fór í gær niður á Austurvöll til að taka þátt í mótmælunum. Sennilega voru heldur færri þar að þessu sinni en á mánudagskvöldið. Margir samt og girðingin sem lögreglan hafði komið upp, fékk í sig endurtekin og háttbundin spörk og önnur högg, sem sköpuðu talsverðan hávaða. Fáir voru með búsáhöld með sér. Hamrar voru þó algengir. Bæði buffhamrar og aðrir. Ekki var þó að sjá neina missmíði á girðingunni og sýndist mér að lögreglan héldi sig alfarið innan hennar ásamt einkennisbúnum ljósmyndurum. Flygildi eitt sem líklega innihélt myndavél sveimaði yfir.
Ekki er því að neita að sú staðreynd að þátttakendum fjölgaði ekki frá mánudagskvöldinu kann að þýða að ríkisstjórninni takist að koma ætlunarverki sínu í framkvæmd. Stjórnarandstaðan gerir þó sitt allra besta til að hindra hana í því. Sú ofuráhersla sem ríkisstjórnin leggur á að slíta ESB-viðræðunum sem allra fyrst gæti bent til þess að fleira en við blasir hangi á spýtunni. T.d. uppstokkun á ráðherraliðinu. A.m.k. er Gunnar Bragi hvumpnari en efni standa til. Man eftir að hann kvartaði yfir því í tíð síðustu ríkisstjórnar að fjölmiðlamenn töluðu aldrei við sig. Nú er þessu frekar öfugt farið. Ekki veit ég hvort er betra. Bjarni Benediktsson fylgdist líka verr með en hægt var að ætlast til í Kastljósþættinum á mánudagskvöldið og var mjög dreymandi á svipinn. Ef ekkert líkt ráðherrahrókunum er á döfinni þá er viðsnúningur Bjarna Benediktssonar í þessu máli illskiljanlegri en ella.
Getur einhver hjálpað mér við að finna gamlar bloggfærslur eftir Gísla Frey Valdórsson sem hann er núna búinn að eyða hjá sér, spurði Einar Steingrímsson á fésbókinni sinni. Og ekki stóð á svarinu. Þetta er heldur enginn sérstakur vandi. Það er fátt sem Internetið gleymir. Man að ég hugsaði um daginn þegar verið var að rekja garnirnar í sjónvarpinu úr þeim sem þekktu Svanhildi Hólm að hún bloggaði oft skemmtilega undir nafninu Ljósvakalæðan í denn. Kannski væru krakkarnir hennar samt ekki mjög hrifin ef það væri rifjað upp. Internetið er að gerbreyta heiminum þessa dagana, vikurnar, mánuðina og árin. Pólitíkusar dagsins og að sjálfsögðu blaðamenn allir, eiga oft erfitt með að gera sér grein fyrir þessu.
Hið valkvæða minni manns er stundum gagnlegt þegar maður eldist. Þá kemur kannski í ljós að maður man eftir hlutum sem vel er hægt að sannreyna. Áður fyrr var það ekki svo. Enda voru sagnfræðingar fyrri tíma á móti því að taka trúanlegar ævisögur manna. Pældu fremur í afgömlum skýrslum um hitt og þetta og reyndu að framkvæma einhverjar gáfulegar athuganir á þeim. Ég sé alveg fyrir mér sagnfræðinga framtíðarinnar, sem ekki þurfa að standa upp frá tölvunni allan liðlangan daginn og hafa úr gríðarlega miklu efni að moða. Ættfræðin og bókmenntirnar koma sér t.d. oft vel fyrir mig, þó ég eigi til að gleyma hvort ég sé búinn að setja sykur í kaffið mitt. Heilinn starfar oft undarlega. Jafnvel undarlegar en maður getur ímyndað sér.
Þeir Hallmundur Kristinsson, Bjarki Karlsson og Kristján Björn Snorrason kveðast á með limrum. Ekki gæti ég það. Ég vil bara halda því til haga að telpukornið heitir Tinna, sem þeir yrkja viðstöðulaust um á Boðnarmiðinum. Hvað er Boðn? Og hvað er mjöður. Minn grunur er nefnilega að það séu furðumargir sem vita það. Ef ekki þá er hægt að prófa að spyrja Gúgla frænda. Hann veit ýmislegt.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði gerðir að einum allsherjar vísundabúgarði og þar verði framleiddir buffalaostar sem allir megi kaupa nema MS. (Þ.e. mjólkursamsalan) Sauðnaut mætti hafa þar líka. Eða a.m.k. bjöllusauði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2014 | 12:22
2127 - Sólskin og vor í aðsigi
Það er óvenjumikill andskotagangur í pólitíkinn þessa dagana. Fleiri mættu á Austurvöll í gær en ég átti von á. Þessi ríkisstjórn er misheppnuð. Alþingi og stjórnmálamenn yfirleitt njóta einskis trausts, enda eiga þeir það ekki skilið. Horfði á Bjarna Ben. í Kastljósi í gærkvöldi og fannst augnaráðið hjá honum ansi flöktandi. Það var eins og hann hefði enga hugmynd um af hverju hann væri þarna. Undanfarið hefur samt verið eins og allt spilaðist upp í hendurnar á honum.
Á margan hátt gæti verið ágætis trimm að skreppa niður á Austurvöll seinni partinn í dag. Ríkisstjórnin og alþingismenn svotil allir vilja áreiðanlega fyrir alla muni komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þeir aftur á móti sjá að mannfjöldinn á Austurvelli fari sífellt vaxandi þá er von til að þeir hlaupi í felur og samþykki að þjóðin segi hvað henni finnst um þessa ríkisstjórn. Það sem tekur þá við verður kannski ekkert betra, En það er alveg sama. Ekki verður það verra. Girðingarbylting gæti verið í aðsigi.
Já, mér leiðist fésbókin. Ég er eins og Bjarni Ben. Veit ekkert hvað ég er að gera þar og hef enga hugmynd um hvað best er að gera næst. Aftur á móti kann ég ágætlega við mig á blogginu. Þar er þó hægt að láta móðann mása. Jafnvel þó fáir lesi ósköpin. Fésbókin finnst mér vera einsog hvert annað kaffispjall. Verst að allir geta vaðið í þetta. Stundum segja menn hluti þar, sem þeir eru allsekki tilbúnir að standa við. Kannski Bjarni hafi bara álitið kosningar eins og hverja aðra fésbók.
Sóskinið er alla að drepa hér. Kannski er samt kalt úti. Best að fara að athuga það. Held að það vanti bensín á bílinn. Ætli þetta verði ekki bara stutt blogg.
Auk þess legg ég til að bæjarstjórn Árborgar (aka Selfoss) verði sótt til saka vegna Ásgautsstaðamálins. Sjá fyrri blogg um þetta. Einkum það frá 10. desember 2013.http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/1336169/
Skammdegið II.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2014 | 10:19
2126 - Skrifaðu flugvöll
Eitt sinn var ráðherra á ferð úti á landi og heimamenn höfðu orð á því að samgöngur við héraðið væru ekki eins og best væri á kosið. Þá sagði ráðherrann þessa gullvægu setningu um flugvöllinn við ritara sinn. (Gott ef ritarinn var ekki bílstjóri líka.)
Orð skulu standa. Þetta er heiti á bók um Jóhann bera, sem var frægur umrenningur á sinni tíð. Hann vildi umfram allt standa við orð sín. Alltaf er samt álitamál hvenær orðheldni verður að þvergirðingi. Víst lofaði Sjálfstæðisflokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og sennilega vill meirihluti þjóðarinnar segja sína meiningu um það mál. Þeir sem kusu vinstri græna í kosningunum árið 2009 gerðu það a.m.k. sumir vegna þess að þeir álitu að þeim væri best treystandi til andstöðu við ESB.
Ég er fremur en hitt hlynntur Evrópusambandsaðild, en þó ekki með hvaða skilmálum sem er. Fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á því að láta sverfa til stáls um ESB-málið. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að taka hana til fyrirmyndar um það.
Mótmæli núna á Austurvelli breyta engu. Þau verða ekki það fjölmenn að ríkisstjórnin fari frá. Þau gætu svosem orðið upphafið að einhverju, en ég efast samt um það. Sigur stjórnarflokkanna s.l. vor er ekki bara tilkominn vegna blekkinga Framsóknar heldur ekki síður vegna andstöðu við ESB. Ef sú andstaða er tilkomin vegna rangra upplýsinga þá er ástæðulaust að ætlast ekki til að aðildarsinnar leiðrétti það.
Það er greinilegt að pólitískir flokkar á Íslandi (og ég undanskil alls ekki Samfylkinguna og Vinstri græna) vilja fyrir hvern mun komast hjá því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um ESB-aðild. Mér er nákvæmlega sama hvað þingmennirnir sjálfir segja, ég er sannfærður um þetta. Lofaði Sjálfstæðisflokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu bara til að hala inn fáein atkvæði? Fengu kjósendur þeirra þá ekki svikna vöru?
Þingmenn munu ávallt finna afsakanir fyrir því að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslur. Þessvegna er sú barátta sem framundan er þýðingarlaus með öllu, nema takist eins og í búsáhaldabyltingunni að fá ríkisstjórnina til að segja af sér. Það er allsekki líklegt að svo verði.
Óþarfi er þó að afturkalla umsóknina í fljótræði. Vel getur verið að hagstæðara sér að draga málið sem mest á langinn. En hverjir eru hagsmunirnir? Skýrsla sú sem þingmenn þykjast vera að ræða, segir ekkert um það. Gjaldeyrishöftin hverfa ekki af sjálfu sér og samkvæmt EES samningum má ekki hafa þau.
Þjóðaratkvæðagreiðslur verða aðeins haldnar á Íslandi fyrir tilverknað forseta landsins eða um gjörsamlega þýðingarlaus mál. Ný stjórnarskrá sem mundi leyfa þjóðaratkvæðagreiðslur eftir öðrum reglum en nú eru í gildi og draga úr valdi alþingis verður aldrei samþykkt af þinginu.
Í vaxandi mæli er sú áhersla sem margir hafa hingað til lagt á vinstri og hægri stefnu í stjórnmálum að hverfa. Austur og vestur er að taka við. Sú austræna stefna sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið í mannréttindamálum að undanförnu hugnast mér ekki. Mannréttindastefna sú sem rekin er af Vesturveldunum er mun þróaðri en sú austræna sem virðist ráðandi í Rússlandi og Kína.
Allt er þetta sem ég hef nú skrifað pólitískt þvarg. Þó hefði ég helst viljað skrifa um eitthvað annað. Nú eru bara þeir tímar að það er ekki hægt. Vorið kemur samt einhverntíma.
Auk þess legg ég til að málefni Ásgautsstaða (og hugsanlega fleiri jarða) verði tekin á dagskrá hjá bæjarstjórn Árborgar og þessum sífellda feluleik hætt. Einnig mætti stofna sérstaka fésbókarsíðu um þetta mál. Þar væri hægt að setja myndir (skannanir) af þeim skjölum sem fyrir hendi eru þannig að allir gætu haft aðgang að þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2014 | 09:50
2125 - Pussy riot
Að vera með lambhúshettu á hausnum (gjarnan öfuga) og í litfögrum sokkabuxum í Rússlandi er eins og að veifa rauðri dulu framan í óðan tudda. Mér finnst þetta ekkert fyndið heldur bara sorglegt. Ólympíuleikarnir í Sochi eru þegar orðnir Rússum til skammar þó framkvæmdin hafi á flestan hátt tekist vel. Ástandið í Ukraínu er grátlegt. Kannski fer það samt batnandi. Innviðir ríkisins eru þó ákaflega feysknir. Þetta stóra land sem ætti að vera Evrópu allri til fyrirmyndar er nánast ónýtt vegna þjónkunar við Kremlarvaldið nær alla tuttugustu öldina. Lýðræðishefð er þar engin og fólk flýr þennan sælureit (sem ætti að vera) unnvörpum og hefur lengi gert. Jafnvel Ísland er skárra.
Þar er þó tíma alþingis, sem í raun stjórnar landinu, eytt í fánýtt karp um trúarleg atriði (ESB). Rætt er um að draga umsóknina um aðild að ESB til baka. Það held ég að komist aldrei til framkvæmda. Að láta það mál danka án þess að gera nokkuð held ég að sé það sem heldur núverandi ríkisstjórn saman. Þó utanríkisráðherra og Vigdís Hauksdóttir vilji helst hætta þessu þá hef ég enga trú á að það dugi ekki til. Af hverju er ekki tíminn notaður til að gera eitthvað af viti? Kannski er slíkt aðallega gert í nefndum, og haldið vandlega leyndu fyrir almenningi. Flókin og umdeild mál eru afgreidd í skyndingu og tímahraki. Við þá vinnu er mörg vitleysan gerð. Löngum tíma er svo varið í leiðréttingar og lagfæringar. Löggjafar- og fjárveitingavaldið (alþingi) treystir alfarið á framkvæmdavaldið (ríkisstjórnina) til að haga sér skynsamlega. Nei, pólitíkin er mannskemmandi og flokkakerfið á Íslandi ónýtt. Tölum um eitthvað annað.
Ægir Þór Eysteinsson skrifar grein í nýjasta Kjarnann um misrétti sem víða tíðkast í garð kvenna. Lokaorð has eru þessi: Því það eina sem við eigum ekki sameiginlegt í raun er að strákar eru með typpi og stelpur eru með píku. Því miður er þetta ekki alveg rétt hjá honum. Munurinn er meiri. Hvoru kyninu hann er í hag er ómögulegt að segja og fer eftir því hvað um er rætt. Það getur vel verið að við Íslendingar séum þjóða fremstir í því sem kalla má jafnrétti kynjanna. Samt er það svo að tækifærin eru mjög mismunandi og er það greinilega konum í óhag. Því er engan vegin hægt að mótmæla. Munurinn fer þó minnkandi og sennilega erum við á réttri leið. Ágreiningur um það atriði finnst mér þó það eina sem réttlætanlegt er í þessu sambandi. Auðvitað finnst sumum hægt miða en öðrum hratt. Ég man vel eftir þeim tíma að konur fengu ekki einu sinni sama kaup fyrir sömu vinnu. Álitið á því hve hratt ferlið ætti að vera kann að vera kynbundinn. Þeim karlmönnum sem finnst á sig hallað að þessu leyti í núverandi kerfi tel ég að þjáist mjög af minnimáttarkennd.
Veit þessi kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi eitthvað meira en þær kynslóðir sem á undan hafa komið? Hún hefur a.m.k. betri aðgang að öllu mögulegu, lærir meira og stritar minna. Ég vil trúa því að mannkynið sé á framfarabraut. Líklega er svo þegar á heildina er litið. Það er samt með ólíkindum hve framfarirnar eru miklar á þeim sviðum sem helst ættu engar framfarir að vera. Endimörk vaxtarins var einu sinni talað um og nú er því haldið fram að við séum að drukkna í eigin skít eða ganga af gufuhvolfinu dauðu á næstu áratugum. Flest vandamál sem mannkynið hefur hingað til glímt við hingað til hafa þó að mestu leyti endað farsællega og heimsendaspámennirnir hvað eftir annað reynst hafa rangt fyrir sér. Vonandi verður svo áfram. Þeir eru samt nauðsynlegir, því ekkert kemur í staðinn fyrir það að vera vel á verði.
Í dag er föstudagur og á margan hátt er það besti dagur vikunnar. Svoleiðis var það a.m.k. þegar hægt var að taka sér frí um helgar. Hjá mörgum er það svo enn. Þegar maður hættir að vinna verða allir dagar eins, en þó eru heimsóknir tíðari um helgar og þær eru það sem við gamla fólkið lifum fyrir.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir við Stokkseyri verði friðaðir og máefni jarðarinnar komist á dagskrá hjá Árborg eða réttara sagt Selfosshreppi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.2.2014 | 00:44
2124 - En ég á engan kjallara
Öll þessi umræða um Skagfirska efnahagssvæðið er svolítið fyndin, og grínið flest um Gunnar Braga Sveinsson, ef maður hefur smekk fyrir pólitískum áróðri. Annað er þetta auðvitað ekki. Framsóknarflokkurinn gerir að vísu tómar vitleysur og utanríkisráðherrann ekki síst. Það hafa samt fyrr verið misheppnaðir ráðherrar en í núverandi ríkisstjórn. Ætla samt ekki að vekja meiri athygli á því hvað ég er misheppnaður bloggari og hætti því per samstundis. Allir bloggarar sem ekki eru kærðir, eða a.m.k. reynt að stinga upp í, eru stórlega misheppnaðir.
Marínó G. Njálsson bloggar um vísitölur http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/ Því sem hann segir er ég að mestu sammála. Á vissan hátt kemur það umræðunni um verðtrygginguna heilmikið við. Með því að fimbulfamba um vexti, verðbætur, og allskyns vísitölur er hægðarleikur að rugla fólk í ríminu. Marínó lætur þó ekki blekkjast og hann er einmitt áberandi skýr í því sem hann skrifar. Ég ráðlegg semsagt öllum að lesa þessa grein.
Auðvitað á maður ekki að vera að gera grín að barnabörnunum sínum. Internetið gleymir aldrei neinu og þetta getur sem hægast komið í andlitið á þeim þegar verst gegnir eftir svo og svo langan tíma. Get samt ekki stillt mig um að segja smásögu af Tinnu: Hún kom hingað í heimsókn um daginn. Foreldrar hennar skildu hana eftir og fóru eitthvað annað. Tinna greyið (4 ára) var grútsyfjuð og vildi bara fara að sofa. Það vildum við afi hennar og amma helst ekki svo ég fór með hana í skoðunarferð niður í geymslu í kjallaranum. Þar fann hún tvo gamla badmintonspaða. Ég sagði henni að hún mætti eiga þá. Svar hennar var alveg gullvægt: En ég á engan kjallara.
Setti vísukorn eftir sjálfan mig á Boðnarmjöð og vegginn minn á fésbók í dag og það var svona:
Sátu tveir að tafli þar
titrandi af bræði.
Simmi karlinn sáttur var
ef svarað gat í næði.
Fyrsta ljóðlínan er eiginlega hálfstolin (alþekkt klámvísa sem byrjar: Sátu tvö að tafli þar.) Og sumir segja að sv sé gnýstuðull.
Ég er alveg sammála Hallgrími Helgasyni um að hagstæðast sé að róa sig útaf þessu ESB-máli. Við endum þar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Evrópa er skárri kostur en Kína eða Bandaríkin. Okkur liggur svosem ekkert á. Best að bíða bara ef það er hægt. Kannski verður sífellt flóknara að lifa með þennan EES-samning yfir hausamótunum, en hann nægir okkur alveg í bili.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið á dagskrá á næsta bæjarstjórnarfundi (eða er það kannski borgarstjórnarfundur?) í Árborg. Eyþór Arnalds er að hætta, en hann vildi einmitt koma þessu máli á hreint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2014 | 22:39
2123 - GMB og SDG
Simmi forsætis- stóð sig áberandi illa í viðtalinu við Gísla Martein. Held samt ekki að hann segi af sér eða neitt þessháttar. Bjarni Ben. er alls ekki tilbúinn til að taka við. Það er hinsvegar alveg öruggt að ekki verður af því í bráð að Framsóknarmenn fái jafnmarga ráðherra og Sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni. Annað var þó látið í veðri vaka þegar ríkisstjórnin var mynduð. Jafnvel gæti hugsast að Már verði endurráðinn við Seðlabankann. Líka gæti slitnað uppúr ríkisstjórnarsamstarfinu og Sjallarnir farið í ESB-gírinn. Ekki er það þó líklegt.
Viðtalið fræga. Já, allir hafa skoðanir á því. Það er svosem vel hægt að fallast á að ekki hafi verið um hefðbundið viðtal að ræða þar sem spyrill reyndi að sauma að stjórnmálamanni. Miklu fremur voru þetta tveir pólitíkusar að munnhöggvast. Báðir kunnu nokkuð fyrir sér í MORFÍS-útúrsnúningum og fjölmiðlun. Ekki fór samt neitt á milli mála hvor vann. Gísli Marteinn gerði það fremur léttilega. Er þetta þá öll þungavigtin hjá Sigmundi Davíð? Hann getur svosem reynt að afsaka sig með því að hann hafi ekki verið í stuði, en það sem eftir stendur er að hann skíttapaði.
Gunnar Nelson var eins og illa gerður hlutur eftir þessi ósköp. Þó stóð hann sig ágætlega. Ein spurning stendur samt eftir hjá mér og hún er sú hvort þetta sé að taka við af kickboxinu og sett á stofn til höfuðs hnefaleikunum gömlu góðu. Ómar ætti auðvelt með að svara þessu.
Er Glanni glæpur alvöru glæpon? Hugsanlega eru einhverjir svo illa að sér í Latabæjarfræðum að vita ekki að Stefán Karl Stefánsson leikur hann á þeim vettvangi. Harpa Lúthersdóttir vill meina að hann sé glæpon í alvöru og leggi fólk eins og hana í einelti. Hún talar heldur ekki vel um Valgeir Skagfjörð og hefur verið í málaferlum vil Regnbogabörn , en nýbúið er að leggja þau samtök niður eftir því sem mér skilst. Þessi niðurlagning var talsvert í fréttum fyrir nokkru og ég man að þegar Stefán Karl sagði frá því að ástæðan væri m.a. sú að þau fengju ekki nógu mikla styrki varð mér hugsað til Netútgáfunnar sem ég stóð fyrir árum saman. Við sóttum oft um styrki hvar sem við gátum en fengum enga. Kannski var það lán í óláni. Önnur Harpa ætlaði eitt sinn að skrifa háskólaritgerð um Netútgáfuna og fólkið þar, sem ekki var í klíkunni, en hætti við það og fann eitthvað bitastæðara. Segi ekki meira.
Man eftir að hafa eitt sinn komið að Skógum í Þorskafirði eftir að sá bær fór í eyði. Það hefur sennilega verið á seinni hluta áttunda áratugarins. Mundi nefnilega eftir því að þar fæddist Matthías Jochumsson. Man líka að einskonar klettamynd af honum blasti við í Reykjafellinu þegar gamla leiðin hjá Kolviðarhóli var farin milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Ég fór heim að bænum að Skógum en þar fann ég ekkert merkilegt utan eina tréspýtu með hugsanlegum rúnaristum á, sem ég ímyndaði mér að Matthías Johumsson hefði gert þegar hann átti engan pappír. Þessari spýtu er ég búinn að týna núna. Og þó ég sé fremur Guðlaus eins og sumir vita þá man ég að hann orti ekki bara sálma heldur einnig þetta: (Sem kannski er reyndar sálmur)
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól.
Ég hef alltaf verið fylgjandi að fagna því heldur en hitt þegar sólin kemur aftur til okkar hér í norðrinu. Norðrið er ekki svo afleitt þegar allt kemur til alls. En auðvitað eigum við eftir að þreyja bæði þorrann og góuna, en heyskapartíðin skiptir okkur varla eins miklu máli og áður var.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið fái forgang framyfir þau Sigmundarfræði sem margir leggja stund á um þessar mundir. (Linkur fylgdi síðasta bloggi.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2014 | 11:27
2122 - Húsavík og Ísafjörður
Þegar Hafskipsmálið var sem mest á döfinni man ég að einna mest áhrif á mig hafði frásögnin af því að hver einasti stjórnarfundur á þeim tíma sem veldi þeirra stóð sem hæst, hófst á því að allir sungu: Áfram kristsmenn, krossmenn. Ég er bara ekki gefinn fyrir svoleiðis raus og þetta minnti mig á skátafundina í gamla daga þegar ætíð var sunginn bræðralagssöngurin svokallaði í lok hvers fundar. Ennþá fyrr voru svo leynilegu inngangsorðin í barnastúkuna. Endemis rugl. Man að þar þótti mér merkilegast að kosinn skyldi fyrrverandi æðstitemplar.
Þeir sem komast yfir einhverjar spírur, ýmist með erfðum eða venjulegu braski, standa oftast mun betur að vígi en sjálfur pöpullinn kúgaði sem á sér litla von. Sé braskpeningunum smurt á rétta staði er leikur einn að koma ár sinni þannig fyrir borð að tekjum valdi. Auk þess vantar pólitíkusa alltaf peninga því oft getur verið of áberandi að stela þeim á venjulegan hátt. Ættartengsl duga ekki alltaf. T.d. er hengt fyrir of mikinn drykkjuskap. Sá sem ekki getur staðið sæmilega uppréttur eftir þrjú til fjögur hanastélsboð sama daginn er úskúfaður. Óverðugir geta komist í hópinn með svindli og hroka.
Já, ég er undirlagður af fésbókarsótt. Býst ég við. Fer þangað oft á dag. Þó ekki væri nema til að sjá læramiklu rússnesku valkyrjurnar sem leggja alltaf undir sig hægri hlutann af skjánum. Spekulera ekki mikið í því hvað þær eru að gera þarna og gæti þess vel að klikka ekki á þær. Þá gæti maður lent á öfgafullum amerískum klámsíðum sem maður biði aldrei bætur af að líta á. Um daginn þurfti ég að stækka letrið á skjánum útaf gleraugnaleysi og þá hurfu þær læramiklu. Ekki var það nógu gott því maður var orðinn svo vanur þeim að maður saknaði þeirra. Svo komu gleraugun aftur og þykku lærin sömuleiðis.
Nú er ég búinn að fækka bréfskákunum töluvert til að hafa tíma til að gera eitthvað annað. Það er þetta eitthvað annað sem færir mig nær Ómari Ragnarssyni. Er ekki óhætt að líta svo á að Ómar og Simmi forsætis sé aðalmennirnir sem takast á núna í pólitíkinni? Bjarni er einhvern vegin utan og ofan við þetta allt. Kannski breytist hann í athafnasaman Engeying við að losna við Hönnu Birnu. Nóg er hún búin að anda niður í hálsmálið hjá honum.
Hinn orðhvati Jónas Kristjánsson gerir Ísafjarðarmálið að umtalsefni á bloggi sínu. Minnist á Grindavík, Sandgerði og Húsavík til viðbótar í því efni. Líkir dvöl á labbakútastöðum ,sem hann kallar svo, við fangavist. Reynir með því að kalla fram Síberíu í huga lesanda. Hef séð myndir af fangelsum í Síberíu og þau voru ómerkilegir bjálkakofar. Orðið Síbería var algengt á þeim smástað (Hveragerði) sem ég ólst upp á. Slapp kannski við einelti af því ég var innfæddur (en ekki einfættur).
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði látið koma uppá yfirborðið og því bjargað úr þeirri gjótu afskiptaleysis sem það hefur legið í. Lesið pistil minn frá 10. desember 2013 http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/1336169/ þar er helstu staðreyndir málisins að finna. Síðan þá hef ég haldið áfram að minnast á þetta mál og einhversstaðar er nafn lögfræðings og heimilisfang að finna. Hann heitir reyndar Sigurður Sigurjónsson og aðsetur hans er í Kringlunni miklu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2014 | 12:30
2121 - Með allt á hreinu
S.l miðvikudag hlustaði ég alllengi á ógáfulegar umræður þingmanna um reiðhjól og þess háttar. Sannaði þessi umræða þaksögu Parkinsons ef einhverjir muna eftir henni. Kannski gera það ekki allir. Mig minnir að hún hafi verið um stjórn stórfyrirtækis þar sem samþykkt var á fáeinum sekúndum að byggja kjarnorkuofn fyrir marga milljarða. (Gömul hlýtur þessi saga að vera). Aftur á móti urðu langar og ýtarlegar umræður um endurnýjun á þaki yfir reiðhjólageymslu skrifstofufólks fyrirtækisins. Semsagt því mikilvægara mál því minni umræður. Man líka að þegar ég lærði á bíl var ákvæði um það í kennslugögnunum að ef eitt ökutæki drægi annað mætti ekki vera nema einn og hálfur metri á milli þeirra. Þetta ákvæði vildu ökukennarar ekki ræða, enda er það svo heimskulegt að ætla mætti að þingmenn hafi sett það.
Lekamálið svokallaða er að verða að stórmáli. Jafnvel Davíð Oddsson hefur viðurkennt að samkvæmt lögum væri lekablaðið svokallaða (sem ég hef ekki einu sinni séð þó eflaust sé það í mikilli dreifingu) brot á einhverjum lögum. Vörn Hönnu Birnu er sennilega sú að ekki verði mögulegt að sanna með óyggjandi hætti að það sé upprunnið í ráðuneytinu. Kannski fellst lögreglan á það. Ríkissaksóknari virðist þó ekki vera þeirrar skoðunar. Bíðum og sjáum til.
Hugsanlegur endir á þessu máli er sá að blaðamenn sem ekki hafa enn komið fram verði settir í fangelsi fyrir að neita að segja hvaðan margumrætt plagg sé ættað og beri við vernd heimildarmannna. Slíkir fangelsisdómar eru ekki einsdæmi. Hvort þessháttar heimildarmenn, sem hugsanlega er um að ræða í þessu tilfelli, eigi að njóta verndar er síðan umdeilanlegt. Svo virðist sem einhverjir starfsmenn Innanríkisráðuneytisins hafi leikið illilega af sér og blaðamenn við Morgunblaðið einnig. Hugsanlega blaðamenn við Fréttablaðið sömuleiðis. DV eitt hefur haft dug til að fylgja þessu máli eftir. Hvað sem um það blað má segja að öðru leyti.
Athyglisvert er einnig að þó Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið Hönnu Birnu á vissan hátt til hjálpar þá var hann bara að mæla með því að hún segði ekki af sér á meðan rannsókn færi fram. Vill eflaust hafa möguleika til að gera hvað sem er seinna meir. Sennilega eru þeir fóstbræðurnir Simmi og Bjarni búnir að komast að niðurstöðu um að láta hana fjúka og sömuleiðis Má í Seðlabankanum.
Lengi vel voru ekki aðrir en Atlantsolía sem höfðu auglýsingaaðgang að farsímanum mínum. Svo bættist Orkan við og ég fæ venjulega SMS með svona tíu mínútna millibili ef öðru hvoru því fyrirtæki dettur í hug að veita afslátt af sínum dýrmætu dropum. Þannig er nú samkeppnin í olíudreifingu á Íslandi í dag. Nýlega hef ég svo farið að fá í símann minn óvelkomnari andstyggðartilkynningar um fundi og annað þessháttar frá Framsóknarflokknum. Ég veit svosem að ég er einhversstaðar á skrá hjá þeim eftir að ég studdi Bjarna frænda minn Harðarson til að velta Hjálmari skólastjóra úr sessi en ég asnaðist til að hafa trú á þessu frelsiskerfi hjá Símanum og ef fleiri fara að nota þetta númer til auglýsinga þá hætti ég að nota það og fæ mér nýtt númer.
Brúin yfir Vesturlandsveg heitir ekki Höfðabakkabrú þó lögreglan og líklega fleiri haldi það. Hin raunverulega Höfðabakkabrú er yfir Elliðaárnar skammt frá Árbæjarsafninu. Einu sinni var nefnilega Breiðholtið eins og langur tangi vegtæknilega séð. Það var ekki fyrr en undir lok síðustu aldar sem landfræðileg einangrun Breiðholtsins var rofin með fleiri vegtengingum. Tenging þess við nýbyggingar í Kópavoginum er samt aðhlátursefni enn í dag og stuðlar mjög að villum ókunnugra.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið til dóms eða a.m.k. reynt alvarlega að semja um það fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Fjölmiðlar virðast hafa nóg með sig og leita ekki að svona málum. Þó varpar það á margan hátt skýru ljósi (aftur í aldir) á hvernig samskiptum yfirvalda og almennings hefur verið háttað.
Hanna Birna með hreina samvisku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2014 | 15:42
2120 - Hanna Birna og gíraffinn
Ólafur Skorrdal skrifaði pistil á vefsvæði Jacks Hrafnkels Daníelssonar og kallaði hann 10 litlir öryrkjar eða eitthvað þessháttar. Hef aldrei farið áður á vefsvæði eða blogg Hrafnkels og tölvan hjá mér var ansi lengi að ná í allt sem við átti að éta. Var næstum búinn að gefast upp en langaði til að lesa þessa grein eftir Ólaf Skorrdal. Sennilega eru þeir báðir (eða voru) í píratapartýinu og Birgitta Bergþórudóttir sömuleiðis.
Las þessa grein frá upphafi til enda og fannst hún ansi orðljót á köflum en um sannleiksgildi hennar efast ég lítið. Á einum stað var greinilega ruglað saman pylsum og pilsum. Sá fyrir mér einhvern sem sigri hrósandi lyfti upp pulsu (með sinnepi og tómatsósu eða án) en það var ólíkt dónalegra sem þarna átti að vera. Var reyndar dregið til baka.
Þannig getur ein lítil stafsetningarvilla eyðilagt heila grein. (A.m.k. fyrir mér.) Sennilega hefur Ólafi bara verið svona mikið niðri fyrir að yfirlesturinn hefur klikkað. Mér finnst samt að ekki megi hengja sig of mikið í málfarsraus ef vel skilst hvað við er átt.
Aðallega er Ólafur ósáttur við hve litla athygli (fjölmiðla og annarra) mótmæli öryrkjanna fengu og hve fáir mættu. Þetta er stöðugt vandamál allra aðgerðarsinna og færir mikil völd til þeirra sem hugsanlega eru að mestu sammála þeim en kannski ekki baráttuaðferðunum.
Óneitanlega er það svo að með nútímamiðlun (fjöl- eða ekki.) upplifir fólk sig ekki nærri eins ofurselt yfirvöldum þessa lands og áður var. Kannski verður hlutverk alþingismann erfiðara fyrir vikið, en samt er með öllu óþarft að vorkenna þeim eða stjórnvöldum að þurfa að hafa svolítið fyrir lífinu.
Æ, já. Pólitíkin er leiðindatík og best að forðast hana. Málfarsrövl getur líka verið hundleiðinlegt. Ef mótmæli takast vel einu sinni má alls ekki reyna að endurtaka þau á sama hátt. Enginn nennir að taka þátt í slíku. Öskutunnusláttur á Austurvelli er kominn úr tísku. Sennilega er samt enn lengra síðan Cato-tískan sem ég fylgi varðandi Ásgautsstaðamálið komst úr tísku en ég finn bara ekkert nýtískulegra.
Greinilegt er að gíraffinn í Köben og Hanna Birna og lekinn eru mál málanna í dag. Þá á ég alltaf svolítið bágt með að láta ekki ljós mitt skína. Kannski eins konar smitun frá Agli Helga. Það er enginn vafi að afbrot hefur verið framið í lekamálinu. Hanna Birna ber ábyrgð á því. Mér finnst samt alls ekki augljóst að hún eigi að víkja úr ráðherraembættinu meðan lögreglan rannsakar málið. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra reyna greinilega að hafa áhrif á almenningsálitið með því að gefa í skyn að kæra í einkamáli sé nákvæmlega það sama og opinber ákæra. Svo er ekki og þeir vita það áreiðanlega mæta vel sjálfir. Þess vegna er það sem þeir halda fram vísvitandi blekking.
Þá er það gíraffamálið. Þar finnst mér fjölmiðlar hafa hlaupið illilega á sig. Þetta er í rauninni allsengin frétt, en þeir halda greinilega að þetta sé það sem fólk vill sjá, frekar en það sem myndatökumönnunum mundi sjálfum vera ofraun að horfa á. Þeim er ekki hleypt þangað og þar að auki eru markaðshagsmunir í hættu. Já, ég á við t.d. kjúklinga og svínaslátrun.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið úr höndunum á Sigurði lögfræðingi og reynt að fá einhvern í málið sem er ákveðnari en hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)